Morgunblaðið - 03.12.1982, Side 28

Morgunblaðið - 03.12.1982, Side 28
28 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 3. DESEMBER 1982 Minning: Jóhanna Margrét Guðjónsdóttir Fædd 27. desember 1900 Dáin 24. nóvember 1982 Árið 1976 var tíð ólgeymanleg hér sunnanlands allt frá haustnóttum til jóla. Heiðbirta og stillur dag eftir dag — og sólin eldhaf milli fannhvítra fjalla. Þennan fagra vetur kynntist ég náið föðursystur konu minnar, Jó- hönnu Margréti Guðjónsdóttur sem lést hinn 24. nóvember síð- astliðinn á áttugasta og öðru ald- ursári og verður lögð til hinstu hvílu í Fossvogskirkjugarði í dag. Hún gætti bús og barna hjá okkur part úr degi. Ég sótti hana í hádeginu og ók henni heim að kveldi. Og alla leiðina spjölluðum við saman um heima og geima, því að við áttum auðvelt með að stilla saman strengi okkar. Vetrardýrðin úti kallaði oft fram kvæðisbrot og stökur af vör- um hennar, því að hún var ljóðelsk og kunni utanbókar heilu kvæða- flokka góðskáldanna. Stundum lét hún hugann reika um farinn veg og sagði mér brot og brot úr lífssögu sinni. Hún var að mestu sest í helgan stein eftir starfssama ævi á þessum tíma og bjó ein í húsi sínu við Vatnsveitu- veg. Þá fyrst knúði fortíðin dyra eins og oft vill verða og gerðist tíður gestur í hugans ranni. Jóhanna Margrét Guðjónsdóttir var fædd hinn 27. desember alda- mótaárið í Vetleifsholtsparti í Holtum, Rangárvallasýslu. For- eldrar hennar voru Guðjón Gestsson bóndi þar og kona hans Þóranna Tómasdóttir. Þóranna var dóttir Tómasar Þórðarsonar frá Sumarliðabæ í Holtum og konu hans Jóhönnu Margrétar Jónsdóttur, sem var dóttir Jóns Sigurðssonar prests í Kálfholti, en hann var launsonur þjóðskáldsins séra Jóns Þorláks- sonar á Bægisá. Þóranna missti föður sinn á sjöunda ári og móður sína tíu ára og fékk því að kenna á óblíðum kjörum munaðarleys- ingja. Þá vildi henni til happs, að gæðakonan Margrét Einarsdóttir í Háfi og maður hennar Þorgeir Sigurðsson buðust til að taka hana að sér meðgjafarlaust, og hjá þeim leið henni vel. Fermingarárið sitt fór hún síðan til hálfsystur sinnar Jóhönnu Magnúsdóttur, sem þá hafði nýbyrjað búskap á Kára- stöðum í Þingvallasveit með manni sínum Halldóri Einarssyni. Þau Þóranna og Guðjón hófu búskap í Vetleifshoitsparti árið 1899 við lítil efni. Þau eignuðust brátt þrjár dætur og var Jóhanna elst þeirra, en hinar eru Sigríður Stefanía, fædd 9. apríl 1903, og Ólafía Þórunn, fædd 2. september 1904. Síðar eignaðist Þóranna Tómas Gíslason rafvirkja, sem er fæddur 3. ágúst 1913. Þau hjón voru samhent og dugmikil í harðri lífsbaráttu al- þýðufólks á þessum tíma. En Þór- anna fékk ekki að njóta lengi sam- vista við sinn ágæta mann. Hann stundaði sjómennsku á vetrum eins og títt var um efnaminni bændur, og í byrjun vertíðar árið 1906 hélt hann suður til Reykja- víkur og réð sig á fiskiskútuna Ingvar, sem var eign Duus-versl- unar. Árið 1906 gerði óvenju mörg stórviðri hér á landi, sem ollu sáru manntjóni. Alla fyrstu viku apr- ílmánaðar var veðrið svo slæmt að fiskiskútur héldust ekki við úti á hafi. Þær tíndust inn í Reykjavík- urhöfn hver á fætur annarri á föstudaginn og að morgni laug- ardagsins 7. apríl. Þá versnaði veðrið enn og gerði slíkt foráttu- brim