Víkurfréttir


Víkurfréttir - 07.12.2022, Blaðsíða 18

Víkurfréttir - 07.12.2022, Blaðsíða 18
JÓLAHALD Í 150 ÁR – OG SÖGULOK Fyrstu áratugi barnaskólans voru miðsvetrarpróf haldin dagana fyrir jól, gjarna á Þorláksmessu og upp- lestrarfríi einn, tvo daga áður. Fer engum sögum af jólahaldi í skólanum frá þeim tíma. Í desember 1921 var Viktoría Guðmundsdóttir orðin skólastjóri. Þá var eftir sem áður upplestrarfrí 19. og 20. desember og próf 21. og 22. desember. Að loknum prófum sungu börnin jólasálma, kennarinn las jólaguðspjallið og talaði nokkur orð til barnanna áður en þau gengu heim til sín. Síðan var jólaleyfi til 3. janúar 1922. Árið 1922 skrifar Viktoría í dagbók skólans: 13. desember vantaði sex börn og „þau sem komu voru öll mjög lasin af kvefi og heyrðist varla mannsmál í skólastofunni sökum hósta“ og gaf kennari þá þriggja daga leyfi – upplestrarleyfi. Var vel mætt 19. og 20. desember og næstu tvo daga voru próf. Á Þorláksmessu komu börnin í skólann kl. 10. „Las þá kennarinn prófeinkunnir þeirra og afhenti þeim jólakveðju dönsku sunnudagsskólabarnanna. Síðan voru sungnir sálmar, kennari sagði börnunum jólasögu og las jólaguð- spjallið. Var svo gefið jólaleyfi til 3. janúar.“ 3. janúar „komu öll skólabörnin. Var þá sungið, minnst nýbyrjaða ársins, myndir sýndar og lesin saga. Loks var börnunum sett fyrir til næsta dags.“ 6. janúar síðdegis kom hjálpræðisherinn í Hafnarfirði og hélt jólatré (jólaball), líkt og fyrri ár. Koma hjálpræðishersins lagðist af fljótlega eftir þetta en áfram bárust kveðjur frá dönskum sunnudaga- skólabörnum næstu ár. Þann 16. desember 1924 voru flest börnin lögst í mislinga. Ákvað formaður skólanefndar og kenn- arinn að gefa jólafrí þá þegar. „Var svo komandi jóla minnst í skólanum, þennan síðasta kennsludag, á líkan hátt og undanfarna vetur með sálmasöng, lestri og stuttri bæn og börnunum síðan gefið jólaleyfi til 3. janúar 1925.“ Þau 31 ár sem Viktoría sá um kennsluna voru dagarnir kringum jólin á þennan veg en þó eftir að- stæðum. Til dæmis 1926 var ráð- gert að prófa að venju 21. og 22. desember „en báða þá daga var veður ill og komu fá börn svo að kennara þótti ekki taka að prófa þau, en á Þorláksmessu ekki unnt að prófa, sökum þess að þann dag skyldi jólatré skreytt þar. Síðasti starfsdagur var því 21. desember, er nokkur börn voru prófuð í kristnum fræðum.“ 1927 var yngri deildin prófuð 21. desember og þann 22. var „munn- legt próf í eldri deild til klukkan 2. Barnastúkufundur eftir það. Í lok fundarins var jólanna minnst á venjulegan hátt. Börnin sungu jóla- sálma, kennari las upp jólasögu, og talaði nokkur orð til barnanna um hátíðina og þýðingu hennar og las að síðustu jólaguðspjallið. Síðan var gefið jólaleyfi til 3. janúar 1928.“ Í 27. þætti segir frá því hve sorglega næsta skólaár byrjaði. Í Brunnastaðaskóla og fyrsta áratug Stóru-Vogaskóla voru litlu jólin helsti viðburður félagslífsins, eins konar árshátíð að mati Hreins Ásgrímssonar. Æfð voru leikrit og atriði sem tengdust ekki endilega jólahaldi. Árið 1982 var til dæmis foreldra- sýning og jóladiskó föstudaginn 17. desember og kennarar gengu frá mánudaginn 20. desember og hófst jólaleyfi þeirra eftir það. Nemendur mættu svo eftir jólaleyfi 5. janúar. Frá