Helgarpósturinn - 20.08.1987, Blaðsíða 30

Helgarpósturinn - 20.08.1987, Blaðsíða 30
Staða Þjóðhagsstofnunar hefur breyst nokkuð að undanförnu. Þess gætir nú í vaxandi mæli að menn gagnrýni hana fyrir óhóflega þjónkun við stjórnvöld. Ráðning Þórðar Friðjónssonar í embætti forstjóra stofnunarinnar hefur vafalítið verið sá dropi sem fyllti mælinn í þessum efnum. Gagnrýni á Þjóðhagsstofnun á sér þó lengri aðdraganda en svo að rekja megi hana til ráðningar Þórðar Friðjónssonar, hins pólitíska aðstoðarmanns fráfarandi ríkisstjórnar. Að hluta til má rekja þessa gagnrýni til þeirra tauga sem fyrrverandi forstjóri, Jón Sigurðsson, hafði til Alþýðu- flokksins. Á síðasta áratug reyndi Alþýðu- flokkurinn ítrekað að fá Jón í framboð og hafa þær þreifingar vafalaust átt ríkan þátt í þeirri tortryggni sem ýmsir hafa borið í garð Þjóðhagsstofnunar. Þjóðhagsstofnun er þannig uppbyggð að nærri óhjákvæmilegt er að störf hennar séu tortryggð. Jafnhliða því að vera hlutlaus vísindastofnun er henni ætlað að vera ráðgefandi um efnahagsmál. Stofnuninni er með öðrum orðum ætlað að leggja á ráðin um efnahagsaðgerðir og meta síðan áhrif þessara sömu aðgerða. Þetta ráðgjaf- arhlutverk getur augljóslega valdið hags- munaárekstrum og rýrir það vitaskuld traust manna á stofnuninni. Til viðbótar þessum innbyggða vanda hefur hróður Þjóðhagsstofnunar, eins og raunar flestra vinnustaða, talsvert verið háður þeim starfsmönnum sem hún hefur haft í sinni þjónustu. Breytingar á starfsliði síðustu misserin hafa síst verið til þess fallnar að auka veg stofnunarinnar. Margir lykilmenn hafa horfið til annarra starfa. Olafur Davíðsson fór til Félags íslenskra iðnrekenda þar sem hann gegnir nú starfi framkvæmdastjóra. Hallgrímur Snorrason hvarf fyrir nokkru frá stofnuninni til að taka við stöðu Hagstofustjóra. Sigurður B. Stefánsson er kominn til Iðnaðarbankans og „Eins og útlitið er í dag þarf talsvert átak að koma til ef Þjóðhags- stofnun ætlar að endur- vinna það álit og traust sem hún áður hafði.“ Þjóðhagsstofnun í vanda Ólafur ísleifsson orðinn efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Við brottför þessara manna hefur nú bæst að Bolli Þór Bollason, aðstoðarforstjóri Þjóðhagsstofnunar, hefur verið ráðinn til starfa í fjármálaráðuneytinu þar sem hann mun vinna að hagrannsóknum og áætlanagerð varðandi ríkisbúskapinn. Auk þess að missa Bolla munar stofnunina auð- vitað mest um brottför sjálfs forstjórans, Jóns Sigurðssonar, sem borið hefur hitann og þungann af þeim áætlunum og spám sem Þjóðhagsstofnun hefur gert frá upphafi. Hér er ekki einungis um það að ræða að mjög hæfir hagfræðingar hverfa frá stofn- uninni, heldur einnig það að þessir menn, einkum þó þeir Bolli og Jón, hafa á löngum tíma þróað það verklag sem unnið er eftir og með þeim hverfur mikil reynsla og þekking. Til að skilja áhrif þessa er nauðsynlegt að líta til þess ’ að innan Þjóðhagsstofnunar hafa hinar raunverulegu þjóðhagsspár og áætlanir verið unnar á borðum þriggja til fjögurra hagfræðinga og í þeirri vinnu hefur langmest mætt á þeim Jóni og Bolla. Hér er um nokkuð flókna vinnu að ræða sem talsverðan tíma þarf til að setja sig inn í. Samkvæmt heimildum Helgarpóstsins mun það í dag einungis vera á færi tveggja hagfræðinga innan Þjóðhagsstofnunar að ganga í þessi verk af einhverju