að menn mundu ekki annað eins. Ingvar leitaði til hafnar eins og hinar skúturnar. En skipið var laskað eftir áfall í Garðsjó, og þegar það kom á móts við Viðeyj- areiði, steytti það á blindskeri. Holskeflurnar riðu yfir það, skipverjar reyndu að forða sér upp í reiðann og í þrjár klukkustundir börðust þeir þar við dauðann, án þess að hjálp bærist. Það sást til skipsins úr sjónauk- um; menn fylgdust með slysinu frá upphafi til enda; horfðu á skipverja hverfa hvern af öðrum úr reiðanum í ólgandi brimið — án þess að fá nokkuð að gert. „Ætli drukknandi menn hafi nokkurn tíma jafn lengi haft jafn sterka von um hjálp sem þessir menn,“ skrifaði eitt blaðið síðar. Þetta er eitthvert átakanlegasta sjóslys, sem orðið hefur hér á landi. Þóranna stóð nú uppi ekkja með þrjú ung börn í ómegð; Jóhanna var elst og hún var á sjötta ári. En sveitungarnir reyndust hinni vegalausu fjölskyldu svo vel, að til fyrirmyndar var. Einar Guð- mundsson og Guðrún Jónsdóttir, sem lengst bjuggu á Bjólu í Holt- um, en voru þá í Rifshalakoti, buðu Þórönnu til dæmis að koma til sin með allar dæturnar. Það höfðinglega boð þáði hún, og örlít- '1 trygging, sem hún hafði fengið eftir mann sinn gerði henni kleift að byggja sér þar lítinn bæ. Seinna fluttust þau til Eyrar- bakka, og þar gekk Jóhanna í skóla. Hún var góðum námsgáfum gædd og þráði að ganga mennta- veginn, en þess var að sjálfsögðu enginn kostur. Kennari hennar á Eyrarbakka var Pétur Guð- mundsson, sá mikli hugsjóna- og framfaramaður, faðir Jóns Axels og þeirra systkina. Hann hafði dá- læti á Jóhönnu sakir gáfna hennar og næmi — og hún minntist hans með hlýjum huga æ síðan. Frá Eyrarbakka lá leiðin til Reykjavíkur. Tvítug að aldri fékk Jóhanna vinnu hjá verslun L.H. Múller í Austurstræti og starfaði þar í meira en þrjá áratugi. Árið 1960 stofnaöi hún síðan verslunina Miðstöð ásamt starfssystur sinni, Hallveigu Árnadóttur, og var búð- in fyrst til húsa við Digranesveg í Kópavogi, en síðan á Njálsgötu í Reykjavík. Hinn 9. október 1943 giftist Jó- hanna Guðmundi Guðmundssyni lækni, Jakobssonar trésmíða- meistara í Reykjavík, Guðmunds- sonar prests á Sauðafelli, en móðir Guðmundar var Þuríður, systir séra Árna Þórarinssonar á Stóra- hrauni. Fyrstu búskaparár þeirra gegndi Guðmundur héraðslækn- isstörfum í Ólafsvík, Stykkishólmi og Búðardal, en síðan áttu þau heima í Reykjavík. Jóhanna var tignarleg í fasi, dökkhærð, fínlega vaxin — og gædd sjaldgæfum mannkostum. Hún var óeigingjörn í þess orðs fyllst.u merkingu; lifði alla ævi í þágu annarra og ætlaðist ekki til endurgjalds fyrir velgjörðir sínar. Þeim hjónum varð ekki barna auð- ið, en í staðinn sinnti hún systkinabörnum sínum af ein- stakri alúð. Hún var stoð og stytta margra sökum hjálpsemi sinnar og hins hlýja viðmóts, sem gerði það að verkum að öllum leið vel í návist hennar. Eftir að Guðmundur læknir lést árið 1968, bjó hún áfram í húsi þeirra við Vatnsveituveg, uns það varð að víkja fyrir brúarfram- kvæmdum stórborgarinnar. Þá fluttist hún í litla íbúð að Furu- gerði 1 — og þar lést hún. Um leið og ég lýk þessum fáu orðum, flyt ég Jóhönnu alúðar- þökk fyrir góð og eftirminnileg kynni og kveð hana hinstu kveðju með þessu erindi Miltons, sem langalangafi