Bændablaðið - 10.10.2024, Síða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024Viðtal
Rófum af svipaðri stærð er
pakkað í 20 kílóa netapoka sem fara
svo í verslanir og heildsölur á 500
kílóa brettum. Þegar neytendur sjá
íslenskar gulrófur í lausu úti í búð er
ekki ósennilegt að þær séu frá Læk.
Tvö kíló af fræi
Bændurnir á Læk þurfa að hámarki
tvö kíló af fræi á ári sem þau kaupa
af Fjólu Signýju Hannesdóttur frá
Stóru-Sandvík í Flóa, eina aðila
landsins sem ræktar gulrófnafræ.
Þau eru af sérstöku yrki sem faðir
Fjólu þróaði á sínum tíma, en
íslenskir rófnabændur kaupa einnig
fræ erlendis frá sem dafna vel hér á
landi. Hrafnhildur telur ósennilegt
að neytendur sjái mun á gulrófum
af ólíkum yrkjum, enda sé þetta allt
jafngott.
Hrafnhildur og Friðrik hafa ekki
lent í uppskerubresti. Þau leggja
sig fram við að rækta ekki rófur í
meira en tvö ár í hverjum garði og
þess á milli er spildunum breytt í
tún í minnst sjö ár til þess að hvíla
jarðveginn. Þá reyna þau að hafa
garðana dreifða á því landsvæði sem
þau hafa aðgang að til þess að vera
með fjölbreyttar aðstæður.
„Það skiptir gríðarlega miklu máli
í þessu hvernig veðurfarið er. Það
var erfitt hjá okkur í sumar þar sem
jarðvegshitinn var lágur og sprettan
var hæg,“ segir Friðrik. Af þeim
sökum drógu þau uppskeruna eins
langt fram á haustið og þau gátu, en
í betri árum hafa allar rófur verið
komnar úr jörð fyrir lok september.
Halda í gleðina
Friðrik ráðleggur ungum bændum
sem eru að hefja búskap að reyna að
halda í gleðina og pörum í landbúnaði
að vera samstiga. „Og hafa grófar
áætlanir til lengri tíma svo allir viti
hvert er verið að stefna, því svo fer
þetta í alls konar hlykki á leiðinni.“
Hjónin segja rófnabúskapinn
standa undir einu starfi, en
Hrafnhildur hefur sinnt þrifum og
afgreiðslu pantana á veturna. Friðrik
vinnur mikið utan bús í smíðum og
vélaverktöku, sem Hrafnhildur grípur
stundum í. Þau vinna hart að því að
greiða niður skuldir eins hratt og
þau geta, en stefnan er að stækka og
efla vinnsluna, kæligeymsluna og
afköstin á næstu árum svo reksturinn
standi betur undir sér. „Landbúnaður
er í þeirri þróun í dag að annaðhvort
þarftu að vera með mörg minni
járn í eldinum eða þú þarft að vera
þokkalega drjúgur í því sem þú ert,“
segir Friðrik.
Netadúkarnir nýtast í mörg ár og er rúllað upp
eftir uppskeru.
Nýuppteknar gulrófur fyrir hreinsun.
5hlutir sem Friðrik
og Hrafnhildur
geta ekki verið án
1. Peltorinn: „Hann fylgir okkur um
allt.“
2. Rófnahnífur: Notaður þegar
rófurnar eru snyrtar.
3. Vinnslan: Tækjakosturinn gefur
afköst við hreinsun og pökkun.
4. Upptökuvélin: „Hún er lykilatriði.
Maður fer ekki langt án hennar.“
5. Netadúkurinn: Hann ver gegn
sníkjudýrum og eykur hitann.
Hrafnhildur sér að miklu leyti um að snyrta,
þrífa og afgreiða gulrófur á veturna.
Friðrik vonast til að byggja upp og bæta aðstöðuna á næstu
árum.
Hrafnhildur og Friðrik keyptu allan tækjabúnað af nágrönnum sínum sem
voru að hætta búskap, en hafa endurnýjað mest allt síðan þá.
Uppskrift Hrafnhildar að
hrásalati með gulrófum
Rifnar rófur,
ananas,
sýrður rjómi og
pekanhnetur.
Blandað eftir
smekk.