viti. Þessir hagfræðingar munu vera þau Maríanna Jónasdóttir og Birgir Árnason sem bæði hafa starfað náið með Jóni og Bolla og aðstoðað þá við þjóðhagsáætlanir og spár. Hinn nýráðni forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Þórður Friðjónsson, hefur samkvæmt heimildum HP tamið sér nokkuð annan starfsstíl en fyrirrennari hans, Jón Sigurðs- son. Það sem mestu máli skiptir í þeim efnum er að hann hefur ekki tekið eins virkan þátt í hinu daglega amstri. Sam- kvæmt heimildum HP munar hér mest um að Þórður hefur ekki þá yfirsýn sem forveri hans hafði og hefur auk þess ekki kunnáttu til að vinna þjóðhagsspár af sambærilegum gæðum. Auk þess sem stofnunin hefur sett ofan í fræðunum er ljóst að Þórður Friðjónsson er fjarri því að njóta þess trausts sem Jón Sigurðsson þrátt fyrir allt naut í sínu starfi. í viðtölum um stöðu og þróun efnahagsmála hefur hinn nýráðni forstjóri Þjóðhags- stofnunar birst almenningi frekar eins og blaðafulltrúi ríkisstjórnar en óháður fræði- maður. Strax í einu fyrsta viðtalinu sem við hann var haft í byrjun ársins skellti hann skollaeyrum við áhyggjum manna af vaxandi verðbólgu — benti fréttamanni bara á að ríkisstjórn hefði ýmis ráð til að koma verðbólgunni niður í eins stafs tölu á þessu ári. Traustið á hinu pólitíska yfirvaldi bar fræðimennskuna ofurliði. Þessarar tilhneigingar hefur áfram gætt í þau skipti sem Þórður hefur tjáð sig um ástand og horfur í efnahagsmálum. Ljóst virðist að einhver uppstokkun mun eiga sér stað á næstunni innan Þjóðhags- stofnunar. Það mun að verulegu leyti vera undir því komið hvernig til tekst um hana hvort um áframhaldandi flótta frá stofnun- inni verður að ræða. Fyrir dyrum stendur að taka afstöðu til ráðningar nýs aðstoðar- forstjóra í stað Bolla Þórs Bollasonar. Þrír starfsmenn stofnunarinnar þykja öðrum fremur líklegir til að taka við af Bolla. Þessir starfsmenn eru Maríanna Jónasdóttir, Birgir Árnason og Sigurður Snævarr. Eins og útlitið er í dag þarf talsvert átak að koma til ef Þjóðhagsstofnun ætlar að endurvinna það álit sem hún áður hafði. Til viðbótar við þau atriði sem hér hafa verið rakin þarf stofnunin að horfast í augu við þá erfiðleika sem hin neikvæða umræða ein og sér hefur valdið henni. Hér er til dæmis átt við umræðu á borð við þá sem fram fór á Alþingi í kjölfar framboðs Jóns Sigurðssonar. Þótt sú gagnrýni sem þar var fram sett hafi fyrst og fremst stjórnast af flokkspólitískum skapofsa er ljóst að hún hefur síst verið til að sporna við vanda Þjóðhagsstofnunar. ERLEND YFIRSYN New York Times sakar Weinberger um að bera ábyrgð á sukki og óstjórn í Pentagon. B-l-sprengjuflugvélin varð örverpi í stað tækniundurs Ný saga af bruðli og mistökum er að bæt- ast í hrakfallabálk Pentagon, landvarnaráðu- neytis Bandaríkjanna. Ofan á loftvarna- byssu, sem lét flugvélar í friði en skaut á næstu loftviftu, 1200 dollara kaffikönnur og 600 dollara salernissetur, bætist nú hátækni- sprengjuflugvélin B-l. Hún var smíðuð til að vera ein löppin undir þrífæti langdrægra kjarnorkuvopnakerfa Bandaríkjanna, ásamt eídflaugum og kjarnorkukafbátum. Frá því 1984 hafa 54 flugvélar af gerðinni B-1 komið af færibandinu, og frágengnum er þeim safnað saman í flugstöðinni Dyess í Texas. Þegar Molly Moore, fréttamaður Washington Post, kom þar nýverið, var að- eins