hennar, séra Jón á Bægisá, þýddi svo fagurlega: „Hlíóur er árblær, blíd er dags koma, fyljya henni tónar, löfrafullir árvakra fuj»la, sem er eyrna lysl." Gylfi Gröndal t Faðir minn og tengdafaðir, MAGNÚS GUÐMUNDSSON, Hofsvallagötu 60, er látinn. Hallgrímur og María Dalberg. t Móöir okkar og tengdamóðir, SNJÓLAUG GUOJOHNSEN, lóst í Landspitalanum 30. nóvember. Sigriður Guðjohnsen, Einar Sigurjónsson, Kristfn Guðjohnsen, Bolli Ólason, Aöalsteinn Guðjohnsen, Ragna Sigurðardóttir, Elísabet Guöjohnsen, Herbert Hriberschek. Guöný V. Guöjohnsen. + GUDRÚN ÖGMUNDSDÓTTIR, húsfreyja, Ölvesholti, sem lést í Borgarspítalanum 23. þ.m. veröur jarðsungin frá Hraun- geröiskirkju laugardaginn 4. desember kl. 2. Runólfur Guömundsson, Ögmundur Runólfsson, Kjartan Runólfsson, Sveinbjörn Runólfsson, tengdadœtur og barnabörn. t Þökkum innilega auösýnda samúö og vinarhug viö andlát og útför móöur okkar, tengdamóður og ömmu, ÁSU FRÍMANNSDÓTTUR, Háaleitisbraut 103. Haraldur Baldvinsson, Elsa Bernburg, Valgeróur Stefánsdóttir, Stefón Henry Lárusson, og barnabörn. t Þökkum innilega auösýnda samúö og vinarhug viö andlát og útför móöur okkar, tengdamóöur, ömmu og langömmu, STEFANÍU ÓLAFSDÓTTUR frá Jörfa, Þórólfsgötu 5, Borgarnesi. Ólafur Andrésson, Guörún Andrésdóttir Áslaug Andrésdóttir, péfur Erlendsson, Erla Andrésdóttir, Haukur Jóhannsson, barnabörn og barnabarnabörn. Þórey Sveinsdóttir, Ljúfustu minningar mínar frá bernskuárunum eru tengdar Jó- hönnu eða Jóu eins og hún var al- mennt kölluð af vinum og vanda- mönnum. Hún var æskuvinkona móður minnar og kom oft í heim- sókn til okkar. Mér fannst alltaf hátíð þegar Jóa kom og vildi fá að sitja í návist hennar allan tímann. Framkoma hennar öll og háttvísi var sérstök, þægileg frásögn henn- ar blönduð kímni vakti hógláta gleði okkar. Ég leit svo upp til hennar að mér varð oft hugsað á þann veg, að henni vildi ég helst líkjast þegar ég yrði stór. Ekki spillti það fyrir að hún mundi ævinlega eftir afmælisdögum okkar systkinanna og gaf okkur fallegustu gjafirnar. Ekki breyttist þetta viðhorf mitt til Jóu er hún varð mágkona mín þegar ég giftist bróður henn- ar Tómasi. Betri mágkonu er vart hægt að hugsa sér. Börn okkar voru henni eins kær og þau væru hennar eigin og þannig var það um öll börn í fjölskyldunni. Sann- aðist það best þegar hún tók að sér systurdætur sínar tvær þegar móðir þeirra veiktist og síðan var hún þeim eins og besta móðir. Þær reyndust henni ekki síður þegar hún þurfti þess með. Ekki er hægt að segja að líf Jóu hafi alltaf verið dans á rósum. Hún var á 6. ári þegar faðir henn- ar drukknaði í Ingvarsslysinu svonefnda 1906. Stóð þá tengda- móðir mín uppi með þrjár ungar dætur og var Jóa elst. Seinna eign- aðist hún svo soninn. Tengdamóðir mín, Þóranna Tómasdóttir var kjarkmikil og dugleg og vildi halda saman heim- ilinu og tókst það eftir nokkrar þrengingar. Það sagði hún mér að það sem hún sæi mest eftir, væri hve snemma hún hefði tekið Jóu sem fullorðna manneskju og talað við hana um vandamál sín. Þetta hefur eflaust gert Jóu fullorðna fyrir tímann en eflt ábyrgðartil- finningu hennar svo að henni fannst hún bera ábyrgð á systkin- um sínum. Hún varð líka einskon- ar höfuð fjölskyldunnar þó að þær