Morgunblaðið - 14.01.1983, Qupperneq 27
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 14. JANÚAR 1983 27
Minning:
Arthur Guðmundsson
mági sínum, Sigurjóni Fjeldsted,
allt til ársins 1965, að hann réðst
til Löggildingarstofunnar, þar
sem hann starfaði til dauðadags,
lengst af sem eftirlitsmaður og
verkstjóri, en síðustu 5 árin sem
fulltrúi. Friðrik var mjög traustur
starfsmaður, ráðagóður við lausn
ýmissa daglegra verkefna. Hann
var nákunnugur allri starfsemi
Löggildingarstofunnar, sem nær
yfir allt landið, og átti drjúgan
þátt í að skipuleggja hinar ýmsu
ferðir, sem senda þurfti í, út á
landsbyggðina. Oft kom í ljós að
hann þekkti ekki bara landið vel,
heldur var hann einnig gjörkunn-
ugur öllum aðstæðum á hverjum
stað, sem fara þurfti til, enda
hafði hann þrætt vegi og vegieys-
ur landsins í erfiðum eftirlitsferð-
um um margra ára skeið. Hann
var mjög kunnugur ýmsum mönn-
um landsbyggðarinnar, sem leita
til okkar, og greiðvikinn svo af
bar.
Friðrik var ljúfmenni mikið og
ráðhollur hinum yngri starfs-
mönnum gegnum árin. Hann var
lagtækur með afbrigðum, teiknaði
og fylgdist með smíði margra
tækja, sem notuð eru hér, því
hann var hugmyndaríkur og ná-
kvæmur í verki. Friðrik var
snyrtimenni mikið í allri um-
gengni og svo viljugur og vinnus-
amur að eðlisfari, að segja má að
hann gæti ekki verið verkefnalaus.
Það er hverjum stjórnanda fyrir-
tækis mikils virði að hafa slíkan
starfsmann og er mér mikil eftir-
sjá að Friðrik, ekki bara sem ötul-
um starfsmanni heldur og vini, því
hér höfum við starfað saman í þau
17 ár, sem honum auðnaðist að
vinna hér. Hann var alla tíð boð-
inn og búinn til starfa, að hverju
sem var og hvenær sem var.
Hann gegndi ýmsum trúnað-
arstörfum fyrir starfsfólkið hér.
Hann var mjög vel liðinn maður
meðal starfsfólksins alls og er
mikill söknuður hér ríkjandi. Ég
og mín fjölskylda höfum átt því
láni að fagna að hafa góða kynn-
ingu af honum og greiðasemi
hans.
I einkalífi var Friðrik ham-
ingjusamur. Hann kvæntist árið
1954 eftirlifandi eiginkonu sinni,
Helgu Þorsteinsdóttur, sem staðið
hefur við hlið hans sem styrk stoð,
því oft reynir mikið á þær konur,
sem þurfa að axla alla ábyrgð,
þegar maki er fjarverandi vikum
saman úti á landi vegna starfs
síns.
Þau hjón eignuðust tvö börn,
Kjartan, starfsmann hjá O.J. &
Kaaber og Auði, húsfreyju í Rétt-
arholti í Skagafirði, gift Jóni
Gíslasyni, og eiga þau þrjú börn.
Fráfall Friðriks er mikill harmur
fjölskyldu hans og vinum, en góð
minning er hjálp í raunum.
Frá starfsfólki Löggildingar-
stofunnar fylgja honum hlýjar
saknaðarkveðjur á þeim nýju veg-
um sem hann nú kannar.
Ég sakna vinar í stað og dvel við
minningar frá samvinnustundum
okkar. Hjartanlegar samúðar-
kveðjur sendi ég og fjölskylda mín
Helgu og fjölskyldu.
Sigurður Axelsson
Fæddur 8. mars 1908
Dáinn 6. desember 1982
Þær fregnir bárust mér fyrstar
er ég kom heim til landsins um
miðjan desember, að Arthur Guð-
mundsson væri látinn, eftir
skamma sjúkrahúsvist, en nokkuð
langa glímu við þann sjúkdóm,
sem er einn skæðastur vágestur á
okkar dögum, hjartabilun.