ein vél af þessum flugflota talin hæf til að vera í viðbragðsstöðu. Hinar voru allar í lamasessi. Áhafnir sitja í hermum á jörðu niðri og æfa sig á rafeindakerfi til sjálfvirkrar flugstjórnar og varna, en í vélunum eru þessi kerfi enn ónothæf, og yfirstjórn flughersins treystir sér ekki til að gefa nein fyrirheit um hvort né þá hvenær flugflotinn komist í gagnið. Saga B-l-sprengjuflugvélarinnar er orðin löng og afspyrnu pólitísk. Upphaflega var smíði vélanna ákveðin í stjórnartíð repúblík- ana. Forseti úr röðum demókrata ákvað að hætta við smíðina. Ronald Reagan gerði það svo eitt af fyrstu verkefnum vígbúnaðaráætl- unar sinnar að endurvekja B-l. Vélin átti að vera sniðin til að ráðast með kjarnorkuvopn- um á þýðingarmikil og torsótt skotmörk langt inni í Sovétríkjunum og laumast að marki. Hún skyldi fljúga lágt eftir landslagi og smjúga þannig eftir föngum undir ratsjár- geisla Sovétmanna. Sjálfvirk stýrikerfi skyldu gera henni fært að sneiða hjá fjöllum án þess viðbrögð flugmanns þyrftu til að koma. Sömuleiðis átti sjálfvirkt varnarkerfi að villa um fyrir sovéskum loftvarnakerfum og verjast skeytum frá þeim án atbeina áhafnar. Endurskoðunarstofnun Bandaríkjaþings, General Accounting Office, hefur nú kveðið upp úr með, að þessi kerfi rafeindatækja hafi reynst svo göliuð, að borin von sé að B-l-vél- arnar geti gegnt tilætluðu hlutverki. „Vera má að þetta sé besta flugvél sem nokkru sinni hefur verið smíðuð," segir Frank L. Conahan, yfirmaður þjóðaröryggisdeildar GAO, „meinið er bara að hún dugir ekki til að vinna sitt verk í hernaði." Tölvur og rafeindaskynjarar, tengd saman um 108 svarta kassa, voru til þess ætluð að vara við hvers kyns árásum, mæta þeim sjálf- virkt og trufla sovéska loftvarna- og leitar- kerfið. Margir hverjir kassanna störfuðu út af fyrir sig eins og þeir áttu að gera, en þegar skynjunar- og varnarkerfið, sem vegur til samans hálft þriðja tonn, hafði verið tengt saman í eina heild, fór allt á ringulreið. Forrit sumra svörtu kassanna voru ósamþýðanleg þeim sem aðrir voru búnir. Verst var að trufl- unarbúnaðurinn reyndist ekki einungis ófær að villa um fyrir sovéska loftvarnakerfinu, hann reyndist starfa eins og viti, sem beina hlyti sovéskum ratsjárgeisla beint að hverri B-l-vél og gera hana að auðveldu skotmarki. Endurskoðunarstofnun þingsins komst að raun um að B-l-vélin er ófær um að fljúga svo nærri yfirborði jarðar sem hún verður að gera til að vera eins skætt vopn og til var ætl- ast. Truflunartækin á varnarkerfi óvinar eru ónothæf. Flugstjórnartæki bila þráfalt. Galli á hlerum fyrir sprengjulest veldur því að ekki er unnt að stýra sprengjum í mark. Tölvukerfi til að vara við sliti eða bilunum gefur svo títt röng merki, að flugliðar geta með engu móti treyst því. Hver þeirra 54 B-l-véla sem smíðaðar hafa verið kostar 280 milljónir dollara, eða allar til samans rúma 15 milljarða. Þetta er bók- fært verð hjá flughernum, í samræmi við strangar kostnaðarhömlur sem þingið setti, þegar það féllst á tillögu Reagans að taka aft- ur til við smíði B-l. Vélarnar skyldu verða 100 talsins og máttu kosta til samans 20,5 milljarða á verðlagi ársins 1982. Yfirmenn flughersins féllust á hvað sem þingið áskildi til að fá nýja, langdræga sprengjuflugvél, og kærðu sig kollótta þótt fagþekking hefði átt að