Morgunblaðið - 05.11.1978, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 05.11.1978, Blaðsíða 17
16 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 5. NÓVEMBER 1978 fMðtgn Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson. Rítstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Ritstjórnarfulltrúi Þorbjörn GuAmundsson. Fréttastjóri Björn Jóhannsson. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson Ritstjórn og afgreiósla AAalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar Aðalstræti 6, sími 22480. Áskriftargjald 2200.00 kr. á mánuði innanlands. 1 lausasölu 110 kr. eintakió. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar er enn í dag jafnmikið spurningar- merki og hún var, þegar hún var mynduð fyrir tveimur mánuðum. Hún hefur enn sem komið er a.m.k. ekki tekizt á við þann vanda, sem við er að etja í íslenzku efnahagslífi. Hún hefur aukið niðurgreiðslur svo mjög, að verði þeim haldið áfram á næsta ári verða þær a.m.k. 160% hærri en á fjárlögum yfir- standandi árs. Hún hefur lagt á nýja skatta til þess að standa undir þessum niður- greiðslum. En það er enginn vandi að leggja nýja skatta á þjóðina. Meiri vandi er hins vegar að takast á við vandamálin með raunhæf- um aðgerðum. Það hafa ráðherrarnir ekki gert hing- að til og sýna þess engin merki, að þeir hyggist taka til hendi. Kaupgjaldsvísitalan mun hækka um 12—14% um næstu mánaðamót, skv. því, sem Matthías Á. Mathiesen, fyrrv. fjármálaráðherra, upplýsti í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkr- um dögum. Ríkisstjórnin hefur sagt, að hún ætlaði að greiða tvö prósentustig niður til viðbótar hinn 1. desember n.k. Eftir stendur þá 10—12% hækkun kaup- gjalds um næstu mánaða- mót. Atvinnureksturinn í landinu stendur ekki undir þeirri hækkun. Atvinnufyr- irtækin eru nú þegar komin í stórkostleg greiðsluvand- ræði vegna verðbólgunnar. En Alþýðubandalag og Al- þýðuflokkur héldu því fram fyrr á þessu ári, þegar svipað stóð á, að kaupgjald- ið skipti engum sköpum í þessum efnum og standa yrði við samninga. Væntan- lega hafa þeir sömu afstöðu nú og þá. Væntanlega mun því þessi kaupgjaldshækkun ganga fyrir sig með eðlileg- um hætti. Þá kemur hins vegar í ljós, hvort sú kenn- ing Alþýðubandalags og Alþýðuflokks stenzt, að svo mikil hækkun kaupgjalds í krónutölu skipti litlu sem engu í efnahags- og at-* vinnumálum. Við bíðum og sjáum hvað setur í þeim efnum. Ríkisstjórnin þarf að af- greiða fjárlög fyrir áramót. Frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi. Ómögulégt er að vita hvers verk þetta frumvarp er. Fjármálaráðherra segir, að þetta sé stjórnarfrumvarp. Formaður Alþýðuflokksins segir að þetta sé stjórnar- frumvarp. Fjármálaráð- herra segir, að þingmenn Alþýðubandalags standi að þessu frumvarpi. Formaður þingflokks Alþýðuflokks segir að Alþýðuflokkurinn sé andvígur þessu frum- varpi í veigamiklum atrið- um. Talsmaður Alþýðu- bandalags í ríkisfjármálum segir, að þingmenn flokks- ins hafi ekkert samþykkt um fjárlagafrumvarpið. Eftir stendur þjóðin og veit ekki hver segir satt og hver segir ósatt. Hið eina, sem fyrir liggur um fjárlagafrumvarpið er einfaldlega það, að ekkert er að marka það. Matthías Á. Mathiesen telur, að það vanti rúmlega 12 milljarða inn á