Morgunblaðið - 03.09.2003, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 03.09.2003, Blaðsíða 35
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. SEPTEMBER 2003 35 og þá ein í einu nú í seinni tíð og var gistingunum skipt jafnt á milli þeirra. Sú sem var í gistingu var borin á höndum þeirra og með- höndluð eins og prinsessa. Einnig var mikill spenningur þegar amma gisti hjá okkur og var því einnig skipt bróðurlega á milli hver ætti að sofa upp í hjá ömmu. Þegar amma kom í heimsókn brást aldrei að hún kæmi með eitthvað handa prinsess- unum sínum. Það var okkur mikil huggun og góð minning að amma Flóra var einmitt nýbúin að vera í slíkri heimsókn í tengslum við 6 ára afmæli Hjördísar Láru og gisti hún hjá okkur í nokkrar nætur. Flóra átti við hjartasjúkdóm að stríða og var oft veik síðastliðinn vetur en var mun hressari í vor og sumar. Það er því ánægjulegt og huggun fyrir okkur aðstandendur að hugsa til þess að hún virtist njóta sumarsins vel. Þau hjónin fengu mikið af heimsóknum í sumar, bæði vina og ættingja og naut hún þeirra heimsóknar mjög. Daginn fyrir and- látið tók hún á móti gestum og það kvöldið fór hún á gospel tónleika, en hún hafði mikið yndi af söng. Ég held að Flóra hefði ekki viljað kveðja með öðrum hætti og á stund- um fannst mér eins og hún væri að nýta sumarið sem best. Mig langar til að ljúka þessari grein með einni af þeim fjölmörgu bænum sem Flóra kenndi stelpun- um mínum og var í uppáhaldi hjá henni. Leiddu mína litlu hendi, ljúfi Jesús, þér ég sendi bæn frá mínu brjósti, sjáðu, blíði Jesús, að mér gáðu. (Ásmundur Eiríksson.) Flóru vil ég þakka fyrir áralöng góð kynni og bið guð að blessa minningu hennar. Laufey Ása. Það eru margar ljúfar minningar sem koma upp í huga okkar systk- ina við andlát okkar elskulegu ömmu Flóru. Þessar minningar eru flestar tengdar Siglufirði en þar bjuggu amma Flóra og afi Valli í nær 50 ár og voru fastur punktur í okkar tilveru. Það voru dýrðardagar þegar við systkinin vorum send til Siglufjarð- ar sem börn, stundum saman og stundum hvert í sínu lagi. Barna- börnin voru ömmu allt og henni fannst þessar heimsóknir okkar yndislegar og hún gerði allt fyrir okkur til að okkur liði sem best á Háveginum. Amma Flóra sá til þess að við borðuðum vel á matmálstímum, sem voru fimm sinnum á dag að sigl- firskum sið. Hún hafði alltaf áhyggj- ur af því að okkur væri kalt og ylj- aði okkur með því að nudda hendur og tær og var sífellt að prjóna á okkur þykka ullarsokka og vett- linga. Það var árstíðabundið hvað var gert okkur til skemmtunar á Sigló. Á páskum fórum við á skíði upp í Skarð með kleinur í poka frá ömmu. Á sumrin fórum við í sund á Sól- görðum og í bíltúr um Haganesvík. Einnig var vinsælt að fara með okk- ur í bíltúr fram á fjörð og út á gamla flugvöllinn. Á sólardögum lágum við í sólbaði á pallinum og borðuðum frostpinna, sem voru alltaf til í frystinum. Á meðan rótaði amma í blómabeðunum sínum. Á haustin var svo farið með okkur í berjamó inn í Fljót og var amma ótrúlega dugleg að tína ber. Á kvöldin lásum við Tinnabækur og borðuðum fros- inn bíóís, örbylgjupopp eða freyju- staur. Á þessum árum var drukkið soda- stream með öllum mat og borðað hrært skyr í hádeginu sem amma keypti í Kaupfélaginu. Stundum fór- um við með ömmu í vinnuna á Vöku- skrifstofuna og fengum að pikka á ritvél á skrifstofunni hennar. Amma var alltaf