Þótt þessi illvígi sjúkdómur
væri þegar búinn að hremma
helstu krafta Arthurs þegar ég
kvaddi hann í haust, og vita mátti
að hið óumflýjanlega gæti gerst
án frekari fyrirvara, þá hafði ekki
annað hvarflað að mér, svo
skömmu fyrir jól, en að leiðin lægi
til Arthurs og Rögnu, í jólahald
þeirra, einhverja daga hátíðarinn-
ar, eins og svo oft áður.
Ein af mínum fyrstu bernsku-
minningum tengist Arthuri heitn-
um á þann hátt sem mér finnst vel
lýsa honum. Sem þriggja eða fjög-
urra ára snáði bauðst mér eitt
sinn að velja, hvort ég vildi fara
með foreldrum mínum dagsferð
frá Húsavík inn til Akureyrar, eða
fá vasaljós. Þetta var erfitt val, en
Akureyrarferðin varð fyrir valinu.
Þegar svo Arthur ók okkur um
kvöldið að rútunni og kvaddi
okkur þar, þá laumaði hann litlum
pakka í vasa minn, og sagði mér
að opna hann ekki fyrr en rútan
væri lögð af stað. Og það er rétt
hægt að ímynda sér hamingjuna,
svona í ferðalok, þegar veislu
dagsins var lokið og eldra bróðurs-
ins beið gljáandi nýtt vasaljós
fyrir að bíða heima, þegar pakk-
inn var opnaður og í ljós kom
nákvæmlega sams konar vasaljós!
Þannig kunni Arthur alla tíð að
gleðja, og kannski helst börn. Og á
lífsleiðinni lagði hann alla tíð gott
til og var hinn hjálpandi.
Arthur Guðmundsson var fædd-
ur að Spítalavegi 1 á Akureyri,
hinn 8. mars 1908, sonur hjónanna
Helgu Guðrúnar Guðmundsdóttur
og Guðmundar Vigfússonar,
skósmiðs. Arthur var yngstur
fimm systkina. Elst voru Dagný,
sem var húsfrú á Akureyri og
Garðar, fyrsti loftskeytamaður á
farskipum, sem bæði eru látin, en
eftir lifa systur hans, Lára, búsett
í Reykjavík, og Fanney, húsfrú á
Akureyri. Á heimilinu ólust einnig
upp börn Dagnýjar, Haraldur og
Ragnheiður.
En húsið við Spítalastíg 1 var
ekki aðeins myndarlegt heimili,
þar var einnig til húsa skósmíða-
stofa Vigfúsar, sem vann það góða
verk að taka til vinnu hjá sér
málleysingja og kenna þeim iðn-
ina. Arthur var tengdur föður sín-
um sterkum böndum. Hann hóf
nám við Gagnfræðaskóla Akur-
eyrar, sem síðar varð Menntaskól-
inn á Akureyri, en þegar hann var
í þriðja bekk, árið 1924, varð fjöl-
skyldan fyrir því áfalli að heimil-
isfaðirinn lést. Arthur hætti þá
umsvifalaust í skóla til að gerast
fyrirvinna fjölskyldunnar. Með
sjálfsnámi hélt hann þó áfram að
mennta sig, einkum í tungumálum
og verslunarfræðum. Fyrstu árin
eftir lát föður síns vann hann á
verkstæðinu. En tímarnir voru að
breytast, verslunin í landinu var
að verða fjölbreyttari, og innflutt-
ir skór voru að taka við af hinum
smíðuðu. Skósmíðin var á undan-
haldi en það biðu vandasöm og
heillandi störf í verlsun lands-
manna.
Árið 1929 réðist Arthur til
Kaupfélags Eyfirðinga, til versl-
unarstarfa, og 1. janúar 1930 var
hann gerður að deildarstjóra vefn-
aðarvörudeildar. En nú var heims-
kreppan mikla skollin á og erfiðir
tímar að fara í hönd, þar sem
reyndi á verslunar- og viðskipta-
hæfileika hins unga deildarstjóra.
Atvinnuleysi fylgdi að sjálfsögðu í
kjölfar kreppunnar og peninga-
leysi á mörgum heimilum. Sem
eitt dæmi um hugvit Arthurs var
að þá lét hann búa til snið að
náttfötum og skyrtum, sem hann
sendi út í bæ til kvenna, sem
saumuðu eftir þeim og síðan voru
fötin seld í vefnaðarvörudeildinni.
Þótt þessi framleiðsla væri ekki
mikil að vöxtum, þá reyndist hún
dýrmæt hjálp ýmsum fjölskyld-
um, sem úr litlu höfðu að spila, og
var ef til vill vegvísir í atvinnu-
málum á Akureyri.
Árið 1939 tók Arthur við starfi
innkaupastjóra KEA og gegndi
hann því starfi til 31. júlí 1978, er
hann lét af störfum vegna aldurs,
eftir 49 ára starfsferil hjá KEA.
Áður en stríðið skall á hafði
Arthur farið í innkaupaferðir til
Evrópu, en í stríðslok, árið 1945
biðu hans margar mikilvægar
ferðir, langar, tímafrekar og erfið-
ar. Nú þurfti að endurnýja gömul
sambönd og koma upp nýjum
samböndum. Þetta var ekki síst í
Þýskalandi, þar sem uppbygging
var hafin af miklum krafti. Vegna
þess trausts sem Arthur naut frá
fyrri viðskiptum, urðu margir til
að leita til hans um viðskipti við
ísland, og reyndust ferðir hans
mikil stoð samvinnuversluninni í
landinu.
Þótt íslendingar byggju að sínu
leyti norðan við stríð, þá blönduð-
ust þeir á sinn hátt inn í gang
stríðsins, og til Akureyrar kom
norsk herdeild, sem kunnugt er.
Ekki gekk deildinni í fyrstu auð-
veldlega að útvega allt það sem
þurfti, og kom þar hvort tveggja
til, að vöruframboð var takmark-
að, og svo hitt, að verðlag vildi
hækka, þegar herdeildin átti hlut
að máli. Vegna góðrar reynslu af
viðskiptum við Arthur leituðu yf-
irmenn herdeildarinnar fljótt til
hans um útvegun á ýmsu öðru en
deild hans seldi, og kunnugleiki
hans og hjálpsemi varð herdeild-
inni ómetanleg stoð, og hinn 5.
september 1947 varð Arthur
sæmdur Frelsisorðu Hákonar 7.
Noregskonungs. Svo mjög var lið-
veisla hans metin.
Myndarbragurinn á heimilinu
að Spítalastíg 1 var Arthuri veg-
arnesti, bæði á starfsvettvangi
sínum sem og í einkalífi. Þann 29.
september 1942 kvæntist Arthur
Ragnheiði Bjarnadóttur, dóttur
Þórdísar Ásgeirsdóttur og Bjarna
Benediktssonar kaupmanns og
póstafgreiðslumanns á Húsavík.
Það var mikil hátíð þennan dag í
Bjarnahúsi á Húsavík, 65 ára af-
mæli Bjarna, og tvær dætur
þeirra Þórdísar giftar burt,
Bryndís, móðir mín og Ragnheið-
ur.
Fyrstu fimm árin bjuggu þau
Arthur og Ragna í hluta af því
húsnæði, sem Hótel KEA hefur nú
til afnota, en síðan reistu þau sér
hús að Austurbyggð 10 á Akur-
eyri. Þar hefur um 35 ára skeið
staðið þeirra glæsilega myndar-
heimili, hlýlegt og opið öllum.
Þegar Bjarnahúss naut ekki leng-
ur við á Húsavík tók heimili
Arthurs og Rögnu við sem áfanga-
staður allrar minnar móðurættar
og þess mikla fjölda fólks sem
þeirri ætt tengjast. Mér er sér-
staklega ljúft að minnast þess,
hversu Arthur varð öllum börnum
sem þangað komu einstakur vinur,
hlýr og rausnarlegur og með sér-
stakan skilning á óskum yngstu
gestanna. Þar var alla tíð gest-
kvæmt, þangað komu ættingjar og
venslafólk beggja hjónanna, vinir
og kunningjar, og þau verða held-
ur aldrei talin þau skiptin þegar
viðskiptamönnum Kaupfélags Éy-
firðinga, sem leggja þurftu leið
sína til Akureyrar, var boðið inn á
heimili þeirra að njóta þeirra
miklu gestrisni.
Börn þeirra hjóna eru þrjú og
barnabörnin orðin átta. Elstur er
Guðmundur Garðar, fæddur 1947,
bankafulltrúi á Blönduósi, kvænt-
ur Katrínu Ástvaldsdóttur. Þeirra
börn eru þrjú: Katrín Ragnheiður,
Ásta Valdís og Arthur Garðar.
Næstur er Bjarni Benedikt, fædd-
ur 1949, forstöðumaður Krist-
neshælis. Hann er kvæntur Jónínu
Jósafatsdóttur og þeirra börn eru
einnig þrjú: Ragnheiður Dagný,
Ingibjörg Marta og Ásgeir Pétur.
Yngst er svo Þórdís Guðrún,
meinatæknir, búsett á Akranesi.
Hún er gift Hannesi Þorsteins-
syni, líffræðingi, og þeirra synir
eru tveir: Þorsteinn og Bjarni Þór.
Fyrir um það bil ári, eftir að
Arthur hafði kennt í vaxandi mæli
áhrifa sjúkdóms síns, fluttu þau
hjónin úr hinu stóra húsi sínu í
Austurbyggð í minni íbúð að Eini-
lundi 4a. Ég þykist vita að Arthur
hafi verið viðbúinn því að kallið
kynni að koma án mikils fyrir-
vara, og hafi viljað sjá til þess að
Ragnheiði væri búið léttara og
minna heimiþ, ef svo færi sem
óttast mátti. Áð minnsta kosti var
það aðeins líkt öðrum háttum
hans. Umhyggjan fyrir fjölskyld-
unni sat í fyrirúmi og fyrirhyggju-
semi.
Ég vil hér flytja þakkir frá þeim
fjölmenna og stóra hóp sem
Árthur eignaðist að fjölskyldu
fyrir 40 árum og hefur alla tíð síð-
an notið þeirrar elsku og gestrisni,
sem Arthur veitti ríkulega af.
Bjarni Sigtryggsson
Hjartalækningar:
Vilja þróa hjálpardælur
Turson, Arizona, 12. janúar. AP.
Á SAMA tíma og vísindamenn
ýmsir leggja nótt við dag að hanna
æ minni gervihjörtu, eru aðrir sem
telja eindregið, að hjálpartæki ým-
iss konar séu betri valkostur og
slik tæki beri að nota án þess að
nema hjörtun úr hinum sjúku.
Þriðji hópurinn telur, að hjarta-
flutningar muni verða æ vinsælli
og þá kunni gervihjörtu að reynast
dýrmæt uns hjörtu finnast i hvern
sjúkling.
Dr. Phillip Oyer í Stanford-
háskóla sagði, að mikilvægast
væri að þróa hjálpardælur. „Við
höfum hannað þær í réttri stærð
og förum senn að nota þær í til-
raunaskini. Þessar dælur geta
haldið veiku hjarta gangandi,
kannski nægilega lengi til að
koma gervihjarta eða nýju
hjarta fyrir. En ef veikt hjarta
er numið burt og dælan bilar, þá
er öllu lokið. En jafnvel veikt
hjarta gæti kannski haldið nógu
lengi út til að bjarga mætti
sjúklingunum ef hjálpardælan
bilar. Það er því skoðun mín og
samstarfsmanna minna, að veik
hjörtu eigi í flestum tilfellum
ekki að nema burt,“ segir Oyer.
Hjartalæknalið Stanford er í
hópi þeirra virtustu og stefnir
það að því undir stjórn Oyers, að
hanna tækjabúnað sem komið er
fyrir í búki hjartasjúklinga.
Tækið myndi hjálpa veiku hjarta
að ná sér eftir áfall og vera því
síðan til trausts og halds, eða
það myndi taka alfarið við, ef
viðkomandi hjarta næði sér ekki
eftir veikindin.