allar systurnar og móðir þeirra hjálpuðust að við að sjá heimilinu farborða. Ekkert dáði Jóa eins og góða menntun. Það var hið dýrasta hnoss sem hún hafði þráð en ekki getað veitt sér þegar hún var ung. En þrátt fyrir litla skólagöngu hafði henni tekist að afla sér góðr- ar sjálfsmenntunar. Hún las mik- ið og flest höfuðskáld þjóðarinnar voru henni vel kunn. Hún hafði mjög góðan smekk á íslensku máli enda var Þóranna móðir þeirra systkina einhver kjarnyrtasta manneskja sem ég hefi þekkt. Jóa las Norðurlandanjálin og ensku gat hún brugðið fyrir sig ef hún þurfti þess með vegna starfs síns, en hún starfaði um áratuga skeið í verslun L.H. Múller og var mörg- um Reykvíkingum kunn fyrir lip- urð og háttvísi við afgreiðslu. Hún skrifaði líka hina fegurstu rit- hönd. Fátt gat glatt Jóu meira en góður námsárangur einhvers í fjölskyldunni og eiginlega allra sem hún heyrði um. Henni fannst meira til um það en þó einhverjum tækist að koma sér áfram eða verða ríkur. Hún gekk að eiga æskuvin sinn, Guðmund Guðmundsson lækni, árið 1943 en þeim varð ekki barna auðið. Hann andaðist árið 1968. Hún hafði staðið við hlið hans í blíðu og stríðu og kannski mest því síðarnefnda. Én þannig var hún. Hún hopaði ekki heldur gerði skyldu sína í hverju sem var. Hún var nokkuð geðrík kona en hafði tamið sér ótrúlegt vald yfir skapi sínu og hygg ég að fáir hafi séð hana reiðast. Ég vil enda þessar línur með þakklæti til hennar frá mér og fjölskyldu minni. Við stöndum öll í þakkarskuld við hana sem ekki verður endurgoldin hér á jörð. Ennfremur læt ég fylgja þessar ljóðlínur sem ortar voru um aðra öðlingskonu og mér finnst að eigi mjög vel við hana. Ei þó upp hún fæddÍHt í oólinga höllum, láta-snilld lipur var henni sem lofdunga frúvum. Kurteisin kom aó innan, — sú kurteisin sanna! — Siódekri öllu a*óri af öórum sem lærist. (B. Thor) Gerður Magnúsdóttir Minning: Asmundur Guðna son Bjargarnefi Fæddur 24. febrúar 1908 I)áinn 26. nóvember 1982 _. as. Mig langar að senda Ásmundi Guðnasyni fá kveðjuorð. Nú er hann er horfinn sjónum okkar, finnst mér ég hafa tapað hluta af sjálfum mér. Við áttum það sam- eiginlegt að vera samferðamenn á Vífilsstöðum í áraraðir, ýmist að koma eða fara. Er margs að minn- ast frá þeim tíma, bæði í blíðu og stríðu. Slitnuðu vinabönd okkar aldrei í áraraðir. Ég færi honum nú mínar bestu þakkir fyrir marg- ar ánægjulegar stundir. Ef eitt- hvað var að hjá mér eða mínum vildi hann laga og bæta. Ásmund- ur vann hörðum höndum í gegnum lífið þó aldrei gengi hann heill til skógar. Ásmundur var einn af þeim mönnum sem lét lítið á sér bera. Orðvar, gætinn, með göfuga sál. Sálarauður hans var meira en ver- aldargæði. En tryggð hans og traust var það sem einkenndi hann. Ásmundur var giftur Guðfinnu Gísladóttur sem studdi hann til hinstu hvíldar. Börn þeirra eru Örn, Guðni og Ásgerður. Barna- börnin eru sjö. Er mikill söknuður er við kveðjum svo mætann mann. Og veit ég að Guð styrkir ættingja hans í djúpri sorg þeirra. Hafi minn kæri vinur þökk fyrir allt, já, allt mér og mínum til handa. Guð leiði hann inn á ljóss- ins braut þar sem enginn voði grandar. Blessuð sé minning Ásmundar. Sigurður Guðmundsson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.