segja þeim, að sumt væri þar ekki fram- kvæmanlegt innan settra kostnaðar- og tímamarka. GAO hefur komist að raun um, að innkaupastjórn flughersins gerði sér frá öndverðu far um að fela háa kostnaðarliði við B-1 á öðrum fjárlagaliðum. „Milljörðum dollara var varið til smíði B-1 en komið fyrir á öðrum liðum," segir í skýrslu endurskoðun- armanna. Verstar urðu þó afleiðingarnar af því, hvernig stjórn flughersins þóttist ætla að uppfylla skilmála þingsins um að fyrstu B-l- vélarnar skyldu komnar í gagnið árið 1986 og allar 100 árið 1988. Til að látasvosem við þetta yrði staðið, lét flugherinn Rockwell International Co. hefja smíði flugvélaskrokk- anna jafnframt því sem enn var unnið að þró- un og frumsmíði tækjanna, sem í skrokkana skyldu fara. Því vannst ekkert ráðrúm til að reyna tækjabúnaðinn með eðlilegum hætti. Afleiðingin er floti kjarnorkusprengjuflug- véla, sem enginn veit hvenær unnt verður að taka í notkun. í júní í sumar var farið með B-l-flugvél á flugsýninguna miklu í París. Þegar áhöfnin ætlaði að leggja af stað heim til Bandaríkj- anna að sýningunni afstaðinni, fóru hreyfl- arnir ekki í gang. Ræsir reyndist óvirkur. Eft- ir dags seinkun komst B-l-vélin frá París með eftir Magnús Torfa Ólafsson, því móti að gefa hreyflunum straum frá 230 volta rafli, sem bandaríski flugherinn ók á bíl að hlið flugvélarinnar til að komast heim með sýningargrip sinn. Les Aspin, formaður hermálanefndar full- trúadeildar Bandaríkjaþings, tekur B-l- sprengjuflugvélina sem dæmi um óreiðu þá og axarsköft, sem einkenni vígbúnaðaráætl- un Reagans. „Þrífóturinn er ekki svo traustur sem af er látið,“ segir Aspin. Nefnd hans hef- ur dregið fram í dagsljósið vitneskju um að stýrikerfum sé stórlega áfátt, bæði í MX-eld- flauginni og Cruise-flugskeytinu. Þessi tvö eru nýjustu ómönnuðu kjarnorkuárásar- vopn Bandaríkjamanna. Starfsmenn hjá Northrop gerðu þingnefndinni viðvart, að vopnasmiðjan hefði sett í öll Cruise-flug- skeyti, sem afhent hafa verið, hæðarstýri- kerfi sem svo er áfátt að enginn getur sagt um hvar flaugarnar kunna að koma niður sé þeim skotið. Eitt vitnið komst svo að orði, að eins líklegt væri að skeytið lenti á Washing- ton og á Moskvu. Á forsetaferli sínum hefur Ronald Reagan tvöfaldað ríkisskuldir Bandaríkjanna. Sú billjón dollara, milljón milljónir, sem bæst hefur við skuldafúlguna nemur ámóta upp- hæð og kostnaðurinn af hervæðingaráætl- uninni, sem forsetinn stærir sig af að hafa hrundið í framkvæmd. Þær raddir gerast nú háværar, sem halda því fram að dæmi um bruðl og prjál hergreina, eins og það sem rakið hefur verið hér á undan, beri vott um að mikið af hervæðingarkostnaðinum hafi hreinlega farið í súginn. Því sést meira að segja haldið fram, að víg- búnaðurinn hafi verið framkvæmdur með þeim hætti, að viðbúnaður og þar með raun- hæfur hernaðarmáttur Bandaríkjanna á líð- andi stund, hafi veikst en ekki styrkst. í rit- stjórnargrein í lok maí í vor hélt New York Times þessu fram, og kenndi um Caspar Weinberger landvarnaráðherra. Sakaði blaðið hann um að láta hergreinar fara sínu fram, eyða of fjár í gagnslítil eða jafnvel gagnslaus pjatthergögn, þótt svo sóunin yrði til að mannafli, þjálfun, birgðasöfnun og ein- faldur en ómissandi vopnabúnaður sætu á hakanum. 30 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.