Gerðir kirkjuþings - 2021, Side 78
78 79
30. gr.
Á hverju kirkjuþingi skal vera sérstakur þingfundur þar sem kirkjuþingsfulltrúum gefst
kostur á að bera fram fyrirspurnir til biskups Íslands, vígslubiskupanna í Skálholti og á
Hólum og framkvæmdanefndar kirkjuþings.
Fyrirspurnir skulu vera skriflegar og þeim svarað skriflega. Fyrirspyrjandi gerir grein
fyrir fyrirspurninni í umræðu og sá sem fyrirspurn er beint til gerir jafnframt nánari grein
fyrir svari sínu í umræðunni.
Fyrirspurnum skal skilað til forseta með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara.
Á hverju kirkjuþingi má hafa sérstakan þingfund þar sem kirkjuþingsfulltrúum gefst
kostur á að ræða mál sem ekki eru á dagskrá þingsins. Óskum kirkjuþingsfulltrúa um slíkar
umræður skal komið til forseta með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara. Forsætisnefnd
metur hvort við beiðnum skuli orðið.
Forseti getur ákveðið að einn þingfundur á hverju kirkjuþingi skuli helgaður tilteknu
málefni án þess að sérstök ósk hafi komið fram um það frá kirkjuþingsfulltrúum.
31. gr.
Flutningsmaður máls, en ekki nema einn þótt fleiri flytji, og framsögumenn nefnda
mega við hverja umræðu um mál tala þrisvar, í fyrsta sinn í allt að þrjátíu mínútur, í annað
sinn í allt að tíu mínútur og í þriðja sinn í allt að fimm mínútur.
Aðrir en framsögumenn mega tala tvisvar, í tíu mínútur í fyrsta sinn og fimm mínútur
í annað sinn.
Fyrirspyrjandi, en ekki nema einn þótt fleiri séu flutningsmenn fyrirspurnar, og sá sem
svarar fyrirspurn mega tala tvisvar, í fyrra skiptið í fimm mínútur og í síðara skiptið í þrjár
mínútur.
Málshefjandi samkvæmt 4. mgr. 30. gr. má tala tvisvar, í fyrsta skiptið í fimmtán
mínútur og síðara skiptið í fimm mínútur. Aðrir mega tala tvisvar, í tíu mínútur í fyrsta
sinn og fimm mínútur í annað sinn.
Forseti getur heimilað lengri ræðutíma en að framan greinir ef hann telur þess þörf.
Þá getur forseti takmarkað ræðutímann eða slitið umræðu með samþykki meirihluta
kirkjuþingsfulltrúa.
Á þingfundi samkvæmt 5. mgr. 30. gr. ákveður forseti tilhögun umræðunnar, þar á
meðal lengd ræðutíma.
Fari umræður fram um tvö eða fleiri þingmál í einu, gilda ofangreindar reglur um
ræðutíma eftir því sem við á.
32. gr.
Ræðumenn á kirkjuþingi eiga ekki að ávarpa aðra en forseta þingsins. Forseta er þó rétt
að ávarpa þingið í heild.
Ræðumenn skulu halda sig við málefni það sem til umræðu er hverju sinni.
Þegar flutningsmenn mæla fyrir málum eða framsögumenn fyrir ályktunum nefnda geta
þeir vísað til prentaðrar greinargerðar eða nefndarálits en eiga ekki að lesa skjölin í heild.
Ræðumenn skulu æskja leyfis forseta ef þeir hyggjast lesa upp aðfengið prentað mál.