Gerðir kirkjuþings - 2021, Síða 117
117
27. mál 2021-2022
Flutt af kirkjuráði
Starfsreglur um íslensku þjóðkirkjuna erlendis.
1. gr.
Gildissvið og markmið.
Starfsreglur þessar gilda um störf, verkefni og þjónustu íslensku þjóðkirkjunnar erlendis
og hafa það að markmiði að lýsa og afmarka meginhlutverk hennar.
2. gr.
Íslenska þjóðkirkjan erlendis.
Íslenska þjóðkirkjan erlendis er sérstakt viðfangsefni þjóðkirkjunnar og heyrir undir
biskup Íslands.
Íslenska þjóðkirkjan erlendis sinnir boðun trúar, fræðslu og kærleiksþjónustu meðal
Íslendinga á erlendri grund, með helgihaldi, sálgæslu, uppfræðslu í trú og sið. Jafnframt er
henni ætlað að vera vettvangur fyrir og styðja við menningarlega starfsemi á kristilegum
grundvelli.
3. gr.
Störf og starfsskyldur presta og djákna.
Um störf og starfsskyldur presta og djákna sem starfa innan vébanda íslensku
þjóðkirkjunnar erlendis gilda, auk ákvæða starfsreglna þessara, starfsreglur um djákna
nr. 738/1998, með síðari breytingum, starfsreglur um presta nr. 1110/2011, með síðari
breytingu, Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar, svo og aðrar starfsreglur
kirkjuþings og önnur ákvæði íslenskra réttarheimilda eftir því sem við á.
Prestar og djáknar íslensku þjóðkirkjunnar erlendis starfa á grundvelli vígslubréfs og
erindisbréfs sem biskup setur þeim, svo og ráðningarsamnings og starfslýsingar.
Um samskipti presta og djákna við sóknarnefndir eða safnaðarstjórnir erlendis skal
einkum, eftir því sem við á, höfð hliðsjón af ákvæðum starfsreglna um sóknarnefndir nr.
1111/2011, með síðari breytingum.
4. gr.
Störf fyrir sendiráð og önnur stjórnvöld.
Prestar og djáknar sem starfa innan vébanda íslensku þjóðkirkjunnar erlendis veita
íslensku sendiráðunum og stjórnvöldum þjónustu eftir því sem um semst.
5. gr.
Hlutverk biskupsstofu.
Biskupsstofa hefur þessi verkefni með höndum fyrir íslensku þjóðkirkjuna erlendis:
1. Umsjón með þjónustu, starfrækslu og fjárreiðum vegna þeirra stöðugilda sem
biskup semur um.