Bændablaðið - 10.10.2024, Blaðsíða 12
12 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024
Nýtt og glæsilegt geymsluhúsnæði
Að Týsnesi 12, Akureyri
Með yfir 100 geymslum
www.akgeymslur.is
GEYMSLUR
AK GEYMSLUR l STRANDGÖTU 31 l 600 AKUREYRI l SÍMI 866-2696
geyma@akgeymslur.is l www.akgeymslur.is
Stofnverndarsjóður íslenska
hestakynsins verður lagður niður
í lok árs. Sjóðurinn var stofnaður
fyrir fimmtíu árum og hefur til
dagsins í dag fjármagnað hin ýmsu
þróunar- og rannsóknaverkefni
tengd hrossarækt.
Stofnverndarsjóður íslenska
hestakynsins varð til með breytingu
á lögum um búfjárrækt árið 1973
í þeim tilgangi að styrkja og lána
hrossaræktarsamböndum fjármagn
til kaupa á kynbótahrossum sem
annars væru mögulega seld úr landi.
Starfsemi sjóðsins hefur breyst
með árunum en eftir árið 1997 hafa
eingöngu verið veitt framlög til
þróunar- og rannsóknarverkefna.
Fagráð í hrossarækt hefur farið með
stjórn Stofnverndarsjóðs.
Fjármagnaður af
útflutningi hrossa
Fjármögnun sjóðsins hefur ætíð
verið gegnum útflutning hrossa en
á fyrstu árum sjóðsins var upphæðin
reiknuð sem ákveðið hlutfall af
útfluttum hrossum en á seinni árum
hafa útflytjendur greitt 1.500 krónur
í sjóðinn fyrir hvert útflutt hross.
Bændasamtök Íslands eiga að
sjá um innheimtu fyrir sjóðinn en
innheimtan hefur verið færð til
ríkisins og samkvæmt fundargerðum
Fagráðs hefur gjaldið ekki verið
innheimt af hverju útfluttu hrossi
fyrir árið 2022 og 2023 en ríkið hafi
þó staðið skil á greiðslum sjóðsins.
Greiðslurnar hafi tekið mið af
árlegum útflutningi.
Frá upphafi sjóðsins hefur í
kringum 200 milljónum verið
úthlutað úr sjóðnum sem gerir að
meðaltali fjórar milljónir á ári.
Verkefnin hafa verið misjöfn
en m.a. hafa rannsóknaverkefni
á borð við tíðni magasára í
útigangshrossum á Íslandi,
doktorsverkefni um erfðafræðilegan
grunn gangtegunda íslenska
hestsins, innleiðing á kynbótamati
keppniseiginleika og rannsókn
þar sem skoðaður var blóðhagur,
blóðgildi og hormónastaða í
íslenskum folaldshryssum verið
úthlutað styrkur frá sjóðnum.
Rannsóknir á borð við
burðargetu íslenskra reiðhrossa og
líkamsþungahlutfall milli knapa og
hesta er stór þáttur í að sýna fram
á að íslenski hesturinn geti borið
knapa en slík verkefni hafa einnig
verið studd af Stofnverndarsjóði.
Eftirstöðvar sjóðsins, um 70
milljónir króna, munu renna að
mestu í uppfærslu á WorldFeng,
upprunaættbók íslenska hestsins,
samkvæmt grein Nönnu Jónsdóttur,
formanns búgreinadeildar hrossa-
ræktar, í síðasta tölublaði Bænda-
blaðsins.
Átta milljónir króna árlega
Í stað Stofnverndarsjóðs geta
þeir sem vinna að þróunar- og
rannsóknaverkefnum tengdum
hrossarækt leitað í þróunarfé
búgreina en undir þann stuðning
falla einnig nautgriparækt og
sauðfjárrækt.
Samkvæmt nýsamþykktri
reglugerð nr. 1006/2024 munu
heildarframlög til þróunarverkefna
í hrossarækt vera að lágmarki 8
milljónir króna árlega. /hf
Samkvæmt nýsamþykktri reglugerð nr. 1006/2024 munu heildarframlög til
þróunarverkefna í hrossarækt vera að lágmarki 8 milljónir króna árlega.
Mynd/ Kristina Delp, Unsplash
Hrossarækt:
Stofnverndarsjóður
lagður niður
Veiðistjórn rjúpu
á tímamótum
Staðfest hefur verið stjórnunar- og
verndaráætlun fyrir rjúpu og hún
sögð stuðla að sjálfbærum veiðum
og viðhaldi stofnsins.
Stjórnunar- og verndaráætlun
fyrir rjúpu er sú fyrsta sinnar
tegundar fyrir dýrastofn á Íslandi.
Hún er sögð mikilvægur liður í því
að stuðla að sjálfbærum veiðum
og að rjúpnastofninn haldi sínu
hlutverki sem lykiltegund í sínu
vistkerfi.
Þá segja stjórnvöld að með
áætluninni verði tímamót í
veiðistjórnun rjúpu. Héðan í frá verði
veiðistjórnun á rjúpu svæðisbundin,
þar sem landinu er skipt niður í sex
svæði.
