Morgunblaðið - 17.04.1980, Qupperneq 39
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 17. APRIL 1980
39
Þorvarður Kjerulf
Sölvason — Minning
Laugardaginn 22. mars sl. var
til moldar borinn í Selfosskirkju-
garði Þorvarður Kjerulf Sölvason.
Virðuleg athöfn í Selfosskirkju
fór fram þennan sólríka dag.
Fagur söngur, tónlist og innblásin
ræða séra Sigurðar höfðu djúp
áhrif á viðstadda vini Þorvarðar.
Sr. Sigurður lagði út af sögunni
um Jesús og Natanael. En um
Natanael sagði Jesú er þeir hittust
„Sjá þar fer sannur ísraeliti". Þar
sem Þorvarður Sölvason fór, fór
sannur Islendingur, og fulltrúi
evrópskrar kaupmannastéttar,
sagði séra Sigurður.
Vassi, eins og hann var nefndur
af þeim sem þekktu hann, var
fæddur 28. júní 1893 á Arnheiðar-
stöðum á Héraði, sonur hjónanna
Sölva Vigfússonar bónda, hrepp-
stjóra, Guttormssonar alþing-
ismanns Vigfússonar prests á Val-
þjófsstað, Ormssonar prests að
Keldum Snorrasonar og konu
hans Sigríðar Sigfúsdóttur frá
Víðisvallagerði, bónda þar og á
Skriðuklaustri, Stefánssonar
prests að Valþjófsstað, Árnasonar
prófasts að Krikjubæ. Móðir Sig-
ríðar og kona Sigfúsar var Jó-
hanna Jörgensdóttir læknis Kjer-
ulf að Brekku. Kona Guttorms á
Arnheiðarstöðum var Halldóra
Jónsdóttir vefara, bónda á Arn-
heiðarstöðum og Kóreksstöðum,
Þorsteinssonar prests að Krossi í
Landeyjum. Fyrri maður Sigríðar
var Eiríkur Kjerulf frá Melum,
bróðir Þorvarðs læknis, en hann
lézt ungur.
Bernskuheimili Vassa var
víðfrægt rausnarheimili og for-
eldrar hans fyrirfólk á Héraði.
Sölva Föður hans var svo lýst, að
hann var maður ráðhollur mjög og
mikill þátttakandi í öllum fram-
fara og félagsmálum síns byggð-
arlags.
Það fylgdi síðan Vassa alla tíð,
að hann var fyrirmaður, „aristó-
krat,“ en þó ljúfur við alþýðu.
Hann varð stúdent í Reykjavík
1918 ásamt höfuðsnillingnum
Bjarna lækni Guðmundssyni,
lengi á Selfossi. En þeir tveir úr
þeim árgangi verða mér ávallt
minnisstæðir, hvor á sinn hátt.
Vassi starfaði alla ævi að versl-
un. Var kaupmaður og jafnvel
kaupfélagsstjóri, þó ekki væri
hann sérstakur vinur samvinnu-
hreyfingarinnar síðar. Hann var
heiðblár Sjálfstæðismaður alla tíð
og óþreytandi baráttumaður fyrir
þeirri stefnu. Hún og aðeins hún
var og er rétt, það vissi hann upp á
hár og kvað uppúr með það á
svoleiðis kjarnaíslensku, að eng-
inn þurfti að fara í grafgötur með
það hvar hann stóð. Stjórnmál
áttu hug hans til hinstu stundar
og bölvhress var hann í þeim
málum fram í andlátið. Hann var
kátur og mannblendin og aldrei
nein lognmolla í samræðum við
hann.
Ég kynntist Vassa sjálfkrafa
þegar ég fór að venja komur
mínar, í alvarlegum erindagerð-
um, að heimili Jóns Pálssonar
dýralæknis á Selfossi og Steph-
ensen konu hans. Vassi var heim-
ilismaður þar í fjölda ára, alltþar
til að Elli kerling fór að ryskja svo
um þau öllsömul, að hver hafði
nóg með sig. Eftir það var Vassi á
elliheimili í Hveragerði og síðar á
DAS.
