Gerðir kirkjuþings - 2021, Side 107
107
Prófastur er, sem fulltrúi biskups Íslands í prófastsdæminu, leiðtogi vígðra þjóna
prófastsdæmisins.
Prófastur skal eiga regluleg starfsmannasamtöl við vígða þjóna prófastsdæmisins
eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Hann skal eiga reglulega fundi með prestum, djáknum,
sóknarnefndarformönnum og öðru starfsfólki safnaðanna, eftir því sem við getur átt. Þá
ber honum að sjá til þess að prestar og djáknar njóti handleiðslu og annars þess stuðnings
í starfi sem þörf er á.
Prófastur beitir sér fyrir námskeiðahaldi til fræðslu fyrir presta, starfsfólk safnaða
og aðra sem taka þátt í starfi kirkjunnar. Hafa skal samráð við önnur prófastsdæmi um
námskeiðahald ef henta þykir.
Prófastur fylgir eftir stefnumörkun og samþykktum kirkjuþings er varðar kirkjulegt
starf í prófastsdæminu.
Prófastur er í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið að því er varðar sameiginleg málefni þess,
gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum.
Prófastur varðveitir embættisbækur og önnur gögn prófastsdæmisins tryggilega.
9. gr.
Biskup Íslands getur falið prófasti einstök mál sem varða kirkjulegt starf.
Prófastur veitir biskupi og vígslubiskupi umdæmisins eftir því sem við getur átt, þá
aðstoð, sem þeir óska eftir. Prófastur aðstoðar biskup og vígslubiskup við undirbúning og
framkvæmd vísitasíu þeirra og fylgir þeim um prófastsdæmið á vísitasíuferðum.
10. gr.
Prófastur kemur að vali prests, sbr. 6. mgr. 7. gr og veitir jafnframt liðsinni sitt við
almennar prestskosningar, ef kjörstjórn fer þess á leit, sbr. 3. mgr. 14. gr. um ráðningu í
preststörf og starfslok nr. 144/2016, með síðari breytingum.
11. gr.
Prófastur sér til þess, í umboði biskups Íslands, að sóknarbörn njóti þeirrar prestsþjónustu
sem þeim ber. Hann skipuleggur afleysingaþjónustu vegna vikulegs frídags, skammvinnra
veikinda og sumarleyfa presta í prófastsdæminu. Hann annast um viðveruskyldu og
skipulag bakvakta, m.a. í ljósi viðbragðaáætlunar kirkjunnar við hópslysum. Prófastur sér
til þess að vígðir þjónar kirkjunnar í prófastsdæminu njóti tilskilinna réttinda s.s. til orlofs
og námsleyfa.
12. gr.
Prófastur stýrir samstarfi presta um kirkjulega þjónustu í prófastsdæminu, m.a.
þjónustu á sjúkrastofnunum og dvalarheimilum aldraðra.
13. gr.
Prófastur sér til þess að gert sé skriflegt samkomulag um skiptingu starfa milli presta
þar sem fleiri en einn prestur þjónar í prestakalli.