Morgunblaðið - 03.09.2003, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 03.09.2003, Blaðsíða 31
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. SEPTEMBER 2003 31 En handan við fjöllin og handan við áttirnar og nóttina rís turn ljóssins þar sem tíminn sefur. Inn í frið hans og draum er förinni heitið. (Snorri Hjartarson.) Orð verða lítils megnug að tjá þá sorg og myrkur sem umlykur okkur nú þegar yndislega vinkonan mín er horfin frá okkur inn á bjartari leiðir. Því það er ógjörningur að hugsa öðruvísi um hana Freyju en í mikilli birtu, miklu sólskini. Allt frá okkar fyrstu kynnum fyrir 23 árum, þegar við báðar hófum nám í Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð, hefur einungis birta, gleði og fegurð verið henni samferða og ég trúi að svo hafi verið um alla tíð. Þegar áhyggjur eða sorgir leituðu á þá bar Freyja áburð á sárin, ekki endilega með mörgum orðum, heldur með mjúkri nærveru sinni, brosi, hlýju og umhyggjusemi sem hún fylgdi eftir. Hún var trygglynd, gjaf- mild, fordómalaus og heil manneskja sem kunni þá list öllum öðrum fremur að hlusta. Heimili hennar og Ármanns stóð jafnan galopið öllum sem þangað leit- uðu og var það, hvort sem það var í Vesturbrúninni, Esparron de Verdon eða annars staðar, eins og heilsu- ræktarstöð fyrir sálina. Þar ríkti kyrrð og tónlist og aðrar göfugar list- ir. Óskeikult listfengi Freyju, allt frá matargerðarlist til leirlistar fékk þar að njóta sín í látleysi, samræmi og fegurð og var sem hver hlutur sem Freyja fór um sínum mjúku höndum öðlaðist tilgang og nýjan ljóma. Hún var ekki síður einstakur vinur þegar gleðin ríkti í lífinu okkar og tók þátt í hamingju annarra af sannri einlægni. Hún hvatti fólk til dáða því hún trúði af eðlislægri bjartsýni á hið góða í manneskjunni. Hún kaus að tala ekki um neikvæðar hliðar fólks heldur lað- aði alltaf fram jákvæða eiginleika þannig að allir urðu að betri mann- eskjum í návist hennar. Í orðræðu Freyju kom orðið „ég“ sjaldan fyrir, heldur oftast „þú“ – hvernig líður „þér“. Umhyggjan fyrir öðrum sat þannig alltaf í fyrirrúmi, og allt þar til yfir lauk hafði hún meiri áhyggjur af því hvernig vinum hennar og ekki síst hennar yndislegu fjölskyldu leið, heldur en hvernig henni sjálfri leið. Lífssýn hennar var þá enn söm og áð- ur, eins og hún til dæmis skrifaði í einu af bréfum sínum til mín fyrir 3 árum: „…er það ekki stórkostlegt að lifa, alltaf er það merkilegra með hverju ári… . [en] það er nú svo að tíminn, þetta afstæða hugtak það bara gleypir mann…“ Seinna töluð- um við um þetta örskot sem líf okkar er, líkt og öreind á flugi aldanna. Að leiðarlokum er þakklæti efst í huga mér og fjölskyldu minnar fyrir þá gæfu að hafa átt vináttu Freyju sem aldrei bar skugga á. Við brutum oft lífsgátuna til mergjar, við hlógum og grétum saman, fylgdumst með lífi hvor annarrar, ástum og sorgum, en umfram allt deildum við hamingjunni okkar saman. Alla okkar daga, eink- um baráttudagana okkar í Hamrahlíð og sólskins- og gleðidagana í Espar- ron geymi ég á sérstökum stað í hjartanu. Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himn- inum, þar búa ekki framan neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu. (Heimsljós / Halldór Kiljan Laxness.) Ég stóð við gluggann minn um tveimur stundum eftir lát Freyju og spurðist fyrir hjá almættinu um þján- inguna og tilgang lífs og dauða. Það voru þykkir þokubakkar í vestrinu við sjóndeildarhringinn, líkt og þegar mér fyrst bárust tíðindin af veikind- um Freyju. En líkt og þá og sem svar við þessum ágengu spurningum var sem risahendi stryki skýin burt svo við blasti jökullinn logandi bjartur í litbrigðum kvöldsólarinnar. Einhvers staðar þar í allri þessari dásamlegu birtu skynjaði ég Freyju, létta og fagra og ljósa, lausa undan allri þján- ingu og myrkri, þar sem fegurðin ein ríkir. Elsku Ármann, Dögg og Drífa, elsku Edda, Hilmar og allir aðrir að- standendur: Þó ískuldinn nísti okkur nú trúum við því að með sterkri og heitri minningunni um Freyju meg- um við einn dag vakna og sjá sólina koma upp á ný og lýsa skammdeg- ismyrkrið framundan björtum leið- um. Megi almættið og allar góðar vættir passa ykkur og hugga. Gróa Finnsdóttir. Freyja, kær vinkona okkar er nú sofnuð svefninum langa, eftir að hafa barist af æðruleysi og miklum sálar- styrk, við meinið sem greindist fyrir um það bil ári. Alltaf var hún jafnljúf og yndisleg. Henni auðnaðist að vera heima hjá ástvinum sínum, manni og dætrum, allt fram á síðasta dag, utan nokkurra stuttra innlagna á sjúkra- hús. Síðasta daginn sem hún lifði tók hún af veikum mætti þátt í bæna- stund með sr. Hjálmari frænda sín- um og ástvinum, svona var hún sterk, sofnaði síðan eins og barn sem búið er að lesa bænirnar sínar og leið þannig, um kvöldið, inn í eilífðina, þar sem birtan ein ríkir. Lést eins og hún lifði, ljúf og hljóðlát. Þótt Freyja væri svona mikill ljúf- lingur, þá var hún líka skemmtileg, listræn og vel gefin, trygglynd og sterk. Þetta þekktu hinir mörgu vinir þeirra hjóna sem hafa notið gestrisni á heimili þeirra. Heimili sem alltaf var fallegt, persónulegt og hlýtt en aldrei of hlaðið. Þetta var svona hvar sem þau bjuggu. Kynni okkar spanna 30 ár eða frá því að við fluttum næstum samtímis í nýbyggt háhýsi sem Ármannsfell byggði í Espigerði. Þar kynnust Ár- mann og Stefán sem sátu í fyrstu hús- stjórninni og fljótlega myndaðist vin- skapur með fjölskyldunum sem varað hefur til þessa dags. Ármann og Freyja voru ung hjón með elsku stelpurnar sínar litlar, líklega tveggja og fjögurra ára, en við ung hjón tæp- lega fimmtug en aldrei fundum við fyrir kynslóðabili. Við tókum upp á að spila bridge af og til, alltaf í gleði og gamni þótt auð- vitað reyndu allir að vinna eftir megni. Oftar en ekki vorum við hjá þeim, vegna telpnanna, en þegar þau voru hjá okkur höfðu þau með sér Talkie-Walkie til að hlusta eftir þeim enda var fljótlegt að fara á milli hæða. Þetta voru góð ár og skemmtileg. Eftir að þau fluttust á Vestur- brúnina, nokkrum árum seinna, minnkuðu samvistir um tíma, enda allir í vinnu og á ferð og flugi út um heim. Freyja og Ármann lifðu lífinu lifandi og ferðuðust víða, bjuggu m.a. tvö ár í Þýskalandi við vinnu og nám. Árin liðu, einstaka sinnum hittumst við í önn dagsins og tókum oftast spil. Mörgum árum seinna urðum við svo heppin að verða aftur sambýlisfólk á Kirkjusandi, sótti þá brátt í sama horfið, borðað saman og spilað alltaf var jafngaman að hittast. 1998 ventu þau hjón svo sínu kvæði í kross og fluttust búferlum til Suður- Frakklands og höfðu þau þá keypt sér þar gott hús, en á þessum slóðum höfðu þau oft dvalið og líkað afar vel. Freyja segir í korti til okkar fyrsta árið þeirra þar, að þau séu „alsæl, á fullu í hústiltekt og tíminn fljúgi áfram, von á fyrstu gestunum að heiman og það sé afskaplega nota- legt“. Næstu árin komu þau svo hing- að heim nokkrum sinnum á ári hverju enda áttu þau sitt annað heimili hér og dæturnar sínar. En nú er komið að kveldi. