Goðasteinn - 01.09.1972, Side 54
an veg. Á ég enn byggingarskilmála Sighvatar mér til handa. Þeir
eru á þessa leið: „Ldgm eptir 2 kúgildi á eignarjörð minni, hálfu
Eyvindarholti, verða 4 fjórð. smjörs. Þar af 1 fjórð. til prests.
Landskuld borgist með peningum, kr. 34,00, þar í liggur fjöru-
fóður, kr. 1,50, fyrir */g af öllum reka, sem Stóradalsfjcrueigend-
um heyrir til, fvrir utan hvalreka. Skilmálar verða að öðru leyti
yfir höfuð samkv. lögum og landsvenju.
Húsaverðið er: Baðstofa (frampartur) með stofu og kamesi
og 2 skápum fyrir kr. 150,00. Bæjardyrahús með stofu og klæða-
skáp kr. 300,00. Hjallur kr. 50,00. Skemma með milliþili kr.
40,00. Tvær heyhlöður, fyrir 80,00 kr. hvor, kr. 160,00: Samt.
kr. 700,00.
Borgist í peningum, innan 10. júní næstk. kr. 300,00, og fyrir
lok júlí mánaðar næstk. kr. 400,00.
Ef staðið cr í góðum skilum með þetta, fær kaupandinn í
kaupbætir Skatthoiið í stofunni.
Eyvindarholti 16. febr. 1901. Sighvatur Árnason."
Ég flutti að Eyvindarholti nær fardögum þetta ár og vann þar
að vorverkum í hálfan mánuð. Skipuðust mál þá þann veg, að
Ólafur Ólafsson í Dalseli keypti eignarhluta Sighvats í Eyvindar-
holti, ásamt húsum og flutti að Eyvindarholti, en ég flutti að
Dalseli, sem hefur verið heimili mitt til þessa dags.
Árið eftir, 17. nóv., giftist ég Guðlaugu Helgu Hafliðadóttur
frá Fjósum í Mýrdal, er stóð við hlið mér í blíðu og stríðu og gaf
mér mörg og mannvænleg börn. Móðir hennar var Guðrún Þor-
steinsdóttir frá Fjósum í Mýrdal. Amma hennar var Helga Þórð-
ardóttir frá Hvammi undir Eyjafjöllum af ætt Þórðar Þorláksson-
ar biskups í Skálholti. Einnig átti hún ætt að rekja til Þórunnar
Hannesdóttur konu sr. Jóns Steingrímssonar. Helga Þórðardóttir
í Fjósum var orðlögð gæðakona, systir Ólafar Þórðardóttur frá
Hvammi, sem ég hef áður minnzt á.
Hrörlegur bær var í Dalseli, þegar ég kom þangað. Var mér
ofarlega í huga að jafna hann við jörðu og byggja hús af nýjum
og betri föngum. Kom ég því í verk árið 1907 og var í mikið
ráðizt, því efni varð allt að fá um langan og torsóttan veg á sjó
og landi.
52
Goðasteinn