Helgarpósturinn - 27.11.1986, Blaðsíða 43

Helgarpósturinn - 27.11.1986, Blaðsíða 43
VAXANDI HÚMANÍSKUR ÁHUGI Sigurdur Svavarsson íslenskukennari sem jafnframt hefur starfað mikið með nemendum í félagslífinu síðastliðinn áratug er með það á hreinu að ýmsar viðhorfs- breytingar hafi átt sér stað meðal nemenda á allra síðustu árum, sem hann telur tví- mælalaust til hins betra. I fyrsta lagi segir hann alveg greinilegt að það viðhorf að bókmenntir og öll önnur tungumál en enska séu ópraktísk sé mjög á undanhaldi, og að áhugi á húmanískum greinum fari að sama skapi mjög vaxandi. Margir nemendur séu orðnir mjög vel að sér í bókmenntum, leik- húsi og kvikmyndum þegar um sautján, átján ára aldur. En auðvitað velji sumir allt aðra leið, hafi þá t.d. mestan áhuga á tölvum. „Mér finnst líka mikill munur á að um- gangast framhaldsskólanema í dag heldur en fyrir fjórum, fimm árum hvað það varðar að þessi hrikalega svartsýni sem talsvert var dekrað við er óðum að hverfa," segir Sigurður. „Nú eru nemendur miklu ákveðnari í því að gera það besta úr því sem framtíðin ber í skauti sér. Fyrir nokkrum árum var vonleysi mjög áberandi, mörgum þótti ástandið í húsnæðis- og atvinnumálum, svo ég tali nú ekki um víg- búnaðarmálum, svo dökkt að þeir veltu því hreinlega fyrir sér hvort ekki væri einfaldast að leggja árar í bát, þeir fengju hvort sem er engu ráðið um framtíðina. Nú hafa krakkarnir aftur öðlast trú á að frammistaða þeirra í jarðlífinu, ábyrgð hvers og eins, hafi eitthvað að segja. Af þeim sökum finnst mér réttlætanlegt að fara að tala um ’86 kynslóð. Henni finnst skipta máli að spá í ástandið og trúir því »ð hún geti lagt eitthvað af mörkum til að breyta því og bæta.“ Sigurður segir að nú í ár hafi í fyrsta sinn í áraraðir farið fram einhver heildstæð skólamálaumræða meðal nemenda í þá veru, að skólinn sé ekki bara úrelt afgreiðslustofnun heldur stofnun sem hugsanlega sé hægt að þróa eitthvað áfram. Nemendur séu jafnvel farnir að veita kennurum meira aðhald á svipaðan hátt og nemendur tóku upp á í kringum 1970. MARGT '86 RÍMAR VIÐ '68 „Þetta rímar allt mjög vel við það sem var að gerast fyrir tæpum tuttugu árum. Því held ég að óhætt sé að fullyrða að uppeldi '68 kynslóðarinnar sé farið að skila mjög jákvæðum árangri," segir Sigurður. „Annað sem rökstyður þessa skoðun mína er það að þegar maður var að tala við nemendur sína um '68 kynslóðina fyrir þremur, fjórum árum t.d. í sambandi við verk Péturs Gunnarssonar þurfti maður að setja sig í sögukennarastellingar," heldur Sigurður Svavarsson áfram. „Þau kannski rámaði í að hafa heyrt á þetta minnst eins og hvert annað fjarlægt skeið í sögunni, eins og til dæmis kreppuárin, en margir komu af fjöllum. Eftir að börn '68 kynslóðarinnar fóru að koma inn í skólann hefur þetta breyst. Ég held að trú krakkanna á að það sé hugsanlega hægt að breyta einhverju megi sumpart skýra með því að foreldrar þeirra hafa frætt þau um þetta tímabil og sýnt þeim fram á að ýmsu hafi verið hægt að breyta þrátt fyrir allt.“ Um pólitískan áhuga nemenda finnst Sigurði ekki rétt að tala alfarið um pólitíska deyfð, fremur að þeir einskorði sig ekki við hægri og vinstri pólitík. „Mér finnst húmanísk róttækni vera orðin mjög áberandi," segir hann. „Allflestir nemendur eru nokkurn veginn sammála um hvaða afstöðu eigi að taka í vígbúnaðar- og mengunarmálum en það eru mál sem upp- haflega tengdust vinstri hreyfingunni. En margir nemendanna hafna hinni hefð- bundnu flokkspólitísku skiptingu, finnst hún hafa komið fáu góðu til leiðar. Þau neita t.d. alfarið að tala um afvopnunarmál út frá austri og vestri, vinstri og hægri heldur reyna að gera það á húmanískum grunni." Þá tekur Sigurður undir þá skoðun Guðrúnar Hannesdóttur að skilin milli nemenda hvað varðar menntun foreldra hafi mjög skerpst. Áhugi á ljóðagerð hafi t.d. aukist mjög undanfarin ár, margir nemend- anna séu ljóðaneytendur áður en kennarar fara að halda þessu að þeim. AUKIN BJARTSÝNI OG LÍFSGLEÐI „En það sem mér finnst ánægjulegast við þessa þróun er að maður skuli finna fyrir nýrri bjartsýni og lífsgleði í hópi nemenda, tiltrú á lífið," segir Sigurður Svavarsson. „Svartagallsrausið var búið að ganga svo lengi að fólk er farið að sjá að tilveran getur hreinlega ekki verið svo svört. Ef einhverjir bjarga skólakerfinu á næstunni þá verða það örugglega nemendur, en hvorki vinnu- lúnir kennarar né núverandi menntamála- yfirvöld, svo mikið er víst.