Helgarpósturinn - 17.12.1987, Blaðsíða 24

Helgarpósturinn - 17.12.1987, Blaðsíða 24
Þegar verkalýðshreyfingin var að skipuleggja sig fór Jón um allt land og alls staðar stjórnaði hann verk- föllum. Hann var Vestmanneyingur og var mikið þar og tengist þar afa mínum að því leyti að afi var sýslu- maður þar. Hann dæmdi Jón Rafns- son í fangelsi en þegar hann kom út átti hann hvergi höfði sínu að halla. Þá leigði afi honum herbergi í sýslu- mannsbústaðnum. íhaldinu líkaði þetta illa og taldi að eftirleiðis færu öll mál sem snertu embættið sam- dægurs til Moskvu. Helvíti hefði Jósef Stalín haft í mörgu að snúast ef hann hefði njósnað um sýslumanns- embættið í Vestmannaeyjum. Það eina sem okkur Jón greindi á um var djassinn. Ég hafði þá oft kynningar á Fylkingarloftinu á kvöldin og Jón kom nú stundum og hlustaði en þegar ég spilaði nútíma- legri djass sagði hann: Mér finnst alltaf eins og þeir séu að drepa lang- hund þegar þeir spila þessir menn. Jú, djassinn féll fullkomlega inn í mína pólitísku heimsmynd, því hann var skapaður af mönnum sem lifðu við verri kjör en aðrir og hluti af þeirra stéttabaráttu. Þess vegna var engin mótsögn í þvi að hlusta á amerískan djass og vera jafnframt kommúnisti. HUGSJÓNIR OG VONBRIGÐI Eftir að ég hætti í Menntaskólan- um á Akureyri ákvað ég að fara að læra til prentara sem hafði alltaf ver- ið draumur hjá mér. Prentarar voru í þá daga mikiir menningarmenn, lásu yfir handrit skálda og fleira. Hins vegar flosnaði ég upp úr því vegna þess að þegar til kom fékk ég ekkert að gera nema auglýsinga- ramma. Þá ákvað ég að fara í Kenn- araskólann, en það hafði líka verið hugsjón hjá mér að gerast kennari, og þaðan lauk ég prófi 1968. Þá var pólitísk barátta í hámarki og þá er ég ekki að tala um þessa íslensku ’68-kynslóð sem var á kafi í hassi og rugli. Pólitísk barátta á íslandi á þeim árum átti ekki rætur í franskri námsmannahreyfingu og ég hugsa að '68-postularnir hér hafi í besta falli séð Þorláksmessuslaginn til- sýndar. Þetta var hörð stéttaleg bar- átta í framhaldi af þeirri baráttu sem íslensk sósíalísk hreyfing hafði átt í. Nei, ég var alls ekki orðinn frá- hverfur Stalín þá. Við héldum upp á áttræðisafmæli hans með svakaleg- um glæsibrag. Við gáfum út Neista, en auðvitað var kominn klofningur í hreyfinguna þá. Trotskyistar og maóistar voru komnir til sögunnar og sjónarmiðin marglit innan Fylk- ingarinnar. Innrásin í Tékkóslóvakíu var eitt mesta áfali sem yfir mig hefur dun- ið. Þennan sama morgun vorum við að mála á einhver spjöld gegn ein- hverjum Natógeneráli sem var hér en þegar við heyrðum tiðindin breyttum við spjöldunum og fórum rakleiðis að sovéska sendiráðinu og mótmæltum. Fylkingin var eina hreyfingin sem mótmælti strax en svo komu hinir á eftir. Maður átti bágt með að hugsa sér þetta, að eitt sósíalískt ríki gæti ráðist inn í annað. Ég hef aldrei lent í öðru eins og að semja ræðuna sem ég átti að flytja fyrir framan tékkneska sendiráðið um kvöldið. Ég bara gat það ekki. Jónas Árnason og tékkneski sendi- herrann töluðu líka. Eina sem ég man úr þessari ræðu var það að maður óskaði þess að sprengju- flaugarnar sem sveimuðu yfir Tékkóslóvakíu væru komnar yfir Víetnam þar sem þeirra var þörf. Ég fékk slæman vírus þarna um vorið '68, lá marga mánuði í sjúkra- húsi. Ég varð fyrst var við