gjaldaliði þess. Fjár- málaráðherrann sjálfur lýs- ir því yfir, að níu veigamikil atriði í sambandi við frum- varpið séu óafgreidd. Ríkis- stjórnin hefur enga ákvörð- un tekið um það, hvernig hún ætlar að afla fjár á næsta ári í niðurgreiðsluhít sína. Það er því ljóst, að ríkisstjórnin hefur enn ekki tekið á fjárlagavanda ríkis- ins á næsta ári. Hvað hafa ráðherrarnir verið að gera þessa tvo mánuði? Það er erfitt að upplýsa það, að þeir hafa ekki verið uppteknir við að fjalla um efnahagsvanda þjóðarinnar. Þótt nú stefni í 70% verðbólgu á næsta ári virðast ráðherrar í núver- andi ríkisstjórn lifa í ein- hverjum ímynduðum heimi, sjálfsblekkingu, sem veldur því, að í landinu situr ríkisstjórn, sem tekur ekki á nokkrum vanda. Ríkisstjómin tekur ekki á nokkrum vanda f Reykjavíkurbréf ►Laugardagur 4. nóvember Guðjón bakari Guðjón Sigurðsson, bakara- meistari á Sauðárkróki, sem er nýorðinn sjötugur, hefur verið fréttaritari Morgunblaðsins á Króknum um margra ára skeið. Hann hefur eins og aðrir þeir fréttaritarar, úti á landi, sem taka hlutverk sitt alvarlega, unnið merkt og mikilvaegt starf fyrir Morgunblaðið og lesendur þess; þeir hafa notið umhyggju hans fyrir Sauðárkróki og áhuga hans á því að fréttir berist þaðan inn í stærsta blað landsmanna. Fyrir þennan mikilvæga skerf Guðjóns til fréttamennsku Morgunblaðsins viljum við þakka. Enginn vafi er á því, að við tölum fyrir munn lesenda blaðs- ins, þegar við sendum þessum starfsama og hugsjónaríka áhuga- manni hamingjuóskir á merkum tímamótum. Guðjón hefur tekið mikinn þátt í stjórnmálabaráttu Sauðárkróks og nýtur þar í senn vinsælda og virðingar. Hann hefur um langt árabil verið á oddinum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og frjáls- h.vggja hans hefur verið honum í senn leiðarljós og takmark. Guðjón var m.a. um skeið forseti bæjarstjórnar Sauðárkróks og hann hefur haft mikil og djúp áhrif á þetta vaxandi bæjarfélag þaðan sem eru sprottnir margir merkir menn, sem sett hafa svip á menningar- og þjóðarsöguna. Sauðárkrókur er gömul og gróin miðstöð eins fegursta landbúnað- arhéraðs norðanlands, sjávarpláss í uppbyggingu, og miðpunktur verzlunar og ýmiss konar þjón- ustu. Síðast en ekki sízt er hann stórmerkileg höfuðstöð mennta og menningar í Skagafirði. Ollum er kunn hin merka leiklistarsaga Króksins og Skagafjarðar, en þaðan hafa einnig sprottið þjóð- kunnir málarar, skáld og tónlist- armenn, sem ýmist hafa átt rætur á Króknum eða dvalizt þar í nágrenni hans um lengri eða skemmri tíma. Guðjón er sjálfur einn þeirra listamanna, sem sett hafa svip á menningarlíf þessa vaxandi bæjarfélags. Afskipti hans af leiklist á Króknum er merkt framlag til menningarsögu og mun ekki í gleymsku falla. Sá, sem þessar línur hripar, minnist þess frá upphafi seinna- stríðs áranna að hafa ungur vegavinnudrengur sótt Krókinn heim og var það ærin réynsla í sjálfu sér. Þá var þar lítið sveitaþorp og heldur illa húsað, eins og Skagafjörður þá að mestu leyti, en hlýtt viðmót og fjölskrúð- ugt mannlíf þó í fullu samræmi við fagra umgjörð Skagafjarðar og ógleymanlegt útsýni til hafs, en þaö mun mál margra að eyjarnar og Þórðarhöfði séu ein mesta listasmíð náttúrunnar hér á landi. Það er ekki óeðlilegt, að slíkt umhverfi kalli á