Þessi evrópski kaupmaður varð
svo okkur nýgiftum hjónum holl-
vættur við heimilisstofnun og
gerði okkur hverja krónu að
tveimur við húsgagnakaup, þar
sem hann notaði sambönd sín og
harðfylgi. Enn sitjum við í stólun-
um, sem hann útvegaði okkur
fyrir nær 20 árum og gerum
væntanlega lengi enn. Þegar ég
kynntist honum, var byrjað að
halla undan fæti hjá honum
líkamlega, því sjónin var mjög að
bila, svo sem verið hafði um föður
hans. Varð hann fljótlega blindur
og lifði síðustu 18 árin í myrkri
hið ytra. En hið innra var bjart og
sjónin glögg. Mönnum gat auð-
veldlega yfirsést, sem sáu hann á
ferli í ellinni, að í þessum visna
líkama sló ljónshjartað. Geigleysi
hans var algert og er slíkt okkur
hugleysingjum lítt skiljanlegt.
Aldrei vék hann einu orði að
hlutskipti sínu né heilsufari. Um
aðra spurði hann títt og vakti yfir
velferð allra vina sinna með ráð-
um og dáð. Fjölskylda Jóns dýra-
læknis var hans fjölskylda, hann
fylgdist svo vel með öllum þeim
fjölda, að það var sem um hans
eigin börn og barnabörn væri að
ræða. En Þorvarður Kjerulf
Sölvason var ókvæntur og barn-
laus sjálfur alla tíð.
Árlegur atburður var það, að
elsti sonur minn pakkaði með
honum jólagjöfum. En fjöldi
þeirra var víst um 100 hverju
sinni, slík var ræktarsemi hans í
garð vina sinna, þó efnin séu ekki
mikil hjá blindum öldungi í því
brjálaða verðbólguþjóðfélagi, sem
hér hefur rekið frá því að Vassi
varð að hætta störfum vegna
sjónleysis. En við stungum aðeins
einu sinni uppá því við hann, að
hann notaði aurana fyrir sjálfan
sig. Það gat verið fljótt að hvessa
og svona vitleysa var fljótafgreidd
á kjarnyrtri íslenzku af hans
hálfu.
Hann hafði gaman af ferðalög-
um og fór víst til útlanda á hverju
ári meðan heilsan og kraftar
entust. Svo og ferðaðist hann
innanlands að hitta vini sína.
Kaupmannahöfn og Hamborg
voru hans uppáhaldsborgir. Hotel
Hebron í Kaupmannahöfn og Hot-
el Atlantic við Alstervatn í Ham-
borg voru hans staðir. Á Hotel
Atlantic ganga aðeins greifar um
gáttir, það man ég frá námsárum í
Þýskalandi. Þar bjó Vassi þegar
hann gisti Hamborg.
„Það var svo gott kaffið á Hotel
Atlantic" sagði hann kankvís þeg-
ar hann var spurður um, hvað
hann hefði nú haft fyrir stafni í
Hamborg. Síðustu ferðir sínar til
útlanda fór hann alblindur. Orð
Churchills um lífið áttu við um
hann: „For the rest live danger-
ously, take life as it comes, one
day at a time, dread nought — all
vill be well“. Allt var vel hjá Vassa
að hans sögn. Óttann né sjálfs-
vorkunn þekkti hann ekki, hug-
prúður til hinsta dags.
Hann var léttur í viðmóti og
húmoristi. Alþekkt er sagan um
manninn sem vildi kaupa hjá
honum Battersby hatt. „Veistu
það ekki maður minn“ sagði þá
Vassi, „hann Batterby er dauður.
