Morgunblaðið - 18.01.1980, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 18.01.1980, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 18. JANÚAR 1980 Þjóðfélagið á rétt á vernd gegn þessum mönnum — sagði saksóknari, er hann lauk ræðu sinni i Guðmundar- og Geirfinnsmálum í gær — ÞJÓÐFÉLAGIÐ á rétt á vernd gegn þessum mönnum, sagði Þórður Björnsson ríkissaksóknari, þegar hann lauk sóknarræðu sinni í Guðmundar- og Geirfinnsmálum fyrir Hæstarétti í gær. Saksóknari lauk ræðu sinni klukkan 15,38 og hafði þá sóknarræð- an staðið í um 15Ví klukkustund samtals. Er þetta Framburður Guðjóns lengsta sóknarræða, sem flutt hefur verið í opinberu máli á seinni árum. Enda er hér um að ræða óvenjulegt mál, eina manndrápsmálið á þessari öld, þar sem lík hafa ekki fundizt, eins og saksóknari upplýsti í gær. Klukkan 10 í dag byrja verjendur varnir sínar og talar fyrstur Páll A. Pálsson hdl. 1 upphafi máls síns í gær ræddi ríkissaksóknari framburð ákærða, Guðjóns Skarphéðinssonar, en hann hefur þá sérstöðu í málinu, að hann er ekki ákærður fyrir rangar sakargiftir og ennfremur er hann sá eini af fjórum ákærð- um í þessum þætti málsins, sem ekki hefur dregið framburð sinn til baka. Guðjón skýrði frá því við yfir- heyrslu 8. desember 1976, að fjórmenningarnir, sem hnepptir voru í gæzluvarðhald í málinu, þ.e. Einar Bollason, Valdimar Olsen, Magnús Leopoldsson og Sigur- björn Einarsson, væru allir sak- lausir. Kvaðst Guðjón hafa vitað það allan tímann og þessi vit- neskja hvílt á honum eins og mara en hann ekki haft kjark í sér til þess að skýra frá þessu. Þá skýrði Guðjón frá því, að Sævar hefði beðið hann að fara með sér til Keflavíkur til spírakaupa. Hann kvaðst muna eftir sendibíl og bláum Volkswagenbíl, sem hann hefði ekið. Hann mundi líka eftir því, að rætt var um það á leiðinni og sýna þyrfti manninum, þ.e. Geirfinni, fulla hörku ef hann yrði ekki samvinnuþýður. Hann skýrði frá því þegar þau hittu Geirfinn við Hafnarbúðina, samræðunum í bílnum, þar sem reynt var að fá Geirfinn til þess að skýra frá geymslustað spírans, og átökum þeirra þriggja við Geirfinn, sem endaði með dauða hans. Loks skýrði hann lögreglunni frá ferð- inni með lík Geirfinns til Reykja- víkur og minntist þess sérstak- lega, að Sævar hefði sagt, að nú væri hann, þ.e. Guðjón, orðinn samsekur um morð. Kvaðst Guð- jón þá hafa fyllst óhugnaði. En þegar Guðjón kom fyrir dóm nokkrum mánuðum seinna bar hann við minnisleysi um atburð- ina í Keflavík. Sagði saksóknari að ef skýrslur hans væru lesnar vel mætti sjá að ekki væri um gleym- sku að ræða heldur miklu frekar tregðu til að skýra frá. Þá nefndi saksóknari, að þegar sviðsetning atburða fór fram í Dráttarbraut- inni í janúar 1977 hefði sendibif- reiðin verið þar til staðar og hefði Guðjón þá sagt, að hún hefði verið með R-númeri en ekki Y-númeri og hún hefði ekki heldur verið með rauðum röndum þegar atburður- inn varð. Kvað Þórður þetta rétt. Bifreiðin hefði verið seld í milli- tiðinni til Kópavogs og málaðar á hana rauðar rendur. Sigurður lýsti förinni Því næst rakti saksóknari fram- burð sendibílstjórans, Sigurðar Óttars Hreinssonar. Hann var yfirheyrður sem vitni og skýrði þar frá því, sem áður hefur komið fram, að Kristján Viðar, sem er frændi hans, hefði beðið sig um að aka til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974 og flytja síðan eitthvað í bæinn aftur, sem Kristján tiltók ekki hvað var. Lýsti hann förinni svipað og aðrir gerðu. Kvaðst hann hafa lagt bílnum neðarlega í Dráttarbraut- inni og beðið þar. Hann kvaðst hafa heyrt mannamál eins og menn væru að rífast. Ekki kvaðst hann hafa orðið var við átök en aftur á móti einhvern óróa. Krist- ján hefði svo komið hlaupandi og sagt að ekkert yrði úr þessu og hann skyldi bara fara til Reykja- víkur. Virtist honum Kristján vera móður og æstur. Hinn 13. október var tekin skýrsla af Sigurði að hans eigin ósk og þar neitaði hann að hafa ekið bílnum til Keflavikur umrætt kvöld. Kvaðst hann hafa verið beittur