Morgunblaðið - 20.11.2010, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 20.11.2010, Blaðsíða 37
MINNINGAR 37 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. NÓVEMBER 2010 ✝ Guðný Sigurð-ardóttir fæddist í Brautarholti, Reyð- arfirði, 18. mars 1930. Hún lést á Landspít- alanum við Hring- braut 10. nóvember 2010. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhanna Guðmundsdóttir hús- freyja, f. 7. desember 1895, d. 26. apríl 1950, og Sigurður Sigbjörnsson, verk- stjóri og skrif- stofumaður á Reyðarfirði, f. 13. ágúst 1891, d. 18. febrúar 1977. Systkini hennar voru: Sölvi, f. 21. febrúar 1921, d. 4. nóvember 1990, Margrét, f. 29. mars 1926, d. 3. nóv- ember 2004, Erlingur, f. 15. júlí 1933, d. 29. desember 2007. Auk þessara barna eignuðust Sigurður og Jóhanna fimm börn er létust í bernsku. Guðný giftist Karli Ferdinands- syni, starfsmanni Vegagerðar rík- isins, Reyðarfirði, f. 17. október 1928, d. 3. mars 1995, foreldrar hans voru hjónin Sig- rún Sigurðardóttir, f. 9. febrúar 1898, d. 13. febrúar 1963, og Ferdinand Magn- ússon, f. 28 sept- ember 1895, d. 5. jan- úar 1968. Einkadóttir Guðnýjar og Karls er Jóhanna, f. 6. febrúar 1961, leiðbeinandi við Leikskóla Reyðar- fjarðar. Guðný ólst upp á Reyðarfirði, varð gagnfræðingur frá Eiðum, stundaði nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur, starfaði við versl- unar- og skrifstofustörf, sem leið- beinandi við Leikskóla Reyðar- fjarðar og bókavörður í Bókasafni Reyðarfjarðar. Útför Guðnýjar fer fram frá Reyðarfjarðarkirkju í dag, 20. nóv- ember 2010, og hefst athöfnin kl. 14. Mér þykir það svo skrítið að Lilla sé dáin. Fyrir mér er hún enn konan sem passaði mig þegar ég var lítil. Lilla var barngóð með eindæmum og þegar ég hugsa til baka þá man ég að hún hlustaði alltaf með athygli á það sem maður hafði að segja og talaði alltaf við mann eins og jafningja. Ég sá hana aldrei skipta skapi. Hún var létt í lund og alltaf stutt í brosið. Já, við hlógum oft saman við Lilla og oftast að eigin óförum. Við spiluðum líka oft eftir kvöld- matinn. Þá sátum við Lilla, Kalli og Jóhanna við eldhúsborðið á Heiðar- veginum og spiluðum ólsen-ólsen. Síðan var eldhúsborðið hlaðið kökum og við gæddum okkur á heimabökuðu lostæti. Á þessu heimili ríkti kærleik- ur og virðing. Ég gleymi heldur aldrei hvernig Lilla bjó um rúmin. Hún hristi hverja sæng vandlega, lagði þær fallega á rúmin, svo strauk hún yfir aftur og aftur svo þær lægju rennisléttar. Ég fékk líka stundum að fara með henni í vinnuna. Þá hjálpaði ég við að tæma rusladallana hjá Vegagerðinni á meðan Lilla skúraði og þurrkaði af skrifborðunum. Fyrir litla stúlku eru það forréttindi að fá að upplifa og taka þátt í lífinu með þessum hætti. Elsku Lilla, ég sakna þín sárt en ég veit að þar sem þú ert núna kætast börnin og eignast góðan vin. Þín vinkona og frænka, Ásta Sig. Lilla móðursystir okkar bræðra er látin, áttræð að aldri. Guðný var hún skírð í barnæsku, en allir kölluðu hana Lillu og sjálfri var henni tamara að nota það heiti en skírnarnafn sitt. Lilla er síðust til að kveðja