En sonur hans Moore er tekinn við
og hér er kominn hattur frá
honum.“ Og maðurinn fór hinn
ánægðasti með nýjan hatt.
Nú eru leiðarlok. Margs er að
minnast og margt að þakka.
Margir voru honum notalegir í
ellinni. Má nefna „Halla heild-
sala“, eða Þórhall Sigurjónsson og
hans konu, Geir Þprmar, Sigurð
Þormar og Andrés Þormar, Gerði
Hjörleifsdóttur, Stefán Stephen-
sen og Ingibjörgu, fjölskyldu Jóns
dýralæknis alla og „Hönnu á Das“
sem var honum mjög umhyggju-
söm þegar mest á reyndi í lokin.
Fyrir mig og mína fjölskyldu vil
ég þakka Þorvarði Kjerulf Sölva-
syni, stúdent, kaupmanni af allri
Evrópu, stóraristókrata af Héraði
og himinbláum sjálfstæðismanni,
fyrir samfylgdina. Fari Vassi
minn vel.
Halldór Jónsson
verkfræðingur.
Ekki er nú verið að rifa heilu húsin með vélskóflunni á myndinni eins og virst gæti i fljótu bragði,
heldur er unnið þarna við dýpkun og aðrar framkvæmdir við Reykjavíkurhöfn þar sem koma á fyrir
flotbryggju og aðstöðu fyrir trillubáta. Ljósm. ól.K.M.
Minning:
Þorgrímur Friðriks
son kaupmaður
Fæddur 11. október 1912
Dáinn 8. apríl 1980
Hinn 8. apríl sl. andaðist í
Landspítalanum í Reykjavík
Þorgrímur Friðriksson kaup-
maður. Hann var fæddur að
Vindheimum á Þelamörk 11 októ-
ber 1912 og var yngstur 11 barna
foreldra sinna, Sigurrósar Páls-
dóttur og Friðriks Bjarnasonar.
Þorgrímur missti föður sinn að-
eins 2ja ára og móður sína, þegar
hann var 13 ára.
Hann stundaði nám við Mennta-
skólann á Akureyri en varð að
hætta námi eftir 4 vetur. Suður til
Reykjavíkur kom hann árið 1932
og fór að vinna hjá bróður sínum,
Kristni, sem þá rak bílastöðina
Heklu. Fljótlega tók Þorgrímur
ásamt vini sínum, Ragnari Jó-
hannessyni, við rekstrinum og
starfræktu þeir bílastöðina í
nokkur ár. Árið 1943 stofnuðu þeir
félagar verslunina Ingólf við
Grettisgötu en nokkrum árum
síðar keypti Þorgrímur hlut Ragn-
ars og starfrækti eftir það versl-
unina einn.
Þorgrímur byggði verslunarhús
við Grensásveg og flutti verslun
sína þangað árið 1962. Á þeim
árum voru stórmarkaðir ekki
komnir til sögunnar hér á landi og
má fullyrða að hin nýja verslun,
Grensáskjör, hafi borið vott um
mikið áræði og framsýni.
Þorgrímur rak verslunina á með-
an kraftar entust, en fyrir tveimur
árum hætti hann verslunarrekstri
vegna veikinda.
Árið 1942 kvæntist Þorgrímur
eftirlifandi konu sinni, Guðrúnu
Þórðardóttur, dóttur hjónanna
Katrínar Pálsdóttur, fv. bæjar-
fulltrúa í Reykjavík og Þórðar
Þórðarsonar og eignuðust þau
þrjú börn: Katrínu, Sigurrós og
Þórð.
Um Þorgrím má segja að hann
hafi verið af gamla skólanum á
ýmsan hátt. Hann var mikill
kröfugerðarmaður eins og enn
gerist, en ólíkt því sem nú virðist
helst í tísku, beindust kröfur hans
einkum til sín sjálfs. Ósérhlífni og
dugnaður einkenndu hann og hefði
hann ugglaust margbrotið öll
vökulög á sjálfum sér, ef slík lög
hefðu náð til starfsemi hans.
