Morgunblaðið - 16.05.2006, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 16.05.2006, Blaðsíða 37
HEIMSMEISTARINN í skák, Veselin Topalov (2.804), teflir fyrir Búlgaríu og áður en hann fékk hina miklu tign tókst honum og umboðs- manni hans að sannfæra eitt stærsta símafyrirtækið í Búlgaríu til að fjár- magna ofurskákmót í höfuðborginni Sofíu. Fyrir nákvæmlega ári byrjaði Toppi, eins og hann er oft kallaður, afar illa í þessu öfluga móti en á síð- ari hluta þess vann hann hverja skákina á fætur annarri og stóð uppi sem sigurvegari. Óvíst er hvort honum takist að endurtaka leikinn í ár á sama móti, Mtel Masters, en að fjórum umferð- um loknum hefur hann gert þrjú jafntefli og tapað einni skák. Tap- skák meistarans var gegn indverska skáksnillingnum Viswanathan An- and (2.803) en hún var tefld í annarri umferð. Anand hafði svart í eftirfar- andi stöðu eftir 28. leik hvíts: Sjá stöðumynd 1 28. … Rxh3+! 29. gxh3 Dg5+ 30. Kh2 Df5! Mun nákvæmara en 30. … Hxe5 þar eð hvítur hefði getað þá haldið taflinu gangandi eftir 31. f4. 31. Hde4 Ekki gekk upp að leika 31. Rd3 þar eð eftir 31. … Hxe1 32. Rxe1 Hc3 hefði svartur unnið tafl. 31. … Hxe5! 32. Hxe5 Bd6 33. Rc5 Bxe5+ 34. Kg2 Hc6 35. Db3 Hg6+ 36. Kf1 Bg3 og hvítur gafst upp enda staða hans orðin að rjúkandi rúst. Í næstu umferð fékk Anand að kynnast keppnishörku bandaríska stórmeistarans Gata Kamsky (2.671) þegar sá síðarnefndi náði með svörtu að svíða jafnteflislegt endatafl. Þess skal getið að reglur mótsins eru frá- brugðnar hefðbundnum keppnis- reglum að því leyti til að keppendum er óheimilt að semja um jafntefli nema í þröngum undantekningartil- vikum. Sú regla hentar baráttu- mönnum vel á borð við Kamsky en hann lagði t.d. Bacrot að velli í mara- þonskák þar sem Frakkinn hafði riddara gegn hróki Kanans. Að öllu jöfnu er það steindautt jafntefli en eftir mistök á báða bóga knúði Kamsky fram sigur. Sigur Kamsky á fyrrverandi rússneska landa sínum Peter Svidler í fjórðu umferð var öllu þægilegri. Hvítt: Gata Kamsky (2.671) Svart: Peter Svidler (2.743) 1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rc6 5. Rc3 d6 6. Be2 Rf6 7. 0-0 Be7 8. Be3 0-0 9. f4 e5 10. Rxc6 bxc6 11. Kh1 exf4 12. Bxf4 Be6 13. Bf3 Db6 14. b3 Hfd8?! 15. De1 Rd7? Afleikur í verra tafli. Nú fær hvít- ur gott tafl með hugvitssamlegri sýndarfórn. Sjá stöðumynd 2 16. Rd5! cxd5 17. exd5 Bg4 18. Dxe7 Bxf3 19. Hxf3 Rf6 20. Be3 Da5 Svartur er peði undir en vonast til að fá gagnfæri meðfram e-línunni og að d-peð hvíts verði hugsanleg veikt. Með næsta leik hvíts er slökkt á öll- um slíkum vonarneistum. Sjá stöðumynd 3 21. Hxf6! gxf6 22. Dxf6 He8 23. Dg5+ Kf8 24. Bd2! og svartur gafst upp þar sem eftir t.d. 24. … Dd8 25. Dh6+ Kg8 26. Bc3 er fátt um fína drætti í stöðu svarts. Að fjórum umferðum loknum er staða mótsins þessi: 1. Gata Kamsky (2.671) 3½ v. 2. Viswanathan Anand (2.803) 3 v. 3. Peter Svidler (2.743) 2 v. 4. Veselin Topalov (2.804) 1½ v. 5.6. Ruslan Ponomarjov (2.738) og Etienne Bacrot (2.708) 1 v. Það verður spennandi að fylgjast með hvort að Kamsky takist að halda forystunni á mótinu en eins og kunn- ugt er þá dró hann sig í hlé frá al- þjóðlegum skákkeppnum árið 1996 eftir að hafa tapað heimsmeistara- einvígi gegn Anatoly Karpov. Hann tefldi fyrst á sterkum mótum á síð- asta ári og er greinilega að komast aftur í sitt gamla form. Nánari upp- lýsingar um mótið er m.a. að finna á heimasíðu þess, http://www.mtel- masters06.com/. Kamsky er kominn aftur í öllu sínu veldi SKÁK Sofía í Búlgaríu MTEL MASTERS 2006 9.