Bændablaðið - 10.10.2024, Síða 51
51Líf & starfBændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024
REYKJAVÍK GARÐABÆR 590 5100 klettur.is
Bókaðu dekkjaskiptin
tímanlega í vetur
HAFNARFJÖRÐUR
en 11% eiga allar jarðirnar. Þetta er
mjög mikil eignasamþjöppun, bæði
miðað við Ísland í dag en líka önnur
lönd á þessum tíma,“ segir hann.
Þéttbýlissvæði allvíða
Guðmundur segir ýmislegt hafa
komið á óvart eftir því sem línur
skýrðust á vinnslutíma bókarinnar. Til
dæmis hin gríðarmikla samþjöppun
eigna. Einnig að þéttbýli hafi verið
talsvert á Íslandi á þessum tíma.
„Við ímyndum okkur að Ísland
í gamla daga, í bændasamfélaginu
svokallaða, hafi almenna reglan verið
dreifð byggð stakra býla. En í ljós
kemur að allmörg svæði voru þéttbýl,
aðallega vestanlands. Á Snæfellsnesi
var stærsta þéttbýlið á landinu, þar
voru hátt í 500 manns búsett á
nokkrum lögbýlum á Hellissandi
og Rifi. Einnig var þéttbýlt á Stapa
og fleiri jörðum þar um slóðir og
sömuleiðis á Seltjarnarnesi. Það
voru þannig nokkrir staðir á landinu
þar sem fólk skipti hundruðum.
Íslendingar hafa þó ekki kallað þessi
þéttbýli bæi af því að þetta er allt
innan lögbýla, heldur fremur hverfi,“
segir hann enn fremur.
Konur áttu 36% prósent jarðeigna
Þá hafi verið forvitnilegt að sjá stöðu
kvenna varðandi eignir. Konur hafi
yfirleitt ekki staðið fyrir búi nema
þær væru ekkjur eða ógiftar. Aðeins
11% kvenna hafi verið húsráðendur
en engu að síður hafi konur átt
talsverðar eignir. Erfðalög voru á
þann veg að synir erfðu tvo þriðju
en dætur þriðjung.
„Konur áttu um 36% allra
jarðeigna. Þær sem voru efnum
búnar létu eiginmanninn um fjársýslu
búsins og forsvar. Konan hafði ekki
fjárræði og ákvæði voru um hversu
hún mátti eyða miklu af eignum búsins
á ári. Kona gat þannig átt eignir en
ekki ráðstafað þeim að vild,“ útskýrir
Guðmundur.
Einstakt á alþjóðavísu
Um það hvort einhverjar fyrri alda hafi
verið kortlagðar á sambærilegan hátt
segir Guðmundur svo ekki vera og
kveður verkefnið einstakt.
„Þetta er einstakt og er bókin ein
nákvæmasta lýsing sem gerð hefur verið
á lífsháttum í gamla bændasamfélaginu
fyrir tíma þjóðfélagsbreytinganna á
19. og 20. öldinni. Ég held að margar
þjóðir myndu öfunda okkur af þessum
upplýsingum. Við höfum nákvæmari
upplýsingar um svo marga hluti í
samfélaginu sem ekki eru fyrir hendi
frá þessum tíma í nálægum löndum.
Til dæmis var ekki tekið manntal í
Danmörku fyrr en 1769, en það var
ekki með nöfnum,“ segir hann.
Flókið og yfirgripsmikið
Guðmundur segir þetta flóknasta
sagnfræðiverkefni sem hann hafi unnið
að um sína daga. Það kostaði mikla
yfirlegu að smíða gagnagrunninn en
einnig að tengja á milli manntalsins
og jarðabókanna. Óskar Guðlaugsson
og Ólöf Garðarsdóttir eiga mestan
heiðurinn af því.
Kvikfjártalið sé líka einstakt, að
hafa skrá yfir allar skepnur á bújörðum
og þar er jafnvel ástandi dýranna lýst.
Um 37% kvikfjárskýrslna hafa ekki
varðveist og eru jarðabók Múlasýslna
og Skaftafellssýslna glataðar,
eyðilögðust líklega í brunanum mikla
í Kaupmannahöfn 1728 þegar nokkur
hluti af safni Árna Magnússonar brann.
Höfundarnir höfðu þó sínar aðferðir
til að afla gagna úr öðrum áttum til að
fylla í eyðurnar.
Mörg mannár liggja að baki
bókinni. Sjö hafa unnið að þessu
viðamikla verkefni sem staðið hefur
með hléum frá árinu 2017. Eru það,
auk Guðmundar, Sigríðar, Óskars
og Ólafar, þau Árni D. Júlíusson,
Björgvin Sigurðsson og Ingibjörg
Jónsdóttir. Myndaritstjóri er Inga Lára
Baldvinsdóttir. Útgefandi er sem fyrr
segir Sögufélag. Bókin er 440 bls.
1703.is
Útbúinn hefur verið vefur sem ber
heitið 1703.is og var opnaður seint í
september. „Vefurinn er öllum opinn
núna en er enn í vinnslu. Hver og einn
getur opnað þennan vef og flett upp
í honum Jóni og Gunnu árið 1703,
hvar þau eru og hversu margir eru á
heimilinu, hversu margar skepnur, hver
dýrleiki bæjarins er og svo framvegis. Í
vefnum er kortasjá þar sem sjá má öll
lögbýli í landinu árið 1703. Við vonum
að sem flestir skoði og njóti. Vonandi
kviknar áhugi einhverra á að skoða
sína sögu og heimaslóðir, forfeður
og formæður. Síðan er í framtíðinni
áformað að tengja yngri manntöl
og jafnvel jarðatöl við þennan stóra
gagnagrunn þannig að við höfum
ekki bara einn punkt í sögunni heldur
getum skoðað þróunina í tíma,“ segir
Guðmundur Jónsson.