Helgarpósturinn


Helgarpósturinn - 08.11.1984, Qupperneq 23

Helgarpósturinn - 08.11.1984, Qupperneq 23
HRINGBORÐ Um embœttisleysi og annaö verra í dag skrifar Sigurður A. Magnússon Landsbókaverði svarað í bréfi til Helgarpóstsins sem birt var 4. október finnur Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður sig knúinn til að andmæla um- mælum mínum um Landsbóka- safn í Hringborðspistli 30. ágúst þarsem fjallað var um vaxandi þrengingar prentaðs máls. Þar finnur æviráðinn embættismaður mér það til foráttu að ég sé emb- ættislaus, aukþess sem ég sé ódæll, ofstækisfullur og ósann- gjarn. Ég tel sannast sagna emb- ættisleysið ekki vera umtalsverð- an vansa í forstokkuðu kerfisþjóð- félagi þarsem opinber embætti hafa ríka tilhneigingu til að verða hægindi framtakslítilla hóglífis- manna einsog mörg ófögur dæmi sanna. Ódæll, ofstækisfullur og ósanngjarn er ég kannski í þeim skilningi að ég hyllist til að nefna hluti sínum réttu nöfnum og finna að því, sem mér þykir miður fara í mannlífi og þjóðfélagi, án tillits til kunningsskapar, ættartengsla, flokksbanda og annarra þeirra meira eða minna duldu hemla, sem setja allri umræðu á íslandi óþolandi þröngar skorður. Mosa- grónum embættismönnum, sem vilja njóta værðar og makræðis í aðskiljanlegum skúmaskotum kerfisins, er þvílíkur framgangs- máti vitaskuld þyrnir í augum. Á þeirra uppdráttarsjúka máli heitir það ofstæki að segja kost og löst á því sem er að gerast í kringum okkur. Þetta leiðir raunar hugann að þeirri örlagaríku ósvinnu, sem tekin var í arf ásamt ýmsu öðru óþörfu góssi frá danska hjálendu- skeiðinu, að æviráða forstöðu- menn opinberra menningarstofn- ana, með þeim afleiðingum að þær staðna og stirðna þegar framí sækir, hjakka í sama farinu og verjast ferskum hugmyndum og nýstárlegum vinnubrögðum eins- og bakteríur hreinu lofti. Eina skynsamlega ráðstöfun Alþingis í þeim efnum var að takmarka ráðningu þjóðleikhússtjóra við til- tekinn árafjölda. Sama regla ætti fortakalaust að gilda um forstöðu- menn Landsbókasafns, Þjóð- skjalasafns, Þjóðminjasafns, Lista- safns ríkisins, Ríkisútvarpsins og Kjarvalsstaða, enda vandséð hversvegna forstjórar opinberra stofnana eiga að njóta ævilangs öryggis umfram ráðna forstöðu- menn einkafyrirtækja. Sú rök- semd að löng starfsreynsla vegi þyngra en nýtt blóð og ferskar hugmyndir er firra sem allar ofan- greindar stofnanir eru mælskastir vottar um. Æviráðning leiðir í langflestum tilvikum til sljóleika, stöðnunar, makræðis og fjand- skapar við nýjungar. í þessu sambandi fæ ég ekki orða bundist um eitt stórfelldasta menningarhneyksli síðustu ára- tuga, þegar menntamálaráðherra lét sér sæma að skipa í embætti út- varpsstjóra tiltölulega ungan flokksbróður, sem leynt og ljóst hefur unnið gegn þeirri stofnun sem hann á nú að veita forstöðu framá efri ár. Ég á persónulega ekkert sökótt við Markús Örn Ant- onsson, enda erum við góðkunn- ingjar frá gamalli tíð, en það breytir í engu þeirri sannfæringu, að skipun hans í embætti útvarps- stjóra sé reginhneyksli. Ekki er nóg með að hann hafi verið á kafi í pólitík á undanförnum árum og þegar af þeim sökum manna ólík- legastur til að veita forstöðu við- kvæmustu menningarstofnun landsmanna, þarsem pólitískt hlutleysi ætti að vera æðsta