Morgunblaðið - 02.09.1983, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 02.09.1983, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLADIÐ, FÖSTUDAGUR 2. SEPTEMBER 1983 Réttlát og óréttlát stríð Bokmenntir Guömundur Heiðar Frímannsson Michael Walzer: JUST AND UNJUST WARS Basic Books Fátt hefur verið meira rætt á seinni misserum manna á meðal og í fjölmiðlum en stríð og friður. Sýnist sitt hverjum, eins og geng- ur, og menn deila hart á stundum. Við því er ekkert að segja. En menn mega hins vegar gaeta að því oftar en þeir gera að fara varlega með sum orðin og hugtökin, sem þeir beita til að rökstyðja skoðanir sínar. Það kemur nefnilega oft á óvart að hvaða niðurstöðum þær leiða og hvaða ályktanir þær heimila. Það er því ómaksins vert að skoða það sem hefur verið skrifað af skynsamlegu viti um styrjaldir og réttmæti þeirra. Af skiljanlegum ástæðum hafa sumir íslendingar sterka tilhneigingu til að afgreiða allt tal um stríð og stríðsrekstur sem tilgangslaust tal og marklaust. Allt stríð stríði gegn siðferðisvitund manna og þess vegna beri að fordæma þau afdráttar- og skilyrðislaust. Þeir, sem tala svona, eru stundum í hinu orðinu reiðubúnir að leggja blessun sína yfir sum stríð, sem þeim eru þóknanleg, gjarnan ef annar bardagaaðilinn vill kalla átökin frelsisstríð. En eru stríð einhvern tímann réttlát? Er einhvern tímann hægt að verja það fyrir samvisku sinni að ríki fari í stríð? Þessum spurn- ingum og öðrum álíka leitast Michael Walzer við að svara í bók sinni Just and Unjust Wars. Walzer er heimspekingur og starfar við Harvard-háskóla. Hann segir sjálfur svo frá, að þessi bók sé sprottin úr reynslu hans af mót- mælum gegn Víetnamstríðinu. Hann segir svo í formála: „Ég lof- aði sjálfum mér á þessum árum, þegar hart var deilt, að rekja ein- hvern tímann siðferðirökin um stríð rólega yfirvegað." Og það gerði hann í þessari bók, sem þyk- ir hvað merkilegust þeirra sem rituð hefur verið um þetta efni af heimspekingi á seinni árum. Kenning Walzers um stríð er margbrotin, en þó skýr og einföld. Hann er auk þess góður rithöfund- ur, skrifar fágað mál og ljóst og gerir flókna hluti einfalda. Aðal- viðfangsefni hans eru reglur, sem gilda um stríð og stríðsrekstur. Þessar reglur skiptast í tvennt: jus ad bellum og jus in bello. Það fyrra lýtur að reglum um hvenær rétt er að fara í stríð, hið síðara að því, hvað rétt er og heimilt að gera í stríði. En þetta eru tveir ólíkir hlutir, sem sést bezt af því, að hægt er að heyja réttlátt stríð ranglátlega og ranglátt stríð rétt- látlega. Um fyrri hluta þessarar kenn- ingar gildir einföld regla. Hún er sú, að það er ævinlega rangt að hefja stríð. Það er rangt að ráðast á annað land eða ríki. Það er vita- skuld öllum ljóst, að stríð eru háð. Það sem mestu máli skiptir er að komast að raun um hver á upptök- in. Það er einnig rétt að gera sér grein fyrir að þessi regla er ekki lýsing á því hvernig ríki haga sér í rauninni, heldur hvernig þau eiga að haga sér. Walzer leitast við að finna frumreglur til að fara eftir við mat á hegðun ríkja. Þótt meg- inreglan sé sú að ríki sé aldrei heimilt að fyrra bragði að ráðast á annað, þá er því heimilt að gera ráðstafanir gegn innrás annarra. Það er siðferðilega rétt að leitast við að verja sig. Auk þess koma varnir oft í veg fyrir árásir. Þær fæla óvini frá. Bókin skiptist í fimm hluta. Sá fyrsti nefnist „Siðferðilegur veru- leiki styrjalda". Þar andmælir höfundur raunsæiskenningum um styrjaldir, skýrir hvað átt er við með hugtakinu stríðsglæpur og hvaða reglur gildi um breytni her- manna í styrjöld. Annar hlutinn skýrir í hverju árás á annað ríki sé fólgin. Þriðji