–21. maí 2006 Svidler varð Kamsky auðveld bráð. Stöðumynd 1. Stöðumynd 2. Stöðumynd 3. daggi@internet.is HELGI ÁSS GRÉTARSSON Fjölnissonar, sem dó úr heila- himnubólgu, og var hann mikill harmdauði foreldra sinna og allra vandamanna. Bára reiknaði með að hún hefði veikst af flensu og lá heima í viku- tíma, og þegar hún var ekkert farin að lagast eftir þann tíma, var hún send í rannsókn inn á Landspítala. Kom þá í ljós, að hún var komin með krabbamein og það búið að dreifa sér það mikið, að ekkert var hægt að gera. Var hún síðan á spít- alanum í nokkra daga. Óskaði hún síðan að fá að fara heim, og vera þar þangað til að yfir lyki. Komu til hennar hjúkrunarfræð- ingar tvisvar á dag. Einnig kom dóttir hennar Emma frá Nýja-Sjá- landi til að vera hjá móðir sinni, einnig var Ella dóttir hennar yfir henni og hjálpuðust þær systur að við að létta henni biðina, svo og öll fjölskyldan, þótt það lenti mest á þeim systrum. Ég sem þessar línur rita, var mörg ár á bátum frá Hafnarfirði. Ég kom oft til bróður míns og mág- konu, og þáði þar margan bitann og sopann, sem mér er bæði ljúft og skylt að þakka. Það verður stórt tóm innan fjölskyldunnar, þegar Bára er horfin á braut, ekki síst fyrir bróður minn sem er orðinn mjög lasburða. Auður systir biður fyrir kveðjur og þakkir til Báru, fyrir allt gott á liðnum árum. Guð blessi minningu Báru. Guðmundur Emil Þórðarson. Vegir almættisins eru að sönnu órannsakanlegir og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þegar mér barst til eyrna fregnin af andláti Báru, vinkonu minnar, fannst mér að óréttlæti heimsins ætti sér engin takmörk. Öðlingur var hrifinn á braut, kona sem hafði svo óendanlega margt að gefa og veitti óspart af nægta- brunnum góðmennsku sinnar og visku. Bára var í mínum augum sannur listamaður í hannyrðum. Hún setti m.a. saman listaverk úr Grimmsævintýrum auk margvís- legra annarra útsaums- og prjóna- verka. En hún var ekki einasta listamaður til hugar og handa held- ur einnig og ekki síður lífskúnstner og mannvinur í þess orðs bestu merkingu. Kynni okkar Báru eru að vísu ekki mjög löng. Við urðum ná- grannakonur á Hraunhvamminum fyrir um 20 árum og kynntumst þegar Björn, barnabarn Báru, varð leikfélagi sonar míns. Síðan þá hef- ur aldrei skugga borið á samskipti okkar og hafa þau eflst og þróast æ síðan. M.a. tók hún að sér að vera sér- legur leiðbeinandi minn í gegnum völundarhús hannyrðanna og ófá voru sporin hennar heim til mín með nýjar hugmyndir og lausnir á þeim verkefnum sem ég var að glíma við. Og hún gaf sér svo sann- arlega tíma til að leiðrétta, betr- umbæta og kenna. En þrátt fyrir allt þetta er það persónuleiki henn- ar sem aldrei gleymist. Brosmildin og létti og dillandi hláturinn verða ævinlega hennar séreinkenni og í sérhvert sinn sem við hittumst hlýnaði mér um hjartarætur og glaðværðin tók völdin. Bára, ég kveð þig með söknuð í hjarta. Því miður á ég þess ekki kost að fylgja þér síðasta