Morgunblaðið - 29.04.1979, Síða 21

Morgunblaðið - 29.04.1979, Síða 21
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 29. APRÍL 1979 2 1 ___________________________> Fanginn krafinn sagna Hugh Thomas segir síðan frá því að ákveðið hafi verið að færa Hess aftur til rannsóknar viku síðar. Hafi hann ásamt öðrum lækni verið því mótfallinn þar eð fyrri rannsókn hafi verið fullnægjandi og því ekki ástæða tii að gera honum frekara ónæði. Hins vegar segist Thomas ekki hafa haldið þessari skoðun sinni til streitu, því að persónulegur áhugi á sjúklingnum hafi nú verið farinn að yfirgnæfa hinn læknisfræðilega, og hafi sig sárlangað til að skoða á ný þessa frægu bringu. Hafi hann síðan notað tímann til að finna röntgenmyndir af sjúklingnum frá árinu 1969, en bæði þær og nýju myndirnar hafi sýnt greinilega að í brjóstholi hans voru engin merki um sár eða skrámur. „Ég var mér meðvitandi um mikilvægi þeirra staðreynda, sem ég hafði hnotið um í sambandi við þetta mál. Þessi maður hafði hlotið dóm fyrir stríðsglæpi nazista og hann hafði þegar setið 32 ár í fangelsi. í 32 ár hafði heimurinn talið víst að hann væri Rudolf Hess. Ég bjó hins vegar yfir þeirri vitneskju, að þetta hlyti að vera rangt, nema sagnfræðilegar stað- hæfingar væru að einhverju leyti úr lausu lofti gripnar". Thomas getur um bók Rees um Hess, en þar kemur meðal annars fram, að geð- læknir, sem stundaði Hess í Englandi á árunum 1941 til 1945 hafði þekkt Alfred, bróður hans, sem hafði tjáð honum fyrir stríðið að hinn frægi brautryðjandi í hjartaskurðlækningum, Ferdinand Sauerbruch, hefði skorið Hess upp eftir að hann hefði særzt í fyrra stríði. Rees getur þess einnig að árið 1944, þegar sjúklingurinn kvaðst minnislaus, var honum gefið deyfilyfið Evipan í þeim tilgangi að hressa upp á minnið. Sjúklingurinn virtist sljóvgast, eins og til var ætlazt, en þegar hann skrifaði heim til sín eftir að hann tók að jafna sig, hældi hann sér af því að hafa verið með ráði og rænu allan tímann. Meðan á meðferðinni stóð fengu læknar ekki orð af viti upp úr sjúklingnum, en tveir þeirra veittu því eftirtekt að þegar spurt var um skotsárið og Sauerburgh skýrðist svipur- inn og skilningsglampi kom skyndilega í sálargluggann. Spurningin um þetta atriði kom honum með öðrum orðum til að hætta að láta sem hann væri ekki með sjálfum sér, segir Thomas, eins og hann hafði gert fram að þessu. Síðar viður- kenndi hann við yfirheyrslur í Bretlandi og Núrnberg, að minnisleysið hefði verið uppgerð. Aðra bók um sama efni minnist Hugh Thomas á, „Hess“ eftir Roger Manvell og Heinrich Fraenkel. Þeir segja að árið 1917 hafi Hess særzt alvarlega í lunga, án þess þó að rekja málið nánar. „25. september 1973 fór síðari röntgen- myndatakan fram,“ segir Thomas. „Ég ætlaði ekki að missa af neinu, svo ég var viðstaddur allan tímann. Voitoff var að sniglast þar líka, en brá sér þó frá við og við. Framkoma sjúklingsins var nú gjör- breytt frá því sem hún hafði verið viku áður, en þá hafði hann verið daufur í dálkinn og fremur ósamvinnuþýður. Nú var hann skælbrosandi frá því að hann kom inn, lék á als oddi, fylgdist með öllu sem fram fór af miklum áhuga, og virtist sérlega ánægður með þá athygli sem honum var veitt. Loks komumst við að efninu. Kvoðan komin á sinn stað og slökkt var í röntgenstofunni. Bill Leach byrjaði að taka myndirnar og eftir skamma stund tilkynnti hann að nú væri komið nóg. Myndirnar voru framkallaðar í snatri og þegar ljósið var kveikt í stofunni, á ný, settist sjúklingurinn á bríkina á bekknum, sallarólegur, sæll og glaður. Þá kallaði einhver, að myndirnar hefðu tekizt vel og að nr. 7 mætti fara aftur í fötin. Um