því um 1990 hefur sérstök árs- hátíð nemenda, þar sem foreldrum er boðið, verið haldin skömmu fyrir páskaleyfi en sérstakar foreldra- sýningar á litlu jólum lagðar af. En litlu jólin eru haldin engu að síður, aðallega fyrir nemendur. Bergsveinn skólastjóri stóð fyrir þessum breyt- ingum, einnig því að 6. bekkur fór árlega að æfa og sýna helgileik sem byggður er á jólaguðspjallinu. Hér er mynd af slíkum helgileik í skólanum, líklega 1995. Löng hefð er fyrir jólaföndurdegi á aðventu. Nemendur skreyta skólann; klippa, stimpla, teikna og skrifa á jólakort til nemenda, kennara og síns heimilisfólks. Sérstakir póstkassar eru settir upp við hverja bekkjar- stofu. Höfundi þessara þátta hlýnar um hjartarætur er hann minnist handgerðra jólakorta með hlýjum kveðjum frá nemendum. Í desember 2013 var til dæmis skipulagt jólaföndur á átta stöðvum í skólanum með þessum vinnu- stöðvum: Krukkur og kökubox; smíðastöð; saumastöð; dagatal 2014; matarstöð í salnum – piparkökur og kókoskökur; saumur/sköpun: könglar, vatt, pípu- hreinsarar; trölladeig í heimilisfræði; krukkur málaðar. Jólakortaefni var á öllum stöðvum og músastigar, í námsveri jólakort og bíó. Síðasta kennsludag ársins halda umsjónarkennar stofujól, hver með sínum bekk, þar sem lesin er jólasaga og nemendur skiptast á lukkupökkum. Síðan eru litlu jólin þar sem allir koma saman, dansa kringum jólatréð og syngja og jóla- sveinn kemur í heimsókn. Síðan hefst jólafrí nemenda upp úr hádegi. Þetta fyrirkomulag hefur verið frá því fyrir 1980. Frá því fyrir 2000 hafa kennarar og annað starfsfólk – annað en eld- hússtarfsfólkið – eldað hangikét með tilheyrandi og átt saman hátíðlega stund eftir hádegi þegar nemendur eru farnir heim, uns þeir sjálfir halda heim í jólafrí. Á myndinni eru Jón Ingi, Guðmundur og Helgi Hólm við- eigandi klæddir við þau störf. Löng hefð er fyrir þrettánda- skemmtun með grímudansleik en venjulega ekki á vegum skólans heldur félaga eins og Þróttar, kven- félagsins Fjólu, Lionsklúbbsins Keilis og Björgunarsveitarinnar Skyggnis. Heimildir: Dagbók Suðurkotsbarnaskóla 1917 – 1932. Fundagerðabók kennarafunda 1981–1989. Ræður Hreins Ásgrímssonar. Samtöl við kennara og fyrrum nemendur og reynsla höfundar sem hefur verið viðriðinn skólann frá því árið 2000. Þar með lýkur þessum þáttum úr sögu skóla í Vatnsleysustrandarhreppi og Sveitarfélaginu Vogum sem birst hafa vikulega í Víkurfréttum og á netinu. Hafið þökk þið sem lásu. Þættirnir verða áfram aðgengilegir – auknir og endurbættir – á storuvoga- skoli.is, vogar.is og vf.is. Afmælisþættir skólans í Vogum, birtast vikulega í Víkurfréttum og vf.is á afmælisárinu. Þorvaldur Örn Árnason, áður kennari við skólann, tekur saman með góðra manna hjálp. 46. ÞÁTTUR Kristófer Snær Jóhannsson Ward Jólin byrja fyrsta desember Besta minning sem Kristófer á frá jólunum er þegar hann fékk fyrstu reimalausu takkaskóna sína. „Þá var ég glaðasti krakki í heiminum,“ segir hann. Kristófer segir það vera ákveðna jólahefð að mamma hans stressi alla á heimilinu upp og að hefð sé fyrir að fjöl- skyldan borði hamborgarhrygg á aðfangadag. Hvað stendur upp úr hjá þér árið 2022? Ég skrifaði undir minn fyrsta meistaraflokkssamning og hjá umboðsmanni í fótbolta, svo er þetta búið að