Heimili og skóli - 01.08.1962, Síða 27
HEIMILI OG SKÓLI
79
Þótt Jóhannes næði alls ekki heilsu
sinni á ný á þessu ári, og raunar ekki
fyrr en eftir alllangt árabil, sinnti
hann alltaf kennslustarfi sínu meira
og minna og lengst af að fullu. Þjón-
ustualdur hans sem kennari er því
orðinn óvenju langur, eða samfellt 44
ár í Húsavík.
Eins og nærri má geta komast slíkir
hæfileikamenn sem Jóhannes Guð-
mundsson engan veginn hjá því að
taka að sér trúnaðarstörf fyrir byggð-
arlag sitt, auk aðalstarfsins. Hann hef-
ur lengi átt sæti í hreppsnefnd og
stjórnum ýmissa félaga og leyst þar af
hendi mikið og fórnfúst starf, ekki sízt
í þágu bindindis- og barnaverndar-
mála. Bindindissamtökin eiga þar einn
af sínum beztu og traustustu fulltrú-
um og raunar öll samtök, sem vinna
markvisst að hollu uppeldi æskunnar.
— Á fyrri hluta ævinnar var Jóliannes
lengi vegaverkstjóri á sumrum norð-
anlands.
Jóhannes er mikill hamingjumaður
í einkalífi. Hann er kvæntur frábærri
konu, Sigríði Sigurjónsdóttur, ættaðri
af Tjörnesi. Hún hefur ekki aðeins
búið bónda sínum og börnum úrvals
heimili af sinni kunnu umhyggju og
smekkvísi, heldur einnig reynzt það
bjarg, sem aldrei bifaðist, meðan erf-
iðleikaárin stóðu yfir, vegna heilsu-
leysis húsbóndans. Andlegur styrkur
liennar og trú á tilgang og fegurð lífs-
ins hefur aldrei haggazt.
Börn þeirra hjóna eru fjögur: Sjöfn,
húsfreyja á Fjöllum í Kelduhverfi, gift
Héðni Ólafssyni bónda þar, Sigurjón,
skólastjóri í Húsavík, kvæntur Herdísi
Guðmundsdóttur, Ásgeir Guðmund-
ur, fulltrúi í Reykjavík, kvæntur Sæ-
unni Sveinsdóttur, og Gunnar Páll,
kjötiðnaðarmaður, Húsavík, kvæntur
Arnbjörgu Sigurðardóttur.
Ég átti því láni að fagna að vera ná-
inn samstarfsmaður Jóhannesar Guð-
mundssonar um tuttugu ára tímabil
og þekki hann því vel af okkar löngu
og margvíslegu samskiptum. Ég tel
það happ fyrir nrig að hafa fengið að
kynnast þessum ágæta mannkosta-
manni, sem alltaf var reiðubúinn að
leggja hverju góðu máli lið, og alltaf
tilbúinn til aðstoðar og samstarfs, öll
þessi ár, hvernig sem á stóð. Mér er
því jafnan einkar ljúft að minnast
hans og hans ágætu konu og barna.
Um leið og ég þakka Jóhannesi
hjartanlega allt okkar ánægjulega sam-
starf, óska ég honum gæfu og góðrar
heilsu um langt árabil enn.
Ég sendi eitt sinn Jóhannesi, vini
mínum, tvær vísur, sem hann er senni-
lega búinn að týna, en eiga alveg eins
við í dag og þá. Er því bezt að þær
fylgi hér með að lokum:
Fyrir kynnin fornu og nýju
færðu, vinur, þökk í dag:
fyrir þína hjartahlýju,
hollu ráð og gleðibrag.
Njóttu enn þá lífsins lengi,
lifðu sæll við störfin þín.
Gæfudís á gullinstrengi
gleðiljóð þér kveði sín.
Sigurður Gunnarsson.