Morgunblaðið - 27.03.1975, Blaðsíða 46

Morgunblaðið - 27.03.1975, Blaðsíða 46
94 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 27. MARZ 1975 Nú orðið heyrist sjaldan sagt, að nokkur maður sé fátækur. Þegar talað er um mann, sem er miður fjáður, er oftar sagt að hann sé blankur og ástæðan er þá oft sú, að honum helzt illa á fé og búnast illa. Hér er að sjálfsögðu miðað við þá, sem eru sjálfbjarga og geta alið önn fyrir sér og sín- um, en ekki þá, sem orðið hafa afskiptir í velferðarþjóðfélaginu af ástæðum, sem þeir ráða ekki við sjálfir. Flestir þeir, sem eru að hefja búskap nú um stundir, gera ákveðnar lágmarkskröfur, svo sem litla ibúð með eldhúsi og baði, isskáp, þvottavél, eldavéi með ofni o.s.frv. Þannig hefur öll viðmiðun breytzt á fáum árum, og það, sem áður taldist til óþarfa og óhófs, er nú ekki annað en sjálf- sagður hlutur. Þeir, sem þekkja fátækt aðeins af afspurn, sjá hana stundum i rómantískum ævintýraljóma þar sem forfeðurnir sátu á rúm- stokknum í baðstofunni, eltu skinn í skó og kváðu rímur meðan stórhríðin buldi á þekjunni. Spunarokkarnir, sem formæðurn- ar þeyttu í gríð og erg meðan þær sögðu glókollunum sögur og kenndu þeim vers skipa nú heiðurssess á teppalögðum stofu- gólfum og skinnskórnir hanga nú i kippum i minjagripaverzlunum. Það er ekki svo ýkja langt siðan fjöldinn allur hér í Reykjavík bjó við þröngan kost og þarf ekki að leita fregna af fátæktinni allt aftur í moldarkofana. Okkur fannst því ástæða til að vita hvort ekki fyndist fólk á miðjum aldri, sem vildi segja okkur frá reynslu sinni fyrstu búskaparárin, til samanburðar á kjörum og atlæti. Jónína Þorfinnsdóttir kennari og Ragnar Edvardsson bakari og vörubílstjóri hófu búskap árið 1939. Jónína hafði þá nýlokið verzlunarskólaprófi, en Ragnar vann verkamannavinnu. Fyrst varð fyrir að spyrja hvar búskapurinn hófst og hver bú- slóðin var. — Við fengum leigt risherbergi við Lindargötu og borguðum fyrir það 30 krónur á mánuði, segir Jónína. — Þá vann ég í Eimreið- inni og fékk 75 krónur i mánaðar- laun. Búslóðin komst vel fyrir í herberginu, þvi aö við áttum ekkert nema dívan, olíuvél, einn pott og pönnu. Við elduðum í her- berginu, en höfðum aðgang að sameiginlegu salerni íbúa húss- ins, en það var niðri í kjallara. Okkur leið ágætlega þarna undir súðinni, og hitinn var ágætur, þannig að okkur var aldrei kalt. Þetta var indælisfólk, sem við leigðum hjá. Ég vann svo úti þar til von var á fyrsta barninu, en hætti áður en fór að sjá á mér, því að það þótti ekki tilhlýðilegt að konur stæðu við afgreiðslu við þær aðstæður. Áður en barnið fæddist vorum við búin að fá aðra íbúð við sömu götu í litlu gömlu timburhúsi og þangað fór ég beint af fæðingardeildinni. Þetta var jarðhæð, — ein stofa, eldhús og lítið herbergi inn af því. Salerni var á hæðinni, en um veturinn botnfraus í því, svo að eftir það var ekki um annað að gera en að hlaupa niður í Bankastræti. Við leigðum tveimur piltum herberg- ið inn af eldhúsinu því að við höfðum ekki efni á að nota þessa litlu íbúð fyrir okkur. Húsaleigan var 65 krónur á mánuði, en Ragn- ar hafði þá 130 krónur í mánaðar- laun. ibúðin var ákaflega léleg og þar tókst aldrei að kynda almennilega, auk þess sem þar var rottugangur. Ég