“ Skoðanir Sigurðar hlutu víða hljómgrunn hjá samkennurum hans, þar á meðal Wincie Jóhannsdóttur enskukennara. Hún vildi einungis bæta við að þau tækju ekkert sem gefið og væru ekkert endilega í því að til- einka sér gildismat þeirra sem eldri væru og vissulega pirraði það suma kennarana eins og gengur. „Almennt finnst mér þetta ofsalega fínir krakkar," segir Wincie. „Stundum finnst mér þau þó eiga erfitt með að skilja á milli þess sem skiptir máli og þess sem ekki skiptir máli og eiga þá til að berjast fyrir fárán- legustu hlutum í félagslífinu. Þá dettur mér í hug eftirfarandi vísa eftir pabba (Jóhann Hannesson): Ómar um firdi og fjöll köll hinna komandi tída. Hvar á ad hpsla sér völl? Þetta eru ósköpin öll sem ekki er vid að strída." Þá leituðum við álits Gudrúnar Helga- dóttur alþingismanns sem hefur verið með fullt hús af börnum og síðar unglingum síðastliðna áratugi, sín eigin afkvæmi og vini þeirra. En Guðrún á fjögur börn, elsti sonurinn er floginn út í heim en síðan á hún tvítugan son við háskólanám, átján ára dóttur í MR og aðra sextán ára í MH. Bæði er að heimili Guðrúnar hefur verið nokkurs konar félagsmiðstöð unglinga og svo er hitt að í bókum sínum hefur hún borið saman uppvaxtarkjör barna og unglinga nú á tímum og þegar hún sjálf var að alast upp. Af öllu þessu leiðir að hún er kjörinn álits- gjafi í grein á borð við þessa. • MEÐVITAÐRI OG STERKARI UNGLINGAR „Ég held að börnin mín og félagar þeirra séu miklu meðvitaðri um sig sjálf og heiminn í kringum sig en ég og mínir jafn- aldrar vorum á þeirra aldri," segir Guðrún. „Ekki síst vegna þess að þessir krakkar hafa komist í miklu meiri lífsháska heldur en við gerðum og gera sér þar af leiðandi betri grein fyrir hver ábyrgð þeirra er í veröldinni. Þó að þau hafi í raun og veru gengið í gegnum þjóðfélagsbyltingu frá því að við höfðum mömmu heima sem hugsaði um okkur, þá hafa þessi börn hvorki haft mömmu né pabba heima við og orðið meira og minna að sjá um sig sjálf. í mínum kunningjahópi er launastaðan a.m.k. þannig að fólk verður að vinna alltof langan vinnu- dag, en þrátt fyrir allt þá reynir þetta fólk að vera meira með börnunum sínum þegar og þá sjaldan það hefur tíma til þess. Að sumu leyti finnst mér þessir krakkar bara miklu sterkari. Ég held að þau geti axlað ýmislegt sem við hefðum ekki á nokkurn hátt verið fær um.“ Þá telur Guðrún að skólakerfið hafi batnað til mikilla muna, að alrangt sé að halda því fram að það geri minni kröfur í dag en áður. „Ég held reyndar að innst í brjósti unglinganna í dag búi ótti en mér finnst ein- hvern veginn að þau séu raunverulega til- búin til að takast á við hann og reyndar að koma í veg fyrir það sem við óttumst öll,“ heldur Guðrún áfram. „Og mér virðist að ótrúlega stór hópur sé lítt ginnkeyptur fyrir frjálshyggju og lífsgæðakapphlaupi." Guðrún viðurkennir að hún sé ein af þeim lúxusverum sem hafi losnað við unglinga- vandamálið ef svo má segja, allar þær hremmingar sem sumir unglingar óneitan- lega komast í. Hún játar hreinskilnislega að hún hafi ekki gert tilraun til að ala börnin sín upp, hafi ekki haft nokkurn minnsta tíma til þess, og henni finnst sem þau hafi alið sig upp sjálf. „En kannski umgöngumst við börnin okkar á dálítið meiri jafnréttisforsendum heldur en áður var gert,“ segir hún. „Ég held að börn og foreldrar reyni að standa saman í baslinu, að samband barna og foreldra hafi normalíserast, að við þrátt fyrir alla vinnuna og streðið séum að sumu leyti nær þessum krökkum sem manneskjur." Þá tekur Guðrún Helgadóttir undir þá skoðun Winciar Jóhannsdóttur að fram- haldsskólaæskan í dag taki ekkert sem sjálf- gefið enda sé þetta t.a.m. hjónaskilnaðar- kynslóðin. En unglingarnir hafi virkilega reynt að axla vandamál foreldranna og jafn- framt lært að umgangast þá sem tvær jafn- réttháar manneskjur, eigi orð yfir fleiri hluti en fyrri kynslóðir. Orð séu til alls fyrst. „Það kann að vera ofurbjartsýni en ég held ekki að það sé kynslóð unglinganna sem er hættuleg heldur við sem eldri erum. Og einasta von okkar er að þau hafi vit fyrir okkur,“ sagði Guðrún Helgadóttir alþingis- maður að lokum. Við höllumst að því að enda umfjöllunina á þessari ofurbjartsýni í þeirri von að '68 byltingin hafi ekki étið börnin sín heldur hafi orðið þeim til blessunar .. . HELGARPÓSTURINN 43

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.