Málfríður - 15.10.2007, Blaðsíða 15

Málfríður - 15.10.2007, Blaðsíða 15
MÁLFRÍÐUR 1 Það var á fallegum ágústdegi sem ég keyrði ásamt Irmu, samstarfskonu minni hjá Mími­símenntun, úr Reykjavík að Glymi í Hvalfirði. Við vorum á leið á tveggja daga sumarnámskeið hjá félaginu. Undanfarin ár hefur Ísbrú staðið fyrir sumarnám­ skeiði en kærkomin tilbreyting var að hafa það á landsbyggðinni. Það er einstaklega fallegt að keyra Hvalfjörðinn því þar ríkir einstök friðsæld. Við vorum svo að segja einar í heiminum á leiðinni fyrir utan nokkrar rollur, hesta og fugla sem voru á sveimi. Að fara til náms í nýju umhverfi og helga sig því í tvo daga er mun innihaldsríkara en að skreppa á fyrirlestra í 2­4 klukkustundir innan höf­ uðborgarsvæðisins. Mér fannst líka ágæt tilbreyting að komast úr vinnunni og frá fjölskyldunni í tvo daga til að fræðast og njóta þæginda. Hótel Glymur stendur hátt í brekku, innarlega í firðinum, sem ligg­ ur að ströndinni ofan við sögufrægan stað, Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Umhverfis hótelið eru ýmsar gönguleiðir og er það búið öllum mögulegum þæg­ indum. Á þessu heimilislega hóteli er líka óhætt að mæla með veitingunum en minnisstæðastir eru þó fjölmargir listmunir af ýmsu tagi sem prýða staðinn, flestir skondnir og framandlegir. Alls sóttu 33 kennarar námskeiðið að þessu sinni og mun færri komust að en vildu. Konur voru í miklum meirihluta námskeiðsgesta. Kom það varla nokkrum úr þessari kvennastétt á óvart en sem betur fer voru líka nokkrir karlar í hópnum. Á fimmtudeginum hófst námskeiðið á því að Guðrún Pétursdóttir, mannfræðingur og framkvæmdastjóri ICI, hélt fróðlegt og skemmtilegt erindi um fjöl­ menningarlega kennsluhætti. Fengu námskeiðs­ gestir að reyna aðferðir hennar á eigin skinni og var afar lærdómsríkt að sitja hinum megin við borðið. Þá fjallaði Ruth Magnúsdóttir, kennsluráðgjafi og grunnskólakennari á Egilsstöðum, af fagmennsku um fagvitund kennara, starfsþroska þeirra og kenn­ arastarfið sem slíkt. Varpaði erindi hennar ljósi á marga þætti sem maður kannaðist við en hafði ekki velt fyrir sér að ráði. Um kvöldið var snædd gómsæt máltíð við langborð og fóru margir í heita potta, eða gönguferðir, fyrir eða eftir máltíðina. Morguninn eftir kynnti svo Hulda Karen Daníelsdóttir kennslu­ ráðgjafi fjölmargar leiðir við kennslu barna og full­ orðinna sem hafa íslensku sem annað mál. Lagði hún áherslu á fjölbreytta framsetningu námsefnisins og sýndi hvernig aðlaga má texta til að gera þá útlend­ ingum aðgengilegri. Hulda kom þessu hressilega frá sér og dreif mannskapinn í skemmtilega hópa­ vinnu og úrlausnir ýmiss konar verkefna. Að kenna útlendingum okkar ástkæra ylhýra mál er ólíkt hefðbundinni íslenskukennslu að því leyti að hópurinn þarf líka að aðlagast nýju samfélagi og skipt getur sköpum hvernig til tekst. Þar getur góður kennari haft mikil áhrif. Á svona námskeiði safnar maður í sarpinn fyrir veturinn og hollt er að staldra við, skoða sem flesta fleti, og sjá að kennslu má ætíð bæta og gera skemmtilegri. Fjölbreytileikinn er ótrúlegur leiti maður fanga og það er verulega gefandi að hlýða á áhugaverða fyrirlestra um fagið sitt. Að þessu sinni er óhætt að fullyrða að þeir hafi verið mjög vel heppnaðir. Kennarar eru margir hverjir hálfgerðir einyrkjar og því er kjörið að þeir deili reynslu sinni með öðrum í svipuðum sporum og gerðum við það óspart í hléum og yfir máltíðum. Þótt ég kenni eingöngu fullorðnum lærði ég mikið af þeim sem kenna á öðrum skólastigum, þótt nálg­ unin sé önnur, og eflaust var því eins farið með hina. Á slíku námskeiði eflist liðsheildin og gaman var að hitta nýtt fólk úr faginu frá ýmsum landshlutum. Ég hlakka til að fara á námskeið Ísbrúar næsta sumar og hvet þá sem lesa þetta og telja sig eiga erindi í félagið til að ganga til liðs við hópinn. Þá vil ég þakka þeim sem stóðu að framkvæmdinni. Ísbrú, sam­tök kennara og leiðbeinenda sem­ kenna íslensku sem­ erlent m­ál, stóð fyrir nám­skeiði fyrir félagsm­enn sína. Vala S. Valdimarsdóttir Vala S. Valdimarsdóttir, kennari og verkefnastjóri hjá Mími Sumarnámskeið Ísbrúar 9.–10. ágúst 2007

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.