man eftir því þegar elzti drengurinn okkar var farinn að reyna að koma fyrir sig orói og babla svolítið, að þá var hann alltaf að segja „go-go". Ég skildi ekkert af hverju barnið var svona hugfangið þar til ég sá rottu skjótast inni í stofunni. — Og hvað gerðirðu? — Eg gerði svo sem ekkert, en ég man að mér fannst þetta hálf- fyndið þótt undarlegt megi virð ast nú. Skýringin er líklega sú, að á þessum tíma var rottugangur um allan bæ og enginn kippti sér upp við það þótt hann sæi svona kvikindi bregða fyrir. Kuldinn var langtum verri en rottugang- urinn. — Til samanburðar um kaup- mátt launa á þessum tímum og nú man ég vel eftir því, aó þegar ég var með 1 krónu 36 aura i tíma- kaup fór ég einu sinni til Hvann- bergsbræðra til að kaupa mér gúmmístígvél, segir Ragnar. — Þar fékk ég Hood-stígvél og þau kostuðu 52 krónur, sem sagt meira en vikukaup. Á þessum tima var atvinnuleysi, en það breyttist nú heldur þegar herinn kom. Seinna árið, sem við vorum á jarðhæðinni, keypti ég vörubíl. Það var stór stund, og ég man að við vorum svo upp með okkur af bilnum, að við héldum þetta há- tíðlegt með því að fara í Gamla bíó um kvöldið, og auðvitað var farið á vörubílnum þótt leiðin væri stutt. — Ég á ennþá bók, sem ég hélt yfir heimilisútgjöldin fyrsta bú- skaparárið, segir Jónína. Sem dæmi um sparsemina og smásál- arskapinn get ég sagt þér að þar er ein færslan upp á 10 aura, því að þann daginn höfðum við veitt okkur þann lúxus að kaupa Visi. — Hvert fluttuð þið næst? — Við fengum litla tveggja her- bergja ibúð í nýju húsi við Sam- tún, og þar eignuðumst við tvo Rætt við Jónínu Þorfinns- dóttur og Ragnar Edvardsson drengi til viðbótar. Sú fbúð var ágæt að öðru leyti en því að hún var mjög köld, og það getur verið, að þú eigir bágt með að trúa þvi, en þar fékk næstelzti drengurinn frostbólgu í andlitið þegar hann var í vöggu. Við vorum farin að svipast um eftir húsnæði, sem við gætum keypt því að það var svo óöruggt að leigja og maður gat alltaf átt von á því að verða sagt upp, en á þessum árum voru hús- næðisvandræðin óskapleg. Við seldum vörubilinn til að hafa handbæra peninga i útborgun ef eitthvað ræki á fjörurnar, og fengum fyrir hann 50 þúsund krónur. Svo var það árið 1945, að auglýst var hæð og ris í nýbyggðu húsi við Stórholt. Verðið var 210 þúsund og eigandinn vildi fá 150 þúsund á borðið. Það leizt nú eng- um á blikuna þegar ég fór að spekúlera í þessu, því að íbúðin var fjögurra herbergja auk þess sem risið var íbúðarhæft. En Ragnar var vanur að láta mig um fjármálin og þess vegna fékk ég þvi nú ráðið að við réðumst í þetta stórvirki. Fimmtíuþúsundin náðu skammt en ég gat komið útborguninni niður í 100 þúsund og svo byrjaði píslargangan til bankastjóranna. Hún gekk vonum framar, en ég man, að ég ætlaði aldrei að komast yfir siðustu fimm þúsund krónurnar, en þær fékk ég nú samt kortéri áður en átti að ganga frá kaupunum, segir Jónína. — Ragnar, hvað fékkstu í kaup þegar þetta var? — Með því að taka alla þá vinnu, sem ég gat fengið og komst yfir gat ég komizt upp i 500 krón- ur á viku, en þá varð ég líka að vinna á sunnudögum. Auk þess höfðum við leigutekjur því að auð vitað kom ekki til mála annað en að leigja út frá sér það sem hægt