Málfríður - 15.10.2007, Blaðsíða 2

Málfríður - 15.10.2007, Blaðsíða 2
 MÁLFRÍÐUR Námsferð til Svíþjóðar og Danmerkur Á haustdögum héldu fjórir kennarar af Austurlandi og einn frá Vestfjörðum í námsferð til Kaupmannahafnar og Malmö í Svíþjóð. Tilgangur fararinnar var að kynna sér fullorðinsfræðslu útlendinga og þá aðallega tungumála­ kennslu. Kennararnir sem fóru voru Laufey Eiríksdóttir verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands, Eygló Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Fáskrúðsfirði, Þrúður Gísladóttir kennari Grunnskólans á Reyðarfirði, Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennsluráðgjafi Skólaskrifstofu Austurlands og Sigurborg Þorkelsdóttir verkefnastjóri Fræðslumiðsöðvar Vestfjarða á Ísafirði. Allar þessar konur eiga það sameiginlegt að hafa stundað íslenskukennslu fyrir útlendinga á sínum heimaslóðum, eða á Seyðisfirði, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Ísafirði. Til fararinnar fengu þær styrk í gegnum manna­ skiptaverkefni Landsskrifstofu Leónardós á Íslandi. Fyrstu tvo dagana fór hópurinn í kynnisferð til Fred­ riksbjerg undervisningscentret í Kaupmannahöfn og síðan var farið á mismunandi kennslustaði í Malmö s.s Komvux sem stendur fyrir fullorðinsfræðslu á vegum sveitafélagsins. Fredriksbjerg sér um dönskukennslu fyrir útlendinga og einnig um kennslu fyrir fullorðna sem af einhverjum orsökum hafa helst úr námi og geta þeir lokið námi með stúdentsprófi. Hópurinn einblíndi á tungumálakennslu útlendinga enda tilgangurinn með ferðinni. Það var álit hópsins að þróun tungumálakennslu væri okkur fremri og hafa Danir farið út í mikla útgáfu á námsefni sem er auðvelt en hentar fullorðnum. Þeir kenna útlendingum dönskuna í stigum líkt og við gerum hér á landi en mun­ urinn hjá þeim og okkur er sá að þeir hafa yfir að ráða námsráðgjöfum sem stýra nemendum inn á stig eftir getu og færni. Einnig eru samræmd próf eftir hvert stig sem sérstök prófanefnd hefur útbúið. Á hverju stigi eru mis­ margir áfangar sem nemendur taka samræmt próf úr til þess að komast í næsta áfanga á hverju stigi. Nemendur verða að standast prófin til þess að geta haldið áfram. Einnig hafa nemendur möguleika á að taka samræmt próf í dönsku til þess að öðlast ríkisborgararétt í landinu. Hópurinn fékk tækifæri til þess að fylgjast með kennslu á nokkrum stigum. Á fyrsta stiginu eru aðallega nemend­ ur sem hafa annað ritmál eða frá rómönskum löndum og nemendur sem hafa aldrei lært að lesa og skrifa. Einnig var sérstakt stig fyrir nemendur með dyslexiu eða lestr­ arerfiðleika. Kennslan einkennist af rólegri kennslu þar sem mikið er um endurtekningar. Námsefnið sem stuðst er við eru ljósmyndir og stuttir textar, æfingar í að skrifa og segja frá. Á annað stigið raðast nemendur sem eru byrjendur og koma frá löndum sem hafa líkt ritmál og Danir. Hér raðast nemendur sem hafa fjögurra til átta ára skólagöngu úr heimalandinu og lítinn bakgrunn í námi.Áfangar innan stigsins eru mislangir. Í lok hvers áfanga eru tekin munn­ leg og skrifleg próf. Námsefnið er bæði skriflegar æfingar og bóklestur. Á þessu stigi var mikið um léttlestrarbækur sem samdar eru sérstaklega fyrir fullorðna. Á þriðja stigið raðast síðan nemendur sem kunna eitthvað í dönsku, er menntað fólk. Þetta stig skiptist í a og b áfanga, og raðast fólk í áfangana eftir menntun. Námsefnið á þriðja stiginu einkennist af lestextum, stuttum bókum og skáldsögum. Það var ótrúlegt að fá að fylgjast með kennslunni en nemendur eru á öllum aldri. Við hittum t.d. konu á átt­ ræðisaldri sem sagðist vera í dönskukennslu til þess að geta skilið barnabörnin sín. Nemendur í Danmörku fá styrk til náms fyrstu þrjú árin eftir að þau koma í landið. Einnig er algengt að fyrir­ tæki kosti útlendinga til náms í dönsku. Í Malmö heimsóttum við Data Lingua stofnunina sem var stofnsett fyrir rúmlega 10 árum. Hussein Ellyas frá Súdan er hugmyndasmiðurinn að þessari stofnun sem er sænsku og tölvunám fyrir útlendinga. Námið tekur mið af þörfum atvinnulífsins. Markmið Data Lingua er að brúa bilið milli sænskunámskeiðanna sem geta staðið yfir í nokkra mánuði til 2 ára og starfsnámsbrautanna í framhaldskólunum. Komvux skólinn í Malmö er með svipað fyrirkomulag og skólinn í Fredriksbjerg og kennt í stigum. Allt landið notar sömu námskrá. Þegar nemendur eru hálfnaðir með námið í sænsku geta nemendur farið í nokkurs konar starfsnám til þess að þjálfa sig í sænsku. Einnig heimsótt­ um við Rönnes Gymnasium, sem er starfsmenntaskóli sem hefur sérhæft sig í heilsugeiranum. Nemendur vinna sem aðstoðarmenn á heilsustofnunum, tannlæknastofum og á sambýlum fatlaðra. Námið er sveigjanlegt og geta nemendur stundað námið í dagskóla, kvöldskóla og í fjar­ námi. Hver nemandi hefur leiðbeinanda sem heldur utan um námið með nemandanum. Ferð þessi var okkur mjög lærdómsrík í alla staði. Við fengum mjög góðar móttökur alls staðar þar sem við komum. Hópurinn fékk einnig góða og fræðandi leiðsögn um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn og heimsótti m.a. Jónshús og Íslenska sendiráðið. Ólafía, höfundur greinarinnar, Eygló, Laufey, Þrúður og Sigurborg

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.