Gerðir kirkjuþings - 2021, Page 73
73
8. gr.
Á fyrsta fundi eftir kirkjuþingskjör skal kjósa kjörbréfanefnd til næstu fjögurra ára.
Nefndin kýs sér formann og gerir hann þinginu grein fyrir áliti og tillögum hennar um
rannsókn og afgreiðslu kjörbréfa. Fresta skal þingfundi meðan á athugun kjörbréfa stendur
en að henni lokinni koma þau til afgreiðslu þingsins.
9. gr.
Að lokinni afgreiðslu kjörbréfa kýs kirkjuþing skriflega og í óbundinni kosningu forseta
og fyrsta og annan varaforseta úr röðum leikmanna. Saman mynda þeir forsætisnefnd
kirkjuþings.
IV. KAFLI
Kosningar á kirkjuþingi og nefndir kirkjuþings.
10. gr.
Fastanefndir kirkjuþings eru:
1. Kjörbréfanefnd, skipuð fimm kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin rannsakar kjörbréf,
kosningu þingfulltrúa og kjörgengi.
2. Löggjafarnefnd, skipuð átta kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin fjallar um þau mál sem
fram eru borin á þinginu og varða löggjöf og starfsreglur.
3. Fjárhagsnefnd, skipuð átta kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin fær til umsagnar
fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar og yfirlit reikninga kirkjulegra embætta, stofnana
og sjóða kirkjunnar sem sæta endurskoðun. Þá koma til kasta nefndarinnar önnur
mál fjárhagslegs eðlis sem fram eru borin á þinginu.
4. Allsherjarnefnd, skipuð níu kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin fær þær skýrslur sem
skylt er að leggja fram á kirkjuþingi til umfjöllunar og öll önnur þingmál sem falla
utan verksviðs hinna nefndanna.
Forsætisnefnd ber ábyrgð á skipan fastanefnda.
11. gr.
Fastanefndir kirkjuþings eru kjörnar í upphafi hvers reglulegs kirkjuþings, sbr. þó 8. gr.,
og gildir kosningin uns kosið hefur verið til nefndanna að nýju. Formenn og varaformenn
nefndanna skulu kosnir sérstaklega á þingfundi.
Forseti kirkjuþings getur kallað saman fastanefndir kirkjuþings milli þinga ef nauðsyn
ber til. Þetta gildir þó ekki um framkvæmdanefnd kirkjuþings. Þá hefur hann formenn
nefndanna sér til samráðs eftir því sem honum þykir þurfa.
12. gr.
Kirkjuþing kýs, til eins árs í senn, framkvæmdanefnd Þjóðkirkjunnar sem er skipuð
þremur kirkjuþingsfulltrúum, þar af einum vígðum. Varamenn eru kosnir með sama hætti.
Nefndin lítur eftir starfi rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar í samræmi við gildandi starfsreglur
og stefnumörkun hverju sinni. Kirkjuþing setur nefndinni erindisbréf. Nefndin er kosin í
óbundinni kosningu.