Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 15

Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 15
15 Skólavarðan 1. tbl. 2012 Launaseðillinn þinn Það er mikilvægt að launþegar lesi launaseðla sína og athugi mánaðar- lega hvort þeir séu réttir. Ákveðin atriði verða að koma fram á launa- seðlum en önnur eru eingöngu til upplýsingar. Í kjarasamningi segir að launþegi eigi rétt á launaseðli en þar er ekki tekið fram hvort hann eigi að vera á pappír eða rafrænn. Núorðið eru launaseðlar oftast rafrænir sem virðist verða til þess að þeir eru ekki skoðaðir í sama mæli og áður. Ég vil brýna fyrir félagsmönnum að fara yfir launaseðlana sína. Þeir sem kjósa frekar að fá launaseðilinn sinn útprentaðan eins og áður geta yfirleitt óskað eftir því. Launaseðlar eru kvittun fyrir félagsgjaldi, iðgjaldi í lífeyrissjóð og staðgreiðslu skatts En hvað skal hafa í huga þegar farið er yfir launaseðla? Launþegi á rétt á að fá launaseðil merktan nafni sínu. Þar skulu tilgreind föst laun fyrir það tímabil sem um er að ræða en þar á einnig að koma fram fjöldi yfirvinnustunda. Öll yfirvinna skal greidd eftir á fyrir hvern mánuð eða hverja þrjátíu daga og komi til útborgunar eigi síðar en 15 dögum eftir síðasta dag reikningstímabils. Það sama gildir um greiðslu fyrir yfirvinnu á veikindatímabili. Á launaseðli skal einnig koma fram sundurliðun einstakra tekna og frádráttarliða sem leiða til útgreiddra launa. Helstu frádráttarliðir eru staðgreiðsla skatta, iðgjald í lífeyrissjóð og félagsgjald til KÍ. Fyrir utan það sem skylt er að komi fram á launaseðli má nú sjá hjá mörgum launagreiðendum ýmislegt til upplýsingar fyrir launþegann, s.s. mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð og framlag í hina ýmsu sjóði eins og endurmenntunarsjóð, orlofssjóð og sjúkrasjóð. Mikilvægt er að launþegi geymi launaseðla því þeir eru kvittun fyrir því að launagreiðandi hafi haldið eftir félags- gjaldi, iðgjaldi í lífeyrissjóð og staðgreiðslu skatts. Mörg erindi berast til mín vegna launaseðla og hvort þeir séu réttir. Heillaráð frá launafulltrúa KÍ Ingibjörg Úlfarsdóttir Launafulltrúi KÍ Ljósmynd: Steinunn Jónasdóttir Spurt er út í öll atriðin sem ég nefndi hér að ofan sem og annað sem þar kemur fram líkt og launaflokkaröðun, launaleiðréttingar, breytingar á starfshlutfalli og ýmis önnur atriði. Þó að yfirleitt sé hægt að leiðrétta rangar launagreiðslur þá getur tómlæti launþega stundum orsakað að launakröfu aftur í tímann er hafnað. Almenna reglan er þó sú að á launagreiðanda hvíli meiri ábyrgð en launþega þegar kemur að útreikningi launa. Ofgreidd laun - vangreidd laun Ef laun hafa verið ofgreidd er ekki sjálfgefið að draga eigi af launum. Það gæti til dæmis átt við þegar um er að ræða lága fjárhæð á mánuði yfir langt tímabil og launþegi hefur tekið við launum í góðri trú um að þau hafi verið rétt, þó að uppsöfnuð fjárhæð kunni að vera orðin há. Í þeim tilfellum sem um er að ræða háa greiðslu umfram hefðbundin laun hvort sem hún er borguð út í lengri eða skemmri tíma, er heimilt að krefjast endurgreiðslu og draga af launum. Oftast er reynt að fara sanngjarna leið og samið um að ofgreidd laun séu dregin af þannig að launþegi ráði auðveldlega við það. Mikilvægt er að kynnt sé fyrirfram fyrirkomulag launafrádráttar vegna ofgreiðslu. Þegar um vangreidd laun er að ræða eru í flestum tilfellum gerðar leiðréttingar allt að fjögur ár aftur í tímann frá þeim tíma sem krafa er sett fram. Í sumum tilfellum er mikilvægt að öll gögn hafi verið lögð fram í upphafi ráðningar líkt og starfsvottorð, leyfisbréf og gögn um framhaldsmenntun þó launaleiðréttingar geti verið af fleiri ástæðum en þeim sem hér eru upptaldar. Ykkur er velkomið að hringja til mín í síma 595 1111 eða senda mér tölvupóst á netfangið ingibjorg@ki.is ef þið hafið spurningar um þetta eða annað. KjARAmáL

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.