leið smeygði hann sér úr stakknum þar sem hann sat á bekknum og byrjaði að fara í sloppinn. Meðan á þessu stóð hafði ég getað virt fyrir mér bringuna á honum. Nú steig ég fram, benti á hana og sagði rólega en ákveðið: „Was ist passiert mit den Kriegsunfálle? Nicht hauttief?" (Hvað er orðið af styrjaldarsárunum? Ekki einu sinni undir húðina?) Spurningin kom greinilega eins og þruma úr heiðskíru lofti. Framkoma sjúklingsins gjörbreyttist. Hann fölnaði upp og tók að skjálfa á beinunum. Andartak starði hann á mig, snar- ruglaður í ríminu og afar tortrygginn. Svo leit hann undan og tautaði: „Zu spát. Zu spát.“ Hann skalf svo mjög að ég var farinn að óttast að hann væri að fá slag, svo ég dró mig í hlé og gekk ekki frekar á hann. Nr. 7 staulaðist á fætur og slagaði yfir gólfið í átt að fataklefanum. A leiðinni yfir gólfið gengu niður af honum úr- gangsefni og magakvoðan. McClean tók eftir þessum snöggu umskiptum og hjálpaði honum yfir að klefanum um leið og hann tók við stakknum af honum. Hann rétti fanganum handklæði og fleygði nokkrum á gólfið til að þurrka upp óþrifin. Tíu mínútur liðu áður en nr. 7 fékkst til að koma út úr klefanum. Hann skeytti engu þótt McClean byðist til að aðstoða hann, en neitaði með öllu að koma út úr klefanum. Þegar hann birtist loks, full- klæddur, í gráum snjáðum jakkafötum, var honum enn mjög brugðið. Greinilegt var að hann forðaðist mig og gætti þess að nálgast mig ekki. Ég óttaðist enn að hann kynni að hníga niður, svo ég hélt mér í hæfiiegri fjarlægð á meðan hann var að komast út á gang. Skýrslan um Hess liðþjálfa Sjálfur var ég miður mín eftir þennan atburð. Þegar ég nú lít til baka, eins og ég hef raunar gert þúsund sinnum áður, geri ég mér grein fyrir því að ástæðurnar fyrir þessu skyndilega taugaáfalli sjúklingsins geta verið líkamlegs eðlis. Það kann að vera að hann hafi allt í einu orðið ófær um að hafa stjórn á hægðum sínum, og McClean, sem á þessum tíma hafði ekki náð valdi á þýzku og hafði heldur ekki heyrt spurningu mína, lagði þá merkingu í „zu spát, zu spát“, að fanginn hefði átt við að of seint væri fyrir hann að komast á salernið. Ég ræddi ekki málið við McClean um sama leyti og þetta gerðist, en þegar ég var að vinna að þessari bók á árinu 1978, staðfesti hann að framkoma sjúklingsins hefði allt í einu gjörbreytzt, að hann hefði skolfið, verið mjög óstyrkur og ófáanleg- ur til að koma út úr fataklefanum. Ég get enn ekki sætt mig við þá skýringu, að blygðunarsemi af því að hann hafði orðið sér til skammar hafi verið eina ástæðan fyrir því að hann féll svona saman. Segja má, að ég hafi átt að skýra frá þessum atvikum um leið og þau áttu sér stað. Ástæðan fyrir því að ég tók ekki þann kost var sú, að á þessum tíma var ég í þjónustu hersins og vissi vel hvaða meðferð slíkar upplýsingar mundu fá þar. Þeim yrði snarlega ýtt til hliðar og kæmu ekki fram í dagsljósið næstu 30 árin. I stað þess að reiða mig á opinbera aðila hélt ég áfram eftirgrennslan minni, og i bók Manvells og Fraenkels fann ég tilvísun þar sem skýrsla um herþjónustu var sögð í vörzlu ríkisskjalasafnsins í Koblenz. Það reyndist ekki rétt vera, en mér var bent á að fara í skjalamiðstöðina í Berlín. Þaðan fékk ég síðan skjal, sem staðfesti grun minn, — ljósrit af skýrslu um feril Rudolfs Hess í hernum í fyrri heimsstyrjöldinni. Skjalið er dagsett og stimplað í Munch- en 23. nóvember 1937, og þar greinir frá herþjónustu Rudolfs Hess liðþjálfa. Skýrsla eins og þessi er til um hvern yfirmann í þýzka hernum, en hún hefur að geyma álit á frammistöðu viðkomandi, upplýsingar um fæðingarstað og ár, nöfn foreldra, trúarbrögð, hjúskaparstétt, heiðursmerki