Gerðir kirkjuþings - 2021, Síða 33
33
Skálholt.
» Skálholtsstaður.
Biskup Íslands og kirkjuráð hafa forræði um framkvæmdir í Skálholti og starfrækslu
Skálholtsstaðar. Skálholtsstaður og Skálholtsskóli og hafa verið rekin sem ein rekstrareining
síðastliðin ár. Lög nr. 32/1963 um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda
þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað og lög nr. 22/1993 um Skálholtsskóla féllu úr gildi með
gildistöku nýrra laga um þjóðkirkjuna síðasta sumar. Í lögum um Skálholtsskóla nr. 22/1993
var m.a. kveðið á um hlutverk og stjórnun Skálholtsskóla. Stjórn Skálholts er skipuð
af kirkjuráði. Á 323. fundi kirkjuráðs 4. mars 2021 var samþykkt nýtt erindisbréf fyrir
stjórn Skálholts sem felur í sér aukna ábyrgð stjórnarinnar. Af þeim sökum hafa afskipti
kirkjuráðs af Skáholti verið minni en áður. Í stjórn Skálholts sitja sem aðalmenn: Drífa
Hjartardóttir, bóndi og forseti kirkjuþings, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í
Hruna prestakalli, Suðurprófastsdæmi og Sólborg Lilja Steinþórsdóttir, hótelstjóri. Til vara:
Þórarinn Þorfinnsson, bóndi á Spóastöðum í Biskupstungum, Olga Eleonora Marcher
Egonsdóttir, fjármálastjóri og Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi.
Kirkjuráð fundaði í Skálholti á 325. fundi sínum, 6. maí sl. með starfsfólki Skálholts og
formanni stjórnar Skálholts. Rætt var um málefni staðarins auk þess sem framkvæmdastjóri
Skálholts kynnti framtíðarsýn sína á staðnum.
» Fasteignir í Skálholti.
Um helstu viðhaldsverkefni í Skálholti ber að nefna að síðastliðið vor var farið í útboð
vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Skálholtskirkju. Umfangsmiklar framkvæmdir á
Skálholtskirkju hófust í ágúst og gert er ráð fyrir að þeim ljúki fyrir Skálholtshátíð 2023.
Samningurinn vegna framkvæmdanna er aðgengilegur í gagnaherbergi kirkjuþings.
Fyrr í sumar voru pantaðar steinskífur á þak kirkjunnar frá Noregi og eru þær komnar í
Skálholt.
Viðgerðum á útitröppum við kirkjuna er lokið. Búið er að lagfæra snyrtingar í sumar-
búðum auk þess sem gert var við tvö herbergi þar vegna leka og myglu. Í móttökuhúsi hefur
verið unnið við að lagfæra frárennslislagnir í kjallara en þar hafa allir útveggir í kjallara
verið einangraðir. Smávægilegar viðgerðir hafa verið framkvæmdar á Skálholtsskóla en
ekki hefur tekist að fá verktaka í lagfæringar á þaki skólans. Gestastofa, færanlegt hús, sem
stóð fyrir neðan Skálholtsskóla við bílaplan hefur verið selt og flutt burt.
» Rekstur Skálholtsskóla.
Kirkjuráð samþykkti á síðasta starfsári að rekstur Skálholtsskóla yrði boðinn út. Gengið
var frá samningi við Sigurbjörgu Ólafsdóttur 7. júlí 2020. Í lok sumars urðu aðilaskipti að
samningnum en Bjarki Þor Ingigerðar Sólmundsson og Gunnhildur Helga Gunnarsdóttir
tóku við af Sigurbjörgu.
Staða skólaráðs Skálholtsskóla hefur tekið breytingum eftir að veitinga- og gistiþjónustan
var boðin út en hún er nú rekin af einkaaðilum. Vegna breytinga í Skálholti og Covid-19
heimsfaraldurs hefur skólaráðið ekki haldið fundi á tímabilinu.