þetta í Keflavíkurgöngunni og varð að vera í bíl meiripart úr leiðinni. Morgun- inn eftir vorum við búin að skipu- leggja mótmæli gegn ráðherrafundi Nató sem haldinn var hér. Maður varð auðvitað að mæta. Eins og frægt er orðið settumst við fyrir framan háskólann og sátum þar þangað til löggan kom og færði okk- ur burt. Flestir voru settir í Síðu- múlafangelsið, ég þar á meðal, en þegar mér var sleppt var ég orðinn fárveikur og fór beint í sjúkrahús. Þegar ég komst á fætur var hvergi hægt að fá kennslu nema í Þorláks- höfn. Þar var ég í tólf ár. Ég hef alltaf verið maður listarinn- ar en samt finnst mér það ekki vera neitt æðra form hennar að mála málverk eða skrifa góðan texta fremur en að grafa fallegan skurð eða flaka listilega fisk. Maður þekkir fjölmörg dæmi þess að verkamenn hafi gengist upp í verkum sínum og unnið þau af sannri list og ég held að menn eigi aldrei að vanmeta slíkt. Sjálfur hef ég aldrei gert annað en það sem mig hefur langað til. Ég kenndi af hugsjón, ég barðist fyrir sósialismanum af hugsjón, gaf út Lystræningjann af hugsjón, skrifa um djassinn af hugsjón. En það er líka undir hverjum og einum komið hvort þeir finna sér ekki vinnu sem þeir eru sáttir við. Allt sem þú gerir vel og af alúð er þín tjáning. Þegar ég kom til Þorlákshafnar byrjaði ég á að ganga í leikfélagið á staðnum og á þeim árum sem ég var þar settum við upp sýningu á hverj- um vetri og frumsýndum þrjú ís- lensk verk, tvö eftir félaga minn Þorstein Marelsson og eitt eftir Guð- mund Steinsson. Að auki hafði Lyst- ræninginn aðsetur sitt þar og ég held að Þorlákshöfn hafi þá verið með miklum menningarbrag. Enda lagði fólk sig allt fram í þágu þess, var áhugasamt og menn neituðu jafnvel kvöldvinnu á miklum síldar- haustum til að geta tekið þátt í upp- færslum. Jafnvel þó það þýddi út- skúfun og leiðindi, því enginn er vanur að gera slíkt í sjávarþorpum. Það-var gott að vera í Þorlákshöfn, þetta er lítið þorp stutt frá Reykjavík en samt svo órafjarri ef því er að skipta. En það kom að því að ég varð að flytja aftur, ég var formaður Jazzvakningar, gaf út tímarit Lyst- ræningjans og að auki vorum við með bókaútgáfu þannig að ég þurfti mikið að vera í Reykjavík. Ég fluttist í Breiðholtið, fór að kenna þar, ég vildi gjarna geta labb- að í vinnuna. Um leið beið ég minn fyrsta ósigur í kennslunni. Þannig er að ég hafði alltaf lesið mikið fyrir nemendur mína í Þorlákshöfn. Þar þótti það mikið ævintýri að hlusta á sögu eins og Bjargvættina í grasinu. Þetta gekk ekki hér í Breiðholtinu, ég varð að stytta söguna, fella úr henni og aðlaga. Margir krakkanna kunnu ekki að hlusta á sögu, enda hafði „vídeósón" ráðið hverfinu um árabii. Ég held reyndar að það sé eitthvað það mikilvægasta sem kennari getur gert, að lesa fyrir nemendur og láta þá skapa heiminn með sínu eigin ímyndunarafli, en þetta verður stöðugt erfiðara og erf- iðara. Þarna kemur aukin fjölmiðl- un, mötun, inn í myndina og mér finnst það blóðugt að horfa upp á að það skuli ekkert vera gert til að styðja við listræna sköpun á meðan öllum þessum fjölmiðlum er hellt yfir fólk. Ég held að þetta kunni ekki góðri lukku að stýra. LIONEL OG KISAN Stórkostlegasta djassheimsóknin sem ég hef skipulagt til íslands var þegar við fengum Lionel Hampton til að koma. Hann hafði auðvitað verið átrúnaðargoð