úr barna- hópi Jóhönnu ömmu okkar og Sigurð- ar afa. Lilla hélt tryggð við æsku- stöðvarnar, bjó allan sinn aldur á Reyðarfirði. Þar reistu hún og eig- inmaður hennar, Karl Ferdinands- son, Kalli, sér stæðilegt hús af mikl- um dugnaði. Lilla stjórnaði þar heimilishaldinu af myndarskap og mikilli rausn, og þar bjó Sigurður afi okkar í öruggu skjóli þeirra hjóna, er aldurinn færðist yfir hann. Þótt systkini Lillu flyttu til Reykjavíkur var samband þeirra við hana alltaf mikið og náið. Meðal fyrstu minninga okkar bræðra voru upphringingar frá Landssímanum þar sem tilkynnt var, að símtal biði frá Reyðarfirði eða þá að símtalið, sem móðir okkar hafði pantað þang- að, væri til reiðu. Langlínusímtöl af þessu tagi þóttu á árum áður allnokk- urt fyrirtæki og kostnaðarsöm í þokkabót. Var lítt horft til þess, þeg- ar löngunin helltist yfir þær systur til að spjalla um allt og ekkert, eins og góðra systra er siður. Lilla virtist alltaf létt og kát. Hlát- ur hennar var innilegur og smitandi. Viðmótið var hlýtt og ljúft, þótt gam- ansemin væri aldrei langt undan. Hún var í einu orði sagt skemmtileg. Lýsingar við fjölmörg tækifæri hér á landi um myndarlegu og gestrisnu húsmóðurina nálgast vissulega stundum hreina klisju. Þegar Lillu er minnst er bara ekki nokkur leið að komast hjá því að nefna þessa kosti í fari hennar. Fengum við öll systkinin, börn Margrétar og Ármanns, að njóta þessa er við um lengri eða skemmri tíma dvöldum hjá Lillu á Reyðarfirði. Þar var viðurgerningur allur eins og á fimm stjörnu lúxushót- eli, en umhyggjan, sem við systkinin mættum, sprengdi hins vegar stjör- nugjafaskalann. Á unglingsárum okkar vorum við bræður einn í senn sumarlangt í vegavinnu fyrir austan. Dvöldumst við virka daga í skúrum við Lagarfljótsbrú, þar sem síðar varð Fellabær, en á laugardögum sóttum við niður á Reyðarfjörð til að eyða helginni hjá Lillu. Meðferðis höfðum við fullan pokaskjatta af óhreinum vinnufötum. Aldrei brást það, að Lilla afhenti okkur svo skjatt- ann aftur í bítið á mánudagsmorgni, og voru þá í honum tandurhrein fötin, straujuð og snyrtilega brotin saman. Mesta gleði og gæfa Lillu og Kalla var einkadóttir þeirra, Jóhanna. Voru þau öll afar náin. Enn styrktist sam- band þeirra Lillu og Jóhönnu við and- lát Kalla fyrir fimmtán árum. Þær voru ekki bara nánar mæðgur heldur bersýnilega einnig bestu vinkonur. Vissulega hafði Lilla fengið sinn skammt af veikindum síðustu árin. Þá var dýrmætt að eiga Jóhönnu að. Alltaf bar Lilla sig þó vel, hló og gerði að gamni sínu á hverju sem gekk. Andlát hennar kom samt á óvart. Ekkert sérstakt hafði bent til þess í hvað stefndi nema allra síðustu dag- ana. Missir Jóhönnu er mikill. Við bræður vottum henni samúð á sorg- arstund. Megi Lilla frænka okkar hvíla í friði. Jón, Sigmar og Guðmundur Ármannssynir. Lilla. Hvernig er hægt að lýsa ann- arri eins manneskju án þess að ókunnugir haldi að maður sé að fara með fleipur eða að ýkja? Lilla, eins og Guðný var alla tíð kölluð, var einstakt góðmenni og einhver hrekklausasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún var mikil öðlingskona, gestrisin með afbrigðum og einstaklega hjálpsöm. Það er mikil blessun að hafa fengið að kynnast henni og að njóta jafnmikilla samvista við hana og ég fékk. Hún sýndi öllum samferðamönnum sínum kærleika og umburðarlyndi, jafnt sín- um nánustu sem ókunnugum. Hún auðgaði allt líf í kringum sig á sinn lít- illáta máta og vildi öllum það besta. En hún hreykti sér svo sannarlega ekki af því enda gerði hún sér líklega ekki grein fyrir því hve mikið hún gaf samferðamönnum sínum með nær- veru sinni. Lilla fylgdist alltaf með hvað ég var að sýsla og ég fann að hún hugsaði til mín með hlýhug. Hún sýndi því sem maður var að gera áhuga hvort sem það var tónlistin sem hlustað var á, íþróttirnar, námið eða fjölskyldulífið. Aldrei gleymdi hún merkisdögum og samgladdist yf- ir hverjum áfanga sem maður áorkaði á lífsleiðinni. Alltaf var mikil eftir- vænting þegar von var á henni, Kalla og Jóhönnu í heimsókn til Reykjavík- ur. Samvera við þau var jákvæð upp- lifun og það breyttist ekkert þrátt fyrir alltof ótímabært fráfall Kalla. Þegar ég var lítill var mikil spenna við að opna jólapakkana að austan. Ein eftirminnilegasta gjöf sem ég man eftir til okkar bræðra voru hand- klæði og púðar með merki knatt- spyrnufélagsins Vals. Heimagert af Lillu. Einstakir dýrgripir sem enginn félagi okkar átti. Þó það komi manni ekki í opna skjöldu að Lilla kveðji þennan heim, södd lífdaga, þá er erf- itt að hugsa sér að maður muni aldrei aftur heyra í eða sjá hana. Andlát er alltaf óvægið og söknuðurinn er mik- ill. Með Lillu er farinn einhver mesti öðlingur og góðhjartaðasta mann- eskja sem ég hef kynnst en augljós- lega býr þessi styrkur hennar og Kalla, sem sama lýsing á við um, góðu lífi í Jóhönnu dóttur þeirra. Kveð ég Lillu með söknuði um leið og ég upp- lifi þakklæti fyrir að hafa átt hana að. Grétar Erlingsson. Þá er komið að leiðarlokum og kveðjustund, elsku Lilla. Fjöldi góðra minninga kemur upp í huga mér. Það er gott að eiga þær til að sefa sökn- uðinn og sársaukann í hjarta mínu sem fylgir þeirri miklu breytingu að Lilla er fallin frá. Á Heiðarveginn var alltaf notalegt að koma, og viðmótið þannig að nánast var eins og þar væri beðið eftir manni. Heimilisfólkið, Lilla, Kalli og Jóhanna, var boðið og búið að hjálpa til, ef með þurfti, t.d. við barnapössun fyrr á árum þegar við unga fólkið réðumst í ýmsa hluti oft af meira kappi en forsjá. Alla tíð síðan hefur þessi fjölskylda sýnt okk- ur mikla tryggð og vináttu. Það sem var einkennandi í fari Lillu var þessi dæmalausa góða lund. Hún átti alltaf aflögu gleði til að deila með öðrum. Hún flíkaði ekki skoðunum sínum en kunni að hlusta og virti skoðanir ann- arra þannig að það urðu aldrei há- vaðasöm skoðanskipti á þeim bæ. Ekki fór það fram hjá neinum sem til þekkti hvað þau Lilla og Kalli voru miklir vinir og hversu mikil virðing og væntumþykja ríkti milli þeirra og sameinaðist þetta allt í ást á einka- dótturinni Jóhönnu, sem nú er orðin ein eftir á Heiðarveginum. Það er þó vissa mín að þar verður áfram nota- legt að koma. Bestu þakkir fyrir