Skessuhorn - 29.03.2023, Page 31

Skessuhorn - 29.03.2023, Page 31
MIÐVIKUDAGUR 29. MARS 2023 31 Nágrannaliðin ÍA og Skallagrímur mættust í sannkölluðum Vesturlandsslag í síðustu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik á þessu tímabili á föstudagskvöldið og var leikurinn í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Leikurinn hafði kannski ekki mikla þýðingu fyrir stöðu liðanna í deildinni nema kannski upp á stoltið að gera og að geta haldið montréttinum fram á næsta haust. Það var góð mæting á Vesturgötuna og ljóst frá byrjun að liðin ætluðu ekki að gefa neitt eftir í þessum alræmda nágrannaslag. Eftir um fimm mínútna leik var staðan 9:8 ÍA í vil en við lok fyrsta leikhluta voru gestirnir úr Borgarnesi komnir með sex stiga forskot, 13:19. Skagamenn náðu þó fljótlega að jafna metin í öðrum leikhluta áður en Skallarnir náðu öðru góðu áhlaupi og staðan 24:32 um miðjan leikhluta. Þegar flautað var til hálfleiks voru fjögur stig á milli liðanna Skallagrími í vil, 34:38, og útlit fyrir áframhaldandi baráttu. Það hélst þannig í þriðja leikhluta og var nánast jafnt á öllum tölum þar til undir lok hans þegar heima­ menn skoruðu níu stig í röð, staðan 59:52 fyrir ÍA. En Almar Örn Björnsson sá til þess að munurinn var aðeins fjögur stig fyrir síðasta fjórðunginn þegar hann setti niður þrist á lokasekúndunum, staðan 59:55. Eftir rúmar fjórar mínútur í fjórða leikhluta var jafnt, 66:66, og næstu mínútur var allt í járnum. Gabriel Adersteg kom heima­ mönnum í 78:73 þegar tæp ein mín­ úta var eftir með þriggja stiga skoti en Keith Jordan Jr. svaraði í næstu sókn með tvisti og fékk síðan tvö víti en hitti aðeins úr öðru þeirra. Í kjölfarið fengu gestirnir boltann en hittu ekki úr tveimur skotum sínum og neyddust síðan til að brjóta á Jónasi Steinarssyni þegar tíu sek­ úndur voru eftir. Hann hitti úr báðum vítunum af öryggi fyrir ÍA og nánast tryggði sigurinn. Milo­ rad Sedlarevic minnkaði muninn í eitt stig með þristi á lokasekúnd­ unum en Skallagrímsmenn náðu ekki að brjóta á Skagamönnum og tíminn rann út, lokatölur 80:79 fyrir ÍA. Hjá ÍA var Jalen Dupree atkvæðamestur með 24 stig og 12 fráköst, Frank Gerritsen var með 16 stig og þeir Jónas Steinarsson og Gabriel Adersteg með 11 stig hvor. Hjá Skallagrími var Keith Jordan Jr. með 25 stig, Milorad Sedlarevic með 16 stig og Björgvin Hafþór Ríkharðsson með 12 stig. Tímabilinu hjá ÍA er nú lokið og enduðu þeir í 7. til 8. sæti ásamt Ármanni með 22 stig. Þeir unnu 11 leiki, töpuðu 16 og verður það að teljast ágætis árangur miðað við að þeir fengu óvænt sæti í deildinni í haust. Skallagrímur endaði í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig og mætir Sindra í fyrsta leik í úrslitakeppni fjögurra liða um eitt laust sæti í efstu deild en auk þess eru þar lið Hamars og Fjölnis. Fyrsti leikurinn verður á föstudaginn á Höfn í Hornafirði og hefst klukkan 19.15. vaks Þór Akureyri og Snæfell mætt­ ust í úrslitakeppni 1. deildar í körfuknattleik kvenna á laugar­ daginn og fór leikurinn fram í höllinni á Akureyri. Var um að ræða fyrsta leik í einvíginu og þarf að ná þremur sigrum til að komast í úrslitaviðureign á móti Stjörnunni eða KR um eitt sæti í Subway deildinni á næstu leiktíð. Það var vel mætt og mikil stemn­ ing í húsinu enda alltaf mikil spenna sem fylgir úrslitakeppni og mikið undir. Snæfell byrjaði betur og komst í 0:5 en heimakonur vöknuðu fljótlega og staðan 7:7 þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum. Einhver taugaspenna var í leikmönnum beggja liða því þær hittu illa og stigaskorið eftir því. Snæfell setti niður síðustu sex stigin í fyrsta leikhluta og leiddi með þremur stigum, 13:16. Þær áttu svo einnig fyrstu sex stigin í öðrum leikhluta og voru komnar með níu stiga forystu, 13:22. Um rúman miðjan leikhlutann var forskot Snæfells 13 stig, 19:32, en þá tóku Þórskonur loksins við sér og náðu að minnka muninn í þrjú stig fyrir hálfleik, staðan 31:34 og allt í járnum. Snæfellskonur voru með yfir­ höndina allan tímann í þriðja leikhluta, þær voru alltaf með nokkurra stiga forskot og erfið­ lega gekk hjá heimakonum að koma sér inn í leikinn að ein­ hverju marki. Þegar flautað var af fyrir fjórða og síðasta fjórðung var Snæfell með sjö stiga forskot, 53:60, og í alveg ágætis málum. En heimakonur í Þór höfðu ekki mikinn áhuga á að tapa fyrsta leik á heimavelli og komu sér hægt og rólega nær Snæfelli. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir var staðan 66:67 Snæfelli í vil og við tóku æsispennandi lokamínútur. Þegar innan við mínúta var eftir á klukkunni var staðan hnífjöfn, 74:74, og enn hellingur sem átti eftir að gerast. Minea Takala kom síðan Snæfelli í 74:76 af vítalín­ unni áður en Hrefna Ottósdóttir setti niður þrist og kom Þór aftur í forystu. Ylenia Bonett svaraði strax fyrir Snæfell en þegar sjö sekúndur lifðu leiks henti Tuba Poyraz í annan þrist fyrir Þór og kom þeim í 80:78. Á lokasek­ úndunni reyndi Preslava Koleva þriggja stiga skot til að tryggja gestunum sigurinn en það geig­ aði og Þórskonur unnu nauman en ansi mikilvægan sigur. Cheah Rael Whitsitt var stiga­ hæst hjá Snæfelli með 20 stig og 13 fráköst, Minea Takala var með 19 stig og Preslava Koleva með 17 stig. Hjá Þór var Hrefna Ottós dóttir með 25 stig, Madison Sutton var með 27 stig og 12 frá­ köst og Heiða Hlín Björnsdóttir með 16 stig. Annar leikur liðanna í úrslita­ keppninni var í gærkvöldi í Stykkishólmi og var ekki hafinn þegar Skessuhorn fór í prentun. vaks Víkingur Ólafsvík og KV áttust við í riðli 1 í B deild Lengju­ bikars karla á laugardaginn og var leikurinn á Ólafsvíkurvelli. Askur Jóhannsson kom gestunum yfir strax á fyrstu mínútu og kort­ eri seinna skoraði Agnar Þorláks­ son annað mark KV og staðan 0­2. Luis Romero Jorge minnk­ aði síðan muninn fyrir Víking eftir tæpan hálftíma leik og sjö mínútum síðar jafnaði Abdelhadi Khalok metin fyrir heimamenn. En tveimur mínútum síðar skoraði Freyr Þrastarson þriðja mark KV og staðan 2­ 3 í hálfleik. Patrik Thor Pétursson kom síðan KV í 2­4 fljótlega í seinni hálfleik og þeir komnir í góða stöðu. Það var svo ekki fyrr en á síðustu mínútu leiksins sem Mik­ ael Hrafn Helgason skoraði mark fyrir Víking en aðeins of seint og KV fagnaði sigri, 3­4. Víkingur hefur þar með lokið leik í Lengju­ bikarnum þetta árið og fékk sjö stig úr fimm leikjum. Næsti leikur Víkings er í fyrstu umferð Mjólkur bikarsins á móti liði Árbæjar næsta laugardag á Fylkis­ velli og hefst klukkan 16. Skallagrímur tapaði þriðja leik sínum í röð í riðli 4 í C deild karla í Lengjubikarnum á föstudags­ kvöldið þegar þeir tóku á móti liði Úlfanna í Akraneshöllinni. Gestirnir komust yfir strax á þriðju mínútu með marki Steinars Bjarnasonar úr vítaspyrnu og Halldór Bjarki Brynjarsson bætti síðan við tveimur mörkum fyrir hálfleik, staðan 0­3. Elvar Þór Guðjónsson skoraði fyrir Skallana á 79. mínútu en það dugði skammt og öruggur sigur Úlfanna, 1­3. Síðasti leikur Skallagríms í Lengjubikarnum verður laugar­ daginn 15. apríl á móti liði Ham­ ars en í millitíðinni spila þeir við KFR í Mjólkurbikarnum næsta sunnudag í Akraneshöllinni og hefst viðureignin klukkan 19. Þá hefja lið Kára og Reynis Hellissands einnig leik í Mjólkur­ bikarnum um næstu helgi. Kári tekur á móti Létti næsta föstudags kvöld í Akraneshöllinni og hefst leikurinn klukkan 19. Reynismenn fá KFK í heimsókn á Ólafsvíkurvöll á laugardaginn og verður flautað til leiks klukkan 14. vaks Snæfell tapaði naumlega fyrir Þór Akureyri í fyrsta leik ÍA vann Skallagrím í Vesturlandsslagnum Þjálfarinn Baldur Þorleifsson að ræða málin í leiknum. Ljósm. Palli Jóh. Víkingur Ó. og Skallagrímur töpuðu í Lengjubikarnum Úr leik Víkings og KV á laugardaginn. Ljósm. af Skagamenn hafa lokið keppni á þessu tímabili. Ljósm. iakarfa.

x

Skessuhorn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.