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að eiga indæla kveðjustund á heimili þeirra hjóna þrem dögum fyr- ir andlát Freyju, hún var blíð og góð og sterk, en örþreytt, við söknum vin- ar í stað. Guð geymi elsku Freyju og haldi verndarhendi sinni yfir ástvin- um hennar öllum. Minningin um hana mun lifa. Perla og Stefán. Það er víst æði oft sem erfitt er að greina eða muna hvernig fólk hittist fyrst, þó að sá fundur geti orðið býsna afdrifaríkur og leitt til ævilangrar vináttu. Hvernig við Þóra kona mín kynntumst fyrst Ármanni og Freyju er þó ekki í neinni þoku. Það var glaðasólskin. Við héldum til með dótt- ur okkar á frönsku Rivierunni þetta sumar og höfðum þennan dag lagt leið okkar út á fræga strönd, Cabas- son við Brégancon-höfða þar sem náttúran var óspjölluð og sjórinn hreinn. Þar var að vísu fjöldi fólks, en varla margir sem við höfðum kynni af, svo að kona mín, sem er fremur prúð, segir allt í einu: Svei mér ef mér er ekki óhætt að varpa af mér brjóstahaldaranum, hér þekkir mann enginn og þar er gott að vera. Mér þótti þetta þjóðráð. En varla var hún búin að sleppa orðinu fyrr en við heyrum hljóma á fallegustu íslensku með skærri barnsrödd: Mamma, eig- um við ekki bara að vera hérna. Á meðan Þóra sippaði á sig brjóstahald- aranum, reis ég upp í minni sund- skýlu og sagði stundarhátt: Góðan og blessaðan daginn. Undirtektir við þeirri kveðju voru afar góðar þó blandaðar glaðværri hissu væru, enda voru þarna á ferð Ármann og Freyja með dætur sínar tvær, Dögg og Drífu. Þarna upphófst svo kunn- ingsskapur sem þróaðist yfir í vin- áttu. Þrep á þeirri leið var þegar við Ármann vorum að berjast fyrir þeirri hugmynd að koma upp tónlistarhúsi, en þar var hann frumkvöðull, sem óþarfi er að gleymist. Síðar kynnt- umst við því að Freyja bjó yfir því hispursleysi, að brjóstahaldarar skiptu þar ekki meginmáli. Síðan eru liðnir áratugir og nú er Freyja öll, langt um aldur fram og öll- um harmdauði. Hún bjó yfir hógvær- um en þó sérstæðum persónuleika sem gerði það að verkum að manni leið ævinlega vel í hlýrri návist henn- ar. Öll framkoma hennar mótaðist af þessari hógværð sem þó var um leið ákaflega sterk nærvera. Allt hennar fas bar vott um þokka sem mótaðist af listrænum smekk sem ekki fór allt- af troðnar slóðir en fataðist þó aldrei flugið. Óvíða var skemmtilegra að vera gestur, maturinn oftast eitt- hvert ævintýri og örlæti sveif yfir vötnum, jafnt í góðgjörðum sem þeli. Ekki get ég látið hjá líða að minnast þess hversu ógn var gaman að heim- sækja þau hjón í það hreiður sem þau höfðu komið sér upp í Suður-Frakk- landi nú á seinustu árum. Þar létu þau draum rætast sem fæstir þora að láta sig dreyma hvað þá hleypa í framkvæmd. En slíkt óx þeim aldrei í augum. Þar kom Ármann meira að segja á fót fransk-íslenskri tónlist- arhátíð í söguríkum fjallabæ, Esparr- on de Verdon. Þá mæddi auðvitað mikið á Freyju sem studdi mann sinn með ráðum og dáð og hýsti herskara af tónlistarfólki inni á stofugólfi eða hvar sem við varð komið. En fjas var ekki Freyju að skapi og gestrisnin jafnsjálfsögð og að draga andann. Það má harma að þau fengu ekki að eiga saman fleiri ár þarna í ná- grenni frægustu gljúfra Frakka Verdon. En svo má líka hugsa öðru- vísi: Var það ekki dásamlegt að þau fengu þessi ár þarna, þar sem Ár- mann glímdi við Schubert og aðra tónsnillinga, en Freyja mótaði leirinn á meðan furðulegustu nytjajurtir kraumuðu í pottum og pönnum. Auðvitað var ævi Freyju ekki ein- ber dans á rósum, fremur en nokkurs okkar hinna. En þau Ármann áttu í rauninni margvíslegt líf. Þau þorðu að taka áhættu og skapa sér nýtt og nýtt umhverfi og nýja og nýja lífs- hætti. Lífskúnstnerar myndi ég vilja