Goðasteinn - 01.09.1972, Síða 65
vorum í blóma lífsins í mikilli þakkarskuld við þetca góða og
ánægjulega fólk. Systkinin frá Dalsseli voru öll háttvís, greind
og gjörvileg. Þau settu því visst svipmót á allar okkar samkomur.
Þau áttu góða gæðinga og síðar bifreiðar. Voru þau því ávallt
frjáls og sjálfstæð. En þau voru hugulsöm í meira lagi og naut
ég þess oft, er þau tóku mig með sér á skemmtanir til næstu
sveita, en það var auðvitað hámark lífsgleðinnar, meðan við enn
gátum tileinkað okkur saman ljóðið:
„Hve glöð er vor æska,
hve létt er vor lund,
er lífsstríð ei huga vorn þjáir.“
Frá þessu heimili var Margrét komin. Hún taldi ei eftir sér
að söðla gæðinga og fara með mér ásamt fleira fólki inn á Þórs-
mörk sumarið 1943, en það var í síðasta sinn er ég kom að
Dalsseli. Nesti lagði heimili Margrétar til og það var ckki við
nögl skorið. Við lögðumst saman til hvíldar undir berum kvöld-
himni, sofnuðum við lindanið og vöknuðum næsta morgun við
glaðan söngfuglaklið mitt í hinni djúpu öræfakyrrð. Slíku fær
maður ekki gleymt. Þórsmörk, töfraríki íslenzkrar náttúru birtir
oss undralönd óbyggðanna. - Margrét var dugleg ferðakona.
Hún kunni vöð á hinum ströngu fallvötnum og fór þau ótrauð.
cn í æsku okkar var naumast brú á nokkru af þeim stórfljótum,
er við þurfum að fara yfir t. d. á íþróttamót eða annað það, sem
fara þurfti til næstu byggðarlaga. En þá var þess notið að vera
til og hittast. Létum við þá gæðingana leika með okkur, horfðum
vonglöð fram á veginn og engu kviðið. Ég var aldrei vör við
ungling, sem ekki var sáttur við lífið og glaður í þá daga.
Leiðir okkar Margrétar skildu um margra ára skeið, en hún
sleit aldrei hlekk í þeirri vinsemdarkeðju, er við bundum ungar.
Skrifaði hún mér jafnan hugþekk bréf og gæddi þau fallegum
ljóðum.
Ég kom eitt sinn örlitla stund í afturelding á heimili hennar í
Fljótshlíðarskóla. Börnin voru enn ekki komin á fætur, en ég
sá þau og hamingju hinnar góðu móður, sem áfram mun vernda
fótspor þeirra um ófarna ævileið. Margrét fylgdi mér til dyra. Við
námum staðar á hlaðinu en hún bað mig að líta með sér austur
Goðasteinn
63