vera smá „go with the flow“ ár. Ert þú mikið jólabarn? Um leið og það er kominn fyrsti desember þá eru jólin byrjuð fyrir mér. Þannig, já, ég myndi telja mig vera það. Hvað er það skemmtilegasta við jólin að þínu mati? Að brósi kemur heim, svo auðvitað jólamaturinn og pakkarnir, bara eiginlega allt. Átt þú einhverjar skemmtilegar jólaminningar? Já, þegar ég fékk mína fyrstu reimalausu takkaskó – þá var ég glaðasti krakki í heiminum. En skemmtilegar jólahefðir? Mamma að stressa alla upp, annars bara mjög svipað og allir. Hver er eftirminnilegasta jóla- gjöfin sem þú hefur fengið? Fyrstu reimalausu takkaskórnir og fyrsta hlaupahjólið mitt. Hvað er á óskalistanum þínum fyrir jólin í ár? Bræðra-tattoo og sjónvarp, annars veit ég ekki. Hvað er í matinn hjá þinni fjöl- skyldu á aðfangadag? Hamborgar- hryggur. Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár? Ég ætla að kaupa jólagjafir, vera mikið með fjölskyldunni og fara í fótbolta og ræktina. Signý Magnúsdóttir Alltaf verið svakalegt jólabarn „Ég hef alltaf verið svakalegt jóla- barn og heimtaði alltaf að við myndum skreyta sem allra fyrst,“ segir Signý Magnúsdóttir. Eftirminnilegasta jólagjöfin sem hún hefur fengið er „risa“ Monster High kastali sem hún fékk þegar hún var átta ára en Apple TV er efst á óskalistanum hennar í ár. Hvað stendur upp úr hjá þér árið 2022? Ég byrjaði í unglingaráðinu þar sem ég kynntist helling af nýjum vinum og ég fékk svo að breyta alveg um vinahóp sem ég er svo þakklát fyrir og mér líður mikið betur. Ert þú mikið jólabarn? Já, ég hef alltaf verið svakalegt jólabarn og heimtaði alltaf að við myndum skreyta sem allra fyrst og byrjaði að horfa á jólamyndir í nóvember. Hvað er það skemmtilegasta við jólin að þínu mati? Ég elska stemmninguna við jólin og tilfinn- inguna sem fylgir þeim, að verja tíma með fjöl- skyldunni og baka eða horfa á jólamyndir og allt slíkt finnst mér æði. Átt þú einhverjar skemmtilegar jólaminningar? Já, foreldrar mínir skildu þegar að ég var fjögurra ára og þegar ég var tíu ára var ég í fyrsta skipti hjá pabba mínum yfir jólin eftir skilnaðinn. Þá var kötturinn minn nýbúinn að eignast kettlinga og við vorum þarna öll fjölskyldan með fimm kett- linga um jólin og ég myndi líklegast segja að það séu eftirminnilegustu jólin mín. En skemmtilegar jólahefðir? Ég og fjölskyldan mín förum vanalega að rölta niður Laugaveginn á Þorláksmessu og förum á skauta og svoleiðis, það hefur alltaf verið uppáhaldshefðin mín. Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið? Risa Monster High kastali sem ég fékk þegar að ég var átta ára. Hvað er á óskalistanum þínum fyrir jólin í ár? Mig langar svo mikið í Apple TV, ég er bara með Netflix í sjónvarpinu mínu og er eiginlega búin með allt þar. Hvað er í matinn hjá þinni fjölskyldu á að- fangadag? Alltaf hamborgarhryggur en ég borða ekki rautt kjöt svo ég borða alltaf bara meðlætið. Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár? Bróðir minn er búinn að búa í Grikklandi síðasta árið og er nýkominn heim svo ég ætla að vera hjá pabba mínum til að geta varið góðum tíma með bróður mínum.Thelma Hrund Hermannsdóttir thelma@vf.is 18 // vÍkurFrÉttir á suðurNesJuM

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.