Morgunblaðið - 07.12.1980, Síða 2

Morgunblaðið - 07.12.1980, Síða 2
34 Ingvarsslysið við Viðey MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 7. DESEMBER 1980 Kútter Ingvar er fórst við Viðey í mannskaðaveðrinu mikla í apríl 1906. Skipið var eign H.P. Duus-verslunarinnar í Reykjavík. Myndin var tekin í Kaupmannahöfn. En meðan hluthafar í gullleitarfyrir- tækinu voru að reikna út væntanlegan gróða sinn, var haldið áfram að ferðbúa þilskipin. Þarna voru margar fríðar fleytur, traust og góð skip, sem um árabil höfðu borið mikla björg í bú. Smábátar voru á þönum milli lands og skipanna sem lágu úti á höfninni. Ungir drengir fengu að fljóta með ferð og ferð og upplifa þá merkilegu reynslu að stíga fæti sínum á skipsfjöl, þótt aðeins væri það skamma stund. Veðurbarðir sjógarp- ar stungu saman nefjum sínum og spáðu um veður og aflabrögð á vertíðinni, voru flestir á einu máli um að horfurnar væru góðar. Einn og einn hafði þó haft slæmar draumfarir fyrir vertíðarbyrjun og taldi slíkt spá illu. Einhver rifjaði upp sögu sem komin var alla leið vestan frá Bolungarvík. Þar hafði orðið sjóskaði 7. janúar 1905, og sagt var að stúlku eina hefði dreymt eftir þann atburð að hún væri á leið heim að Hóli við Bolungarvík. Þótti henni þá kona allsvipmikil og þó ekki fögur slást í för með sér og segja: „Mörgum hef ég nú átt ráð á í vetur, en þó verða þeir fleiri næsta ár.“ Gat verið að það hefði verið svipur Heljar sem stúlkunni fylgdi og að vertíðin yrði hin mannskæðasta? Sjóslys voru reyndar ekki fátíðir viðburðir á þessum árum. Þótt þilskipin væru stór og talin traust, þá sýndi reynslan að þeim var hætt þegar óveður brast á. Þegar rokið ýlfraði og brim svarraði við strönd var engum rótt sem átti ástvin á sjó. Speglast sá uggur í Lögréttugrein í vertíðarbyrjun, þar sem segir m.a. svo: „Sjósóknin er hér erfið og hættumikil um þennan tíma árs. Menn geta búist við frosti, stormum og dimmum og löngum illviðranóttum. Það er því afar áríðandi að hafa góð skip og vel útbúin. Þá verður hættan minni. En bili eitt, þá er öðru hætt. Auk þess sem vandaður útbúnaður er sjálfsögð varúðarskylda til tryggingar lífi sjómannanna, þá geta innsiglingar til viðgerðar tafið svo fyrir, að útgerðin bíði við það stórtjón. Fiskiskipaútgerðin er aðalatvinnuveg- ur Reykvíkinga. Hvernig mundi fara fyrir bænum, ef þessi útgerð yrði að hætta? Við skúlum vænta, að til þess komi ekki. Ef það færi svo, að fólkið streymdi burtu úr bænum og mikið af honum legðist í auðn. Hús og lóðir hröpuðu í verði. Stórar eignir yrðu að engu. Framtíð bæjarins er komin undir fiskiskipaflotanum." Þilskipin héldu úr höfn, eitt af öðru. Það blés byrlega fyrir þau sem fyrst fóru, en þau sem urðu síðbúnari lentu í hálfgerðum erfiðleikum með að komast leiðar sinnar. Stillt veður var dag eftir dag, stundum svo mikið logn að varla bærði hár á höfði. Eins og jafnan varð mönnum tíðrætt um veðráttuna, og allir höfðu á orði að þetta væri einmuna blíða, og vonuðu að hún mætti haldast sem lengst. Góðviðrið stóð út allan marsmánuð. Skip komu og fóru. Veiðarnar gengu bærilega, en eins og áður gerðu þó erlendu botnvörpungarnir mörgum gramt í geði, svo og aðgerðarleysi dönsku