hótunum af lögreglu, en lögreglumaður sá, sem skýrslu tók af honum, var Karl Schutz hinn þýzki. Undir skýrsluna rituðu vit- undarvottar og voru þeir kallir til yfirheyrslu. Kom fram hjá þeim, að Sigurður hefði gefið skýrslu sína sjálfviljugur og án hótana og þvingana enda hefði Schutz aldrei beitt slíku. Sigurði Óttari var kynntur þessi framburður og lét hann þá bóka eftir sér: Þetta er hárrétt. Mér var aldrei hótað neinu við yfirheyrsl- una hjá Karl Schutz og hún fór fram eins og vitundarvottarnir skýrðu frá. óttaðist Sigurður ákærðu? Þórður Björnsson sagði það sína skoðun, að Sigurður hefði dregið framburð sinn til baka af ótta. Það hefði ekki verið ótti við lögreglu eða gæzluvarðhald heldur ótti við ákærðu í málinu. Fréttir hefðu komið í blöðum um, að Kristján og Sævar hefðu dregið til baka framburði sína og Sigurður hefði þá farið að hugsa sitt mál og metið stöðu sína þannig, að hann stæði illa að vígi með framburð sinn ef þeir Kristján og Sævar yrðu t.d. sýknaðir. Síðan sagði Þórður: Hann hikaði og hvikaði um stund af ótta við ákærðu en hann vann eið að framburði sínum og hann er fullgildur. Stoðum rennt undir framburðinn En hefur eitthvað komið fram í málinu, sem rennir stoðum undir þann framburð þriggja af ákærðu, að þau hafi hvergi komið nærri því? Þannig spurði saksóknari og svar hans var neikvætt. Taldi hann nú upp allmörg atriði, sem renna undir það stoðum, að ákærðu séu við málið riðnir. 1. Geirfinnur fór í Klúbbinn 17. nóvember 1974 og liggur fyrir vætti félaga hans tveggja um það. Kristján og Sævar fóru í Klúbbinn þetta sama kvöld. 2. Ákærðu Sævar og Erla sögðu, að þau hefðu farið í bílaleigubíl til Keflavíkur. Guðmundur Magnús- son, sem var framkvæmdastjóri bílaleigunnar á þessum tíma, kveður þetta vel geta staðist. 3. Erla og Sævar sögðust hafa farið á Kjarvalsstaði umrætt kvöld og séð þar myndina „Eldur í Eyjum" eftir Osvald Knudsen. Þau hafa sagt, að þar hafi þau dvalið svo lengi, að ógjörlegt væri, að þau hefðu verið stödd í Keflavík laust eftir klukkan 22. Vilhjálmur Knudsen kvikmynda- gerðarmaður hefur hins vegar sagt, að myndinni hafi lokið á bilinu klukkan 20.30 til 20.40. Kvaðst hann hafa séð Sævar og virzt hann vera að flýta sér. Rámar hann í að Sævar hafi sagt sér, að hann væri að fara til Keflavíkur. 4. Jón Þorvaldur Voltersen, þá- verandi eigandi sendibílsins, hefur upplýst, að Sigurður Óttar Hreinsson hafi átt auðvelt með að ná í bifreiðina, því hann hafi haft að henni lykil. 5. Ákærðu segjast hafa ekið fram hjá bíóinu við Hafnargötu í Keflavík um kvöldið og hafi verið talsverð mannþyrping við bíóið. Kannað hefur verið, að sýning hófst klukkan 21 þetta kvöld og hlé hefur byrjað um klukkan 22,02, eða nokkru áður en ákærðu komu til Keflavíkur. Sviðsetning 6. Fram fór sviðsetning atburð- anna í Dráttarbrautinni í janúar 1977. Tóku allir ákærðu þátt í henni og drógu aldrei í efa, að þau hefðu verið þar. Átökin voru ljósmynduð og uppdrættir gerðir og bar ákærðu í meginatriðum saman um atburði og staðsetningu þeirra. Kannað var, að spýtur hafa verið tiltækar ákærðum þetta kvöld í Dráttarbrautinni. 7. Mældur var tími, ef farið er frá Kjarvalsstöðum klukkan 20.40 og ekið þá leið sem ákærðu óku innanbæjar og síðan til Kefla- víkur og var reiknað með öllum stoppum. Samkvæmt því kom bif- reiðin að Hafnarbúðinni klukkan 22.07. Hér er auðvitað um vafamál að ræða en þessar mælingar styðja tímasetningar í málinu. 