Bændablaðið - 10.10.2024, Side 20

Bændablaðið - 10.10.2024, Side 20
20 Fréttaskýring Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024 Matvælastofnun: Togstreita milli bænda og eftirlitsmanna Nýlega voru tveir bændur kærðir til lögreglu fyrir hótanir og ofbeldi í garð búfjáreftirlitsmanns. Forstjóri Matvælastofnunar (Mast) segir samskipti við bændur til fyrirmyndar í langflestum tilfellum en stofnunin sé orðin skýrari í viðbrögðum þegar erfið mál koma upp. Talsmenn Bændasamtakanna segja eftirlitið viðkvæmt og kalla eftir að leiðbeiningarskylda Mast verði skýr. Tveir einstaklingar hafa verið kærðir til lögreglu fyrir hótanir í garð eftirlitsmanns Mast. Málin tvö eru óskyld atvik og áttu sér stað við eftirlit á Suðurlandi fyrr á þessu ári, að því er fram kom í tilkynningu frá Mast í september. Frá árinu 2020 hefur Mast sent lögreglu kæru í fimm slíkum málum. Rígur milli þeirra sem halda dýr og þeirra sem hafa eftirlit með dýrum er ekki nýr af nálinni. „Málin eru sem betur fer ekki mörg en þó misalvarleg. Við erum með skýrt verklag að eftir að eftirlitsmanneskjan upplifir sig óörugga í aðstæðum þá skal eftirlitsþega tilkynnt slíkt. Eftirliti er þá hætt þar en heldur áfram fljótlega aftur, en þá er mögulegt að tveir aðilar fari í eftirlitið með auknum kostnaði eftirlitsþega,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Mast. Hún segir kærurnar tvær ekki endurspegla aukna heift bænda í garð eftirlitsmanna Mast. „Þetta markast frekar af því að við erum farin að beita okkur öðruvísi. Samskipti við bændur almennt eru til fyrirmyndar. En við erum farin að leggja enn meiri þunga á skilvirkar aðferðir í erfiðum aðstæðum, þar sem fyrir eru einstaklingar sem bregðast illa við. Þannig endurspeglast þetta kannski, starfsfólkið okkar er þá frekar að verða fyrir aðkasti. En það er skýrt gagnvart okkar starfsfólki og viðskiptavinum að ef eftirlitsþegar hóta eða beita ofbeldi þá kærum við umsvifalaust til lögreglu.“ Stjórnsýsluúttektin Ríkisendurskoðun gerði úttekt á eftirliti Mast með velferð dýra og komu niðurstöður hennar út í nóvember 2023. Þar kom m.a. fram að Mast hafi ekki tekist nægilega vel að byggja upp það traust sem nauðsynlegt er hverri eftirlitsstofnun, að áætlanir um eftirlit hafi ítrekað reynst óraunhæfar og framkvæmd eftirlits verið langt undir settum markmiðum. Því þyrfti að endurskoða skipulag, verklag og framkvæmd eftirlits. Úttektin leiddi einnig í ljós að mikið vantraust ríkti í garð stofnunarinnar, bæði meðal fagfólks og almennings. Skýrslan endurspeglar enn fremur að þau lögbundnu úrræði sem Mast getur gripið til þegar velferð dýra er talin í hættu orka einnig tvímælis. Þar togast á sjónarmið tengd meðalhófi og réttinum til andmæla í anda stjórnsýslulaga og kröfur borgaranna um tafarlaus inngrip. Þessi togstreita er talin ein ástæða þess að órói ríkir í málaflokknum. Þá kemur enn fremur fram að þau úrræði sem Mast getur, lögum samkvæmt, gripið til reynst erfið og jafnvel ómöguleg í framkvæmd. Matvælastofnun fær í skýrslunni sjö ábendingar um hvernig stofnunin getur gert eftirlit sitt skilvirkara og árangursríkara. en í þeim felst að þróa betur verklag, endurskoða eftirlitsáætlanir og efla samstarf við hagaðila. Sú vinna fer nú fram en Hrönn segir að áherslubreytingar í eftirlitinu hafi þá þegar verið hafnar og nefnir hún til að mynda betri samræmingu við vinnslu eftirlitsins. „Við breyttum til dæmis varðandi stjórnsýsluaðgerðirnar okkar árið 2022. Allar stjórnsýslulegar ákvarðanir í dýravelferðarmálum eru nú teknar af teymi. Í þessu teymi sitja lögfræðingur dýravelferðar, sérgreinadýralæknir fyrir dýra­ tegundina og héraðsdýralæknir