strandgæslunnar. Þótti mönnum hart að ekkert varðskip skyldi vera við gæslu- störf, en svo stóð á, að varðskipið Hekla sem annast hafði gæslu um nokkurt skeið var nýlega farið utan, en nýtt skip, Islands Falk, sem hafði verið smíðað sérstaklega til þess að vera við ísland, var ekki komið enn. Bárust fréttir af því að það myndi leggja af stað til íslands í aprílbyrjun. Fyrsta dag aprílmánaðar urðu mikil og snögg veðrabrigði. Þá um morguninn fór loftvog fallandi og stóð brátt mjög illa. Þess var heldur ekki lengi að bíða að hvassviðri gerði, fyrst af suðri en síðan af suðvestri. Fylgdi mikil rigning hvass- viðrinu um skeið. Varð ekkert lát á veðurhæðinni næstu daga, og þannig var til að mynda suðvestan rok 3. apríl, svo mikið að varla var stætt í Reykjavík í verstu hryðjunum. Þótt veður héldist svo slæmt var mikið um skipaferðir í Reykjavík. Þilskipin sem farið höfðu út i vertíðarbyrjun voru nú að koma inn með afla. Snör handtök voru höfð við að losa skipin, þótt aðstæður væru hinar erfið- ustu, og síðan héldu þau þegar í stað út aftur. Það gat varla verið að þessi óveðurskafli stæði miklu lengur. Það var mikið kapp í flestum skútuskipstjórun- um — enginn vildi láta sinn hlut eftir liggja, né um sig spyrjast að legið væri í höfn, þótt veður væri ekki upp á það besta. Það voru aðeins nokkrir hinna eldri og reyndari skipstjóra, sem tóku þann kostinn að liggja um kyrrt á höfninni og bíða þess að óveðrið gengi niður. Skipin sem komu til Reykjavíkurhafn- ar þessa fyrstu daga aprílmánaðar höfðu mörg hver komist í krappan dans á leiðinni þangað, svo og þau sem létu úr höfn, eftir að óveðrið skall á. Þau urðu mörg að snúa við eftir að þau höfðu orðið fyrir áföllum strax og kom út í Flóann. 011 sluppu þó við meiri háttar áföll, nema eitt, þilskipið Valtýr, eign Fram- nesinga. Skipið hafði verið á leið til Reykjavíkur og var statt á Syðri- Hraununum í Faxaflóa er það fékk á sig mikinn brotsjó. Olli hann skemmdum á seglum og reiða skipsins og hreif einn skipverjanna, Loft Loftsson, stýrimann, útbyrðis og drukknaði hann. Loftur var maður rösklega þrítugur, heimilisfastur að Bollagörðum við Reykjavík og hafði hann getið sér gott orð sem sjómaður og skipstjórnarmaður. Þann dag sem Valtýr kom til hafnar, 5. apríl, varð vindáttin vestanstæðari en verið hafði undanfarna daga, en lítið lát varð þó á hvattviðrinu. Loftvog stóð enn mjög illa, og aðfaranótt 7. apríl breyttist enn vindstaðan og varð að nýju suðvest- anstæð. Þótti þá auðséð að stórviðri var í nánd, enda magnaðist veðrið með birt- ingu um morguninn, og undir hádegi mátti heita að komið væri fárviðri sem færðist enn í aukana. Strax um morguninn komu nokkur Skip til hafnar; höfðu þau þá sögu að segja að þá um nóttina hefði verið stórviðri úti fyrir og mildi mætti heita að skipin hefðu komist slysalaust til hafnar. Svo hafði raunar ekki orðið, þar sem eitt skipa Framnesinga hafði fengið á sig brotsjó er það var á leiðinni inn. Þrír menn voru á þiljum er brotsjórinn kom á skipið, og fóru þeir allir fyrir borð. Með miklu snarræði tókst að bjarga tveimur mannanna en sá þriðji fórst. Var það stýrimaður skipsins, Gunnlaug- ur Grímsson, ættaður frá Nauthól. Laust fyrir hádegi veittu