boð- orð, heldur hefur valdaskeið hans og annarra afturhaldskumpána í útvarpsráði einkennst af óvenju- legu gerræði og pólitískum of- stopa, enda hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina hjá stofnuninni und- angenginn áratug vegna vaxandi íhlutunar og yfirgangs hinna póli- tísku varðhunda í útvarpsráði. Þaráofan hefur hann verið einn af formælendum þess að fjármagns- öflin í landinu fengju heimild til að reka útvarp við hlið Ríkisútvarps- ins og græfu þannig undan veik- um fjárhagsgrunni þess. Hann treystist ekki einusinni til að áfell- ast þau skýlausu lögbrot sem flokksfélagar hans frömdu með því að setja upp tvær hápólitískar útvarpsstöðvar í verkfallinu og sat hjá við atkvæðagreiðslu útvarps- ráðs um stutta fréttatíma í útvarp- inu, augljóslega í þeim tilgangi að skapa lögbrjótunum hallkvæmari aðstöðu. Kóróna ósvífninnar birt- ist svo, þegar nýskipaður útvarps- stjóri telur embættisveitinguna ópólitíska og álítur sjálfan sig „hiklaust" jafnhæfan öðrum um- sækjendum. Ætli því séu engin takmörk sett, hve pólitík getur gert menn snarblinda? Og skyldu starfsmenn Ríkisútvarpsins kyngja því hikstalaust að fá þvílík- an yfirboðara? Eftir þessa útúrdúra, sem reynd- ar eru tengdir fyrirsögn á pistli landsbókavarðar, er rétt að snúa sér beint að efni hans. Af einhverj- um óskilgreindum orsökum lætur landsbókavörður sér sjást yfir, að ég var fyrst og fremst að gagnrýna fjárveitingavaldið fyrir alls ónóg fjárframlög til tveggja höfuðbóka- safna þjóðarinnar, sem þarafleið- andi búa við ömurlega rýran er- lendan bókakost og húsnæði sem löngu er orðið ófullnægjandi fyrir eðlilega starfsemi þessara safna. Ég átaldi sömuleiðis þann dæmi- gerða opinbera tvískinnung að færa þjóðinni í stórafmælisgjöf svonefnda þjóðarbókhlöðu fyrir heilum áratug, en skera síðan fjár- framlög til hennar svo við nögl, að enginn veit hvenær byggingin kemst í gagnið — kannski ekki fyrren um næstu aldamót. Ég tók skýrt fram að margt það sem að- finnsluvert væri við rekstur bóka- safnanna mætti rekja til sinnuleys- is og vanrækslu íslenskra ráða- manna, sem eru flestir hverjir lygilega gleymnir á gildi íslenskr- ar bókmenningar nema helst á há- tíðis- og tyllidögum þegar skreyta þarf innihaldslausar ræður með ívitnunum í löngu liðna skáld- mæringa. Ég minnist þess hins- vegar ekki að hafa heyrt margt frá landsbókaverði á opinberum vett- vangi um það ófremdarástand sem þjóðbókasöfnin búa við, og stendur þó engum nær en honum að vekja þjóðina og ráðamenn hennar til vitundar um vanda sem brýnt er að leysa í snarhasti. Ekki hefur heyrst eitt einasta æðruorð frá honum í garð þess alræmda fjármálaráðherra, sem með nýrri skattheimtu hefur enn þrengt kosti íslenskra bókasafna, einsog bágindi þeirra væru ekki nógu átakanleg fyrir. Nei, svívirðunni er tekið með þegjandi þögn og þolinmæði einsog fyrri daginn. Landsbókavörður skýtuí heldur betur framhjá markinu þegar hann fer að telja upp skrár sem gerðar hafa verið um íslensk og erlend rit ásamt efni tímarita. Mér var vel kunnugt um þessar skrár og tel þær allar góðra gjalda verð- ar. Þó þakkarverð sé, er skrá yfir efni tímarita reyndar ekki það þjóðþrifaverk sem virðast mætti, þareð þau birta öll ársyfirlit yfir efni sitt og því hægurinn hjá að finna það