hlutinn lýsir stríðs- samningum, sem svo má nefna, og hvaða mörk hermönnum eru sett. Fjórði hlutinn nefnist „Stríðs- klemmur" og eru þar skýrðar sumar erfiðustu siðferðilegu klemmur, sem menn geta komist í, við að hugsa um og heyja stríð. Fimmti og síðasti hlutinn greinir frá því, hverjir geta borið ábyrgð á athöfnum sínum í stríði. Hlut- arnir skiptast síðan frekar niður í kafla, og eru þeir nítján alls. Það er ekki nokkur von til, að hér sé hægt að gera nákvæma grein fyrir rökfærslum bókarinn- ar. Margar þeirra eru flóknar og snúast um einstök dæmi og ekki ástæða til að rekja þær í neinum smáatriðum. Það er hins vegar ástæða til að huga að nokkrum meginatriðum og sjá hvernig hinir skynsömustu menn fara höndum um hin erfiðustu efni. í bókinni gengur Walzer að því vísu, að verðmæti séu ekki ein- vörðungu geðþóttaatriði hvers einstaklings, heldur eigi þau sjálfstæða tilveru og allir menn beri skynbragð á þau, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Það er ástæðan til þess að við getum gagnrýnt aðra eða hrós- að þeim eftir atvikum og aðrir skilji, hvað við er átt. Ef verðmæti hefðu ekki þessa sjálfstæðu til- veru, væri óskiljanlegt, hvernig hægt er að fella slíka dóma um annað fólk en sjálfan sig. Til að uppgötva, hver þessi verð- mæti eru, er ekki nægilegt að skoða hegðun manna eina saman, heldur verður líka að líta á vonir þeirra og þrár, hræsni þeirra og fals og allt þar á milli. Þegar þetta er athugað, kemur í ljós, hvernig verðmæti tengjast saman og hafa áhrif á hegðun mannanna. í krafti verðmæta eru gerðir manna for- dæmdar eða réttlættar eftir atvik- um. Bókin er byggð þannig upp, að siðferðilega kenningin er sett fram og rakin sundur og síðan prófið á sögulegum dæmum. Þessi aðferð veldur því að hún er mjög skemmtileg aflestrar og ætti ekki að vera neinum ofviða, sem á ann- að borð les ensku. Hermaður og stríð hafa verið og eru stór þáttur mannkynssögunn- ar. Það skiptir miklu máli að skilja þær reglur, sem gilda og ættu að gilda um hernað og stríðs- rekstur, hvað er rétt og hvað rangt að gera í stríði. Það er nefnilega ekkert útlit fyrir að saga mann- kynsins taki stakkaskiptum, hvað sem menn kunna að vona. Sú skoðun, sem Walzer mælir eindregnast gegn, er, að í stríði séu lögin þögul. Sé þessi skoðun rétt, er ekki mögulegt að tala um siðleysi í styrjöld og hugtakið stríðsglæpur óskiljanlegt. Glæpir eru brot á lögum og reglum. Ef engar slíkar reglur eða lög eru til, þá getur ekki verið um glæpi að ræða. Sú skoðun, að engar reglur af þessu tagi séu til, kemur víða fram og á sér raunar nokkuð til síns máls. Eitt dæmið, sem Walzer velur til að leiða þetta í ljós, er úr sögu Aþenu og er rakið í sögu Þúkidídesar. Eyjan Melos var nýlenda Spartverja og neitaði þess vegna að lúta Aþeningum. I fyrstunni var hún hlutlaus í átökum Spörtu og Aþenu, en snerist gegn Aþenu, þegar Aþeningar stuðluðu að því sjálfir. Tveir hershöfðingjar Aþenumanna halda á fund Meley- inga. Þeir beita kaldranalegum rökum til að vinna Meleyinga til fylgis við sig. Þeir segja, að þeir geri sér engar grillur um það, að veldi þeirra sé verðskuldað. Mel- eyingar megi ekki krefjast þess að fá að vera í friði, þótt þeir hafi ekkert gert á hlut Aþeninga. Þeir segjast einungis tala um það, sem sé gerlegt og nauðsynlegt. Því að í stríði sé hlutunum þannig farið, „að þeir sem hafa völdin, krefjist eins mikils og þeir geti, og hinir veikari sætti sig við þá skilmála, sem þeir geti fengið". Hlutleysi Melosar geti þeir ekki þolað, því að það yrði talið til marks um veikleika Aþeninga og vekti hatur á valdi þeirra í hjörtum þess fólks, sem þyrfti að þola það. Það ýtti undir uppreisn