menn í Reykjavík því athygli að skip var á siglingu fyrir utan eyjar og átti það greinilega í erfiðleikum. Hafði það uppi aftursegl og stagfokku og þegar skipið nálgaðist sást að það myndi hafa orðið fyrir áföllum og skemmdum. Greindu menn t.d. að gaffallinn á stórseglinu var brotinn. Skip þetta, sem menn sáu brátt að var kúttef Ingvar, eign Duus-verslun- arinnar í Reykjavík, treysti sér greini-. lega ekki til þess að sigla inn á höfnina eftir venjulegri skipaleið, vegna þess hve vindáttin var óhagstæð, heldur sigldi __t_____________________________________ fyrir norðan Engey og síðan áleiðis inn á Viðeyjarsund. Mönnum í landi, sem fylgdust með Ingvari, þótti líklegt að skipstjórinn ætlaði sér að leggja skipinu einhvers staðar á svæðinu milli Viðeyjar og lands, eða inni við Klepp. Fyrst í stað virtist sem þetta ætlaði að takast, en þegar skipið var komið inn á móts við Eiðið við Viðey, þar sem leiðin þrengist, var sem skipstjórinn hætti við að halda áfram, sennilega af ótta við að sigla skipinu í strand. Hins vegar varð ekki aftur snúið, og var því eina úrræðið að draga niður seglin og varpa akkeri. Úr landi að sjá var sem akkerið fengi festu, þar sem skipið snerist og varð vindrétt. Þetar þetta gerðist mun klukkan hafa verið tólf á hádegi. Þá var veðurofsinn enn að magnast, og varð hvassviðrið nú sunnanstæðara en verið hafði fyrst um morguninn. Brim jókst að sama skapi mikið á skammri stundu og varð fljót- lega meira en elstu menn myndu að hefði fyrr gert við Reykjavík. Var höfnin eitt rjúkandi löður yfir að líta. Hvarf Ingvar oft í særokið, en þess á milli grilltu menn í skipið, og öllum til mikillar skelfingar sást að það hafði snúið sér og flatrak nú undan veðri í átt að skerjunum við Viðey. Laust fyrir klukkan hálfeitt mun Ingvar hafa strandað á skeri sem var nokkuð frá landi. Var erfitt fyrir mannfjölda þann sem safnast hafði saman við Reykjavíkurhöfn og fylgdist þaðan með skipinu að greina hvort það var strandað eða ekki, en hins vegar sást vel frá Laugarnesi hverju fram fór. Sími var kominn í spítalann í Laugarnesi og hringdi Hermann Jónasson, spitalaráðs- maður þar, til Reykjavíkur og greindi frá því að Ingvar væri strandaður. Sagði hann frá því að svo virtist sem flestir skipverjanna hefðu raðað sér í reiðann. Engin björgunartæki voru við höndina inni í Laugarnesi, og var aðalerindi Hermanns að hvetja til þess að farið yrði á bát út að Viðey. Taldi hann það gerlegt, þótt óveðrið væri magnað og sjólagið illt. Fyrst í stað höfðust menn lítið að, en þegar fréttist um ástandið á strandstað fóru menn að hugsa sér til hreyfings. Meðal þeirra sem komnir voru niður að höfninni voru nokkrir ráðamenn þjóðar- innar og bæjarins. I þeim hópi voru Hannes Hafstein, ráðherra; Páll Ein- arsson, bæjarfógeti; Tryggvi Gunnars- son, bankastjóri, og Ditlev Thomsen, kaupmaður, maðurinn sem á margan hátt má telja einn af brautryðjendum slysavarnastarfsins á íslandi. Þeir félag- ar hétu á menn til hjálpar og skoruðu á þá að fá sér bát og fara um borð í eitthvert þeirra sex gufuskipa sem lágu á Reykjavíkurhöfn, biðja þau að fara á vettvang og freista þess að bjarga áhöfn Ingvars. Nú brugðust menn vel og skjótt við. Hinn