Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 44

Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 44
44 Skólavarðan 1. tbl. 2012 Opnaður hefur verið vefur sem heitir Sjálfsmynd og fjallar um sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga. Vefurinn er þverfaglegt samstarfsverkefni sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa og kennara. Að verkefninu koma Elva Björk Ágústsdóttir, Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, Anna Sigríður Jökulsdóttir, María Hrönn Nikulásdóttir og Guðbjörg Pálsdóttir. Vefurinn er verkfærakista sem verður uppfærður jafnt og þétt. Verkfærin sem hann býður upp á eru ýmiss konar ráð og verkefni sem stuðla að því að börn og unglingar skoði eigin sjálfsmynd, sjái hið jákvæða í eigin fari og nýti það til að byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd. Mörg ungmenni hafa slæma sjálfsmynd og er tíðni hennar mismunandi eftir aldri og kyni. Stúlkur mælast t.d. með síðri líkamsmynd en drengir. Börnum og unglingum, sem lent hafa í einelti eða eru greind með raskanir eins og ADHD, er hættara við að hafa slaka sjálfsmynd eða líkamsmynd. Fræðimenn hafa tengt slæma sjálfs- og líkamsmynd við aukna tíðni ýmissa geðraskana, t.d. geta líkur á þunglyndi, kvíða, átröskunum, slæmum námsárangri og annarri áhættuhegðun aukist eftir því sem sjálfs- og líkamsmyndin versnar. Mikilvægi þess að huga að líðan barna og unglinga og sýn þeirra á sjálfa sig er því augljóst. Sjálfsmynd (Self Image) má skilgreina sem þá sýn eða skoðun sem við höfum á okkur sjálfum. Oft er talað um sjálfstraust en sá sem hefur sjálfstraust hefur góða trú á sjálfum sér og hæfileikum sínum. Sá sem er með lítið sjálfstraust hefur oft neikvæða hugmynd um sjálfan sig. Líkamsmynd (Body Image) er sú sýn eða skoðun sem við höfum á útliti okkar eða líkamsvexti. Mörg hugtök og orðasambönd hafa verið notuð til að lýsa því hvað felst í hugtakinu líkamsmynd, t.d. sátt við eigin þyngd, sátt við eigið útlit og líkamsvirðing. Í megindráttum má segja að því ánægðari eða sáttari sem við erum með eigið útlit því betri er líkamsmyndin. Hægt er að nýta aðferðir hugrænnar atferlisfræði til að bæta sjálfs- og líkamsmynd fólks. Þegar byggja skal upp sjálfs- eða líkamsmynd ungra barna er mikilvægt að nota einföld verkefni og byggja fræðslu og ráðgjöf á leikjum, verkefnum og æfingum. Námsráðgjafar, kennarar, sálfræðingar og annað fagfólk sem vinnur með börnum og unglingum getur nýtt sér vefinn Sjálfsmynd auk foreldra og nemendanna sjálfra. Þegar fram í sækir ætla aðstandendur vefjarins að bjóða upp á sjálfstyrkingarnámskeið og fræðslu. Í bígerð er t.d. námskeið fyrir drengi en fá úrræði hafa verið í boði fyrir þá. Slóðin er www.sjalfsmynd.com. Notendur vefjarins geta sent fyrirspurnir og leitað ráða gegnum hann. www.sjalfsmynd.com Upplýsingasíða um sjálfsmynd barna og unglinga. VEfuRInn Texti: GG

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.