Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 10

Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 10
10 Skólavarðan 1. tbl. 2012ALþjóÐAdAguRInn Fimmta þing Kennarasambands Íslands vorið 2011 fól stjórn KÍ að velja stuðningsverkefni erlendis í samráði við aðalskrifstofu Alþjóða kennarasambandsins (EI) og/eða hjálparstofnanir hérlendis. Tilgangurinn er að styðja þróunarstarf í landi þar sem kennarar og/ eða skólastarf eiga erfitt uppdráttar vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga. Til verkefnisins skal árlega verja upphæð sem þing KÍ ákveður í fjárhagsáætlun hverju sinni. Stjórnin valdi að styðja við þróunarstarf í Síerra Leóne í samvinnu við Rauða kross Íslands. Síerra Leóne sem er á vesturströnd Afríku á landamæri við Gíneu og Líberíu. Landið er meðal þeirra fátækustu í heimi og lífskjör þar með því versta sem um getur. Nærri helmingur þjóðarinnar er undir fimmtán ára aldri en grimmileg borgarstyrjöld geisaði í landinu um árabil með nauðungarþátttöku þúsunda barna. Síerra Leóne vermdi lengi botnsætið á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna en nú horfir til betri vegar og vonir hafa glæðst um batnandi lífskjör þar. Fyrsta og eina tækifærið til menntunar Moyamba er hérað í Suður-Síerra Leóne og er samnefndur bær höfuðstaður þess en þar búa á tólfta þúsund manns skv. opinberum tölum frá 2004. Rauði krossinn á Íslandi styður 150 ungmenni árlega til náms og starfsþjálfunar í svokölluðu Moyamba-athvarfi. Ungmennin læra þar að lesa og skrifa og stunda iðnnám í valinni grein. Hver nemandi fær áhöld fyrir sitt sérsvið sem hann nýtir í náminu og fær svo til eignar að útskrift lokinni; trésmíðanemar fá sagir, hamra og hefla en klæðskeranemarnir fá meðal annars saumavél. Fræðsla um alnæmi og getnaðarvarnir er líka í námskránni. Fyrir mörg ungmennanna er þetta fyrsta og eina tækifærið til að öðlast menntun. Rauði krossinn í Síerra Leóne heldur úti nokkrum slíkum athvörfum víðs vegar um landið en Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt starfsemina í Moyamba frá árinu 2004. Stöndum með kennurum Á alþjóðadegi kennara 5. október nk. stendur Kennarasamband Íslands að fjársöfnun til styrktar verkefninu í Moyamba-athvarfinu í samstarfi við Rauða kross Íslands en yfirskrift dagsins er „Stöndum með kennurum“. Fjárins verður aflað meðal kennara með símasöfnun. Með þessu móti hrindir KÍ samþykkt fimmta þingsins í framkvæmd og tekur þátt í alþjóðlegu uppbyggingarstarfi til eflingar menntunar. Kennurum er í lófa lagið að horfa til Síerra Leóne og flétta verkefnið í Moyamba-athvarfinu inn í skólaverkefni. Margt smátt gerir eitt stórt. Fólki gefst kostur á að greiða mismunandi upphæð með því að hringja í mismunandi númer líkt og í símakosningu. Nánara fyrirkomulag söfnunarinnar verður kynnt í Eplinu, veftímariti KÍ, og fjölmiðlum þegar nær dregur. Texti: GG Myndir: Rauði kross Íslands Alþjóðadagur kennara 2012 Stöndum með kennurum í Síerra Leóne.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.