var. — Þegar við fluttum hingað bjuggum við hér í þessari stofu með drengina þrjá, en leigðum allt annað út, og i fyrstu höfðum við 11 leigjendur. Það gekk allt ágætlega, en auðvitað var eld- húsið notað sem stofa á kvöldin og þangað var gestum boðið þegar þá bar að garði, segir Jónína. Eg man eftir konu, sem var með smábarn i risherbergjum hér uppi. Einu sinni kom hún og spurði hvort ég gæti ekki talað við leigjandann í næsta herbergi. Hann spilaði á trompet og þessi tónlistariðkun olli ónæði þegar litla barnið þurfti að sofa. Ég fór auðvitað og talaði við manninn, sem tók þessu vel, en skildi hins vegar ekkert i þvi að þetta gæti truflað nokkurn mann því að hann spilaði aldrei annars staðar en inni í klæðaskáp. Öðru atviki man ég eftir, sem við erum oft búin að hlæja að. Ragnar vann alla daga langt fram á kvöld og sást þar af leiðandi sjaldan heima hjá sér. Einu sinni stendur hann frammi i baðherbergi og er að raka sig þegar einn leigjandinn kemur inn, býður góðan daginn og segir við Ragnar: „Leigir þú hér?“ Þeir þekktust lauslega áður, en höfðu aldrei hitzt á þessum stað. — Nei, maður vann alltaf og tók alla vinnu, sem bauðst til að láta enda ná saman, segir Ragnar, og svona eftir á finnur maður, að raunverulega þekkti maður varla börnin sín. Þess vegna er það nú kannski sem mér finnst yngsta stelpan svona sérstök. Hun er langyngst ekki nema 10 ára, þréttan ár á milli hennar og þeirrar næstu, og ég hef haft góð- an tíma til að vera með henni, þannig að hún verður að bæta mér upp það, sem ég gat aldrei notið með hinum fimm börn- unum. — Vannst þú aldrei úti eftir að börnin fæddust, Jónína? — Jú, stuttu eftir að við flutt- um hingað gekk ég með fjórða barnið, fyrstu telpuna, en þær eru þrjár. Þá átti að falla á okkur stórt lán, sem við vissum ekki hvernig við ættum að fara með. Þá fór ég í síldarflökun um tíma til að eiga fyrir afborguninni. Svo vann ég líka mikið nokkrum árum síðar, en þá hafði Ragnar lært bakaraiðn og við rákum bakarí. Annars held ég, þegar ég lít til baka, að enda þótt þetta væri ósköp erfitt á sinum tíma, að ég vildi ekki vera án þeirra lífs- reynslu, sem fyrsta búskaparárið okkar var, segir Jónína. Við fengum sannarlega að finna fyrir því hvað fátækt var, en samt vorum við ánægð og þrátt fyrir allt leið okkur vel. Ég held, að maður hafi haft miklu meiri ánægju af því, sem hægt var að veita sér, en fólk, sem hefur allsnægtir. Ég man til dæm- is, að ég held að við höfum ekki verið eins ánægð yfir nokkrum hlut, sem við höfum eignazt eins og útvarpstækinu okkar, sem við keyptum notað. Þegar það kom á heimilið vorum við svo ánægð, að við lágum á gólfinu og hlustuðum á það, þótt við hefðum sjálfsagt getað setið á dívaninum, því að enginn var stóllinn. Þú mátt bara ekki halda að ég sé að dásama fátæktina, því að sá sem hefur einu sinni kynnzt henni verður sjálfsagt alltaf hræddur við að mæta henni aftur og fátt veit ég ljótara en það þegar sumir, sem alltaf hafa haft meira en nóg eru að reyna að færa hana til vegsemdar og lítils- virða þá almennu velmegun, sem nú hefur rikt hér undanfarin ár, segir Jónína Þorfinnsdóttir að lokum. — A. R. í SÚÐAR- HERBERGI MEÐ OLÍUVÉL

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.