Harmonikublaðið - 15.09.2020, Side 9
Jón Ingi Júlíusson
Kveðja frá Félagi harmonikuunnenda
í Reykjavík
Þeim fækkar nú óðum brautryðjendunum
í Félagi harmonikunnenda í Reykjavík.
Jón Ingi Júlíusson var svo sannarlega einn
af þeim. Hann gekk í félagið fljótlega eftir
stofnun þess og hinum félögunum varð
fljótlega Ijóst að þar var kominn maður
sem var til í að láta verkin tala. Hann var
ekki aðeins afbragðs harmonikuleikari,
heldur frábær félagsmálamaður. Jón Ingi
var fljótlega kominn í forystu félagsins og
þegar þurfti að leika fyrir dansi var Jón
Ingi einn af þeim betri. Þær voru ófáar
skemmtanirnar og dansleikirnir á vegum
FHUR sem hann tók þátt í. Jón Ingi lék
með hljómsveit félagsins í yfir þrjátíu ár,
m.a. á níu landsmótum. Það var gott og
gaman að vinna með Jóni Inga. Hann var
fljótur að átta sig á aðalatriðunum og losa
sig við aukaatriði, þá var gamansemi hans
viðbrugðið. Hæfileiki hans til að snúa út
úr orðatiltækjum og málsháttum var
dæmalaus. Hann varð formaður 1985, á
mjög viðkvæmum tíma í sögu félagsins,
en með lagni sinni og ljúfmennsku tókst
honum að stýra félaginu farsællega fram
hjá þeim hindrunum, sem á veginum
urðu. Hann lék með hljómsveit félagsins
árum saman og var einn af ómissandi
félögum þar. Að baki honum stóð
eiginkonan, hún Palla, en samvinna þeirra
var til mikillar fyrirmyndar, sem allir tóku
eftir. Palla var ein af þeim sem stóðu að
kaffikonum félagsins, en hún vann að
veitingasölu á skemmtifundum félagsins
og þær söfnuðu fyrir hátíðarfána sem var
afhentur á 10 ára afmæli FHUR og er
ávallt notaður við hátíðleg tækifæri. Árum
saman voru þau boðin og búin að leggja
félaginu lið og gestrisni þeirra var einstök.
Eftir að þau hjónin fluttu í Hveragerði
árið 2005, drógu þau úr þátttöku í
félagsstarfinu enda búin að vera í
fararbroddi lengi. Þó lék Jón Ingi í
hljómsveitinni eftir það, en hann var
verðskuldað gerður að heiðursfélaga árið
2010 eftir mörg ár í formennsku og
óeigingjarna vinnu að félagsmálum.
Félagar í FHUR minnast Jóns Inga af
virðingu og hlýhug og senda samúðar-
kveðjur til Pöllu og afkomendanna, sem
voru Jóni Inga svo kærir.
Friðjón Hallgrímsson
Ævinlega er sorglegt þegar gamlir og góðir
vinir falla frá. Jón var vinur vina sinna og
Ijúfmenni fram í fingurgóma. Hann hefði
orðið 88 ára um næstu jól. I nokkur ár
hefur heilsu Jóns verið að hraka og nú
síðla sumars var komið að leiðarlokum.
Kynni okkar hófust nokkru eftir að Félag
harmonikuunnenda í Reykjavík var
stofnað 1977. Jón var fljótt dottinn inn
í hin ýmsu félags- og stjórnunarstörf og
sannaði hugsjónaeðlið í félagsstarfinu.
Hann lagði sig allan fram um að gera sitt
besta fyrir hin nýstofnuðu samtök. Til
liðs við hljómsveit félagsins gekk Jón
snarlega og lék með henni inná þrjár
hljómplötur ásamt öðru við mörg
tækifæri. Umrætt félag sem nú er 43 ára
er enn í fullu fjöri, hefur haldið uppi
metnaði að tryggja stöðu harmonikunnar
í nútíma þjóðfélagi þar sem ýmsir
tískustraumar ná völdum í heimi
hljóðfæranna. Auðvitað skapar
frumkvöðlastarfið hljóminn fyrir hversu
vel eða illa spilast úr og ætla ég að þakka
Jóni fyrir hans þátt í því. Hann dró aldrei
af sér við að sinna hinum ýmsu verkum
innan félagsins og var frábær
samstarfsfélagi. Meðan ég lífsanda dreg
mun ég ekki gleyma samvinnu okkar er
við stóðum að móttöku norskra
harmonikuleikara, en þá vorum við að
endurgjalda boð sem við nutum ári fyrr
til Noregs. Símtölin okkar í milli verða
ekki talin á fingrum annarrar handar á
þeim tíma, heldur ekki síðar. Alltaf stóð
heimili Jóns og Pöllu á Hraunbrautinni
opið til að halda fundi og móttöku gesta,
innlendra eða erlendra á vegum félagsins.
Palla, kona Jóns sá um að veitingarnar
væru lystugar og fallega fram bornar.
Lengi vel var Hraunbrautin staðurinn þar
sem ákvarðanir voru teknar. Jón var
formaður FHUR í tvígang og gerður
heiðursfélagi 2010.
Jón lék listavel á harmoniku og kunni
ógrynni laga enda fluglæs á nótur. Hann
hafði tekið að sér að spila á samkomum
á vegum Bandalags kvenna á elliheimilum
og fékk mig í samstarf með sér. Árin urðu
milli 30 og 35 í þessu gefandi starfi með
Jóni og talaði hann oft um að fáum
körlum væri boðin aðild að kvenfélagi.
Af þessum vini mínum lærði ég mikið og
fjölda skemmtilegra laga er ég held enn á
lofti við ýmis tækifæri. Með Jóni er fallinn
frá starfsamur og glaðsinna maður er naut
sín í félagsstarfi og við munum lengi
minnast. I hugskotinu verða geymdir
gamlir molar úr ferðum innanlands og
utan. Heimsókn til Málselv og Senja
Trekkspillklubb í Noregi 1982 stendur
uppúr, en þá fór utan 50 manna hópur
íslenskra félaga og naut gestrisni
Norðmanna. Þar var spilað og sungið,
dansað og hlegið fram á nætur.
Líka ferð með Þjóðdansafélagi Reykjavíkur
til Danmerkur þar sem við lékum undir
dansi og nutum samverunnar. Sem vænta
mátti var jarðaför Jóns virðuleg.
Utfararlagið, leikið af diski, af honum
sjálfum, Kveðja til Pöllu. Harmonikurnar
hans stóðu beggja vegna kistunnar við
altarið og voru bornar út á eftir kistunni
af ættingjunum, það var fallegt og kom
við mína viðkvæmu strengi. Hafið þökk
fyrir.
Ég sendi Pöllu, börnum og fjölskyldum
þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Hilmar Hjartarson