Goðasteinn - 01.09.2011, Blaðsíða 184
182
Goðasteinn 2011
sínum við holla heimilishætti og fjölbreytileg störf sveitarinnar og hlaut þá
menntun sem gafst á þessum árum. Móðir hennar Arndís var hin virta ljós-
móðir sveitarinnar og jafnvel víðar, og var, starfs síns vegna, oft frá heimilinu.
en bóndinn og börnin stóðu samhent að baki henni og lögðu sitt af mörkum til
að hún gæti skilað starfi sínu utan heimilisins.
Þegar ingigerður hafði aldur til, fór hún að fara í vist á veturna bæði til
Reykjavíkur og víða á Suðurlandi, en kom jafnan heim á vorin og vann við
búið á sumrin. Síðan lá leið hennar til Reykjavíkur og þar settist hún að, vann í
fyrstu við veitingastörf, en síðar og lengst af í kexverksmiðjunni frón, þar sem
hún átti farsælan starfsdag. Hún leigði fyrstu árin en festi síðan kaup á íbúð
í Hæðargarðinum, þar sem hún bjó sér hlýlegt heimili og þar átti hún heima
allt þar til hún missti heilsuna fyrir um 7 árum og að sjúkrahúslegu afstaðinni
dvaldi hún á elliheimilinu á Vífilsstöðum og naut þar góðrar og nærgætinnar
umönnunar.
Ingigerður lifði farsælu lífi, hún bjó að þeim þroska að kunna að meta hin
sönnu verðmæti lífsins. Hún fylgdist vel með og sinnti sínu og var sívakin yfir
velferð sonar sins og fjölskyldu hans og naut þess að fylgjast með sonarson-
unum vaxa úr grasi leggja út í lífið og síðar njóta þess að vita af langömmubörn-
unum koma í heiminn eitt af öðru.
Hún hafði gaman af að ferðast og naut þess að hafa átt kost á því og kynn-
ast framandi þjóðum og menningarsiðum og eiga þær systur, sem ferðuðust
saman margar góðar minningar úr eftirminnilegum feðalögum. en hún var í
hjarta sínu barn náttúrunnar og yndi hafði hún af landinu okkar fagra. Og þá
ekki síst, löðuðu æskustöðvarnar. Því þeim unni ingigerður. Að Syðri-Hömr-
um var haldið um leið og færi gafst þótt ferðir hennar á fornar slóðir væru færri
í seinni tíð.
Hún var dagfarsprúð kona, hafði milda framkomu, þar sem sjaldan var langt
í kímni og létt glens, ævinlega sjálfri sér samkvæm í stóru sem smáu. Hún var
gætin í orðum en meinti það sem hún sagði, raungóð og þrautseig, trú vinum
sínum og ættmennum og góð heim að sækja, og kunni að meta og var þakklát
fyrir vináttu og tryggð allra þeirra sem hún umgekkst, vina og ættingja um
farinn veg.
Já, hinn góði arfur frá æskuheimilinu varð veganesti hennar í lífinu og við
hann hélt hún tryggð allt til æviloka. Sá arfur endurspeglaðist hjá henni í því
að kappkosta að ganga fram af heiðarleika og trúfesti. Að standa styrk í stafni
og gera þá kröfu til sjálfs sín að hopa hvergi andspænis því sem lífið lætur
að höndum bera, heldur takast á við það og kappkosta að lifa heilsteyptu og
innihaldsríku lífi.