Gerðir kirkjuþings - 2021, Page 91
91
16. mál 2021-2022
Flutt af forsætisnefnd
Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir.
I. KAFLI.
Söfnuðir og sóknir.
1. gr.
Söfnuður er sjálfstæð félagsleg og fjárhagsleg grunneining Þjóðkirkjunnar og starfs-
vettvangur hennar á hverjum stað.
Söfnuður tengist öðrum söfnuðum innan sama prestakalls, ef um það er að ræða,
með samstarfi eða á annan hátt sem héraðsfundur kann að mæla fyrir um eða einstakar
sóknarnefndir stofna til. Þá tengjast söfnuðir öðrum söfnuðum innan prófastsdæmis með
sameiginlegum héraðsfundi.
Söfnuður á tilteknu landsvæði myndar sókn. Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall.
Sókn er félag þess fólks innan Þjóðkirkjunnar sem býr innan sóknarmarka.
Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skráðir í Þjóðkirkjuna.
Sóknarbörn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni og bera sameiginlega skyldur
eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum eða með lögmæltum ákvörðunum.
II. KAFLI
Frumskyldur sóknar.
2. gr.
Frumskyldur sóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú
sem starfar í kærleika. Til þess er haldið uppi:
a. reglubundnum guðsþjónustum og séð til þess að sóknarbörn eigi aðgang að sálgæslu
í samtali, prédikun, sakramenti og fyrirbæn,
b. reglubundnu fræðslustarfi um kristna trú og sið, og stuðningi við trúaruppeldi
heimilanna með barnastarfi, fermingarfræðslu og æskulýðsstarfi,
c. kærleiksþjónustu á vettvangi sóknarinnar og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði
kirkjunnar.
Þar sem ekki er unnt að halda uppi reglubundinni þjónustu, svo sem vegna fámennis,
geta sóknir í sama prestakalli, eða á sama samstarfssvæði, sameinast um ofangreinda
meginþætti safnaðarstarfs.
III. KAFLI
Safnaðarfundir.
3. gr.
Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maílok ár hvert. Þar skulu rædd málefni
sóknarinnar, þar á meðal þau mál sem lögmælt er að undir fundinn séu borin, svo og þau
mál sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur eða biskup Íslands skýtur þangað.