Gerðir kirkjuþings - 2021, Qupperneq 127
127
trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana,
og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann, sem
er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, og getur
ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað“ (Flóttamannasáttmáli Sameinuðu
þjóðanna 2. töluliður A, 1. gr.).
Málefni innflytjenda og flóttafólks skarast að nokkru leyti því að í báðum hópum eru
útlendingar sem flust hafa til Íslands. Í öðrum hópnum eru innflytjendur sem hafa frelsi
og tækifæri til að byggja líf sitt upp og skapa sér framtíð hér á landi og kvótaflóttafólk
sem boðið hefur verið til landsins og nýtur stuðnings ríkis- og sveitafélaga í eitt ár. Annað
flóttafólk, eins og umsækjendur um alþjóðlega vernd eða hælisleitendur, eru aftur á móti
í mjög erfiðum aðstæðum því að fótunum hefur verið kippt undan lífsafkomu þeirra og
öryggi og eru þeir hér í óvissu um hvort þeir fái dvalarleyfi eða verði vísað úr landi. Það er
því grundvallarmunur á stöðu innflytjenda og flóttafólks, sérstaklega hælisleitenda, og því
er mikilvægt að þjóðkirkjan taki sérstakt tillit til umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Þessir hópar eiga þó ýmislegt sameiginlegt. Í þeim báðum er fólk af erlendum uppruna
sem þarf að takast á við að læra nýtt tungumál, skilja nýja menningu, glíma við fordóma
og lög og reglur er varða stöðu þeirra og réttindi. Undanfarin ár hefur þjóðkirkjan látið
þennan málaflokk meira til sín taka og brýnt er að hún að styrkist sem sjálfstæður aðili á
þessu sviði og standi vörð um mannúð og mannréttindi í málefnum þeirra.
I. KAFLI
Þjóðkirkjan og málefni innflytjenda
1. Tilgangur
Bæta þarf þjónustu þjóðkirkjunnar við fólk með erlendan bakgrunn og skapa með því
lifandi samfélag sem endurspeglar fjölbreytileika íslensks þjóðfélags.
2. Hlutverk þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda
• Þjóðkirkjan er opin öllum íbúum Íslands og þeim sem dvelja hér á landi.
• Þjóðkirkjan nálgast innflytjendur með því að bjóða upp á fjölbreytt helgihald á
ýmsum tungumálum og birtir upplýsingar um starf safnaðanna á erlendum tungum.
• Þjóðkirkjan er alþjóðleg og tekur vel á móti kristnum bræðrum og systrum
hvaðanæva að úr heiminum og býður upp á þjónustu sem miðast við þarfir þeirra.
• Þjóðkirkjan leggur sitt af mörkum til að hjálpa innflytjendum að aðlagast íslensku
samfélagi og Íslendingum að aðlagast innflytjendum.
• Þjóðkirkjan styður starf Alþjóðlega safnaðarins í Breiðholtskirkju sem átaksverkefni
til að ná til innflytjenda og flóttafólks (sjá VI. Kafla).
3. Leiðarljós
Til að gera það að veruleika að þjóðkirkjan verði lifandi samfélag þar sem Íslendingar
og fólk með erlendan bakgrunn á samfélag saman er gott að hafa að leiðarljósi ákveðin
atriði. Þeirra á meðal eru: