Morgunblaðið - 13.12.1981, Qupperneq 8

Morgunblaðið - 13.12.1981, Qupperneq 8
56 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 13. DESEMBER 1981 , ,Það er nú einu sinni laglman sem lifír“ „Nei, það er ekkert skammdegisþunglyndi hjá mér. Mér líður ágætlega þótt það sé myrkur. Platan komin í yfir fimm þúsund eintaka sölu og allt í himnalagi og gott betur. Ég er mest heima núna í bleiustússinu. Við Toby eignuðumst son í byrjun september og það fer náttúrulega mikill tími í að hugsa um hann. Annars er ég að undirbúa gerð plötu með íslenskum þjóðlögum. Það verður næsta verkefni. Svo verður sennilega gerð „Þú og ég“-plata með vorinu. Það er svo sem nóg að gera.“ Já, Gunnar Þórðarson hefur fulla ástæðu til að vera í góðu skapi þessa dagana. Og er það líka. Þegar ég hringdi i hann á dögunum til að ámálga við hann hugmynd um viðtal, var hann önnum kafinn sem barnapía, en okkur tókst að finna smugu dag- inn eftir. Þá var þriðjudagur og rokið og kuldinn í miklum ham við að kvelja allan landslýð. Við höfðum ákveðið að snúa hlutverk- unum við að hluta, svo það féll í hlut Gunnars að koma í heimsókn til blaðamanns að þessu sinni. „Ég bauð bæði Steinum og Fálkanum að gefa út „Himinn og jörð“. Steinar voru ekki tilbúnir að leggja svona mikinn pening í þetta. Þetta er töluvert dýrt fyrir- tæki. Ég nota til dæmis strengja- sveit í fjórum lögum og það kostar svona tuttugu og fimm þúsund. En ég held að þeir í Fálkanum hljóti að vera farnir að brosa núna, því það átti ekki að þurfa nema fjögur þúsund eintök til að útgáfan stæði undir sér. Þetta eru allt lög eftir mig, en textarnir eftir aðra. Ég samdi sjálfur nokkra texta á hippaárun- um, en hætti því fljótlega. Núna læt ég mér nægja að leggja stund- um fram hugmynd um texta við lögin sem ég sem. Stundum kemur það líka fyrir að ég sem lag við ákveðinn texta. Það er þó frekar sjaldan. Yfirleitt sem ég lögin á gítar heima í stofu. Skrifa síðan niður hljómana og laglínuna og þegar ég á orðið nokkrar slíkar hug- myndir, fer ég með trommuleik- ara og píanista inn í stúdíó og við spilum inn grunninn að þessu. Ég spila þá sjálfur á bassa. Svo fer maður með spólu heim og hlustar á þetta og fer að velta fyrir sér hvaða „lit“ maður eigi að setja á þetta. Hverju maður eigi að bæta ofan á, hvern ég ætti að fá til að syngja það og kannski um hvað textinn ætti að vera. Svo verður þetta mikið til í stúdíóinu." „Nú hefur þú um langt skeiö ver- iö...“ — Hvernig er það að vera kom- inn í þá aðstöðu að vera kannski helmingi eldri en það fólk sem mest hlustar á dægurtónlist? „Það var nú strax upp úr 1970 að blaðamenn fóru að spyrja mig spurninga sem byrjuðu á orðun- um: „Nú hefur þú um langt skeið verið...“ Þetta hefur engin djúp áhrif á mig. Þessi unga kynslóð sem núna er að vaxa úr grasi með pönki og öllu því, er nú ekkert ósvipuð því sem við vorum hérna í kringum sextíu og fimm. Þá fannst manni líka að það væri ekki talandi við neinn sem var yf- ir þrítugt. Þó er þetta kannski einhvern veginn aggressívara núna, en það er nú meira í orði en verki. Alla vega er miklu meiri svartsýni ríkjandi núna. Við vor- um bjartsýn. Það átti vissulega að breyta heiminum, en hann átti að verða betri og fegurri. En í grundvallaratriðum er þetta ósköp svipað. Þetta snýst mikið um tónlistina, alveg eins og þá var. Það er ýmislegt að ske í tónlist- inni hér. Bubbi er ansi góður. Hins vegar fannst mér Utan- garðsmenn aldrei góð hljómsveit. Mér finnst Þeyr mun merkilegri hljómsveit og betri spilarar." — Voru þeir ekki að komast á samning í útlöndum? „Já. Samningar í útlöndum," segir Gunnar og hlær, „það er nú alveg spesíal keis. Annars er miklu betri grundvöllur fyrir þessu núna, en áður var. Nú'fer þetta allt í gegnum plötufyrirtæk- in. Fyrirtækin hér eru með umboð fyrir stóru fyrirtækin úti í heimi og hafa sambönd við þau. Hér áð- ur fyrr voru þetta bara einhverjir náungar. Pund og yen? — Ferð þú ekki að fá pund og yen í stríðum straumum fyrir útgáf- una á „Þú og ég“ í Englandi og Japan? „Það verður nú alla vega ekki fyrr en á næsta ári, því höfunda- laun eru alltaf greidd ári á eftir. Svo er nú kerfið þannig úti, að höfundar skipta við sérstök út- gáfuréttarfyrirtæki sem sjá um að rukka og fylgjast með og taka líka fimmtíu prósent, svo ég veit nú ekki hvað þetta er mikið. Þetta gekk nú ósköp rólega í Englandi, en þeir eru búnir að selja tuttugu þúsund eintök af stóru plötunni í Japan á hálfum mánuði. Við sjá- um til. Það er mikíl auglýsinga- herferð í gangi úti. Þetta er allt í gegnum CBS og Steina hf. Það er eitthvert dótturfyrirtæki CBS í Japan sem gefur þetta út. Það er nú einu sinni svoleiðis í þessum bransa, að það er ekki nándar nærri nóg að vera bara góður. Það þarf að vera mikið fjármagn að baki til að standa straum af auglýsingakostnaði. Eitt sem hefur afskaplega mikið að segja í þessu sambandi eru upptökumennirnir. Geoff Calver, maðurinn hennar Shady tók upp „Þú og ég“ og ég fékk hann líka til að hljóðblanda „Himinn og jörð“. Hann er geysilega fær. Hefur næmt eyra fyrir þessu. Það er framtíðardraumurinn að geta eytt meiri tíma í að gera plötu, en venjan er hér á landi. „Himinn og jörð“ var tekin upp á 140 tímum. Erlendis eru svona plötur gerðar á miklu lengri tíma.“ „Hlusta fremur lítið á tónlist“ „Nei, ég hlusta fremur lítið á tónlist. Éf ég er að hlusta þá finnst mér ég verða að einbeita mér að því. Ég get ekki haft tón- list sem einhvers konar bak- grunnshljóð. Þegar ég hlusta á plötur eru það helst nýjar plötur, til að heyra hvað menn eru að gera. Ég hlusta eiginlega aldrei á klassík. Ég held ég eigi ekki eina einustu klassíska plötu. Ég spila miklu minna en ég gerði og ég er hættur að líta á mig sem gítarleikara. Öll æfingin sem ég fékk af að spiia á böllum er löngu fyrir bí. En ég gutla þó allt- af eitthvað heima. Líka stundum á píanó. Þó finnst mér þægilegra að semja á gítarinn. Þetta er heldur óhollt líf. Þetta eru geysilegar tarnir og vökur og þá gjarnan mjög óreglulegir mat- artímar og mismerkilegt fæði. Nei, ég hef engin svona heilbrigð áhugamál eða hobby, eins og gönguferðir og ég fer aldrei í bad- minton j hádeginu. En ég hef mik- ið hugsað um það.“ Þessu síðasta fylgir hlátur. „Annars var Toby að kaupa handa mér svona trimmgalla, svo ég verð eiginlega að fara að gera eitthvað í þessu." „2400 gítargrip“ „Ég átti heima á Hólmavík til niu ára aldurs, þá eitt ár uppi í Smálöndum en frá 1955 í Kefla- vík. Við erum sjö systkinin. Það þótti nú ekki mikið. Amma átti tólf börn. Ég byrjaði ekki sem smábarn að spila á hljóðfæri. Það var eiginlega ekki fyrr en ég var svona fjórtán ára, þegar ég fór að hlusta á poppið í Kananum, að ég fór að fikta í gítar sem var til heima. Brátt ákváðum við skóla- félagarnir að stofna hljómsveit. Það var eins konar upphaf að Hljómum. Það var ég og Rúnar og Erlingur og svo ýmsir sem komu og fóru þarna fyrst. Það kunni enginn neitt. Ég byrjaði á að spila á trommur. Én kunnáttuleysið kom ekkert að sök í byrjun, því við spiluðum bara plötur og þótt- umst spila. Svo fórum við að reyna að spila sjálfir lögin á plöt- unum. Fyrst Shadows-lög og síðar Bítlalög. Ég fór í tíma til Guðmundar Ingólfssonar gítarleikara, sem þá var með hljómsveit sem spilaði í „Krossinum" og hann lét mig hafa bók sem hét „2400 gítargrip" eða eitthvað slíkt og ég pældi í gegn- um hana. Síðan fór maður að hlusta á popplögin og pikka upp hljómana í þeim, eftir bassanum. Það var mikil og góð þjálfun fyrir eyrað.“ Rætt við Gunnar Þórðarson um ýmislegt milli himins og jarðar „Hefur nú ekki mikið breyst" „Við stofnuðum Hljóma árið 1962 og eftir tíð mannaskipti í byrjun, tók hljómsveitin á sig nokkuð endanlega mynd. Þá voru í henni þeir Rúnar, Erlingur, Eng- ilberg Jensen og ég. Á árunum 1966 ’67 var Pétur Östlund á trommunum hjá okkur í stað Engilberts. Strax sextíu og fjögur var það mikið að gera hjá okkur í spila- mennsku að við hættum að vinna. Ég og Rúnar höfðum annars unn- ið sem leigubílstjórar á Vellinum. Síðan þá hef ég lifað algerlega á tónlistinni. Hljómar spiluðu út um allt land og á Norðurlöndun- um og 1967 spiluðum við í Cav- ern-klúbbnum í Liverpool, þar sem Bítlarnir byrjuðu. Þetta var mikið ævintýri. Skemmtilegasta tímabilið held ég þó að hafi verið þegar Trúbrot byrjaði í kringum sjötíu. Ég vildi bara að við hefðum asnast til að æfa okkar eigin lög og gefa þau út. En við gáfum út „hvítu plöt- una“. Þar voru reyndar nokkur lög eftir okkur. Ég held að bandið hafi verið best þá. Þetta var skemmtilegur tími og mikið að ske. Þá átti nú aldeilis að breyta heiminum, en einhvern veginn hefur nú ekki mikið breyst. Þjóð- félagsmyndin er ennþá sú sama. Árið 1973 hætti ég í ballbransan- um og fór að vinna fyrst og fremst að upptökum. Nei, ég sakna þess aldrei. Það er nóg að hafa verið í þessu í tólf ár. Þetta er erfitt líf og mér fannst að ég þyrfti ekki endilega að vera dæmdur til að vera að flækjast um landið allt mitt líf og spila fyrir fullt fólk. Þetta er bara fyllirí á þessum böllum. Hefði alveg eins getað verið „Duke-box“ í staðinn fyrir hljómsveitina. Svo er sukkið í kringum þetta. Allir alltaf að hamast við að vera í stuði, kannski dauðþreyttir. Þá fara menn að þurfa eitthvað til að peppa sig upp. Maður sá á eftir mörgum félögum sínum niður í vesen og vandræði og næstum því sjálfum sér. Sumir hafa síðar bjargað sér upp úr þessu. Ekki allir.“ „Eitthvað varanlegra“ „Þrátt fyrir allar vökurnar þá er þó allt annað að fást við upp- tökur. Það er eitthvað varanlegra, sem maður er að búa til. Annars er þetta skrýtið, hvaða stefnu lífið tekur. Ég var afskaplega feginn að þetta gekk vel hjá mér í tón- listinni, því að öðru leyti var ég algerlega stefnulaus, þegar þetta var allt að byrja." — Hvaða tónlistarmenn hafa haft mest áhrif á þig í gegnum árin? „Sá fyrsti sem mér fannst veru- lega góður, var Burt Bacharaeh. Hann notaði oft skrýtna takta og samdi sérkennileg lög. Svo eru það náttúrulega Lennon og McCartney, Stevie Wonder og Brian Wilson úr Beach Boys. Af þessum nýju hef ég til dæmis gaman af söngkonunni Ricky Lee Jones og Steely Dan. Svo finnst mér oft dálítið gaman af sumu í þessari tölvumúsík, ef laglínurnar eru góðar. Það er nú einu sinni laglínan sem lifir í þessari dæg- urtónlist. Það hafa komið út svona tvö hundruð lög eftir mig á plötum og þau sem ég held mest upp á sjálf- ur eru flest róleg. Ég er hrifnari af ballöðum en hraðari lögum. Mér hefur aldrei fundist ég vera sérlega mikill rokk-skrifari. Svo er það nú dálítið skrýtið með það, að mörg lög sem ég hef samið og verið nokkuð ánægður með, hafa einhvern veginn mistekist í flutn- ingi og upptöku. Ekki rétt hljóð- færaskipan og svona. Ef ég á að nefna einhver lög sem ég er nokkuð sáttur við, þá get ég nefnt „Þú og ég“ og svo til dæmis lögin-4 Mandala-plötunni, sem voru eitthvað mislukkuð þar. Lög eins og „All That I Want To Do“ og „Mr. Moonshine". Af öðr- um lögum er ég all ánægður með lokalagið úr Oðali feðranna og „Hrafninn", sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng inn á piötu og svo eitt gamalt lag frá Hljóma- árunum, „Þú varst mín“.“ „Gott fyrir sálina“ „Jú, því er ekki að neita að það er gott fyrir sálina hvað „Himinn og jörð“ gengur vel. Stóra tvö- falda albúmið sem ég gerði að hluta í Kaliforníu árið 1978 gekk jú hálf illa. Þetta var slæmur tími fyrir plötur. Plðtur voru fremur dýrar, fólk búið að koma sér upp ágætum græjum og plötusafni og farið að huga að öðrum hlutum, Ég var ekki heldur heppinn með stúdíó. Þeir eru svo ofboðslega rólegir í tíðinni þarna. Svo var ég svo ástfanginn upp fyrir haus og einbeitti mér kannski ekki nóg að tónlistinni. En þótt platan gengi ekki vel, þá endaði þó ástarsagan vel. Við höfum það gott á Kleppsveginum. Öll þrjú.“ — Að lokum. Hvað heldurðu að Gunnar Þórðarson væri að gera ef hann væri fæddur 1965; inni í bíl- skúr að spila rokk? „Ætli það ekki...“ — SIB

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.