sam- fylgdina, Lilla mín, og berðu öllu því góða fólki, sem ég trúi að taki á móti þér á einhverjum óþekktum stað, kveðju mína.Við sjáumst þar næst. Elsku Jóhanna, mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hólmfríður Þorsteinsdóttir. Komdu sæl og velkomin til Reyð- arfjarðar sagði hún við mig fyrir rúm- um þrjátíu árum þegar við heilsuð- umst fyrst. Okkur var ætlað að vinna saman við Bókasafn Reyðarfjarðar, sem áður hét Lestrarfélag Búðareyr- ar, en hún og Karl, eiginmaður henn- ar, höfðu unnið mikið og óeigingjarnt starf við það safn í áraraðir. Síðar átti Jóhanna dóttir þeirra eftir að láta safnið njóta starfskrafta sinna einnig um árabil. Þetta var upphafið að mikilli og góðri vináttu sem entist þótt landið þvert yrði á milli okkar síðar. Lilla, eins og Guðný var kölluð, var mjög skemmtileg kona, dálítið kald- hæðin stundum og hafði sérstaka kímnigáfu. Hún miðlaði mér fróðleik um austfirskar hefðir, staðhætti, mannlíf og ættfræði og kenndi mér austfirska texta og sönglög. Okkur leiddist aldrei á bókasafninu þennan áratug sem við unnum sam- an. Þangað komu bæjarbúar að ná sér í lesefni og mikið var spjallað. Um bækur, menn og málefni og slegið á létta strengi. Ekki ónýtt fyrir að- komukonuna að kynnast fólkinu á staðnum á þennan hátt. Við Hilmar minnumst oft Reyðar- fjarðaráranna með söknuði og á þar stóran hlut að máli fjölskylda Lillu. Í húsið við Heiðarveginn var gott að koma og ætíð stóðu dyrnar opnar okkur öllum. Börnunum þótti eftir- sóknarvert að setjast við borð Lillu sem ævinlega og á dularfullan hátt fylltist af ýmsu góðgæti. Fjölskyldan kom fram við þau sem fullorðið fólk og langþráða gesti. Karl var sérstak- ur öðlingur sem kvaddi alltof fljótt. Hann var fróður og vel lesinn maður en fyrst og fremst traustur og hlýr. Hún var köku- og tertumeistari af snilld. Hún gat bakað allt, vinnu- mannabollur, Bessastaðakökur, svanahóp úr vatnsdeigi svo eitthvað sé nefnt. Hún kunni líka listina að búa til góðan mat. Allt bragðaðist vel, en bestar voru þó lagkökurnar. Heimsóknirnar urðu stopulli eftir að ég flutti frá Reyðarfirði, en við hittumst á ferðum okkar að sumar- lagi. Við áttum þó alltaf löng samtöl í síma á ákveðnum dögum og þá var um nóg að tala, hvaða bækur við vær- um að lesa, hvað væri að gerast í póli- tíkinni og mannlífinu og alltaf var eins og við hefðum hist í gær. Það er gott að eiga mikinn sjóð góðra minn- inga og geta gengið í hann að vild. Ég kveð vinkonu mína að sinni og þakka allar samverustundir okkar, umhyggjuna og tryggðina við mig og mína. Jóhönnu sendum við Hilmar hlýjar kveðjur. Jósefína Ólafsdóttir. Þegar samferðafólk á langri leið hverfur af sjónarsviði þá bærist við- kvæmur strengur í brjósti manns. Þannig fór mér þegar ég fregnaði að mæt samferðakona um árafjöld væri svo snögglega af heimi horfin. Marg- ar kærar svipmyndir liðinnar tíðar fara um huga okkar hjóna þegar hún Guðný Sigurðardóttir er öll, hún Lilla eins og hún var oftast kölluð. Fyrst man ég eftir þessari hugþekku stúlku við afgreiðslustörf í kaupfélaginu heima sem ég í feimni minni þá