Fastir þættir sem ekki breytast á
milli ára hafa verið staðfestir, svo
sem að veiðitímabil hefjist fyrsta
föstudag á eða eftir 20. október,
veiðidagar séu heilir og veiði sé
leyfileg föstudaga til þriðjudaga
innan veiðitímabils. Þá voru
stofnlíkön þróuð og verða notuð
til að reikna út ákjósanlega lengd
veiðitímabils sem getur verið
mismunandi á milli svæða. Þessir
föstu þættir eru sagðir stuðla að
gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni
veiðistjórnunar á rjúpu sem auki
traust á milli opinberra stofnana,
hagsmunaaðila og almennings.
Áætlunin er afrakstur samstarfs
Umhverfisstofnunar, umhverfis-,
orku- og loftslagsráðuneytis,
Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS
og Fuglaverndar. Samstarfshópurinn
fékk einnig aðstoð frá dr. Fred A.
Johnson, bandarískum sérfræðingi
í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.
Rjúpa (Lagopus muta) er
eftirsóttasta veiðibráð á Íslandi
en árlega ganga að jafnaði fjögur
til fimm þúsund manns til rjúpna.
Vísbendingar eru um að til lengri
tíma litið hafi rjúpnastofn landsins
minnkað og er tegundin á válista
Náttúrufræðistofnunar Íslands sem
tegund í yfirvofandi hættu. Að
stofninum steðja ýmsar ólíkar ógnir,
en þær helstu eru loftslagsbreytingar,
skógrækt, landbreyting og veiði.
Rjúpnaveiði hefst 25. október.
/sá
Rjúpnaveiði hefst 25. október. Eftirleiðis verður veiðistjórnun svæðisbundin,
á sex svæðum. Mynd / Pixabay
Árnessýsla:
Auknar líkur á að lífgas- og
áburðarver verði að veruleika
Kúabændur á Suðurlandi komu
til fundar í Reykholti í Bláskóga-
byggð 1. október sem Orkídea
boðaði til, þar sem kynntar voru
hugmyndir um lífgas- og áburðarver
í uppsveitum Árnessýslu.
Að sögn Sveins Aðalsteinssonar,
framkvæmdastjóra Orkídeu, komu
um 30 bændur til fundarins. „Hljóðið
í bændum var mjög jákvætt og
mikil stemning fyrir því að skoða
þetta verkefni áfram og þá í þessari
endurbættu útgáfu sem gefur betri
rekstrargrundvöll.“
Fýsilegt með fleiri afurðum
Áður hafði Orkídea látið gera
fýsileikakönnun á fjölbreyttri
lífgas- og áburðarverksmiðju með
gashreinsun. Þar var gert ráð fyrir
að garðaúrgangi garðyrkjubænda
og kúamykju kúabænda væri
umbreytt í lífrænan áburð og lífgas;
koltvísýring og hreinsað metangas.
Hún leiddi í ljós að rekstrartekjur
myndu standa undir rekstrarkostnaði
en ekki fjármagnskostnaði. „Því
fórum við þá leið að kanna annan
grundvöll fyrir slíku veri þar sem
meginafurðir verksmiðjunnar, auk
áburðar, yrðu orka, hiti og rafmagn,
og koltvísýringur, sem er í dag
markaðsvara sem garðyrkjubændur
kaupa í miklu magni,“ segir Sveinn.
Skoða mögulega aðkomu sjóða
„Við teljum okkur vera búin að finna
þá leið sem skilar þá rekstrarafgangi
til að mæta fjármagnskostnaði við
lífgas- og áburðarverið. Þannig
að sú sviðsmynd, sem er ekki
alveg tilbúin, eykur líkurnar á að
verkefnið verði að veruleika,“
heldur Sveinn áfram.
„Auk þess kynntum við á
fundinum dæmi um lítið og
staðbundið lífgas- og áburðarver
sem gæti hentað einstökum stórum
kúabændum og orkan þá nýtt á
bænum. Við erum vongóð um að
ný nálgun og fýsileikakönnun gefi
þennan fjárhagslega grundvöll og
að ráðist verði í verkefnið innan
skamms. Við erum líka að skoða
hvort og hvernig opinberir sjóðir
geti komið inn í verkefnið með
styrki, fyrir utan heimamenn.“
Orkídea er þátttakandi í Evrópu-
verkefninu Value4Farm sem leggur
áherslu á staðbundna orkufram-
leiðslu og staðbundna orkunýtingu
í nokkrum löndum í Evrópu og
fjármagnar meðal annars það
verkefni Orkídeu að staðreyna
niðurstöður á Íslandi úr svokölluðum
sýnidæmum frá þremur
Evrópulöndum.
Viljayfirlýsing garðyrkjubænda
„Við viljum gjarnan sýna fram á
okkar vinnu og útreikninga sem
dæmi um staðreyndar niðurstöður. En
það er ekki megindrifkraftur okkar
vinnu við lífgas- og áburðarverið,
heldur sú viljayfirlýsing sem
garðyrkjubændur í Reykholti og
sveitarfélagið Bláskógabyggð
undirrituðu 2022, löngu áður en
við fengum Evrópustyrkinn, um
möguleika á grænum iðngarði í
sveitarfélaginu.
Grænir iðngarðar, eins og þessi
hugmynd gengur út á, byggja á
hringrás auðlinda þannig að einhvers
konar endurnýting auðlinda innan
sveitarfélagsins er grundvöllur þess
að hægt sé að kalla svæðið grænan
iðngarð. Við erum á réttri leið, ekki
spurning,“ segir Sveinn.
/smh