sem að er leitað. Ég vék ekki einu orði að þessum efnum, heldur gagnrýndi það sleifarlag, að ekki skuli vera búið að ganga frá og birta skrá yfir greinar í dag- blödum síðustu áratuga. Efni dag- blaða er einmitt það sem erfiðast ' er að henda reiður á, og því hefði það verkefni átt að hafa algeran forgang umfram tímaritin af fyrr- greindum ástæðum. Landsbókavörður sakar mig um rangfærslur og svívirðingar. Með leyfi að spyrja, í hverju voru þær fólgnar? Varla í þeirri staðhæf- ingu að Þórhallur Þorgilsson hafi unnið að skráningu á efni blaða og tímarita. Það gerði hann vissu- lega, en á þrengri vettvangi en ég nefndi í grein minni. Ég tel á eng- an hallað þó haldið sé á loft elju hans og afköstum. Sú staðhæfing, að íslensk bókasöfn séu svo fá- tæklega búin að erlendum ritum, að nánast sé ógerningur að stunda alvarleg fræði- og vísindastörf hérlendis í nokkurri grein annarri en íslenskum fræðum, stendur óhögguð, hvað sem líður hneyksl- un landsbókavarðar. Þar hef ég fyrir mér ummæli margra vísinda- og fræðimanna sem orðið hafa að leita útfyrir landsteinana til að sinna hugðarefnum sínum. Ég skal reyndar ekki fortaka að á síð- ustu árum sé orðið kleift að stunda jarðfræðivísindi hér á landi, en það er þá nýtilkomið. Hitt væri einkar fróðlegt að fá vitneskju um, hvaða fræði- og vísindagreinar verði stundaðar hér að gagni með þeim bókakosti sem tiltækur er. Landsbókavörður telur mig fara með staðlausa stafi þegar ég held því fram að megnið af þeim bók- um, sem geymdar eru í kössum í kjallara, á háalofti og í geymslum útí bæ, sé óskipulagt og óskrásett. Óskandi að satt væri. Sé sá ótil- kvæmi bókakostur skipulagður og skrásettur, gengur það satt að segja kraftaverki næst, þegar hlið- sjón er höfð af því sem fram kem- ur í spjaldskrá safnsins. Afþví það var handhægast, tók ég dæmi af sjálfum mér. Á liðnum þremur áratugum hafa komið frá minni hendi 35 bækur, frumsamdar og þýddar. Af þeim eru einungis 14 á spjaldskrá safnsins eða talsvert innanvið helming. Þar vantar ekki einungis nálega allar bækur frá síðustu tveimur áratugum, heldur einnig bækur sem ég þýddi fyrir rúmum þrjátíu árum. Nú hvarflar ekki að mér, að hér sé um hreina undantekningu að ræða, og hlýt því að draga þá nærtæku ályktun, að mikið vanti á viðunandi skipu- lag og skrásetningu safnsins í heild. Þegar sögunni víkur að fagur- bókmenntum þessarar aldar á frummálum, blasir við örbirgð sem fáa mun óra fyrir, hafi þeir ekki kynnt sér spjaldskrána. Ég valdi af handahófi fáeina heims- þekkta höfunda, flesta þeírra nób- elsskáld, til að kanna ástandið. Skáldjöfurinn James Joyce samdi fjögur tímamótaverk í heimsbók- menntunum; tvö þeirra, Dubliners og Finnegans Wake, er ekki að finna í spjaldskránni. Nóbelsskáld- ið Odysseas Elytis á þar enga bók, Canetti aðeins eina um bréf Kafka til Felice, Böll fjórar á frummálinu og sex á norðurlandamálum, Bel- low tvær (önnur er ferðabók), Andric tvær í enskri þýðingu og tvær á norðurlandamálum, Faulkner þrjár á frummálinu, Mi- losz eina á ensku og fimm á norð- urlandamálum, Bunin tvær í enskri þýðingu, Camus tvær í enskri þýðingu og sex á norður- landamálum (enga á frönsku), að ekki sé minnst á skáld einsog Georges Bernanos sem ekki kemst á blað. Þennan lista mætti lengja næstum í