óróleg þegar við vorum að ferðast til og frá Siglufirði og var ekki í rónni fyrr en við vorum komin á áfangastað. Það var alltaf okkar fyrsta verk að hringja norður og til- kynna að við værum komin heilu og höldnu heim eftir þessar Siglóferðir. Við fengum margar góðar send- ingar frá Sigló á afmælum og jólum og amma skrifaði alltaf sérstaklega fallegar kveðjur í öll kort sem hún sendi til okkar. Einnig var fastur liður að fá súkkulaðidagatal í des- ember og páskaegg á páskum frá ömmu og afa á Sigló. Það er langt á milli Siglufjarðar og Reykjavíkur svo amma og afi fluttu til Hveragerðis fyrir sjö árum til þess að vera nær fjölskyldunni. Þá var hægt að skreppa í stuttan bíltúr til Hveragerðis í heimsókn og borða kleinur, soðið brauð og brún- köku inni í eldhúsi hjá ömmu. Hin síðari ár voru samskipti hennar við Stefni bróður okkar henni sérstaklega mikils virði. Það var henni einnig mikil gleði að verða langamma. Hún hélt mikið upp á litla langömmubarnið sitt en bað samt um að vera bara áfram kölluð amma Flóra, en ekki langamma, því eins og hún sagði; „ég er bara amma Flóra“. Við minnumst ömmu sem alveg einstakrar manneskju sem fyllti líf okkar af hlýju og ást. Skapstyrkur hennar og röggsemi verður okkur innblástur um ókomin ár. Minningin um ömmu Flóru mun skipa stóran sess í hjörtum okkar systkina og við kveðjum ömmu með söknuði, en er- um þakklát fyrir allar þær dýrmætu stundir sem við áttum saman. Fríða, Elsa Karen og Valtýr. Elsku amma, ég sakna þín afar mikið og hef ákveðið að kveðja þig með nokkrum af þeim afar mörgu minningum sem þú hefur skilið eft- ir. Ekkert var skemmtilegra en að fara til ömmu og afa á Sigló. Ég fór til þeirra þegar ég fékk frí frá skóla hvort sem um var að ræða sumar- eða vetrarfrí, þar tók amma manni ætíð opnum örmum með mat og frostpinna. Amma varðist, henni fannst pottréttur, lambalæri og hangikjöt mun betri matur en ham- borgarar og pizzur borgarinnar og sá til þess að við fengjum nóg af al- mennilegum mat. Enda fannst henni alltaf barnabörnin vera grind- horuð og í hverri heimsókn var byrjað á því að vigta mann inn svo að það væri hægt að vitna í árangur þegar farið var heim aftur og hún búin að bæta einhverjum grömmum á mann. Amma stjórnaði heimilinu af röggsemi og eitt sinn skipaði hún mér og afa að koma flugunum í suð- urglugganum út úr húsi. Sem og við gerðum með lítilli handryksugu. Við vöktum enga sérstaka aðdáun þegar aðgerðin heppnaðist ekki betur en svo að þegar við slökktum á ryksug- unni þá flugu þær allar út aftur. Amma var síprjónandi og þegar ég var yngri átti ég alltaf lager af peysum, sokkum og vettlingum frá ömmu. Enda fylgdi hún því vel eftir að maður færi almennilega klæddur út á veturna. Hún tók vel á móti manni með kakói eða einhverju heitu hvort sem maður kom kaldur úr snjóhúsinu eða af skíðum. Á sumrin var farið í ferðir í kring- um Siglufjörð og skoðað umhverfið og sest út í náttúruna. Á haustin var farið í berjamó með að sjálfsögðu nóg nesti fyrir alla og vel það. Alltaf var hægt að stóla á að fá veitingar og faðmlag hjá ömmu. Eitt sinn hringdi ég í hana þegar ég var 10 mínútur frá Hveragerði en samt fékk ég kótilettur með öllu tilheyr- andi þegar þangað var komið. Elsku amma, ég þakka þér allar samverustundirnar og hlýjuna sem virtist vera ótakmörkuð. Takk fyrir allt. Þinn Gunnlaugur. Fyrsta minning mín um þig eru fallega