Gerðir kirkjuþings - 2021, Blaðsíða 7
7
Á þessu kirkjuþingi eru nú 38 mál. Ánægjulegt er að geta þess að langflest málanna voru
lögð fram með þeim fjögurra vikna fresti sem áskilinn er í þingsköpum. Málin hafa verið
í opinni samráðsgátt til kynningar og kostur gefinn á framlagningu umsagna. Hafa borist
nokkrar umsagnir um tiltekin mál. Þá hefur sá háttur nú verið hafður á að öll þingmál
eru birt á opnum vef kirkjunnar í stað þess að vera í aðgangsstýrðu gagnaherbergi. Það er
mat forseta að það hafi leitt til þess að fleiri sýna nú áhuga á þingmálum þegar þau eru svo
aðgengileg öllum.
Nú skal farið yfir helstu viðfangsefni þessa fráfarandi kirkjuþings þ.e. fyrir tímabilið
2018-2021.
Sameiningar prestakalla
Á þessu kjörtímabili hófst umfangsmikil skipulagsbreyting á prestakallaskipan landsins
með sameiningum og stækkun prestakalla í dreifbýli jafnt sem þéttbýli. Segja má að sú
vinna hafi byrjað árið 2018 með stefnumörkun biskupafundar sem birt var það ár í nýrri
samráðsgátt á opnum vef kirkjunnar. Í þessu sambandi má minna á þá stefnumörkun
um framtíðarskipan sókna, prestakalla og prófastsdæma sem kirkjuþing samþykkti árið
2000 og sem enn er í gildi. Þá samþykkti kirkjuþingið sama ár að gerð skyldi tilraun með
starfrækslu Grafarvogssóknar og Grafarvogsprestakalls í óbreyttri mynd frá 1. janúar
2001, að telja. Söfnuðurinn og prestakallið hafa starfað undir óbreyttu skipulagi síðan og
er þetta fjölmennasta þjónustueining kirkjunnar í dag. Verkefnið hefur gefist vel. Telja
verður að reynslan af því að hafa prestaköllin stærri, þ.e. með tveimur eða fleiri prestum sé
góð og æskilegt er að áfram verði haldið á sömu braut, bæði í þéttbýli og dreifbýli.
Stefnumótun.
Eins og áður sagði var á kirkjuþingi 2019 samþykkt að ráðast í stefnumótunarvinnu
fyrir þjóðkirkjuna. Haldinn var stefnumótunarfundur þjóðkirkjunnar 6. febrúar 2021,
með þátttöku u.þ.b. 100 manns. Megin áhersluþættir sem fram komu á þeim fundi voru
eftirfarandi: 1) Efla og bæta æskulýðsstarf. 2)Endurskoða stjórnskipun kirkjunnar. 3)
Efla til muna kynningarstarf. 4)Tryggja fjárhagslegt öryggi og gæta að ráðdeild. Þessu til
viðbótar voru tilgreindir aðrir þættir s.s. að efla mannauð kirkjunnar, að efla stuðning við
einstaka þætti í starfsemi safnaða og efla aðsókn að kirkjunni. Kirkjuþing hefur fylgt þessu
eftir m.a. með samþykkt skipulagsbreytinga sem greint verður frá hér.
Endurskoðun þjóðkirkjulaga og kirkjujarðasamkomulags.
Lyktir fengust á árunum 2019-2021 hvað varðar þá endurskoðun laga um þjóðkirkjuna
sem hófst upphaflega á kirkjuþingi árið 2007 eins og áður segir. Í því sambandi skal
einnig minnt á að kirkjuþing 2015 kaus þriggja manna viðræðuhóp við ríkisvaldið um
fjárhagsleg samskipti ríkisins og kirkju. Viðræðurnar skiluðu þeirri niðurstöðu að gerður
var svonefndur viðbótarsamningur ríkis og kirkju við kirkjujarðasamkomulagið frá
1997, til fimmtán ára, sem öðlaðist gildi 6. september 2019. Samhliða var innleidd ný og
einfölduð löggjöf um þjóðkirkjuna, samin af fulltrúum kirkjunnar í samvinnu við fulltrúa
ríkisins og samþykkt á kirkjuþingi 2020. Löggjöf þessi öðlaðist endanlega gildi 1. júlí sl.