Samvinnan - 01.08.1985, Blaðsíða 35

Samvinnan - 01.08.1985, Blaðsíða 35
Hinn 19. júní síðastliðinn voru 70 ár liðin frá því að konur á íslandi fengu kosningarétt til alþingis. Þessara merku tímamóta í sögu okkar var minnst á margan hátt, til dæmis með útihátíð á Þingvöllum, en þar flutti Kristín Ástgeirsdóttir ræðu þá er hér birtist. Meðfylgjandi mynd tók Þorleifur Þorleifsson af skrúðgöngunni, þegar konur í Reykjavík fögnuðu kosningarétti sínum við setningu Alþingis 7. júlí 1915. Myndin er fengin að láni hjá Kvennasögusafni Islands. Hinn 10. júní áriö 1915 barst skeyti til landsins með þau tíðindi að konungur hefði staðfest nýja stjórnarskrá. Þar með öðluðust íslenskar konur sem orðnar voru 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Konur voru viðurkenndar „löglegir borgarar þjóð- félagsins“ eins og Bríet Bjarnhéðins- dóttir komst að orði í Kvennablaðinu er hún sagði frá þessum tímamótum. Merku skeiði í íslenskri kvennabar- áttu lauk þennan dag, en þó tók það 11 ár til viðbótar að gera lögin þannig úr garði að konur og karlar hefðu jafnan kosningarétt og kjörgengi. Það fór hrifningaralda um hugi kvenna hinn 19. júní 1915. Kvenfélög- in í Reykjavík hófu þegar undirbúning hátíðar til að fagna unnum sigri. Hinn 7. júlí kom Alþingi saman og þann dag völdu konur til að halda hátíðina. Mikið var um dýrðir, fánar á stöngum og Austurvöllur skreyttur. Farið var í skrúðgöngu frá Miðbæjarbarna- skólanum að Alþingishúsinu og gengu 200 ljósklæddar smámeyjar í broddi fylkingar. Sendinefnd kvenna gekk á fund þingmanna og afhenti þakkar- ávarp frá íslenskum konum. Þar sagði m.a.: „Vér vitum vel, að auknum réttindum fylgja auknar skyldur. En vér tökum móti hvorutveggja með gleði. Vér vitum og skiljum að kosningaréttur til Alþingis og kjörgengi er lykillinn að löggjafarvaldi landsins, sem á að fjalla um alla hagsmuni þjóðarinnar, jafnt karla sem kvenna. Vér trúum því að fósturjörðin - stóra heimilið vor allra, þarfnist starfskrafta allra sinna barna, jafnt kvenna sem karla, eins og einka- heimilin þarfnast starfskrafta alls heimilisfólksins, og vér trúum því, að vér eigum skyldum að gegna og störf að rækja, í löggjöf lands og þjóðar, eins og á einkaheimilunum. Vér vonum einlæglega að hin nýja samvinna vor með bræðrum vorum á komandi tímum í landsmálum verði þjóðinni til heilla.“ (Kvennablaðið 16. júlí 1915). 35

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.