Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 8

Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 8
8 Skólavarðan 1. tbl. 2012 Allyson Macdonald sagði að við endurskoðun námskrárinnar í náttúrugreinum hefði verið tekið mið af aðalnámskránum 1999 og 2007 og einnig áherslum sem koma fram í almennum hluta frá 2011. Það kemur í hlut náttúrugreina að vinna með efni úr ýmsum áttum auk þess að leggja línur sem varða umhverfismennt. Unnið var að drögunum hægt og bítandi og hélt þriggja manna ritstjórn átta opna fundi með grunnskólakennurum, auk þess að leitað var til sérfræðinga í líffræði, jarðfræði og eðlis- og efnafræði. Reynt hefur verið að ýta undir samþættingu námsþátta með því að forðast að flokka hæfniviðmið of nákvæmlega þannig að kennarinn, einn eða hópur kennara, getur búið til námsefni þvert yfir landamæri greinanna. Þetta er gert ekki síst til að færa náttúrugreinar inn í 21. öldina þar sem þverfaglegt efni er víða að finna og efla má upplifun, sköpun og ábyrgð nemenda og skilning þeirra á náttúru, tækni, samfélagi og umhverfi. Páll Skúlason sagði að samfélagsgreinar spönnuðu nú víðara svið en áður. Undir þær heyra kennslugreinarnar saga, landafræði, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni og siðfræði auk heimspeki, kynjafræði, sálfræði, stjórnmálafræði og hagfræði . Greinarnar væru ekki aðgreindar í námskránni og hæfniviðmið réðust af efnisþáttum. Hver skóli hefði frelsi til að ráðstafa þeim tíma sem hver grein fengi og leggja þær áherslur sem best hentuðu hverju sinni. Hann sagði það hlutverk samfélagsgreinanna að fjalla um samfélög og menningu á upplýsandi og gagnrýninn hátt. Grundvöllur þeirra lægi í þeirri skyldu hvers samfélags að fræða nemendur um mikilvæg gildi, hjálpa þeim að bregðast við siðferðilegum áskorunum, efla skilning þeirra á ákveðnum grundvallargæðum mannlegs lífs og útskýra margvíslegar skyldur og réttindi sem eru órofa hluti af félagslegum og siðferðilegum veruleika okkar. Kári Jónsson sagði skólaíþróttir næðu yfir íþróttagreinar, leiki, líkamlega fimi, færni í samhæfingu skynjunar og hreyfinga, sjálfsögun, samvinnu, samstöðu, sundfærni og útivist á skólatíma. Kári lagði áherslu á að íþróttakennsla væri heilsufag og að heilsa og vellíðan barna væri nátengd námsárangri. Þannig væru allir kennarar og skólastjórnendur samábyrgir fyrir því að auka hreyfingu barna á meðan þau eru í skólanum. Íþróttakennarar væru sérfræðingar á þessu sviði og ættu því að nýtast sem ráðgjafar þvert á greinar. Hæfniviðmið eru sett saman úr tveimur þáttum, leikni og þekkingu sem saman mynda þá hæfni sem nemandi skal búa yfir við lok námsins í 4., 7. og 10 bekk. Sundkennsla er nú ein skólaíþrótta en ekki sérstök grein eins og áður en gömlu sundstigin tíu geta enn nýst kennurum til viðmiðunar í námsmati. Siggerður Ólöf Sigurðardóttir og Sólveig Friðriksdóttir sögðu að litið væri á upplýsinga- og tækimennt sem eitt námssvið í þverfaglegri samvinnu við aðrar greinar. Þegar fjallað er um læsi í víðum skilningi er megináherslan á upplýsinga- og miðlalæsi sem og menningarlæsi. Mikilvægt sé að hver nemandi kynnist sem fyrst á skólagöngu sinni þeim tækifærum sem felast í nýtingu tækni, góðu vinnulagi og öðlist hæfni til að afla upplýsinga, ígrunda þær, setja fram niðurstöður og miðla nýjum sjónarmiðum og þekkingu á vandaðan hátt. Sá sem er læs á upplýsingar getur metið hvaða upplýsingar hann þarf, kann að nálgast þær, leggja á þær mat, bæta þeim við eigin þekkingargrunn og nota þær með ákveðið markmið í huga. Umsjónar- eða faggreinakennari hverju sinni ber ábyrgð á námsmatinu en allir aðilar í þverfaglegri samvinnu koma að því. Það er misjafnt eftir skólum hversu mikið hefur verið unnið með nýju aðalnámskrána. Sums staðar er verkið á byrjunarreit en annars staðar hafa stjórnendur eða kennarar sjálfir hafist handa við að kynna sér nýjungarnar sem felast m.a. í breyttri sýn á skólastarf, nýjum áherslum og mörgum nýjum hugtökum sem varða nám og námsmat. Sóley Halla Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Heiðarskóla í Reykjanesbæ, sagði að hugmyndirnar sem væru til grundvallar í nýju námskránni féllu eins og flís við rass við þau gildi og markmið sem Heiðarskóli ynni út frá. Þar væru nemendur settir í öndvegi, kappkostað að þeim liði vel til að hæfileikar þeirra og færni fengju notið sín. Sóley sagði að kennararnir í Heiðarskóla hefðu að eigin frumkvæði sett af stað vinnufundi þar sem þeir lögðust yfir nýju námskrána, kynntu sér innihald hennar og ræddu saman skilning sinn á henni. „Ég hlakka mikið til að vinna eftir nýju aðalnámskránni og sjá hvernig hún mun þróast hjá okkur,“ sagði Sóley Halla. Ráðstefnugestir voru hvattir til að kynna sér nýju námskrána vel og mynda sér skoðanir á henni um leið og þeir voru hvattir til að senda athugasemdir um hana til réttra aðila. Þóra Björk Jónsdóttir og Allyson Macdonald voru meðal frummælenda. RáÐstEfnuR

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.