lífsfyllingu og löngun til að vinna að farsælli framtíð. Vinnudagur Guðjóns bakara er orðinn langur. Hann er kominn upp fyrir allar aldir eins og miðnætursólin. Og ef einhver íslendingur hefur lifað þá kenn- ingu Guðnýjar Klængsdóttur, ömmu Halldórs Laxness, að vinn- an sé guðs dýrð, þá er það Guðjón bakari á Sauðárkrók. Misnotkun orða Kommúnistar eru sérfræðingar í misnotkun orða. Við vitum öll hvaða merkingu við leggjum í orðið frelsi og þekking okkar Vesturlandabúa á þjóðfélagshátt- um í hinum sósíalísku ríkjum A-Evrópu nær svo langt, að við vitum, að þar býr fólk ekki við frelsi. En kommúnistar í Sovét- ríkjunum og síðar öðrum A-Evrópuríkjum hafa í áratugi haldið því fram, að þar ríki frelsi, einungis annars konar frelsi en við könnumst við. Þeir hafa markvisst misnotað orðin frelsi, lýðræði og lýðveldi (sbr. alþýðulýðveldi) í því skyni að rugla fólk, brengla hugsun þess og eiga þar með greiðari aðgang að umhugsun þess um þjóðfélagsmál. Sósíalistar hér á okkar landi eru ekki eftirbátar skoðanabræðra sinna í sósíalískum ríkjum A- Evrópu. Þeir hafa margt lært af þeim tekið upp baráttuaðferðir þeirra í mun ríkara mæli, en við gerum okkur ljóst, m.a. þá aðferð að misnota orð. Dæmi um þetta má nefna í sambandi við umræður hér um varnarmál. I Keflavík er varnarstöð, þar er varnarlið sam- kvæmt varnarsamningi, sem við höfum gert við Bandaríkin. A undanförnum árum hafa sósíalist- ar unnið markvisst að því að koma inn í almennar umræður um varnarmálin orðinu herstöð og herstöðvarmál. Nú er auðvitað alveg ljóst, að varnarliðið er herlið og varnarstöðin er herstöð þannig að í því tilviki er út af fyrir sig ekki um að ræða misnotkun orða en tilgangur er augljóslega sá að koma þessum orðum herstöð og herstöðvamál inn í almanna notk- un í stað orðanna varnarstöð og varnarmál til þess að búa til ógeðfellda mynd af þeirri starf- semi, sem fram fer á Keflavíkur- flugvelli, enda vita sósíalistar vel, að Islendingum er það ekkert fagnaðarefni að slík starfsemi skuli þurfa að fara fram í þeirra landi og á þeim tilfinningum vilja þeira ala. Nú eru sósíalistar hins vegar að taka í notkun önnur orð yfir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Fyrir nokkru kom einn af ráðherr- um Alþýðubandalagsins á um- ræðufund í einn menntaskóla Reykjavíkurborgar. í umræðum þar notaði hann alltaf orðin „setulið" yfir varnarliðið og „her- nám“ yfir komu þess hingað. Með notkun þessara orða er að sjálf- sögðu verið að gefa í skyn, að bandaríska varnarliðið hafi komið hingað gegn vilja landsmanna, það sé sams konar “setulið" og brezka setuliðið var á heimsstyrjaldarár- unum síðari en eins og kunnugt er hernámu Bretar ísland en banda- ríska varnarliðið kom hingað samkvæmt samningum við löglega kjörin stjórnvöld. Til upplýsingar fyrir þá, sem halda, að það sé ofstæki að halda því fram, að sósíalistar misnoti aðstöðu sína í skólum landsins má geta þess hér að í kennslubók einni um sam- félagsfræði, er orðið „setulið" notað yfir bandaríska varnarliðið. Þessi bók mun kennd í mörgum framhaldsskólum og þá vita menn hvernig innrætingin fer fram. Önnur dæmi um misnotkun orða. Fyrir svo sem áratug fór orðið „félagslegur" að verða mjög fyrirferðamikið í stjórnmálaum- ræðum hér. Skyndilega fóru sósíalistar