Gerðir kirkjuþings - 2021, Page 172
172 173
54. mál 2021-2022
Flutt af biskupi Íslands.
Þingsályktun um stefnumótun kærleiksþjónustu þjóðkirkjunnar.
Kirkjuþing 2021-2022 samþykkir eftirfarandi stefnumótun kærleiksþjónustu
þjóðkirkjunnar og felur biskupi Íslands að hrinda henni í framkvæmd.
Stefnumótun kærleiksþjónustu þjóðkirkjunnar.
Inngangur
Kirkjuþing 2018 (11. mál) samþykkti að fela kirkjuráði að skipa nefnd til að vinna
að stefnumótun fyrir kærleiksþjónustu þjóðkirkjunnar. Nefndin var formlega skipuð
þann 9. október 2019, en í henni eru Elísabet Gísladóttir, djákni, tilnefnd af Djáknafélagi
Íslands, sr. Þór Hauksson, sóknarprestur, tilnefndur af Prestafélagi Íslands og Ragnheiður
Sverrisdóttir, djákni og verkefnastjóri á kærleiksþjónustusviði biskupsstofu. Ragnheiður
er formaður nefndarinnar.
Nefndin hafði samráð við presta, djákna og leikmenn / starfsmenn sókna og átti samtöl
við hlutaðeigandi fulltrúa sérhæfðrar kærleiksþjónustu kirkjunnar, og byggir stefnuna á
þeim megináherslum sem fram komu í þeirri vinnu.
Áfangaskýrsla með helstu niðurstöður nefndarinnar var kynnt fyrir kirkjuþingsfulltrúm
á Kirkjuþingi í október 2021. Í framhaldinu fól biskup Íslands nefndinni að útbúa
stefnuskjal fyrir kærleiksþjónustu Þjóðkirkjunnar, sem lagt yrði fyrir Kirkjuþing í mars
2022.
I. KAFLI
Kærleiksþjónusta þjóðkirkjunnar
1. Tilgangur
Kærleiksþjónusta er órofa hluti af því köllunarhlutverki sem þjóðkirkjan vill rækja og
er nauðsynleg til að hún nái markmiðum sínum. Þjónustan felst í því að sýna trú í verki.
Hún leitast við að mæta fólki í fjölbreyttum aðstæðum. Í henni felst viðleitni til að styðja
það og vera í samfylgd með þeim sem glíma við erfiðar andlegar, líkamlegar og félagslegar
aðstæður. Hún felur í sér umhyggju fyrir allri sköpuninni.
Þjóðkirkjunni er skylt að styðja við náungann og sinna kærleiksþjónustu, enda er það
eitt megin hlutverk hennar. Kirkjan leggur krafta sína fram þar sem hún telur þörfina
mesta. Þá sinnir starfsfólk kirkjunnar faglegri þjónustu sem greinir þörf, skipuleggur og
sér til þess að hún sé innt af hendi. Samstarf er jafnframt mikilvægt við alla sem vilja vinna
að góðum málefnum.