spölinn, en bið algóðan guð að styrkja Magnús og fjölskylduna á þessum erfiðu tímum. Birna Kristjánsdóttir og fjölskylda. Dagurinn í dag er dagurinn þinn, þú getur gert við hann hvað sem þú vilt. Gærdaginn áttir þú. honum getur þú ekki breytt. Um morgundaginn veist þú ekki neitt en daginn í dag átt þú. Gefðu honum allt sem þú megnar, svo að einhver finni í kvöld að það er gott að þú ert til. (Höf. ókunnur.) Það eru margir sem hafa fundið að það var gott að Bára var til. Hún nýtti daginn og stundina svo sann- arlega vel og hún geymdi aldrei til morguns það sem hún gat gert í dag. Hjálpsemi og umhyggja fyrir meðbræðrum sínum var henni í blóð borin. Á hverjum degi megnaði hún að gefa öðrum af gleði sinni og góð- mennsku, og uppörva, þannig að lífið varð bjartara og betra. Engin leið er að hafa tölu á öllum þeim sokkum, húfum og öðrum flíkum sem Bára hefur heklað og prjónað um dagana og gefið. Allar voru þessar gjafir góðar en ekki voru þær síðri og verðmætari þær sem hún gaf okkur með því að benda okkur á það góða og jákvæða sem við sjálf búum yfir. Svo var hún svo skemmtileg og minnug. Það eru margar ferðirnar og uppákomurnar sem við fengum að upplifa með henni því hún sagði svo lifandi og skemmtilega frá að það var eins og maður hefði verið með henni á staðnum. Börnin elsk- uðu hana, hún var eins og Mary Poppins, í töskunni hennar var allt- af eitthvað spennandi, hún sagði þeim sögur og sannfærði þau um að þau væru einstök hvert og eitt, enda leið þeim eins og prinsum eða prinsessum í návist hennar. „Ég skrepp til þín og byrja fyrir þig“ var ósjaldan svarið þegar ég var að vandræðast með einhverja handavinnu og venjulega var hún langt komin með stykkið þegar ég tók við. Bára lét sig ekki muna um að skreppa landshlutanna á milli til að gleðja mig. Þegar við bjuggum á Akureyri mætti hún óvænt í afmæl- ið mitt og söng ljóð til mín sem hún hafði sjálf samið og gerði það með miklum glæsibrag. Það er sárt að þurfa að kveðja þessa yndislegu manneskju sem var svo gefandi og hlý við alla í kringum sig. Fyrir okkur fjölskylduna er það ómetanlegur fjársjóður að hafa átt Báru að. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (Valdimar Briem.) Guð blessi minningu mágkonu minnar. Inga. Bára mín, blessuð sé minning þín. Þú varst öllum góð og alltaf að hjálpa og alltaf á fullri ferð í gegn- um lífið, enda var stutt frá því að þú varðst veik og þar til yfir lauk. Þú afrekaðir svo margt í lífinu t.d. byggja hús, vinna við fisk lang- an dag og alla tíð hafðir þú handa- vinnu í öllum frístundum og síðan einnig að aðalstarfi til margra ára. Alltaf reiðubúin að veita öðrum að- stoð eða bara laga, breyta og bæta fyrir viðkomandi og oftast klára verkið. Svo áttir þú fjögur mann- vænleg börn og góðan mann, Magnús vin okkar og allt tókst þér þetta vel. Ég þakka fyrir öll fallegu handverkin þín sem prýða heimili mitt. Þú varst góð vinkona Ingi- mundar og þakkar hann þér öll góðu árin sem þið áttuð samleið. Þau eru geymd en ekki gleymd. Bára var frænka mín á ská, það var okkar einkamál. Hjartans þakkir fyrir allar glað- ar, góðar stundir, Bára mín, ég veit að þú ert komin á fulla ferð á himn- um að hjálpa öðrum, hafðu það allt- af sem allra best. Kveðjur, Ingimundur og Sjöfn. Sem