Heilbrigt líf - 01.06.1942, Blaðsíða 92
um eiga sér stað eftir mjög jákvætt próf, eru sjaldnast
langvinn. Hjaðnar bólgan vanalega á fáum sólarhring-
um, en roðinn getur haldizt um nokkurt skeið.
Hvort er betra, að berklaprófið sé jákvætt eða neikvætt?
Um þetta eru berklalæknarnir eðlilega oft spurðir. Svarið
hlýtur að verða á þá leið, að bezt sé, að hafa enga
berklasýkla í líkama sínum, og ber neikvætt próf því
vott um eðlilegt ástand. En hinu ber eigi að neita, að
fram að þessu hefir berklaveikin verið svo algengur
sjúkdómur í öllum menningarlöndum, að talið er, að lang-
flestir íbúanna séu smitaðir á fullorðins aldri, að minnsta
kosti í öllum stórum borgum. Sá, sem smitazt hefir, og sigr-
azt á smituninni, er þá almennt talinn standa betur að
vígi gegn nýrri berklasmitun, en hinn, sem aldrei hefir
smitazt. Enn sem komið er, verður varla gert ráð fyrir,
að fólk nái almennt fullorðins aldri, án þess að smit-
ast af berklaveiki, svo algengur sem sjúkdómurinn er enn
hér og í nágrannalöndunum, þó að slíkt væri ótvírætt hið
æskilegasta. Á síðari árum hefir smitunartíminn færzt
nokkuð til. Færri smitast nú á barnsaldri en áður. Á
unglings- og á ung-fullorðinsárunum (15—25 ára)
er smitunin enn algeng, og um 40 ára aldur virðast lang-
flestir vera jákvæðir við berkapróf, að minnsta kosti í
þéttbýli.
Það er þó eigi ólíklegt, að með mjög virkum berklavörn-
um megi takast að ala upp lítt smitaða eða ósmitaða kyn-
slóð, og útrýma berklaveikinni að miklu leyti. En slíkt
tekur langan tíma og krefst síaukinna berklavarna, eftir
því sem sjúkdómurinn þverr. Sýkingarhættan verður eng-
an veginn að sama skapi minni, sem sýkingaruppsprett-
unum fækkar, því að jöfnum höndum eykst næmi manna
fyrir veikinni, svo að hver uppspretta er líkleg til að valda
margföldum usla á við það, sem nú á sér stað.
90
Heilbrigt líf