að nota þetta orð yfir alla hugsanlega þætti samfélags- mála okkar. Þannig á að leysa atvinnumál einstakra byggðarlaga á félagslegum grundvelli. Byggða- stefnan á að byggja á félagslegum forsendum. Uppbygging í atvinnu- málum á að fara fram með félagslegu átaki. Og svo mætti lengi telja. Þessi félagslega hugs- un hefur smitað út frá sér. Hér er um að ræða orð, sem hefur vinsamlega merkingu og lýsir samúð í garð náungans. Það hljóta að vera góðir menn, sem eru svo félagslegir í hugsun. En hvað eiga sósíalistar við, þegar þeir nota þetta orð? Þegar þeir tala um að leysa atvinnuvanda einhvers byggðarlags á félagslegum grund- velli, eiga þeir að sjálfsögðu við að gera það með opinberum aðgerð- um. Þegar þeir tala um byggða- stefnu á félagslegum forsendum eiga þeir auðvitaö við, að hún skuli framkvæmd með opinberum ráð- stöfunum. Þegar þeir tala um félagslegt átak í atvinnurnálum eiga þeir við opinberan rekstur eða þjóðnýtingu. Það sem hér hefur gerzt er einfaldlega það, að sósíalistar uppgötvuðu fyrir svo sem einum áratug, að opinber afskipti og þjóðnýting væru eitur í beinum fólks og þeir mundu ekkert komast áfram með þann boðskap. Þá fundu þeir upp á því snjallræði að nota annað og geðfelldara orð yfir sömu hugsun og hafa blekkt fólk stórlega með»þessari misnotk- un orðsins „félagslegur“. Sjálf- stæðismenn, helztu málsvarar einstaklingsfrelsis og einkafram- taks, hafa ekki áttað sig nægilega vel á þessari baráttuaðferð sósíal- ista, sém þeir hafa lært i kommún- istaríkjum A-Evrópu, og jafnvel látið smitast af þessari misnotkun orða og orðið „félagslegir" í hugsun. Þessi misnotkun eins orðs hefur skapað sósíalistum ótrúlega sterka vígstöðu í stjórnmálabar- áttunni hér og tími til kominn, að menn átti sig á því hvað hér er að gerast. MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 5. NÓVEMBER 1978 17 Þetta má skera niður - sagði Sveinn Jónsson: Niðurgreiðslur, útflutningsbætur, framlög til fj árfestingars j óða — Nema samtals 35 milljörðum SVEINN Jónsson endurskoð- andi gagnrýndi það á fundi Stúdentafélagsins um skattamál að menn gæfust upp á því fyrirfram, að hægt væri að skera niður ríkisút- gjöldin. Auðvelt væri að nefna ýmsa möguleika á niðurskurði, og tók hann þrjá útgjaldaliði þar til dæmis: Niðurgreiðslur, sem í fjárlagafrumvarpinu nema 18 milljörðum, útflutnings- uppbætur, sem nema 5,3 milljörðum, og framlög til fjárfestingarsjóða, sem nema 11,7 milljörðum. Sam- tals eru þetta 35 milljarðar eða nákvæmlega sama fjár- hæð og reiknað er með að innheimta á næsta ári í tekjuskatt af einstaklingum og félögum og í sjúkratrygg- ingagjald. Einnig sagðist hann vera alveg ósammála því, sem fram kom hjá Lúðvík Jóseps- syni, að háir skattar hefðu ekki áhrif á vinnuvilja og framtak og benti á, að þar sem enn væri um að ræða ótvíræðan vinnuvilja einstaklinganna, væri það fyrst og fremst á þeim sviðum þar sem tekjurnar eru undanþegnar skattlagn- ingu áð fullu eða að verulegu leyti, t.d. vinna við byggingu eigin íbúðarhúsnæðis eða launatekjur giftra kvenna. Jafnframt væri vissulega um að ræða ótvíræðan vinnu- vilja hjá ýmsum þeim hópum í þjóðfélaginu sem hefðu aðstöðu til að svíkja undan skatti. Sveinn Jónsson Varðandi umræður um skatta í öðrum löndum benti hann á, að