það óendanlega. Það sem fyrst stingur í augu er, að nálega allir höfundar, sem ekki skrifa á ensku eða þýsku, eru kynntir okkur á norðurlandamál- um. Eina undantekningin sem ég sá var Sjolokhov, sem til er á rússn- esku auk þýðinga á dönsku, sænsku og þýsku, og svo nokkur eldri frönsk skáld, einsog Marcel Proust og Paul Claudel, sem til eru í talsverðu magni á frummálinu, og þykist ég þar kenna fingraför Þórhalls Þorgilssonar. Ef það sem hér er stuttlega rakið vitnar ekki um fullkomið handahófsval, þá veit ég ekki hvenær það hugtak á fremur við. Nesjamennskan sem lýsir sér í þessum bókakosti Landsbóka- safns er svo yfirgengileg, að ég tel mig síst hafa orðum aukið þá bókmenntalegu örbirgð sem bókaþjóðin margrómaða býr við. Nú má vera að Háskólabókasafn sé betur birgt að fagurbókmennt- um, þó ég dragi það stórlega í efa, þareð það er fyrst og fremst fræði- bókasafn, en þó svo væri, þá er það lítil málsbót og dregur í engu úr þeirri hneisu, að höfuðbóka- safn þjóðarinnar skuli ekki eiga stórmeistara heimsbókmennt- anna á frummálum og aðeins lítið brot af verkum sumra þeirra á öðrum tungum. í bókasafni smá- bæjarins lowa City, sem ég nefndi í fyrri pistli, var allstórt safn ís- lenskra bóka, einnig nútímabók- mennta, og má þá nærri geta um bækur á tungum stærri þjóða. Það er nokkuð einkennandi fyrir við- brögð mörlandans við réttmætri gagnrýni, að landsbókavörður hvetur mig til að hverfa aftur til Iowa City, úrþví ég sé óánægður með ástandið heimafyrir. Væri ekki mennilegra að kannast við ófremdina og reyna að berja í brestina? Það var hvorki hótfyndni né mannvonska sem rak mig til að gagnrýna afgreiðslu í Landsbóka- safni, heldur eigin reynsla og margfaldar kvartanir kunningja, ekki síst skólafólks, sem forðast safnið einsog heitan eld vegna stirfni sumra sem þar ráða húsum. Ég geri mér Ijósa grein fyrir því, að erfið eða óviðunandi starfsað- staða á drjúgan þátt í önugiyndi og seinlæti starfsfólks, en tel illa farið þegar fróðleiksfúst ungt fólk er beinlínis fælt frá þeim bókum sem þó eru fyrir hendi. Til marks um hörmungar- ástandið sem ríkir hjá báðum þjóðbókasöfnum Islendinga má kannski í lokin geta þess, að ég á allstórt safn grískra bóka, sem hvergi eru annarstaðar til í land- inu, og bauðst til að gefa það Há- skólabókasafni, ef verða mætti stúdentum og fræðimönnum í grískri tungu og menningu til fróð- leiksauka, en háskólabókavörður sá sig tilneyddan að afþakka boð- ið þareð hvergi væri viðunandi húsrými fyrir slíkt safn og ekki í annað hús að venda en lokaðar kjallarageymslur þarsem bæk- urnar væru verr komnar en í heimahúsum. Ég tek að endingu hjartanlega undir þau orð lands- bókavarðar, að bókmenntaskrá- : in, sem Einar Sigurðsson háskóla- bókavörður hefur tekið saman ár- lega síðan 1968 og kemur út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi, er ómetanleg heimild um bók- menntaskrif í landinu á liðnum ár- um, en af eðlilegum ástæðum bætir hún ekki úr tilfinnanlegum skorti á yfirliti yfir almennar greinar í dagblöðum á liðnum ára- tugum. Gífuryrði landsbókavarð- ar í minn garð geta góðfúsir ies- endur haft til hliðsjónar því sem rakið hefur verið hér að framan. HELG ARPÓSTU Rl N N 23

x

Helgarpósturinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.