kalla þau. Og þegar svo er, verður það ekki endilega fjöldi áranna sem gildir heldur það sem þau báru í skauti sínu. Það er varla árið síðan Freyja kenndi lasleika. Úr varð illvíg bar- átta, þar sem hún sjálf var stólpi og gleðigjafi. Loks var svo komið að hvíldin var líkn við þraut. Hún lést að kvöldi 26. ágúst. Ármann annaðist konu sína af mikilli umhyggju. Hon- um og dætrunum tveimur eru sendar innilegar samúðarkveðjur. Það er í hlutanna eðli að maður kynnist mörgum á lífsleiðinni. Stund- um er maður þakklátari forsjóninni fyrir að stilla til kynna en í öðrum til- vikum. Við Þóra höfum alla tíð verið þakklát forsjóninni fyrir að leiða Freyju með fjölskylduna til okkar þarna í sandinum í Cabasson fyrir tæpum aldarfjórðungi. Í slíku tilviki lifir sú manneskja gjöfult áfram með manni, þó að hún skipti um tilveru- stað. Blessuð sé minning Freyju Jóns- dóttur. Sveinn Einarsson. Þegar náttúran skartar sínu feg- ursta og hinu blíðasta sumri í manna minnum er tekið að halla hefur skýja- bakki, sem grúft hefur við sjóndeild- arhringinn síðasta árið, nálgast og orðið að hríðaréli, sem nú steypist yf- ir litlu fjölskylduna á Hverfisgötunni, fjölskyldu þeirra Ármanns og Freyju. Kynni okkar eru til komin eftir sérstökum krókaleiðum og er upphaf þess máls að mín sæla tengdamóðir, Elín Þorláksdóttir frá Hrauni í Ölfusi, tengdist tengdafor- eldrum Freyju, Ármanni og Ástu. Hún var sem ljósmóðir til kvödd þeg- ar fæðingu Ármanns Arnar bar að fyrir tæpum sextíu árum, og var síð- an náinn samgangur með daglegum símtölum milli þeirra Elínar og Ástu, og áttum við margar gleðistundir við ríkulegar veitingar á heimili þeirra. Í einu slíku boði er mætt ung og falleg stúlka og fór ekki milli mála að hér var komin kærasta og síðar eiginkona Ármanns yngri. Atvikin höguðu því svo að leiðir skildu, vegna náms og starfa báðum megin hafs, en það hélzt ávallt eins konar systkinaþel milli okkar fjöl- skyldna, en sambandið var ekki sam- fellt, eins og gengur hjá þessari kyn- slóð, heldur höfðum við svona veður hvert af öðru, kölluðumst á til sér- stakra atburða í fjölskyldunni, og meðan við bjuggum við rætur Laug- arássins var stutt gönguleiðin milli Langholtsvegar og Vesturbrúnar. Fengum kannski tónleika hjá hús- bóndanum að afloknum skrautlegum og stundum framandi kvöldverði frambornum með sérstökum mynd- ugleika húsmóðurinnar í Vesturbrún- inni. Seinna komu ferðalög á framandi slóðum, siglingar fyrir ströndum Grikklands og Rivíerunnar. Það er í slíku nábýli í þröngum kytrum segl- báta og hversdagsönnum sem fylgja sameiginlegu húshaldi sem kostir eða lestir verða ljósir, þannig áttum við marga ljúfa morgunstund yfir morg- unverði ofan þilja, þar sem við gædd- um okkur á afurðum kokkaría Mið- jarðarhafsstranda, sem gjarnan var valið og framreitt af þeim Höllu og Freyju sem nú eru báðar horfnar á vit forfeðra. Alltaf hafði hún Freyja lag á að víkja okkur inn á áhugaverða og fræðandi staði, úrræðagóð þegar á bjátaði og hafði ævinlega næmt auga fyrir náttúrunni, landslagi, mann- og dýralífi, sem hrærist á þessum sól- bökuðu furðuströndum. Hún hélt röð og reglu á hlutunum, skráði slóð ferða með reglulegum færslum í landakortið, og gaf okkur með teikningum og ljósmyndum sem henni var einni lagið ómetanlega minjagripi að ferðum loknum. Þannig gekk lífið sinn gang á þessum kafla lífsins, þar sem áhyggjuefnum hvunndagsins var vikið til hliðar og ánægja og gleði ríkti. Því fór betur að okkur voru huldar rúnir framtíðarinnar, þegar við héld- um úr höfn í St. Rafael í byrjun júní aldamótaársins, við