Lögmannablaðið - 2024, Síða 26

Lögmannablaðið - 2024, Síða 26
26 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/24 Í bókinni Hæstiréttur í hundrað ár kemur fram að tveir dómarar hafi skorið sig úr með sératkvæði í þessi hundrað ár, þú og Jón Steinar Gunnlaugsson, með um og yfir 30 sératkvæði á ári. Fannst þú fyrir skoðanamun á túlkun laga í Hæstarétti? Ég skrifaði oft lengri röksemdatexta en almennt var gert í dómum þegar ég hafði framsögn og lenti oft í því gagnvart samstarfsmönnum að þeim þótti nóg komið. Ég var vanur smámunasemi í samningum, að loka fyrir öll göt. Ég vildi oft að sá sem tapaði máli sæi að það hefði verið hlustað á hans rök en þeir voru nú ekki alltaf hrifnir af þessu og töldu mig vera að slá úr og í. Ég las líka texta félaga minna af kostgæfni og var ekki sístur í að gera athugasemdir, sem gátu leitt til þess að lengri tími færi í að ræða endanlegt orðalag. Um sératkvæðin átti það oftast við að ég hafði hreinlega aðra skoðun á lögunum en félagar mínir í sumum málaflokkum. Þar á meðal voru mál um örorkubætur vegna vinnuslysa, þar sem ég taldi eðlilegt að grunnábyrgðin lægi hjá vinnuveitanda, sem ætti að skipuleggja vinnuna og væri að fela starfsmönnum að taka áhættu sér í hag. Þessi mál voru fjölmörg og dæmd í fimm manna dómi vegna þess að um háar upphæðir væri að tefla, þar til félagarnir sáu að með því að beina málunum í þriggja manna dóm vegna einfaldra málavaxta gátu þeir losnað við kvabb mitt í þágu hinna slösuðu starfsmanna. Hið sorglega er að viðhorf meirihlutans til vinnuslysa leiddi til þess að breyta þurfti skaðabótalögum árið 2009, væntanlega vegna þrýstings frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), þó að þess sjáist ekki merki í greinargerð með lagafrumvarpinu. Með lögunum var höggvið skarð í þá meginreglu, að um ákvörðun skaðabótaskyldu væru það dómstólarnir sem valdið hefðu án beinna afskipta löggjafans. Ég var líka oftast aktífur þegar mál voru flutt og spurði mikið í dómsal eins og Jón Steinar mun hafa gert síðar. Þetta stuðlaði að því að félagarnir töldu mig ekki nógu formfastan. Í lokin: Ertu enn að praktísera? Ég get því miður ekki sagt það. Ég keyrði mig í hálfgert þrot fyrir tveimur árum en vann fram að því á skrifstofu heima, aðallega í þýðingum en var þó smávegis í lögfræðistörfum. Ég reyndi líka að fylgjast með störfum Feneyjanefndar Evrópuráðsins (the Venice Commission) en þar var ég fastafulltrúi Íslands í mörg ár meðfram dómarastörfunum og er enn varafulltrúi. Ég sótti fjölmarga fundi í Feneyjum og víða í löndum Austur-Evrópu sem þurftu aðstoð við að breyta lögum í lýðræðisátt eftir fall Berlínarmúrsins. Ég fylgdist með fjarfundum á Covidtímanum og er nú á leið til Feneyja á júnífund nefndarinnar eftir langa fjarveru. Það verður gaman og gefandi að hitta aftur gamla félaga og kynnast nýjum. Ætli ég verði ekki aldursforseti þessa fundar! Eyrún Ingadóttir Hjörtur fór á fund Feneyjarnefndar Evrópuráðsins nú í júní.

x

Lögmannablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.