meðal þeirra. Þegar skoðað er, hvað Aþen- ingarnir segja við Meleyinga, þá sést, að þeir gera einungis ráð fyrir tvennu: Annað hvort hafa menn völd eða lúta þeim. Kostir þeirra væru því að sigra eða sýna veikleika sinn. En kostir Meley- inga væru að gefast upp eða bíða ósigur í orrustu og vera eytt. Þeir væru hinir veiku. Hershöfðingjar Aþenu skeyta ekkert um það, hvort Meleyingar eigi annað skilið eða eigi rétt á öðru. Niðurstaðan í þessum átökum varð sú, að Meley- ingar neituðu að gefast upp, biðu ósigur í orrustu, Aþeningar drápu alla karlmenn á eynni, seldu kon- ur og börn í ánauð og sendu 500 Aþenubúa til að gæta eyjarinnar. Þetta er skýrt dæmi um siðleysi. Það er siðleysi vegna þess að rétt- ur Meleyinga er einskis virtur. Walzer telur, að réttarhugtakið sé nægilegt til að skýra, hvers vegna og í krafti hvers við setjum okkur þær reglur, sem við gerum. Það virðist vera mun vænlegra en eitthvert afbrigði af nytjastefnu. Sjónarmið aþensku hershöfð- ingjanna á sér víða hliðstæður í stríðssögunni. Til dæmis í þeirri skoðun, að í stríði eigi mannleg breytni sér engin takmörk, allt sé leyfilegt. Sherman, hershöfðingi Norðurríkjanna í þrælastyrjöld- inni í Bandaríkjunum á síðustu öld, fór fyrir þeim hermönnum, sem réðust á Atlantaborg í Georgíufylki. Hann gaf út skipun um að borgin skyldi tæmd og brennd til grunna. Borgarráðs- menn og hershöfðingi Suðurríkja- hersins í borginni andmæltu þess- um fyrirætlunum og töldu þær ekki eiga sér neitt fordæmi í dimmri og dapurlegri stríðssög- unni. Sherman neitaði þessu ekki. Hann sagði: „Stríð er grimmd og enginn getur fágað hana." Þótt hér sé ekki um þá skoðun að ræða, sem kom fram hjá aþensku hers- höfðingjunum, þá eiga þeir þó eitt sameiginlegt. Sá, sem hefur aflið í orrustu, honum er leyfilegt að fara sínu fram, án tillits til nokk- urs annars en að ná sigri með sem minnstum tilkostnaði fyrir sig. Ein siðferðilega klemman, sem Walzer fjallar um, er mikið til umræðu þessi misserin. Það er sú klemma, sem fylgir því, að ráða yfir kjarnorkuvopnum. Kjarn- orkuvopn eru ósiðleg, vegna þess að ekki er hægt að beita þeim öðruvísi en að borgarar, sem ekki taka þátt í styrjöld, verði þeim að bráð. Það er ekki hægt að tak- marka notkun þeirra með neinum hætti við hernaðarleg skotmörk. Það siðferðilega vandamál, sem er brýnast við kjarnavopn og hugs- anlega beitingu þeirra, er að hót- unin að beita þeim virðist vera ekki síður ósiðleg en beiting þeirra. Þótt ekki sé hægt að leggja þetta tvennt að jöfnu, þá virðist hótunin vera hættuiega nærri raunverulegri notkun. Staðreynd- in er hins vegar sú, að jarðarbúar hafa lifað við þessa ógn eða hótun í um það bil þrjátíu ár stórvand- ræðalaust. Ástæðan til þess er sú, að það er auðvelt að lifa við þessa ógn. Hún skaðar engan, eins og raunverulegt stríð gerir óhjá- kvæmilega. Ef þessi hótun kjarn- orkuveldanna kostar íbúana ekki meira en raun ber vitni, þá virðist hún lítið gjald til að halda friðinn hjá því, sem stríð mundi kosta. En þetta breytir hins vegar engu um það, að kjarnorkustríð er ósiðlegt og hótunin um að hefja það virðist vera það líka. Það sem þarf að gera að áliti Walzers er að finna betri leiðir til að halda frið- inn en kjarnorkuógnina. Ég ætla ekki að meta réttmæti þessara skoðana Walzers sem hér hafa verið raktar. Sumar þeirra sýnist mér vera sennilegar, aðrar ekki. En það er ómaksins vert að skoða þær. Og það þýðir ekki að segja, eins og stundum sést, að hin gamli greinarmunur á jus in bello og jus ad bellum sé orðinn úreltur, forn siðavendni eigi ekki við um flókinn veruleika nútímahernað- ar. Því er ekki að neita, að kjarna- vopn brjóta í bága við