skrifuð bréf sem við fengum um hver jól. Ég sat og horfði á þessa fallegu rithönd og mig dreymdi um að þegar ég yrði stór myndi ég skrifa eins og þú. Þú varst fyrsti tengiliðurinn við föðurætt mína, ég hafði ekki hitt þig en af myndum vissi ég hvernig þú leist út. Þegar ég var orðin fullorðin heim- sótti ég þig, fyrst á Siglufjörð og hin síðari ár í Hveragerði. Þú tókst á móti mér af þinni einstöku hlýju, glaðværð og kærleik sem einkenndi öll þau skipti sem við hittumst, mik- ið var hlegið og grínast. Þá sýndirðu mér myndir og fræddir mig um föð- urfjölskyldu mína, og einnig um pabba sem ég náði ekki að kynnast almennilega. Mig langar til að þakka fyrir bréfin sem þú sendir mér við þau tækifæri sem við gátum ekki hist, nú síðast við andlát mömmu fyrir rúmu ári. Enn þá var skriftin þín falleg, ég næ henni aldr- ei. Takk fyrir allt. Samúðarkveðjur til Valtýs, barnanna og fjölskyldna þeirra. Fríður Garðarsdóttir. Afmælissamkoma Kristniboðs- sambandsins SÍÐASTLIÐINN sunnudag var þess minnst í báðum Reykjavíkur- prófastsdæmunum að 50 ár eru nú liðin frá því fyrstu íslensku kristni- boðarnir héldu til starfa í Eþíópíu. Í kvöld verður síðan sérstök afmæl- issamkoma í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58–60, norðurenda á 3. hæð. Hefst hún kl. 20 og þar munu taka til máls Engida Kussia frá Konsó í Eþíópíu og sr. Felix Ólafsson kristniboði. Kanga- kvartettinn syngur nokkur lög og einnig mun Haraldur Ólafsson kristniboði syngja, en hann er staddur hér á landi í stuttri heim- sókn. Samkoman er að sjálfsögðu öllum opin og áhugafólk um kristniboð sérstaklega hvatt til að mæta. Lofgjörðarstund fyrir 12 spora fólk Í KVÖLD, miðvikudagskvöld, verð- ur lofgjörðarstund í Hjallakirkju, Kópavogi, kl. 20 fyrir fyrrum og verðandi þátttakendur í 12 spora námskeiðum á vegum fjölmargra kirkna. 12 spora fólk er hvatt til að mæta, gleðjast í söng og hefja vetr- arstarfið með því að lofa Guð. Þor- valdur Halldórsson og Margrét Scheving leiða lofgjörðina. Vinir í bata. Dómkirkjan. Hádegisbænir kl. 12.10. Léttur málsverður á eftir. Prestarnir taka við fyrirbænum í síma 520 9700. Hallgrímskirkja. Morgunmessa kl. 8. Hug- leiðing, altarisganga, léttur morgunverður. Háteigskirkja. Bænaguðsþjónusta kl. 11. Súpa og brauð borið fram í Setrinu kl. 12. Brids í Setrinu kl. 13–16. Kvöldbænir kl. 18. Laugarneskirkja. Mömmumorgunn kl. 10 undir stjórn Aðalbjargar Helgadóttur. Nýjar mömmur velkomnar með börnin sín. Gönguhópurinn Sólarmegin leggur af stað frá kirkjudyrum kl. 10.30 alla miðviku- dagsmorgna undir stjórn Arnar Sigurgeirs- sonar. Nú er kjörið að byrja. Kirkjuprakk- arar kl. 14.10. Starf fyrir 1.–4. bekk. Umsjón Aðalheiður Helgadóttir, hjónin Kristjana H. Þorgeirsdóttir Heiðdal og Geir Brynjólfsson auk sr. Bjarna. Neskirkja. Fyrirbænamessa kl. 18. Prest- ur sr. Örn Bárður Jónsson. Breiðholtskirkja. Kyrrðarstund í dag kl. 12.10. Tónlist, altarisganga, fyrirbænir. Léttur málsverður í safnaðarheimilinu eftir stundina. Seljakirkja. Kyrrðar- og bænastund í dag kl. 18. Beðið fyrir sjúkum. Allir hjartanlega velkomnir. Tekið á móti fyrirbænaefnum í kirkjunni í síma 567 0110. Vídalínskirkja. Foreldramorgnar kl. 10–12 með Nönnu Guðrúnu í Vídalínskirkju. Hafnarfjarðarkirkja. Kyrrðarstund í kirkj- unni kl. 12, íhugun, altarisganga, fyrir- bænir. Léttur hádegisverður kl. 13 í Ljós- broti Strandbergs. Víðistaðakirkja. Kyrrðar- og