mitt lengi og þegar ég bjó á Stórólfshvoli átti ég kött sem ég skírði Lionel Hampton. Ég sagði gamla manninum þessa sögu og honum þótti óskaplega vænt um að heyra það. Dexter Gordpn var auðvitað algjört æði líka. Ég var reyndar búinn að þekkja Dexter lengi þegar ég fékk hann til íslands. Annars er ég stundum spurður að því hvort það hafi ekki verið gaman að hitta þennan eða hinn en auðvitað er það upp og nið- ur. Þetta er bara mitt starf að ná í menn á flugvöllinn og sumir eru skemmtiiegir og aðrir leiðinlegir. Ég hef aldrei lagt mig eftir að tala við þessa menn neitt sérstaklega enda veit ég ekki um hvað ég ætti að tala við þá suma. En margir hafa vissu- lega verið ágætir og ég hef eignast ágæta kunningja í gegnum vinnu mína sem formaður Jazzvakningar, s.s. Niels Henning 0rsted Pedersen. Louis Armstrong og Duke Ellington hafa líka alltaf verið mín átrúnaðar- goð og mér tókst að ná að sjá þá báða spila áður en yfir lauk. SAMKENNDIN — Á NÝ Jú, vissulega er ég sósíalisti enn þann dag í dag þó ég sé ekki lengur aktífur í baráttunni og sé ekki í nein- um flokki. En það hefur auðvitað margt breyst á þessum árum sem liðið hafa. Maður hefur séð að Sov- étríkin voru ekki það sem þau áttu að vera og maður hélt að þau væru. Reyndar hef ég tvisvar komið þang- að. Fyrst upp úr 1960, þá seldi ég saxófón sem ég átti til að komast í ferðina, þannig að kommúnisminn var mikilsverðari en djassinn í þá daga. Seinna skiptið var 1967, en þá var mér boðið á Komsumolþing í til- efni fimmtíu ára afmælis byltingar- innar og var á æskulýðsfylkingar- þingi með Júrí Gagarin og fleiri góð- um mönnum. í þessum ferðum sá maður að kannski var eitthvað ekki alveg eins og það átti að vera. Eink- anlega það að ef ungliðarnir í flokknum hefðu verið Islendingar þá hefðu þeir flestir verið í Heim- dalli. Ég hef enn þá trú að fólk geti verið sæmilegt hvert við annað, þrátt fyrir að margt hafi gerst sem sýnir annað. Það er minn sósíalismi í dag. Maður upplifði þessa samkennd sterkt í BSRB-verkfallinu þegar þúsundir manna sameinuðust í að láta ekki troða á sér lengur heldur rísa upp og gera eitthvað. Allir voru tilbúnir að slást, við kennararnir í Breiðholts- skóla fórnuðum næstum lífinu við að stöðva það að Álafoss legðist að bryggju. Við stóðum undir land- ganginum en þeir létu hann vaða í hausinn á okkur. Það er það eina sem ég hef ekki getað fyrirgefið Svavari Gestssyni og féiögum í gegnum tíðina að Alþýðubandalag- ið skyldi ekki taka harða afstöðu með verkfallinu. En það var ekkert skrýtið að Gvendur jaki og ASÍ- gengið skyldu berjast gegn okkur. Stéttasamvinnan er þeirra líf...“ MEIRIABYRGÐ! 10.000 króna tékkaábyrgð, gegn framvísun bankakorts. •Jíírí‘*,Wl rjnmcAiumKK. 7I7& 9955-Í006 I2I053-5I9 JÓHÍKA JÓHAHHSÐðTTlR otioisúr Ot/89 Notkun bankakorta eykur öryggi allra í tékkaviðskiptum. Við ábyrgjumst tékka að upphæð allt að 10.000 krónum - sé banka- korti framvísað. Á bankakortinu eru tvö öryggisatriði sem þurfa nauðsynlega að koma heim og saman þegar tékki er innleystur, til þess að við- komandi banki eða sparisjóður ábyrgist hann: Meiri ábyrgð með bankakorti - því máttu treysta! < Q Q >- Alþýðubankinn, Búnaðarbankinn, Landsbankinn, Samvinnubankinn, Útvegsbankinn, Verzlunarbankinn og Sparisjóðirnir. 24 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.