höfuðatriðið væri fyrir okkur að sníða skatt- ana eftir okkar aðstæðum en ekki annarra. En ef endilega teldist þörf á að skoða hvort einhverjir væru komnir lengra í skattavitleysunni en við, yrði að gera tæmandi og raunhæfan samanburð á skattstigum. En það hefði ekki verið gert ennþá. Ljóst væri, að hæstu skattprósent- ur í öðrum löndum byrjuðu ekki að virka fyrr en við margfaldar þær upphæðir, sem um er að ræða í okkar skattakerfi. T.d. væri sér kunnugt að hæstu skatt- prósentur í Noregi og Finn- landi væru einungis lagðar á tekjur, sem væru umfram jafnvirði 15 milljóna ísl. króna. Ráðstefna sjálfstæðiskvenna: Vinnumarkaðurinn og fjölskyldan LANDSSAMBAND sjálfstæðiskvenna og „Hvöt“, félag sjálfstæðis- kvenna í Reykjavík. efna til opinnar ráðstefnu í Valhöll. Iláaleitisbraut 1, laugardaginn 18. nóvember nk. IJmra'ðuefni ráðstcfnunnar verður, „VINNUMARKAÐURINN OG FJÖLSKYLD AN“. Fjallað verður um aðstæður á íslenzkum vinnumarkaði í dag með sérstöku tilliti til fjölskyldunnar sem félagslegrar einingar. Með hvaða hætti verður komið til móts við þá staðreynd, að fyrirvinna fjölskyldunnar á hinum almenna vinnumarkaði hvílir í vaxandi mæli á báðum foreldrum, sem þýðir daglanga fjarvist beggja frá heimili og börnum? Einstæðir foreldrar eiga hér að sjálfsögðu við sérstakan vanda að etja. Er vinnuþrælkun á íslandi? Hvernig getum við, í okkar sveiflukennda atvinnulífi, jafnað vinnunni meira en nú er á tíma og vinnuafl og komið til móts við persónulegar og félagslegar þarfir einstaklings og fjölskyldu? Gæti meiri sveigjanleiki en nú tíðkast í vinnutíma fólks dregið úr því mikla álagi og streitu, sem áberandi er í þjóðfélagi okkar í dag? Þessar spurningar og fleiri atriði þeim tengd verða tekin til athugunar og umræðu. Mikilvægt er, að til þátttöku í þeirri umræðu náist til fólks, sem þekkir af eigin raun þessi vandamál. Því er boðið til ráðstefnunnar fulltrúum fjöl- margra atvinnustétta, starfshópa og félagssamtaka, sem á einn eða annan hátt tengjast vinnumarkað- inum og eru líklegir til að hafa fróðleik og ábendingar fram að færa. Upphaflega var ráðgert, að einn umræðuþáttur ráðstefnunnar fjallaði sérstaklega um aðstöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaðinum en horfið frá því vegna þess, hve það málefni er viðamikið og væri eitt sér verkefni í heila ráðstefnu. Vafalaust munu þó vandamál fatlaðra koma inn í umræður um þá þætti, sem teknir verða fyrir og framundan er „ár fatlaðra" — 1981 — á vegum Sameinuðu þjóðanna. Dagskrá ráðstefnunnar verður á þá leið, að Sigurlaug Bjarnadóttir, formaður Landssambands sjálf- stæðiskvenna, mun setja hana, en síðan flytur Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarp. Eftirfarandi framsöguer- indi verða flutt: Baldur Guðlaugs- son og Anita Knútsdóttir ræða um sveigjanlegan vinnutíma. Pét- ur Sigurðsson sjómaður og Sandra Isleifsdóttir, verkstjóri í Fiskiðj- unni í Vestmannaeyjum, ræða um efnið: Vinnuálag — yfirvinna. Er vinnuþrælkun á Islandi? Björg Einarsdóttir og Guðrún Erlends- dóttir ræða um fjölskylduna og fyrirvinnuna. Umræðuhópar starfa og a'mennar umræður verða. Jónína Þorfinnsdóttir, for- maður Hvatar, slítur ráðstefn- unni. (í r fréttatilkynninKu). Hlutur einstaklingsins Sósíalistum hefur orðið betur ágengt í