hersins, vegtyllur og staði þar sem viðkomandi hefur gegnt herþjón- ustu, auk nákvæmra upplýsinga um heilsufar eftir að hann var kallaður í herinn. Svo nákvæmlega er heilsufarið tíundað að getið er um þegar Hess fékk hálsbólgu." Hugh Thomas birtir síðan orðréttan kafla úr skýrslunni um Hess. Þar kemur fram að hann hefur særzt þrívegis í fyrri heimsstyrjöldinni. í júní 1916 hefur hann orðið fyrir broti úr sprengjukúlu og hlotið við það áverka á vinstri hendi og á upphandlegg. Hann er í sjúkrahúsi í meira en mánuð, en er að svo búnu settur í varalið. Næst særist hann í Rúmeníu sumarið 1917, enn á vinstri handlegg, en afleiðingarnar eru ekki alvarlegri en svo að hann er fær um að halda áfram með herdeild sinni. Það er svo hinn 8. ágúst 1917, að Rudolf Hess særist alvarlega í árásinni á Ungureana. Sárum hans er svo lýst: „Schw. Verwundert. Gew. Geshoss — Lungen lks.“ — það er að segja: Illa særður. Riffilkúla — vinstra lunga. Lokasönnunin Fangi nr. 7 í Spandau hefur engin þau ör, sem slíkar holundir skilja eftir sig. Hann hefur heldur aldrei hlotið áverka á neinum upphandlegg, segir Thomas, sem síðan rekur í ýtarlegu máli hvaða tegund- ir riffla Þjóðverjar og Rúmenar hafi notað í viðureign sinni þetta umrædda sumar. Hann útskýrir í krafti fag- mennsku sinnar hvers konar sár — og þar af leiðandi ör — riffilkúlur nútímans, sem hann hefur sjálfur kynnzt í starfi sínu sem herlæknir á Irlandi, skilji eftir sig, og leiðir síðan að því rök að Mauser, Mannlicher og Moisin-Nagant, sem not- aðir voru í fyrra stríði, skilji eftir sig ummerki, sem séu enn meira áberandi. Læknirinn lýsir því hvernig riffilkúla geti hugsanlega farið í gegnum lunga manns án þess að snerta rifbeinin, sem eðlilega er býsna hæpinn möguleiki, en enda þótt hún rambaði þannig í gegnum manninn leiðir læknirinn ,rök að því, að óhjá- kvæmilega mundi hitinn frá kúlunni skemma yzta lag beinanna. Þegar hinn særði færi síðan að gróa sára sinna mundi hnúður myndast á beininu þar sem kúlan hefði farið hjá. Thomas segir að allir sérfræðingar muni geta staðfest þetta álit hans og vitnar meðal annars til Sauerbruchs. Þá rekur hann hvernig kúlan leikur vöðva og vefi, sem hún fer í gegnum, og lýsir örum, sem slík sár skilja eftir. Lokasönnunina fyrir því að fangi nr. 7 í Spandau geti ekki verið Rudolf Hess telur Hugh Thomas sig hafa fengið er hann heimsótti Ilse Hess, eiginkonu nazistafor- ingjans, að heimili hennar í fyrrahaust. Hann gerði henni grein fyrir grunsemd- um sínum, og segir svo frá samtali þeirra: Hún kvaðst undrandi á því að ég væri þessarar skoðunar, og sagðist sjálf aldrei hafa látið sér til hugar koma, að maður- inn í Spandau væri ekki eiginmaður hennar. Þó staðfesti hún að maður hennar hefði særzt alvarlega í fyrri heimsstyrjöldinni. Og það sem meira er, — hún tjáði mér að „hann hefði fengið „Lungendurchschuss", eða skot í gegnum lungað, og það hefði orðið til þess að binda enda á feril hans í fótgönguliðinu. Þegar hann hefði gengið upp í móti hafi hann æ síðan kennt eftirkastanna, eink- um þegar hann lagði af stað, en að undir venjulegum kringumstæðum hafi það eina, sem minnti hann á að hann hefði særzt í stríðinu, verið örin á líkamanum, að aftan og framan." „Þarna var þá komin endurtekning á gömlu skýrslunni. Eiginkona Hess stað- festir að hann hafi verið með ör á brjósti og á baki. Riffilkúlan hafði, eins og ég bjóst við, farið beint í gegnum brjósthol- ið. Fangi nr. 7 í Spandau hefur aldrei verið skotinn á þennan hátt. Því veit ég fyrir víst, að hann er ekki Rudolf Hess,“ segir Hugh Thomas að endingu. - Á.R. Hess, Speer og Hitler.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.