hefðbundn- ar hugmyndir um styrjaldir og frið. Það kann að vera að sumt af hefðbundinni siðfræði hernaðar þyrfti athugunar við í ljósi þeirra. Þó er ég ekki viss um það. En það dugar ekki að afgreiða kenningar eins og þær sem er að finna í þess- ari bók sem úrelt forneskjutaut. Séu þær réttar, eins og mér virðist vera í mörgum atriðum, þá breytir engu, hvort þær eru gamlar eða nýjar. Nýir vendir sópa nefnilega ekki alltaf bezt. Að berja höfðinu við skjáinn Gætum við myndvætt skólana á einum degi? Kvikmyndir Ólafur M. Jóhannesson f fyrrasumar tók undirritaður þátt í athyglisverðu námskeiði á vegum Kennaraháskóla íslands. Var þar meðal annars kynnt fyrir þátttakendum á hvern hátt mætti nýta myndbandatækni við kennslu á grunn-, framhalds- og háskólastigi. Virtist bersýnilegt að þessi nýja hugmiðlunartækni á mikja framtíð fyrir sér í skóla- kerfinu og raunar furða að þegar skuli ekki komin á mynd- bandavæðing í skólum landsins. Ég hef áður í grein fjallað um þessi mál og nöldrað þar um seinlæti fræðsluyfirvalda en ekki dottið fyrr en nú í hug hver lausnin gæti verið. Það er nefni- lega svo að þegar kemur að fræðslumálum þá dettur manni aðeins einn framkvæmdaaðili í hug, sjálft ríkisvaldið. Þannig hlustaði ég gagnrýnislaust á yfirlýsingar fulltrúa fræðslu- myndasafnsins þess efnis að nefnd sú er skipuð var til að kanna þessi mál hefði orðið að varast ... gíruga einkaaðila. Því greip nefndin til þess ráðs að notast við myndbönd sem tryggt væri að fengjust ekki á ... vídeoleigunum. Minnir mig að nefndin hafi leitað til frænda vorra Dana í þessu efni, fengið þar viðmiðun við val á tækni- búnaði. En hugmyndin er sú að eitt vídeotæki verði á hverri hæð skólastofnunnar og svo rennt inní stofur eftir þörfum. Þessi hugmynd er svo sem ágæt svo langt sem hún nær. En það er bara ekkert búið að gera í málinu. Á meðan þúsundir myndsnælda eru afgreiddar af starfsmönnum vídeoleiganna á viku hverri sitja góðir drengir Hve lengi eiga þeir að bíða eftir sjálfsagðri þjónustu? niðri í fræðslumyndasafni og velta vöngum yfir á hvern hátt sé hægt að sneiða fram hjá fyrrgreindum aðilum þegar kemur að dreifingu á mynd- snældum með fræðsluefni í skól- um landsins. Og nemendur halda áfram að stauta sig í gegnum námsbækurnar líkt og þeir væru enn staddir að Bessastöðum við upphaf aldar. Svona getur ríkis- forsjárhugsunarhátturinn lam- að heilastarfið og tafið fram- gang góðra mála. Núverandi rík- isstjórn með hinn — frumlega fjármálaráðherra í fararbroddi hyggst vekja menn af ríkisfor- sjárdrómanum — hér er gullið tækifæri. Á einum degi væri hægt að ná markmiði sem tekur fræðslumyndastiórana að því er virðist eilífð. I stað þess að leggja út í rándýr kaup á sér- smíðuðum tækjum sem taka að- eins yfirstærðir af myndböndum er hægt að gera samning við myndbandaleigur og bókaversl- anir um leigu á tækjum og fræðsluefni við upphaf hvers skólaárs. Þannig sendu mynd- bandaleigurnar lista yfir mynd- efni sem hæfði skólakerfinu til fræðslumyndasafnsins sem síð- an hefði sambandi við kennara og skólayfirvöld sem samræmdu kostnaðaráætlun er tæki ann- arsvegar tillit til tilboða mynd- bandaleiganna og hins vegar til eftirspurnar í skólunum. Síðan væri hægt að setja fram tíma- plan sem réðist af stundatöflu kennarans og þeim fjölda mynda er hann hefði pantað og sam- þykki hefði fengist fyrir af fjár- málayfirvöldum. Er ekki tími til kominn að nýta þá þjónustu sem fyrir er í landinu en smíða ekki sífellt hátimbraðri yfirbygg- ingu? Þótt loftkastalar séu að sjálfsögðu með skemmtilegustu byggingum þá geta þeir kostað mikið fé, tíma og mannafla.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.