hinni „félagslegu" bráttu á þessum áratug en nokkru sinni fyrr í stjórnmálabaráttu þeirra hér á landi. Sú hugsun, sem er kjarni sjálfstæðisstefnunnar, að einstaklingurinr, skipti mestu, hefur átt í vök að verjast á undanförnum árum, enda hefur Sjálfstæðisflokkuririn ekki hirt nægilega vel um að rækta þann garð og þróa þennan kjarna stefnu sinnar í samræmi við bre.vtta tíma. Þess Vegna vaknar oft sú spurning, ekki sízt í vörum ungs fólks, hvað Sjálfstæðisflokkurinn eigi við með einstaklingsfrelsi og einkaframtaki, hvort það sé frelsi og framtak einstaklingsins til þess að græða á náunganum. Það er ástæða til að staldra ofurlítið við þessa grundvallarhugmynd sjálf- stæðisstefnunnar og túlkun henn- ar. Sjálfstæðismenn hafa fyrst og fremst lagt áherzlu á tvo megin- þætti í frelsi einstaklingsins, tjáningarfrelsi og athafnafrelsi. Hugmynd sjálfstæðismanna um tjáningarfrelsi einstaklingsins er mjög skýr. Hún gerir kröfu til þess, að einstaklingurinn hafi fullt frelsi til þess að hafa sínar eigin skoðanir á mönnum og málefnum, hvað sem líði skoðunum annarra eða skoðunum stjórnvalda. Hún gerir einnig kröfu til þess að einstaklingurinn eigi greiða leið til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Þessi grundvallar- hugsun sjálfstæðismanna er and- stæða þeirrar skoðanakúgunar, sem fram fer í sósíalískum ríkjum. Þar er einstaklingurinn ýmist sendur í þrælkunarbúðir, á geð- veikrahæli eða í útlegð, ef hann hefur aðrar skoðanir á málum en valdhafarnir. Sósíalistar á Islandi segjast andvígir þessari skoðana- kúgun í þjóðfélögum skoðana- bræðra þeirra í A-Evrópu. En þeir hafa alla tíð og þar til fyrir einum áratug stutt þessa skoðanakúgun í orði og á borði og áratugum saman hét það á máli sósíalista hér „Morgunblaðslygi", ef vikið var að skoðanakúgun í sósíalískum ríkj- um. Nú er það kallað „Rússa- grýla“. í tengslum við umræður um tjáningafrelsi má nefna, að það er grundvallarskoðun Sjálf- stæðismanna, að einstaklingurinn skuli hafa ferðafrelsi. Sú afstaða er hins vegar andstæða þess, sem tíðkast þar sem sósíalismi hefur komizt á í framkvæmd. Þar ríkir ekki ferðafrelsi heldur átthaga- fjötrar. Fólkið, sem býr við sósíaííska samfélagshætti í A- Evrópu er ekki frjálst af því að fara til sólarlanda eins og við Islendingar heldur er ferðafrelsi þess mjög takmarkað og fyrst og fremst bundið við önnur sósíalísk ríki. En með sama hætti og hug- myndir sjálfstæðisstefnunnar um tjáningafrelsi, skoðanafrelsi og ferðafrelsi eru mjög skýrar má ef til vill segja, að hugmyndir hennar um athafnafrelsi einstaklingsins hafi ekki verið þróaðar nægilega vel á undanförnum árum og áratugum. I stuðningi sjálfstæðis- manna við athafnafrelsi og fram- tak einstaklingsins felst krafa um frelsi einstaklingsins til þess að veita sköpunarþörf sinni útrás, því að maður, sem byggir upp myndarlegt atvinnufyrirtæki, hef- ur ekki síður sköpunargáfu en rithöfundur eða tónskáld svo dæmi séu nefnd. Þetta er krafa um frelsi til uppbyggingar í þágu annarra en ekki á kostnað annarra einstaklinga. í stuðningi sjálfstæðisstefnunn- ar við einkaframtakið felst vissu- lega stuðningur við stórar eining- ar einstaklinga í atvinnurekstri, sem eru nauðsynleg brjóstvörn einkaframtaksins gegn ásókn opinberra afskipta og