Gerðir kirkjuþings - 2021, Page 75
75
Forsætisnefnd getur veitt undanþágu frá greindum tímamörkum ef sérstök rök mæla
með því.
Forsætisnefnd metur hvort mál er þingtækt. Skal sérstaklega litið til þess hvort mál eigi
undir valdsvið kirkjuþings og eins hvort mál hafi fengið umfjöllun eða úrlausn biskups,
kirkjuráðs eða annarra aðila sem mál kann að varða. Þá metur forsætisnefnd hvort mál hafi
fengið nægilega kynningu og samráð innan kirkjunnar eða fyrir öðrum sem málið kann
að varða, þannig að um það megi fjalla. Forsætisnefnd gætir þess að kostnaðaráætlun máls
sé raunhæf. Forsætisnefnd gefur kost á því að úr annmörkum sé bætt, ef við á, en vísar ella
máli frá, ef það uppfyllir ekki framangreind skilyrði.
14. gr.
Kirkjuþingsfulltrúar geta boðað til sérstaks þingmálafundar í kjördæmum sínum til
kynningar á þingmálum sem þeir hyggjast flytja, áður en málið er sent forseta. Aðrir sem
hafa tillögurétt og málfrelsi á kirkjuþingi, skulu eiga þess kost að mæta á þá fundi og
kynna mál ef þeir óska þess. Þjóðkirkjan greiðir hóflegan kostnað við fundaraðstöðu.
Sérhvert þingmál skal vera til kynningar í opinni samráðsgátt á vef kirkjunnar í að
minnsta kosti tvær vikur eftir að það hefur borist forseta. Forseti getur lengt þann frest
teljist mál varða mikla hagsmuni, mál er flókið eða umfangsmikið. Í samráðsgáttinni
skal gefinn kostur á framlagningu umsagna sem sé að jafnaði birt. Við lok kynningar er
flutningsmönnum heimilt að gera breytingar á þingmáli innan viku og senda forseta þá
nýtt eintak. Heimilt er forsætisnefnd að samþykkja að birt séu í samráðsgátt áform um
þingmál til kynningar samkvæmt framanskráðu.
Þegar þingmál eru komin í endanlegt horf skulu þau svo skjótt sem auðið er birt á
opnum vef kirkjunnar.
15. gr.
Tillögur um nýjar starfsreglur eða breytingar á eldri starfsreglum skulu samdar með
lagasniði. Sérhverri tillögu skal fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýringar á
helstu ákvæðum.
Ef efni þingsmáls getur að einhverju leyti varðað jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar skal
þess getið í greinargerð og jafnframt hvernig tryggt skuli að jafnréttisstefnunni verði fylgt
í hvívetna. Forsætisnefnd fer yfir hvert mál með hliðsjón af því.
16. gr.
Tillögur til þingsályktunar skulu vera í ályktunarformi. Þeim skal fylgja greinargerð
með skýringu á efni þeirra og tilgangi.
17. gr.
Forsætisnefnd getur synjað framlagningu þingmáls ef hún metur það ekki tækt til
þinglegrar meðferðar. Rétt er þó að gefa flutningsmönnum áður frest til úrbóta.