vildi helzt láta afgreiða mig. Hún bauð af sér svo ágætan þokka, tók strákstaul- ann tali um leið og hún afgreiddi hann, létt í máli með grómlausa kímnigáfu ættar sinnar í ríkum mæli. Þessum mörgu góðu eðliskostum Guðnýjar áttum við Hanna bæði eftir að kynnast vel, hún var ævinlega þessi prúða, alúðarfulla og skemmti- lega kona sem gott var að hitta og eiga við tal. Hún var eðlisgreind hið bezta, myndvirk og mikil heimilis- manneskja, hugguleg kona og bar sig vel. Hvarvetna þar sem hún var gat hún sér hið allra bezta orð. Á leikskól- anum heima, þar sem hún átti afar farsæla starfssögu, átti hún hug smá- fólksins og um hana þar hafði dótt- ursonur minn, Hörður Seljan, hin fal- legustu orð á dögunum eins og alltaf áður. Hún tók bókasafnið okkar heima í hið bezta fóstur, ef svo má segja, þegar hún starfaði þar og var þar rétt kona á réttum stað, fróð um bækurnar og einstaklega lipur við alla afgreiðslu, gjarnan með gam- anyrði á vör. Guðný Sigurðardóttir á lífssögu ljúfa og góða, henni fylgdi farsæld góð og þekkur þokki. Hún átti vaskan dreng og dugmikinn, Karl Ferdinandsson, að lífsförunaut, en Karl maður hennar lést snögglega fyrir allmörgum árum og var henni harmdauði.Við Hanna sendum Jó- hönnu einkadóttur hennar innilegar samúðarkveðjur, svo og öðru hennar fólki, en með þeim mæðgum, Guð- nýju og Jóhönnu var ætíð mjög kært. Kær samferðakona er kvödd þakk- látum huga fyrir mikil ágætiskynni, fyrir það sem hún var samfélaginu okkar heima alla tíð, litlu samfélagi var dýrmætt að hafa átt samfylgd svo ágætrar konu. Blessuð sé minning hennar. Helgi Seljan. Guðný Sigurðardóttir ✝ Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, FRIÐJÓNS GUNNLAUGSSONAR, Túngötu 11, Seyðisfirði. Steinunn Júlía Friðbjörnsdóttir, Ingibjörg Valdís Harðardóttir, Valgeir Gunnar Hjartarson, Gunnar Kristján Friðjónsson, Kristín Gissurardóttir, Björg Friðjónsdóttir, Stefán Ragnar Ólafsson, Gunnlaugur Friðjónsson, Bjarnheiður Jónsdóttir, Friðjón Friðjónsson, Einar Friðjónsson, Ágústa Ingimarsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Innilegar þakkir til allra sem sýndu samúð og vinar- hug við andlát og útför hjartkærs bróður okkar, frænda og vinar, EINARS ÓLAFSSONAR húsasmíðameistara. Sérstakar þakkir til starfsfólks Hrafnistu í Reykjavík, einnig til félaga í IOGT stúkunni Einingunni nr. 14, fyrir umhyggju og vinarþel. Fyrir hönd aðstandenda, Reynir Hlíðar. ✝ Ástkær móðir okkar, stjúpmóðir, tengdamóðir, amma og langamma, HREFNA SVEINSDÓTTIR frá Vík í Mýrdal, Sóltúni 30, Reykjavík, verður jarðsungin frá Laugarneskirkju þriðjudaginn 23. nóvember kl. 15.00. Þeim sem vilja minnast hennar er bent á Styrktar- sjóð Blindrabókasafns Íslands. Banki: 137-05-69187, kt. 650183-0459. Elsa Þorsteinsdóttir, Axel Bryde, Sveinn Hrólfsson, Daði Hrólfsson, Debora Turang, Arnar Þór Hrólfsson, Andri Hrólfsson, Sunna Karlsdóttir, Ingólfur Hrólfsson, Hanna Jónsdóttir, Gunnhildur Hrólfsdóttir, Finnur Eiríksson, Bryndís Hrólfsdóttir, Engilbert Gíslason, barnabörn og barnabarnabörn.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.