Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.10.2022, Side 20

Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.10.2022, Side 20
20 MINNING MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.10.2022 NÝTT ÚTLIT – SÖMU HREINU GÆÐIN AFP/Robyn Beck Angela Lansbury var sögð hlý en hlédræg. Las morðingja eins og opna bók Breska leikkonan Angela Lansbury lést í vikunni en hún hefði orðið 97 ára í dag, sunnudag. Hér um slóðir er hún þekktust fyrir að leysa morðgátur í sjónvarpi en ferillinn sem spannaði átta áratugi var merkilegur og fjölhæfni Lansbury annáluð. Í einkalífinu þurfti hún m.a. að kljást við Charles nokkurn Manson. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Glæpasagnahöfundurinn Jessica Fletcher er með elskulegri karakterum í sjónvarpssögunni; hlý og úrræðagóð ömmutýpa sem öllum þykir gott að hafa í kringum sig. Það er bara eitt vandamál – hún er ekki fyrr mætt á svæðið en einhver er myrtur. Óhætt er að tala um faraldur í því sam- bandi. Ótrúlegt að enginn hafi bann- að henni að ferðast. Og alltaf verður Jessican okkar jafnundrandi. „Hvað ertu að segja, morð?“ Eftirleikurinn er hins vegar alltaf á einn veg; Jessica leggur höfuðið í bleyti og leysir morðgátuna endurgjaldslaust af fumleysi og festu áður en lögregla hefur svo mikið sem myndað sér skoðun á verknaðinum. Morðgáta eða Murder She Wrote naut feikilegra vinsælda hér heima sem annars staðar og gekk í tólf ár í sjónvarpi, frá 1984 til 1996. Þættirnir urðu alls 265 og fjórar kvikmyndir að auki. Aðalleikkonan, Angela Lans- bury, gekk í endurnýjun lífdaga og núna þegar hún er fallin frá, 96 ára að aldri, minnast hennar flestir fyrir þetta hlutverk. Hún gerði þó sitthvað fleira á ferli sem spannaði heila átta áratugi. „Það er ljúft að njóta hylli víða um lönd,“ sagði hún einu sinni um vinsældir Morðgátu. „En samt var þetta svolítið eins og Litla gula hænan fyrir leikkonu sem gegnum tíðina hefur verið treyst fyrir svo mörgum stórbrotnum hlutverkum.“ Flutti ung til Bandaríkjanna Angela Lansbury fæddist í Lundúnum 16. október 1925 og hefði því orðið 97 ára í dag. Krabba- mein hrifsaði föður hennar frá fjölskyldunni þegar hún var aðeins tíu ára og í stríðinu flutti móðir Lansbury, norðurírska leikkonan Moyna Macgill, ásamt börnum sínum þremur til Bandaríkjanna. Fyrst til New York en síðan til Los Angeles, þar sem Macgill langaði að halda áfram að freista gæfunnar í leiklistinni. Það varð hins vegar dóttir hennar sem varð kvikmyndastjarna. Lans- bury skrifaði undir sjö ára samning við MGM-kvikmyndaverið árið 1944 og þreytti frumraun sína á hvíta tjaldinu sama ár í Gaslight, þar sem engin önnur en Ingrid Bergman var í aðalhlutverki. Lansbury rúllaði upp hlutverki breskrar þernu og var tilnefnd til Óskarsverðlauna í fyrstu atlögu sem besta leikkona í aukahlutverki. Önnur tilnefning kom strax ári síðar fyrir frammistöðuna í auka- hlutverki í The Picture of Dorian Gray. Þriðju og síðustu Óskarstil- nefninguna hlaut hún 1962 fyrir The Manchurian Candidate. Hún hreppti aldrei hnossið en árið 2013 hlaut Lansbury sérstakan Óskar fyrir framlag sitt til kvikmyndasögunnar. Af því tilefni sagði leikarinn Geoffrey Rush að hún væri „fjölhæfnin holdi klædd“ og vísaði í ólík verkefni á borð við „film noir“-myndina Please Murder Me frá 1956 og söngleikinn The Court Jester frá 1955. Lék mömmu Elvis 1961 lék Lansbury móður Elvis Presley í Blue Hawaii en tíu ára aldursmunur var á þeim. „Mér þótti vitaskuld mikið til þess koma að vera í hans návist,“ rifjaði hún upp síðar. „Hann var sérstaklega geðug- ur ungur maður á þessum árum.