Hann uppskar líka eins og til var
sáð og báru því m.a. vott glæsilegt
heimili og víðrómuð gestrisni. I
því sambandi má að sjálfsögðu
ekki gleyma hlut eiginkonu hans,
Guðrúnar, en mörgum vinum og
ættingjum víðsvegar að af landinu
eru minnisstæðar viðtökur þeirra
hjóna á heimili þeirra.
Hin síðari ár ævi sinnar átti
Þorgrímur við mikla vanheilsu að
stríða, sem skerti að sjálfsögðu
starfsþrek hans. Þyngstur var þó
e.t.v. sá baggi, að fyrir mörgum
árum varð að fjarlægja raddbönd-
in vegna illkynja sjúkdóms. Þótt
þannig hafi verið unnt að komast
fyrir sjúkdóminn stóð Þorgrímur
nú frammi fyrir því að véra í
einskonar einangrun frá umhverfi
sínu vegna erfiðleika við að tjá sig.
Þetta átti einkum við gagnvart
ókunnugum. En þrátt fyrir mót-
lætið lét hann engan bilbug á sér
finna og rak verslun sína af
fullum krafti á meðan kraftar
leyfðu.
í sambandi við veikindi Þor-
gríms hin síðari ár verður enn að
geta Guðrúnar konu hans, sem
staðið hefur eins og klettur við
hlið hans alla tíð og stutt hánn vel
og dyggilega.
Það er vinum og ættingjum
Þorgríms huggun nú, að hann var
sannfærður um framhald tilver-
unnar þótt jarðvist lyki. Kona
hans og börn, sem nú eiga um sárt
að binda, leita nú huggunar í
minningu um góðan eiginmann og
föður í fullvissu um síðari endur-
fundi. Blessuð sé minning
Þorgríms Friðrikssonar.
Guðmundur ólafsson
SVAR MITT
EFTIR BILLY GRAHAM
Nú er nokkur tími liðinn. siðan menn fóru til tunglsins.
Hefur þessi ferð breytt hugmyndum okkar um Guð? Títoff,
rússneski geimfarinn, skýrði svo frá, að hann hefði hvorki
séð Guð né engla úti í geimnum. Er hugsanlegt, að þetta
hafi það í för með sér. að skilningur okkar á Guði verði
annar en verið hefur?
Það er langt frá því, að ferð Apollós II. á dögunum
hafi dregið úr trú okkar á Guð. Þvert á móti hefur
trúin eflzt.
Neil Armstrong, geimfari, sagði, að erfitt væri að
hugsa um óravíðáttur geimsins án þess að gera ráð
fyrir æðstu, hugsandi veru.
Geimfarir okkar getum við þakkað hinum frábæra
verkfræðingi Werner von Braun. Hann sagði: „Því
nánar sem við ranpsökum sköpunina, því meiri ætti
þekking okkar að verða á skaparanum og næmari
tilfinning fyrir ábyrgð manna gagnvart Guði“.
Títoff sá ekki Guð, af því að augu hans voru lokuð
gagnvart honum. Menn sjá og trúa, eins og þeir vilja
sjá og trúa. Biblían segir, að sá, sem komi fram fyrir
Guð, verði að trúa því, að hann sé til, og að hann
umbuni þeim, sem leiti hans í einlægni.
Guð afhjúpar sig ekki sýnilega fyrir þeim, sem hafa
ákveðið að trúa ekki á hann. En þeir, sem trúa, „vita,
á hvern þeir hafa fest traust sitt,“ og líf þeirra ber því
vitni.
Ferðin til tunglsins var stórkostleg, en við gerðum
þó ekki meira en að snerta yztu mörk hins endalausa
alheims. Við erum rétt að byrja að kynnast
ógnarvíðáttu geimsins — og Guði.