fyrirbæna- stund í dag kl. 12. Góður kostur fyrir þá sem vilja taka frá kyrrláta og helga stund í erli dagsins til að öðlast ró í huga og frið í hjarta. Hægt er að koma fyrirbænaefnum til sóknarprests eða kirkjuvarðar. Boðið er upp á súpu og brauð í safnaðarheimilinu að kyrrðarstund lokinni. Þorlákskirkja. Barna- og foreldramorgnar í dag kl. 10–12. Lágafellskirkja. AA-fundur kl. 20.30 í Lágafellskirkju. Unnið í 12 sporunum. Sauðárkrókskirkja. Kyrrðarstund kl. 21. Landakirkja í Vestmannaeyjum. Kl. 11 helgistund á Hraunbúðum. Sr. Þorvaldur Víðisson og sr. Fjölnir Ásbjörnsson. Kletturinn, kristið samfélag. Kl. 20.30 bænahópar í heimahúsum. Upplýsingar í síma 565 3987. Kefas. Samverustund unga fólksins kl. 20.30. Lofgjörð, lestur orðsins, fróðleikur og samvera. Allt ungt fólk velkomið. Fíladelfía. Mömmumorgunn kl. 10. Kl. 20 biblíulestur og bæn í aðalsal kirkjunnar. Robert Maasbach forstöðumaður frá Eng- landi sér um lesturinn. Allir velkomnir. Safnaðarstarf Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir, amma og langamma, FLÓRA BALDVINSDÓTTIR, Ási í Hveragerði, áður til heimilis á Siglufirði, lést á heimili sínu mánudaginn 25. ágúst. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, mið- vikudaginn 3. september, kl. 15.00. Einnig er fyrirhuguð kveðjuathöfn frá Siglu- fjarðarkirkju og verður hún auglýst síðar. Valtýr Jónasson, Jónas Valtýsson, Vigdís S. Sverrisdóttir, Guðrún Valtýsdóttir, Baldvin Valtýsson, Laufey Ása Njálsdóttir, barnabörn og barnabarnabarn. Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, SIGURÐUR R. INGIMUNDARSON, Álfheimum 4, verður jarðsunginn frá Langholtskirkju fimmtu- daginn 4. september kl. 15.00. Dóra M. Ingólfsdóttir, Lilja Sigurðardóttir, Anna Sigurðardóttir, Konráð Jónsson, Erna Sigurðardóttir, Tonny Espersen, Ingi Sigurðsson, Berglind Sigurðardóttir, Atli Sigurðarson, barnabörn og barnabarnabarn. Hjartans þakkir til allra þeirra er auðsýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og útför eiginkonu minnar, móður, tengdamóður, ömmu og langömmu, RAGNHEIÐAR ÞÓRARINSDÓTTUR, Hjaltastöðum. Pétur Sigurðsson, Þórólfur Pétursson, Anna Jóhannesdóttir, Bryndís Pétursdóttir, Bjarni Friðriksson, Margrét Pétursdóttir, Sveinn Björnsson, barnabörn og barnabarnabörn. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir og afi, ENGILBERT RAGNAR VALDIMARSSON, Hrafnistu, Reykjavík, verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju föstu- daginn 5. september kl. 15. Blóm og kransar afþakkaðir, en þeim, sem vilja minnast hins látna, er bent á líknarfélög. Engilbert R. Engilbertsson, Ragnheiður Brynjólfsdóttir, Bergþór Engilbertsson, Stefanía Helgadóttir, Jón N. Engilbertsson, Guðbjörg Vallaðsdóttir og afabörn. Innilegar þakkir sendum við öllum þeim sem sýndu okkur samúð, vináttu og hlýhug við and- lát og útför eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður og afa, YNGVARS GUÐMUNDSSONAR fyrrv. rafmagnseftirlitsmanns, Hlíf II, Ísafirði. Sérstakar þakkir til alls hjúkrunarfólks og lækna sem önnuðust hann í veikindunum. Sigrún Einarsdóttir, Þuríður Yngvadóttir, Guðmundur Jónsson, Auður Yngvadóttir, Einar Á. Yngvason, Emelía Þórðardóttir og barnabörn.  Fleiri minningargreinar um Flóru Baldvinsdóttur bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. KIRKJUSTARF

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.