vissum ekki hver skuggi grúfði yfir áhöfninni og hvarfl- aði ekki að neinum að konurnar yrðu báðar horfnar af sjónarsviði innan ríf- lega þriggja ára. Fyrir ári nutum við Elín dóttir mín og Embla litla vordaga í sælureit þeirra Ármanns og Freyju í Prov- ence, heimboð, ríkuleg harmabót eft- ir það skarð sem þá var nýhöggvið í okkar fjölskyldu. Þetta var samfelld veisla í mörgum skilningi, við vorum umvafin ljúfmennsku þeirra hjóna, og lét húsmóðirin sinn hlut síst eftir liggja að gera okkur dvölina þá sælu- tíð, sem hún vakir í minningunni. Engan grunaði þá að skammt yrði milli svo stórra högga, óveruleg ónot, sem hún kenndi þá reyndust aðeins fáum vikum síðar fyrirvari þess ill- víga og ólæknandi sjúkdóms, sem nú hefur runnið sitt skeið. Við leiðarlok færi ég þakklæti fyrir kynni við þá góðu konu, sem nú er gengin, og vil færa þeim Ármanni, Dögg og Drífu innilegustu samúðar- kveðjur frá fjölskyldunni hennar Höllu. Sigurgeir Kjartansson. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (Vald. Briem.) Ég var á heimleið seint um kvöld er mér varð sterkt hugsað til Freyju og Ármanns, en eins og allir sem til þeirra þekktu, fylgdi ávallt nafn hins aðilans þegar talað var um þau, svo samrýnd voru þessi hjón og miklir vinir enda eftir því tekið. Snemma morguns daginn eftir hringdi elsta dóttir mín og tjáði mér að Freyja hefði látist um nóttina. Mér var brugðið eins og gefur að skilja þegar maðurinn með ljáinn kemur og tekur frá okkur konu í blóma lífsins, konu sem var svo ljúf, brosmild og góð, konu sem allir dáðu. Allt frá þeim tíma sem ég kynntist Freyju fyrir 35 árum, þegar fjöl- skyldur okkar bjuggu saman á Fálka- götu 5, Espigerði og Kirkjusandi hef- ur Freyja átt stórt hólf í mínu hjarta. Strax við fyrstu kynni sýndi hún svo fallega og fágaða framkomu, blítt bros og mikla kímni sem voru ávallt hennar aðaleinkenni alla tíð. Það var alltaf svo gott og notalegt að vera í návist hennar, eðlileg og fölskvalaus, og þannig mun ég ætíð minnast hennar. Á þeim 30 árum sem við bjuggum sem nágrannar skapaðist mikill vin- skapur og samgangur á milli fjöl- skyldna, og segja má að dætur okkar ólust upp mikið til saman og urðu miklar vinkonur. Mér er minnistæð uppákoma sem Freyja stóð fyrir, fyr- ir íbúa á öllum aldri í Espigerði 2, en það var grímuball af bestu gerð með tilheyrandi búningum og tónlist. Þessi gjörningur tókst svo vel að hann er enn í minni hafður og sýndi vel hvað Freyja hafði gott lag á að fá fólk til að vinna með sér og skemmta. Þar komu skýrt fram hennar miklu listrænu hæfileikar sem hún var svo rík af. Ég minnist góðu veiðferðanna, ut- anlandsferða og og annarra nota- legra stunda sem fjölskyldur okkar höfum átt saman og fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Sl. 2–3 ár hef ég ekki séð mikið af þeim hjónum af ýmsum ásæðum, þau hafa dvalið mik- ið erlendis og svo í hringiðu og hraða lífsins virðist tíminn líða hraðar nú og auðveldara er að týna samferðafólki en áður – því miður. Það er ekki langt síðan ég frétti af veikindum hennar, þeim illvíga sjúkdómi sem krabba- meinið er og leiddi hana að lokum til dauða. Um leið og ég kveð mína kæru Freyju með þakklæti fyrir ánægju- lega samferð gegnum lífið vottum við Ármanni Erni, dætrunum Dögg og Drífu og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Megi algóði Guð blessa minningu hennar. Thulin Johansen og dætur. Sérfræðingar í blómaskreytingum við öll tækifæri Skólavörðustíg 12, á horni Bergstaðastrætis, sími 551 9090.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.