kunni skipstjóri Geir Sigurðsson og Helgi Teitsson, hafnsögumaður, gáfu sig þegar fram og fengu menn til liðs við sig. Skotið var út fjögurra manna fari sem Thomsen átti og lánaði til ferðarinnar. Hér var vissulega teflt á tvær hættur, en menn létu það ekki á sig fá. Bátnum var hrundið á flot, og mannfjöldinn fylgdist með honum út höfnina. Gekk allgreið- lega að ná til strandferðaskipsins Reykjavíkur sem lá næst landi. Öll áhöfn skipsins var um borð og höfðu þeir Geir og Helgi tal af skipstjóranum. Svaraði hann þeim að bragði og sagði að hann væri alls ekki fær um að veita hjálp í slíku veðri. Skip sitt vantaði næga kjölfestu, og það væri aðeins líklegt að hann tefldi því og áhöfn sinni í hættu ef hann gerði tilraun til þess að fara út að Viðey. Ekki gáfust mennirnir upp við svo búið, en brutust út að gufuskipinu Súlunni, sem lá þarna skammt frá og hafði dregið neyðarmerki upp. Ekkert var þó þar að um borð, heldur hafði neyðarmerkið verið gefið, til þess að láta vita um slysið við Viðey. Hjá skipstjórn- armönnum á Súlunni fengu bátsverjar sömu svör og á Reykjavík. Vonlaust væri að reyna björgun. Héldu þeir við svo búið að botnvörpungi Þorvalds á Þorvalds- eyri, Seagull, en þar var einnig sömu svör að hafa, og bátsverjar urðu frá að hverfa við svo búið. Skammt frá Seagull lá gufuskipið Gambetta, sem komið hafði til Reykja- víkur skömmu áður með vörufarm til verslunar Ásgeirs Sigurðssonar. Hafði skip þetta nú dregið upp leiðsögumerki, og börðu bátsverjar að því. Lýsti skip- stjóri sig þegar reiðubúinn að gera tilraun til björgunar, og var þegar farið að undirbúa skipið. Meðan þessu fór fram fylgdust menn með Ingvari í brimgarðinum við Viðey. Frá Reykjavík sást lítið til skipsins annað en masturstopparnir, sem þó virtust hverfa í sjó öðru hverju. Páll Einarsson, bæjarfógeti, gekk enn manna á milli og skoraði á þá að koma til hjálpar, áður en það yrði um seinan. En nú var veðurhæðin orðin slík að björgun- arferð virtist í flestra augum óðs manns æði. Meðal þeirra sem þarna bar að var Matthías Þórðarson frá Móum á Kjal- arnesi, og fyrir orð Páls og Tryggva Gunnarssonar tókst honum loks að fá átta menn til þess að fara með sér á traustum sexæringi sem þarna var til taks. Var ætlunin að fara hina sömu leið og hinn báturinn hafði farið — leita til gufuskipanna sem lágu á höfninni, en þau höfðu enn ekki sýnt neitt fararsnið og þótti mönnum það dragast furðulega í tímann. Náði þessi bátur aðeins til þess skips sem lá grynnst á höfninni, en þegar afsvar fékkst þar var haldið til lands aftur og komst báturinn þangað við illan leik, þóftufullur af ágjöfinni. Um svipað leyti kom hinn báturinn einnig að og skýrðu menn frá málalokum. Sást líka að Gambetta létti akkerum, en ekki hafði skipið farið nema nokkur hundruð faðma í átt til Viðeyjar, þegar það sneri aftur og lagðist síðan við báðar festar sínar. Þar með var sýnt að ekki yrði unnt að koma áhöfninni á Ingvari til aðstoðar. Nú voru liðnar um þrjár klukkustundir frá því að skipið strandaði, og virtist skipið vera brotið í spón og möstrin komin í sjó, þannig að líklegt þótti að allir mennirnir hefðu þegar farist.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.