viðkomandi umdæmis sem hafa það hlutverk að taka samræmdar ákvarðanir milli dýrategunda annars vegar og landsvæða hins vegar. Þetta gerir það að verkum að aldrei er einn einstaklingur sem situr með ákvörðunarvaldið og að við dreifum ábyrgðinni og reynum að taka eins góðar ákvarðanir og við getum, því þessir þrír sérfræðingar deila sinni þekkingu á sínu sérfræðisviði. Þetta hefur sýnt sig að sé miklu skilvirkara kerfi en við vorum með fyrir. Við erum miklu fljótari að vinna úr öllum dýravelferðarmálum sem koma upp hjá okkur. Þó erfitt sé að útiloka einhvern mannlegan mun milli eftirlitsfólks og umdæma, þá leggjum við okkur virkilega fram við að lágmarka það.“ Lög og reglur miðast við lágmarkskröfur Mast er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin til að kanna aðstæður og aðbúnað þeirra samkvæmt lögum um dýravelferð. Átta dýraeftirlitsmenn og tuttugu eftirlitsdýralæknar starfa við búfjáreftirlit á vegum Mast, sem skiptast milli fjögurra umdæma; Suðvestur, Suðaustur, Norðvestur og Norðaustur. Allt eftirlit er byggt á áhættu­ og eftirlitsflokkun þar sem þunga eftirlitsins er beint þangað sem áhætta er mest og frammistaða verst. „Tíðni eftirlitsheimsókna hefur með sýnileika búgreinanna að gera. Þannig stólum við til dæmis meira á ábendingar þegar kemur að sauðfé og hrossum á meðan við förum árlega í reglubundið eftirlit á kjúklinga­ og svínabú þar sem sýnileikinn er enginn,“ útskýrir Hrönn. Eftirlitsmaður gerir ekki boð á undan sér verði því komið við. Við heimsókn eftirlitsmanns ber bónda, eða umráðamanni, skylda til að veita aðgang að öllum eftirlitsskyldum hlutum aðstöðunnar og þeim pappírum og tölvugögnum sem á að hafa eftirlit með. Eftirlitið er framkvæmt samkvæmt eftirlitshandbókum sem aðgengilegar eru á vef Mast. Í þeim eru gátlistar með atriðum sem eftirlitsmaður skráir ýmist í lagi, sem frávik eða sem alvarlegt frávik. Að sögn Hrannar eru gátlistarnir nú í endurskoðun. „Við skoðum atriði eins og heilsu dýranna, aðbúnað þeirra, byggingar og tækjabúnað ásamt lyfjanotkun. Nú erum við að rýna hvernig við getum verið skilvirkari í eftirlitinu og hvort við séum að skoða rétt atriði sem endurspegla stöðuna.“ Gátlistinn er miðaður við lágmarkskröfur samkvæmt reglugerðum. „Þarna eru þættir sem við teljum mikilvæg skoðunaratriði til að tryggja dýravelferð og að heilsa þeirra sé góð. Svo vitum við líka að margir bændur gera miklu betur en lágmarkskröfur kveða á um.“ Máli sínu til stuðnings bendir Hrönn á að í árskýrslu stofnunarinnar megi finna niðurstöður alls eftirlits, þar sem segir að 87 búa reyndust í góðu lagi. „Almennt séð er staða íslensks landbúnaðar ljómandi. Bændur gera sér grein fyrir að heilsa og velferð dýranna er mikilvægasti þátturinn í góðri matvælaframleiðslu. Þú framleiðir ekki gæðamatvæli úr veikum dýrum sem líður illa eða í umhverfi sem er óásættanlegt. Langstærsti hluti bænda hugsar vel um dýrin sín og halda vel utan um sín bú. En svo eru gerð mistök og það eru til einstaklingar sem eru ekki á sömu línunni. Það er sá hópur sem við þurfum að einbeita okkur að – sem við og gerum,“ segir Hrönn. Guðrún Hulda Pálsdóttir gudrunhulda@bondi.is Þau lögbundnu úrræði sem Mast getur gripið til þegar velferð dýra er talin í hættu orka tvímælis. Þar togast á sjónarmið tengd meðalhófi og réttinum til andmæla í anda stjórnsýslulaga og kröfur borgaranna um tafarlaus inngrip. Þessi togstreita er talin ein ástæða þess að órói ríkir í málaflokknum, að því er fram kemur í úttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti með velferð dýra. Teikning / Hlynur Gauti Hrönn Ólína Jörundsdóttir.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.