8. I framburði Erlu er vikið að húsi í Keflavík, sem hún dvaldi í um nóttina. Hús þetta er til og er kallað Rauða myllan. Það stendur við Húsagötu og er rétt hjá Dráttarbrautinni. Umsjónar- maður hússins hefur sagt að á þessum tíma hafi það verið mannlaust og opið. 9. Samkvæmt framburði konu, sem vinnur hjá Landssímanum, er Erla þekkir, kom Erla þangað oft haustið 1974. Eitt sinn skýrði hún konunni frá því, að hún hefði dvalið næturlangt í mannlausu húsi í Keflavík og komizt til Reykjavíkur daginn. eftir „á putt- anum“. Ökumenn gefa sig fram 10. Tveir ökumenn gáfu sig fram, sem töldu sig hafa ekið Erlu frá Keflavík til Hafnarfjarðar að morgni 20. nóvember. Annar þeirra, Guðmundur Sigurður Jónsson, tók Erlu upp í vörubif- reið sína í Keflavík og ók henni að Grindavíkurafleggjaranum, en Erla kvaðst vinna í fiski í Grinda- vík. Hann man daginn nákvæm- lega, því hann var að koma úr afmæli fóstru sinnar í Sandgerði. Ræddi Guðmundur við Erlu og kvað undarlegt, að hún vildi engu svara um það hjá hvaða fyrirtæki hún inni. Þá fannst honum undar- legt hve hún var illa klædd, en hún var kápulaus. Ennfremur fannst honum það undarlegt, að bifreið kom að rétt eftir að Erla var farin út og beygði til Grindavíkur. Sú bifreið stoppaði, væntanlega til að bjóða far, en hún fór ekki upp í bílinn. Skömmu seinna ók vöru- bifreið fram úr bifreið Guðmund- ar og sýndist honum Erla sitja í framsætinu. Guðmundur þekkti Erlu við sakbendingu. Annar ökumaður gaf sig fram, Ámundi Rögnvaldsson, sem nú er látinn. Taldi hann sig hafa tekið Erlu upp í bílinn við Grindavíkur- afleggjarann og ekið henni til Reykjavíkur. Fannst honum einn- ig að stúlkan hefði verið illa búin. Ámundi þekkti Erlu ekki við sakbendingu, en sagði að hún hefði getað verið í hópnum þó hann þekkti hana ekki. 11. Þegar lík Geirfinns var grafið í Rauðhólum, var notuð til þess verks skófla, sem Sævar fékk lánaða hjá Guðjóni Skarphéðins- syni. Skófluna hafði Guðjón feng- ið að láni hjá manni að nafni Einar og kannaðist hann við að hafa lánað skófluna seinni part árs 1974. Var þetta stunguskófla. 12. Fram kom, að Erla gleymdi kápu sinni í Keflavík. Var kápan breidd yfir lík Geirfinns á leiðinni til Reykjavíkur. Sævar bað vin sinn um að geyma kápuna og kom hann nokkrum dögum seinna, sótti kápuna og henti henni síðan í ruslatunnu. Vinur Sævars hefur staðfest, að kápan var geymd hjá honum. Afdráttarlausar játningar Því næst rakti Þórður Björns- son afdráttarlausar og margend- urteknar játningar ákærðu í mál- inu og rakti síðan hlut hvers og eins í átökunum við Geirfinn og verður það ekki tíundað hér. Hann ræddi um rangar sakargiftir í málinu og þá forherðingu Erlu, eins og hann nefndi það, að nefna nafn bróður síns, Einars, sem henni var illa við, og nafn annars manns, Valdimars Olsen, bara til þess að gera lygina sennilegri, eins og hann orðaði það. Kvað hann brot ákærðu varðandi rangar sak- argiftir svo augljós, að ekki þyrfti að fjölyrða um. Þá ræddi hann atlöguna að Geirfinni og kvað þá Sævar, Kristján og Guðjón hafa tekið þátt í henni og bæru þeir á henni sameiginlega ábyrgð. Árásin hefði verið með þeim hætti, að þeim hefði hlotið að vera ljóst, að hún gat leitt til dauða Geirfinns. — Þetta er manndráp af ásetningi og brot gegn 211. grein hegningarlag- anna, sagði saksóknari. Þá taldi hann að Erla hefði verið hlut- deildarmanneskja og bæri að dæma hana með tilliti til þess. Ákærðu sakhæf Ríkissaksóknari gerði að um- talsefni geðrannsóknir á ákærðu en geðlæknar komust að þeirri niðurstöðu, að þau væru öll sak- hæf. Sævar og Kristján voru taldir sýna andfélagslega hegðun og Kristján sagður haldinn drykkjusýki og auk þess háður fíkniefnum. Þá var Sævar sagður haldinn geðvillu. Erla var sögð haldin geðvillu og hafa persónu- galla. Guðjón var sagður haldinn tímabundinni geðvillu en var sagður vel greindur. Tryggvi Rún- ar var talinn fremur illa greindur, sagður hafa persónugalla og hald- inn drykkjusýki. Þórður Björnsson lauk mara- þonræðu sinni klukkan 15,38. Það er ekki heiglum hent að halda sóknarræðu í svona viðamiklu máli, þar sem halda þarf þræðin- um, telja upp öll helstu atriði vegna sérstöðu málsins og hafa jafnan á takteinum tilvitnanir í framburði, gögn og lagabókstafi. í eyrum leikmanns leysti ríkissak- sóknari þetta erfiða verkefni mjög vel. - SS. bórður Björnsson rikissaksóknari sést hér á tali við Þorstein Hjálmarsson dómvörð Hæstaréttar. Á borðinu er skjalabunki málsins, mikill að vöxtum eins og sjá má. Ljósm. Mbl.: RAX.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.