Heilbrigt líf - 01.06.1942, Síða 115
efnafræðing-ar við St. Louis háskólann, undir forustu dr. E. A.
Doisy. Skv. rannsóknum á Californía-háskólanum hafði reynzt vel
að nota þrátt fiskimjöl við blæðingum á hænuungum, og var af þessu
tilefni K-vítaminsins leitað í fiskimjöli. Eftir fyrirhafnarsamar og
langvinnar rannsóknir var sýnt fram á, að K-vítamín er fituefni,
e. k. olía, sem börn og fullorðnir neyta með fæðunni, melta í þörm-
unum, og ná því þannig inn í blóðið. Ef þessi fitumelting er í ólagi,
t. d. vegna bilunar i lifrinni, tekst líkamanum ekki að tileinka sér
K-efnið, og ná því inn i blóðið. En þá er blæðingahættan yfirvofandi.
K-vítamínið úr fiskimjölinu er olía, sítrónugul á litinn. A
Harvard- og Californía-háskólunum hefir tekizt að setja hana sam-
an efnafræðilega — synthesis — án þess að nota til þess hráefni úr
fiskimjöli, og er þar með komið nýtt varnarlyf á markaðinn.
Dauði nýfæddra barna getur stafað af innvortis blóðmissi í
barnslíkamanum. Telst læknum til, að ófullkomin blóðstorknun muni
valda dauða þriðjungs barna, er látast af meðfæddu fjörleysi, eða
vel það.
Áhrif K-vítamínsins hafa verið sýnd með ofur einföldu móti.
Skinnspretta er gerð einhvers staðar, t. d. í hælinn, og athugað, hve
blóð seytli lengi úr þeirri rispu. Barninu er því næst gefið inn
K-vitamin, og gerð skinnspretta á ný. Þá storknar blóðið miklu
fyrr, en ella. Sé barninu blæðingahætt, kann blóð að seytla heilan
dag úr rispunni, en ekki nema 1—2 klst. eftir inngjöf á K-vítamíni.
Blæðing úr þarmaslímhúðinni er hættulegasti blóðmissir nýfæddra
bama, en K-vítamínið vinnur móti þeirri hættu.
Hér hafa læknavísindin unnið bug á enn einum sjúkdómi, sem
áður var ólæknandi. Dr. H. Dam er nú búsettur í Bandaríkjunum,
og vinnur þar að vísindastörfum sínum.
Heilbrígt, líf — 8
113