“ Margir muna líka eftir Lansbury úr Disney-myndum. Frammistaða hennar í söngævintýrinu Bedknobs and Broomsticks 1971 var rómuð og skilgreindi feril hennar ekkert síður en Morðgáta. Tveimur áratugum seinna heyrðist auðþekkjanleg rödd hennar í teiknimyndinni vinsælu Fríða og dýrið og á tíræðisaldri hafði Lansbury enn þá burði til að stela senunni, eins og þegar hún skaut upp kollinum til að syngja lokalagið í Mary Poppins Returns 2018. Einnig má nefna barnamyndir eins og Anastasia 1997 og Nanny McPhee 2005, þar sem hún tók af sinni alkunnu hlýju utan um nýjar kynslóðir. Ferlinum er raunar ekki form- lega lokið en Lansbury á eftir að birtast okkur einu sinni enn í næsta mánuði, í kvikmyndinni Glass Onion sem er framhald hinnar vinsælu Knives Out. Vel fer á því enda morð- gáta þar uppi á borðum. Og hver ætlar að veðja gegn því að Lansbury komi til með að eiga lokaorðið, að hætti Jessicu Fletcher? Supu sínar saltöldur Ævisöguritari Lansbury, Martin Gottfried, lýsir hennir sem hlé- drægri en næmri konu og erfitt sé að hugsa sér hlýrri og betri vin. Þá hafi henni verið annt um að halda einkalífi sínu frá fjölmiðlum og haft ímugust á hverskyns skjalli. Lansbury gekk að eiga leikarann Richard Cromwell árið 1945 en hjónabandið leystist upp ári síðar þegar hann kom út úr skápnum. En vináttan hélt uns Cromwell féll frá árið 1960. Hún giftist öðrum leikara, Peter Shaw, 1949 og entist hjóna- band þeirra í 54 ár, eða þar til hann lést árið 2003. Heimili þeirra var í Malibu, þar sem börnin tvö, Anthony og Deirdre, uxu úr grasi. Þau fæddust 1952 og 1953. Fyrir átti Shaw soninn David. Lansbury vildi taka börnin fram yfir ferilinn en viðurkenndi seinna að það hefði ekki alltaf gengið upp. Á köflum var hún langdvölum að heiman vegna vinnu. Bæði Anthony og Deirdre supu sínar saltöldur á unglingsárum enda róttæknin í algleymingi í Kaliforníu og víðar. Hún nuddaði sér um tíma utan í Manson-fjölskylduna og hann ánetjaðist heróíni. Þeirri rimmu lauk með því að hann féll í dá eftir ofskammt en braggaðist fljótt og sneri blaðinu við fyrir tvítugt. Ant- hony varð síðar kvikmyndaleikstjóri og leikstýrði til að mynda 68 þáttum af Morðgátu. Lansbury viðurkenndi seinna í viðtali að Deirdre hefði verið heilluð af Charles Manson enda hefði maðurinn búið yfir miklum persónu- töfrum. Um það yrði ekki deilt. Þau hjónin skynjuðu hættuna og fluttu um tíma með börn sín til Írlands til að halda Deirdre frá Manson. Það virkaði og hún hefur lifað góðu lífi fjarri illsku og heift þessa heims. Hún er gift ítölskum matreiðslumanni og saman reka þau veitingastað í Los Angeles. Barnabörn Lansbury eru þrjú og barnabarnabörnin fimm. Lansbury hóf ferilinn snemma. Þessi mynd er frá 1955. ,Ferlinum er raunar ekki formlega lokið en Lansbury á eftir að birt- ast okkur einu sinni enn í næsta mánuði, í kvik- myndinni Glass Onion sem er framhald hinnar vinsælu Knives Out.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.