dropi titrandi taki sig út úr regni hætti við að falla haldist í loftinu kyrr – Þannig fer unaðssömum augnablikum hins liðna þau taka sig út úr tímanum og ljóma kyrrstæð, meðan hrynur gegnum hjartað stund eftir stund. (Hannes Pét.) Góð vinkona okkar, Bára Björns- dóttir, er horfin á braut eftir snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm sem hún tókst á við af einstöku æðruleysi og hugrekki. Eiginmaður og börn hennar önnuðust hana af ást og umhyggju og lögðu sig fram um að gera þann tíma sem eftir var sem bærilegastan. Við sem fylgd- umst með henni dáðumst að þraut- seigju hennar. Bára var atorku- kona, og bar dugnaði og eljusemi ættar sinnar gott vitni. Hún var hlý í viðmóti og sú gjafmildasta kona sem um getur, og gladdi aðra með lífsgleði sinni. Alla tíð var handavinna hennar aðaláhugamál, og þvílík listaverk sem hún hefur saumað, heklað og prjónað. Þeir eru ófáir sem fengu notið leiðsagnar hennar í gegnum árin eða eiga glæsilega hluti eftir hana. Við sex vinkonurnar höfðum verið með Báru í hekluklúbbi í sjö ár, þar sem hún leiðbeindi og kenndi okkur handverkið. Þarna var Bára í fararbroddi og eru ógleymanlegar þessar stundir sem við áttum með henni. Hún gætti þess að öðrum listgreinum og menningu væri einnig gert hátt undir höfði á fundum okkar. Alltaf var eitthvað fræðandi og skemmti- legt lesið upp eða hlustað á tónlist þar sem Hera, barnabarn hennar, söng. Það sem stendur nú upp úr er minning um góða konu sem hafði til að bera fórnfýsi og kærleikslund í ríkara mæli en almennt gengur og gerist. Við hjónin eigum margar góðar minningar tengdar þeim Báru og Magnúsi í gegnum rúm 40 ár, bæði frá heimili þeirra og úr starfi. Að leiðarlokum kveðjum við í „Hekluklúbbnum Báru“ og við hjónin vinkonu okkar með þakklæti og trega, og biðjum henni Guðs blessunar. En jafnframt er hugur okkar hjá Magnúsi, börnum þeirra og fjölskyldu. Þeirra er missirinn mestur. Steinunn og Gunnlaugur Fjólar. Mig langar með örfáum orðum að kveðja Báru frænku mína og vinkonu. Vinátta okkar og kunningsskap- ur hefur staðið yfir alla mína ævi eða svo lengi sem ég man eftir mér og vorum við alltaf í góðu sambandi hvor við aðra. Ég minnist allra af- mælanna sem ég fór í upp á Sjón- arhól, æskuheimili Báru. Oft kom- um við þangað mæðgurnar og voru viðtökurnar þar alltaf á sama veg. Systkinin komu öll og föðmuðu okkur og sögðu um leið: „Komdu sæl elsku „ljósa“,“ en móðir mín sem var ljósmóðir hafði tekið á móti þeim öllum. Að koma frá slíku heimili eins og Bára er gott veganesti, enda sýndi hún það með framkomu sinni við alla. Seinna eignaðist hún sjálf slíkt heimili, yndislegan maka og börn. Börnin mín fóru ekki varhluta af hennar góðvild, allt til síðasta dags þegar hún lá banaleguna var hún að gleðja og gefa. Ég votta Magnúsi eiginmanni hennar, börnum og barnabörnum innilegustu samúð mína. Að endingu kveð ég þig, elsku Bára mín. Þú varst mikill gleðigjafi í lífi mínu, þakka þér fyrir allt sem þú varst mér og minni fjölskyldu. Því heildarinnar heill hún bar í hjarta sem göfugt var. Blessuð sé minning hennar. Sólveig Stígsdóttir Sæland. MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. MAÍ 2006 37 MINNINGAR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.