útþenslu- stefnu samvinnuhreyfingarinnar, sem lýtur fámennisstjórn. En þetta er hins vegar ekki krafa um frelsi til handa hinum stóru í atvinnurekstri til þess að drepa hina smáu. Þvert á móti hlýtur kjarninn í einstaklingshugsun Sjálfstæðisflokksins að vera sá, að hlúa að og ýta undir atvinnurekst- ur einstaklinga í smáum stíl, hvort sem það er kaupmaðurinn á horninu, smáiðnrekandi, smáút- gerðarmaður eða bóndinn á jörð sinni. Að framtaki þessara sjálfstæðu einstaklinga á Sjálf- stæðisflokkurinn að styðja og koma í veg fyrir, að stórar einingar í atvinnulífi gleypi þá. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að vinna að friðsamlegri sambúð hinna stóru og hinna smáu meðal einstaklinga i atvinnurekstri. Vel má vera, að sjálfstæðismenn hafi vanrækt að sinna hagsmunamál- um smáatvinnurekandans og er það umhugsunarefni fyrir trúnaðarmerin Sjálfstæðisflokks- ins. Einstakl- ingurinn og framtíðin Að því var vikið hér að framan, að einstaklingshugsun Sjálfstæð- isflokksins hefði átt í vök að verjast á þessum áratug andspæn- is „félagslegri" hugsun sósíalista. En hvað um framtíðina? Margt bendir til þess að dæmið sé að snúast við á ný og fólk sé búið að fá nóg af „félagslegum“ hugmynd- um að sinni. A undanförnum áratugum hafa Vesturlandabúar náð tveimur mikilvægum markmiðum í lífsbar- áttu sinni. I fyrsta lagi hafa þeir náð því marki að búa við svo góð lífskjör, að það getur ekki verið takmark í sjálfu sér að ná í þeim efnum einhverjum nýjum áföng- um. í öðru lagi hafa Vesturlanda- búar vaknað til vitundar um umhverfi sitt og nauðsyn þess að vernda það. Athygli beinist nú í vaxandi mæli að einstaklingnum sjálfum, ekki efnalegri velferð hans heldur andlegri velferð hans og sálarheill, sem hefur gleymst í hraða nútímans. Þegar við beinum athygli okkar að því að koma á jafnrétti í samfélagi okkar gagnvart þeim einstaklingum, sem eiga við ein- hvers konar fötlun að stríða, eru vangefnir eða geðveikir, erunv við, sem erum „heilbrigð“ eins og það er kallað, ekki að gera neitt fyrir þessa meðbræður okkar, enda fara þeir ekki fram á það, heldur að bæta úr því ranglæti, sem öldum saman hefur ríkt gagnvart þeim. En um leið erum við að huga að einstaklingnum, rétti hans til eðlilegrar þátttöku í samfélagi okkar, rétti hans til jafnréttis. Við beinum athygli okkar að því, hvernig samfélagið getur rétt hlut þessa einstaklings gagnvart okkur hinum. Þetta er afstaða og hugsun, sem er í fullu samræmi við einstaklingshugsun Sjálfstæðis- flokksins. Þegar við leggjum áherzlu á að bæta aðstöðu barna okkar eða hinna eidri, erum við að hugsa um velferð einstaklingsins fyrst og fremst. Sú meginhugsun samtim- ans er því líka í samræmi við grundvallarstefnu Sjálfstæöis- flokksins. Það sem hér er vakin athygli á er einfaldlega það, að vel má vera, að hin „félagslega" stefna sósíalista sé að renna sitt skeið á enda og að hugmyndastraumar samtímans og grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins muni falla í einn og sama farveg á næstu árum. í því felst stórkostleg tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn — en það er tækifæri, sem Sjálfstæðisflokknum mun ekki koma til góða nema hann kunni að hagnýta sér það.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.